13.12.2006 | 15:14
JÓLASVEINNINN KEMUR...
Í dag er hinn eiginlegi Lúsíudagur og það var haldið upp á hann í skólunum hjá stelpunum með söng og Lúsíukaffi. Það eru elstu bekkirnir sem sjá um sönginn. Það var hins vegar Lúsíuhátíð hjá 2.bekk á mánudagskvöldið og eins og í kirkjunni sungu börnin söngva um Lúsíu og ljósið sem hún kemur með á þessum dimmasta tíma ársins. Þau kveiktu líka á öllum fjórum aðventukertunum og börnin sem sáu um það fóru með vísur um það - þar á meðal var Sesselja. Hún fór með vísu um þriðja kertið og las svo fallega að kennararnir hennar og nokkrar mömmur hreinlega táruðust! Í lok dagskrárinnar sungu börnin svo hið hefðbundna Lúsíulag en þá fór nú kliður um áhorfendahópinn því að þetta var eitthvað ekki eins og venjulega. Börnin komu nefnilega öllum á óvart með því að syngja eitt erindi á íslensku! Þetta var mjög skemmtilegt og hátíðlegt og alveg ótrúlegt að horfa á hana Sesselju syngja öll þessi sænsku jólalög (örugglega 12-15 lög) eins og innfæddur Svíi. Á eftir var síðan Lúsíukaffi og nemendur færðu kennurum sínum blóm og þökkuðu fyrir önnina.
Við urðum líka heldur betur hissa í gær! Sesselja og Diljá settu nefnilega skóna sína út í glugga, en voru samt ekkert vissar um að Stekkjastaur gæti komið alla þessa leið, garmurinn, en þegar þær vöknuðu um morguninn beið þeirra smájólaglaðningur!
Það er ákveðið að við munum verða í Målilla á aðfangadag og kynnast þar ekta sænskum jólum. Á jóladag ætlum við að borða hamborgarahrygginn okkar hér heima og síðan er áætlað að eyða áramótunum í stórborginni Stokkhólmi!
Maður verður nú ekkert var við mikið jólastress hér. Skreytingum er stillt mjög í hóf, bæði hjá einstaklingum og í verslunum og jólalögin eru rétt að byrja að heyrast í útvarpinu. Auðvitað er meira og öðruvísi úrval í verslunum en gengur, en það er ekki þessi ös, stress og læti eins og heima og auglýsingaflóðið ekkert meira en venjulega. Menn leggja ekki eins mikið upp úr umbúðunum hér, enda eiga jólin fyrst og fremst að vera í hjörtum okkar - ekki satt.
Ég vona, elsku ættingjar og vinir að þið tapið ykkur ekki í jólastressi! Slakið á og njótið þess að vera með fjölskyldu og vinum um jólin!
Athugasemdir
Já það er aldeilis myndarskapurinn í ykkur þarna í Sverige. Á þessum bæ er allt í rólegheitunum ennþá, reyndar búið að baka og borða eina sort og steikja laufabrauð. Ég syng á tónleikum á föstudagskvöldið og þegar þeir verða búnir verður hægt að snúa sér að því að skrifa á jólakortin og kaupa jólagjafirnar. En þetta hefst nú alltaf hjá manni, er það ekki?
Unnur (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.