3.12.2006 | 12:57
AFMÆLI + TÓNLIST
Þá er hún Diljá Fönn orðin þriggja ára gömul. Þessa dags hefur lengi verið beðið með mikilli tilhlökkun. Um leið og hún vaknaði fékk hún að opna pakkana sem voru komnir frá Íslandi. Hún var himinlifandi með læknisdótið sem var meðal þess sem hún fékk frá Arneyju, Breka og Bríeti og tuskudýrin hennar voru voðalega veik framan af degi. Elín Ása og Anna Regína sendu henni æðislega flotta jólasveinaprjónahúfu sem hún hefur varla tekið ofan síðan. Það var sko ekki að ræða það að setja fínt í hárið í afmælisveislunni - bara hafa jólasveinaprjónahúfuna.
Klukkan 13:00 hófst síðan afmælisveislan. Afi hennar, Irene og María frænka komu og færðu henni þessa líka flottu eldavél og potta og pönnur. Það verður örugglega nóg að gera í jólabakstrinum hjá henni Diljá Fönn - eða ætti ég að segja Mjallhvíti. Við foreldrarnir og systur hennar gáfum henni nefnilega glæsilegan Mjallhvítarkjól og kórónu. Auk þess fékk hún stafaljósaseríu í herbergið sitt.
Hún ljómaði eins og sól í heiði þegar afmælissöngurinn var sungin og tók síðan vel til matar síns af afmæliskökunni. Þegar allir voru orðnir mettir var haldið niður í bæ þar sem Rebekka spilaði á flaututónleikum í tónlistarskólanum. Þeir sem spiluðu voru allt nemendur hjá Malin, sem er kennarinn hennar Rebekku, og voru þetta hennar bestu nemendur. Þetta voru alveg rosalega flottir tónleikar, virkilega flinkar stelpur sem spiluðu þarna. Það voru einleikarar, tríó og kvartettar og í lokin var leikið undir á hörpu. Ég tók smá videó á myndavélina mína sem ég ætla að prófa að setja hér inn en veit ekki hvort eða hvernig hljómgæðin munu skila sér.
Þegar heim kom var horft á sænska jóladagatalið. Við erum búin að komast að því að margir íslenskir sjónvarpsþættir heima eiga sér fyrirmynd hér. Síðan var komið að Júróvisjon! Það er söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þar sem keppendur eru á aldrinum 8-16 ára og skilyrði fyrir þátttöku er að þau semji sjálf lög og texta.
15 lönd tóku þátt í keppninni sem er með hefðbundnu Eurovision-sniði og var haldin nú í fjórða sinn í Rúmeníu. Meðal kynna var sjálfur Drakúla greifi! Við héldum að sjálfsögðu með hinni sænsku Molly en flestir þátttakendurnir voru frá Austur-Evrópu. Þrátt fyrir að hin 15 ára gamla sænska stúlka bæri höfuð og herðar yfir aðra þátttakendur sönglega séð lenti hún í þriðja sæti. Slegin út af yngri og krúttlegri þátttakendum. 8 ára gamall strákur - grunsamlega líkur stráknum í Home Alone-myndinni - frá Hvíta Rússlandi varð í öðru sæti en það var Rússland sem bar sigur af hólmi. Rússar sendu 8 ára gamlar tvíburaeftirlíkingar af Shirley Temple sem sungu, dönsuðu og steppuðu í túlípanakjólum með Dixielandhatta. Flott atriði - en ekki séns að 8 ára gamlar stelpur hafi samið jassskotið lag! Hvað um það - við stelpurnar höfðum gaman af þessu.
Í dag er 1. sunnudagur í aðventu eins og menn vita og þá er mikið húllumhæ hér. Allir búðir opnar lengur en venjulega á sunnudögum og mikið húllumhæ. Við ætlum að skella upp jólaseríum og skreppa svo kannski aðeins í bæinn og fá jólafílinginn beint í æð. Annars fengum við send 100 íslensk jólalö - takk mamma!!! - sem hafa aldeilis komið okkur í jólastuð!
Athugasemdir
Hæ, hæ. Mikið er hún Mjallhvít nú sæt og fín, og ekki síður hinar systurnar. Agnes fékk bara tár í augun þegar hún sá Sesselju henni finnst hún vera orðin svo breytt. En sjálfir finnst mér ég nú sjá messtan mun á Diljá Fönn enda er hún jú að þroskast hraðast núna.
Bestu kveðjur úr Miðtúninu
Guðlaug Úlfarsdóttir, 5.12.2006 kl. 19:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.