VINNA - ÉTA - SOFA

Þetta hljómar kannski neikvætt en er það alls ekki.  Það er ROSALEGA GAMAN í vinnunni, oftast eitthvað ROSALEGA GOTT að borða og svo er SVOOOOO GOTT að sofa í bólinu mínu!  Hins vegar gefst EKKI TÍMI fyrir margt annað, en það er allt annað mál.

Hér er lífið komið í sína föstu skorður.  Helsta breytingin er auðvitað sú að húsfreyjan á bænum vinnur nú frá klukkan 9-18 alla virka daga.  Þar af leiðandi er það nú undir húsfreynum komið að ferja dæturnar á milli hinna fjölbreytilegustu tómstunda.

Rebekka, unglingurinn okkar, er nú komin í síðasta bekkinn í gaggó!  Brillerar í skólanum eins og alltaf og sagði við mig um daginn með ljóma í augunum:  "Kjarneðlisfræði er ógeðslega skemmtileg" - og meinti það! W00t  Hún tók samræmda prófið í stærðfræði sl. vor, ári á undan áætlun, og fær nú að sækja stærðfræði í menntaskólanum sem hún ætlar í næsta vetur!  Nokkuð sem er ekki algengt hér.  reyndar er hún fyrsta og eina tilfellið í sögu Fagralækjarskólans.  Eins og þetta sé ekki nóg er hún auðvitað ennþá að læra á þverflautuna, spila í lúðrasveitinni og æfa drill, en í staðinn fyrir sundið skellti hún sér í karate í staðinn.  Hún fetar þar með í fótspor föður síns og er meira að segja að æfa sömu tegund af karate og hann gerði á hennar aldri, Shotokan.  Já, það er ekki hægt að segja annað en að hún sé ánægð með lífið.

Sesselja er alltaf á fullu eins og venjulega.  Orðin 10 ára og alltaf glöð og kát.  Henni gengur vel í skólanum og öllu öðru sem hún tekur sér fyrir hendur.  Hún er ennþá að læra á hornið og er líka farin að læra á gítar.  Við gáfum henni gítar í afmælisgjöf, rosalega flottan fjólubláan stelpugítar með glimmer, og eftir aðeins 2 kennsustundir er hún farin að spila Línu langsokk og sönginn hennar Ídu - og syngur auðvitað með!  Hún er ennþá í kórnum og söngleikjakúrsinum, og ekki má gleyma ballettinum en þar er búið að færa hana upp um hóp.  Þegar hún er ekki að spila á hljóðfæri, syngja eða dansa ballett, geysist hún gjarnan um á línuskautum eða hjólabretti, enda dettur hún út af á kvöldin.

Það gengur líka vel með "stækkunina" hjá henni og hún er meira að segja farin að sprauta sig sjálf á kvöldin, nokkuð sem vinkonur hennar horfa á með óttablandinni hrifningu.  Í fyrsta sinn síðan hún var 4 ára er hún loksins að verða búin að ná sinni stærðarkúrfu aftur, sem er þó undir meðalkúrfunni.  Svo að þetta er allt á réttri leið.

Diljá er líka búin að stækka heilmikið - "herregud", eins og Svíarnir segja og hefur sótt allverulega mikið á systur sína í sumar.  Hún er mjög ánægð á leikskólanum og á orðið 2 bestu vinkonur sem heita Tea og Emmie og fær oft að fara heim til þeirra og leika eða bjóða þeim í heimsókn hingað.  Hún er byrjuð í dansskóla einu sinni í viku og finnst það alveg rosalega skemmtilegt.  Þar eru líka tvær aðrar stelpur af deildinni hennar á leikskólanum og þær eru duglegar að kenna hinum krökkunum dansa og leiki sem þær læra í dansskólanum.

Diljá er líka búin að þroskast ótrúlega mikið í sumar og það er gaman að spjalla við hana.  Hún spáir í allt og hefur sérstaklega gaman af að skrifa og læra stafina.  Það kæmi mér ekki á óvart þó að hún yrði sami námshesturinn og Rebekka.  Hún er líka mjög dugleg að teikna (eins og Rebekka) og hefur gaman af að perla og föndra.  Á kvöldin vill hún láta lesa fyrir sig og síðan fer hún með bænirnar sínar.  Hennar útgáfa af Faðir vorinu er svohljóðandi:

Faðir vor, þú sem ert á himmeli.  Helgist þitt namn.  Tilkomi þitt ríki, mátturinn og dýrðin.  Að eilífu.  Amen.

Sé hún leiðrétt á réttum stað kemst hún hins vegar nánast klakklaust í gegnum alla bænina og svo finnst henni rosalega gaman að signa sig á eftir.  Svo snýr hún sér upp í horn og er dottin út af á augabragði.

Kastalinn okkar að haustiÓli spilar og spilar og spilar og spilar.  Og vinnur.  Og skutlar stelpunum út um borg og bí eftir þörfum.  Og spilar svo aðeins meira.  Ég held að hann sé í 4 hljómsveitum núna, annars er ég ekki alveg viss.  En það er gaman hjá honum, svo mikið er víst.

Og svo er það ég sjálf.  Ég hef nú ekki látið eftir mér neinar tómstundir, enda nóg að gera að vinna og sinna börnum og búi.  Ég elska vinnuna - finnst rosaega gaman og gengur bara vel!  Ég er komin yfir lágmarkið sem þarf að ná í sölu á mánuði og stefni bara áfram upp á við!

Haustið er búið að vera frekar blautt og þetta er kaldasta haust sem við höfum upplifað hér.  Í dag var hins vegar fallegur dagur, sólin skein, það var hlýtt og skógurinn skartaði fögrum haustlitum.  Diljá kom heim með hnetur sem hún hafði fundið.  Þær höfðu dottið af einhverju trénu og Diljá orðið fyrri til en íkornarnir.

Mér finnst ég stundum búa í ævintýragarði þar sem ég er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt og skemmtilegt.  Eftir rúmlega 2 ár er ennþá svo margt sem er framandi og spennandi og það er dálítið skrítin tilfinning.  Ég sakna samt hafsins, sjávarlyktarinnar og norðurljósanna sem dönsuðu yfir húsinu okkar heima á Hornafirði á veturna.  Ég á örugglega eftir að njóta þess einhvern tímann aftur en núna ætla ég að njóta þess sem ég, Óli og stelpurnar höfum hér.

Njótið haustsins elskurnar mínar!  Vonandi sjáumst við fljótt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Helgadóttir

umm... hljómar notarlega.

Elín Helgadóttir, 2.10.2008 kl. 22:29

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndislegar dætur og ég þekki Svíþjóð og þar er unaðslegt að vera.

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.10.2008 kl. 00:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband