JÓLIN KOMA - JÓLIN KOMA...

Já, maður er farinn að telja dagana til jóla. Síðasti skóladagur hjá stelpunum er á næsta fimmtudag en skólinn byrjar ekki aftur hjá þeim fyrr en 9. janúar - langt og gott jólafrí.  Óli verður líka í fríi milli hátíðanna.

Í dag var jólaball í skólanum hjá Sesselju, dansað í kringum jólatréð og sungið.  Síðan fór hún í afmæli hjá tveimur bekkjarsystrum sínum en það var haldið í keiluhöllinni þar sem allir spiluðu að sjálfsögðu keilu og fengu síðan hamborgara og ís á eftir.  Rebekka spilaði á jólatónleikum lúðrasveitarinnar sem voru mjög flottir.  Þeir voru haldnir í einum af menntaskólum bæjarins, en salurinn þar slagar hátt í stóra salinn í Háskólabíói!

Við ætlum að taka Þorláksmessu snemma í ár og borða skötu á morgun.  Við buðum pabba, Irene og Maríu í mat en stelpurnar fá sjálfsagt bara pizzu.  Það verður reyndar gaman að sjá hvort Diljá vilji bragða á skötunni.  Annars er maður bara að dunda við að setja upp jólaskraut og dót hér og þar.  Ég er að uppgötva það núna hvílík ósköp við eigum af jóladóti!  Við stingum annars svolítið í stúf hér, þau einu í bænum með marglitar seríur úti í gluggum og á svölunum.  Við keyrðum framhjá heimili ,,Ödda Tobba" þeirra Växjöbúa í kvöld, það er víst gamall Ameríkani sem skreytir þessi líka ósköp.  Ég verð nú að viðurkenna, án þess að ég vilji móðga neinn, að Öddi hefur vinninginn, sérstaklega svona fagurfræðilega séð.  Sá ameríski er þó svo séður að hann tekur á móti frjálsum framlögum í bauk utan við húsið, til að hafa upp í rafmagnsreikninginn!

Það stefnir allt í rauð jól hér (mér skilst þó að Svíar tali um græn jól), ég sem hlakkaði svo til að hafa alvöru jólasnjó á jólunum!  Hann bíður bara betri tíma.

Ég var að finna vefmyndavél sem sýnir Stórtorgið sem er við enda aðalgöngugötunnar í miðbænum hérna í Växjö.  Þar er jólatré bæjarins staðsett en annars er þarna bílastæði, nema á laugardögum - þá er markaður á torginu.  Hægra megin sést síðan dómkirkjan.  Kíkið endilega á slóðina http://webcam.griffel.se/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband