KOMIN MEÐ ÍSLENSKT SÍMANÚMER

Jæja, nú erum við komin með íslenskt símanúmer!  Það er hægt að hringja í okkur úr venjulegum heimilissímum og gemsum á Íslandi og borga bara innanlandstaxta, rétt eins og við værum ennþá á Hornafirði.  Þá hringir í tölvunni hjá okkur, svo framarlega að það sé kveikt á henni, sem er nú nánast alltaf þegar við erum heima.

 Svo nú er bara að slá á þráðinn!  Símanúmerið er 499-2566.  Við hlökkum til að heyra í ykkur Smile 


Ekki nýtt á Íslandi

Þetta er nú reyndar ekkert nýtt á Íslandi!  Þegar ég var í menntaskóla, 1987, fór ég á svona námskeið hjá Íslenska íhugunarfélaginu sem hafði 2-3 íslenska kennara held ég á þeim tíma.  Ég stundaði þetta um nokkurt skeið og fékk fréttabréf frá félaginu í einhver ár á eftir, en veit ekki hvort það sé ennþá virkt.

Ég sé mest eftir að hafa hætt þessu og var einmitt að hugleiða að fara að byrja aftur.  Þetta er bara mannbætandi, andlega, líkamlega og félagslega. SmileSmileSmile

Mæli með þessu!


mbl.is Lynch íhugar að koma til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REBEKKA STÓÐST INNTÖKUPRÓFIÐ!!

Bara láta ykkur vita!!  Af 53 sem þreyttu inntökuprófið hlutu 16 inngöngu í tónlistarval Katedralskólans sem er menntaskólinn sem Rebekka fer í í haust.  Og Rebekka var auðvitað ein af þeim enda æfir hún sig stundum í nokkra tíma á dag á flautuna.  Rosalega dugleg!

Í gær vorum við á æðislegum tónleikum í konserthúsinu hér.  3 lúðrasveitir léku og söngkonan Sanna Nilsen, sem er mjög þekkt hér, söng nokkur lög með þeim.  Það var leikið allt frá klassík upp í þungarokk.  Allt frá "New York, New York" upp í Bohemian Rhapsody.  Allt frá Evert Taube upp í Ozzy Osbourne.  Og síðan kom Sanna Nilsen og söng fullt af fallegum ballöðum, alveg mögnuð söngkona!

Þangað til ég get sett inn sýnishorn af Sönnu og lúðrasveitum Växjöbæjar, getið þið kíkt á frumraun Sesselju (10 ára) sem trommuleikara.  Þetta var tekið á tónleikum Rokkskólans fyrir nokkrum vikum.  Foreldrar bassaleikarans tóku þetta upp, hljóð- og myndgæði eru ekkert frábær og það vantar helminginn af laginu, en við látum okkur hafa það.  Bassaleikarinn Mira er auðvitað í forgrunni en það sést glitta í Sesselju á bak við hana þar sem hún syngur og lemur húðir af miklum móð!  Góða skemmtun! Grin


Marsblogg

Jæja, það er nú heldur en ekki kominn tími á smáblogg héðan úr Svíaríki!

Það er allt gott að frétta af okkur, bara mikið að gera eins og alltaf.  Vinnan á ferðaskrifstofunni hjá mér og svo er ég byrjuð í kór, kvenna-barbershop kór sem heitir Vexiö Ladies Light - rosalega gaman.  Hitti fullt af skemmtilegum konum/stelpum og stjórnandinn okkar, hún Anna sem er ung og hress stelpa, gæti hæglega unnið fyrir sér með uppistandi, hún er bara SVOOOO fyndin - en líka frábær stjórnandi.  Læt ykkur vita þegar heimasíðan okkar kemst í gagnið!

Óli er líka á fullu að spila í öllum sínum hljómsveitum eins og venjulega.  Rokkabillýbandið er komið með nýjan bassaleikara, kontrabassaleikara!  Og alltaf fjölgar spilununum.  Var hringt í þá um daginn og spurt hvort þeir væru til í að spila á tónlistarhátíð í Frakklandi í sumar!!  Við eigum eftir að sjá hvort það verði af því en það hljómar vissulega spennandi!

Rebekka var í inntökuprófi í morgun fyrir tónlistarvalið í menntaskólanum sem hún ætlar í næsta haust og gekk bara vel.  Hún fær að vita á morgun hvort hún kemst að og við bíðum spennt eftir niðurstöðunum!  Við vorum á sinfóníutónleikum um síðustu helgi þar sem Rebekka spilaði með, það var alveg æðislegt!  Um næstu helgi er hún síðan að spila með lúðrasveitinni á tónleikum með söngkonunni Sönnu Nilsen, en hún er mjög vinsæl söngkona hér í Svíþjóð og varð í öðru sæti í sænsku undankeppninni fyrir Eurovision í fyrra með þessu fallega lagi, sem lúðrasveitin ætlar einmitt að spila með henni á laugardaginn:

 

Sesselja æfir nú með hljómsveit á hverjum sunnudegi þar sem hún syngur og spilar á trommur!  Algjör rokkskvísa!  En samt alltaf sama, gamla Sesselja, kát og glöð og nýtur lífsins í botn!  Við erum að spá í að leyfa henni að koma heim í smástund í sumar ef Rebekka fer heim til að vinna, hitta vini sína og fríska aðeins upp á íslenskuna sem er aðeins farin að ryðga!

Diljá er líka spræk!  Búin að missa fyrstu tönnina þannig að hún er á góðri leið með að verða fullorðin.  Hún er mikill spekingur og sem dæmi um heimspekilegar vangaveltur hennar má nefna þegar við vorum á leiðinni á leikskólann einn morguninn og hún spurði mig:  ,,Heyrðu mamma, hvað ef við erum bara draumur sem einhvern annan er að dreyma?" - Já, það er einmitt það!

Annað sem er henni mjög hugleikið eru bókstafir og tölur.  Um daginn taldi hún alveg ein og óstudd upp að hundrað, sem er auðvitað afar stór áfangi, ekki síst þegar maður er bara 5 ára!  Nokkrum dögum seinna komst hún síðan upp í tvöhundruð!  Þann daginn vorum við Óli á leiðinni heim og Diljá var með okkur í bílnum.  Við stoppuðum í búðinni og Óli skaust inn.  Diljá var afar ósátt yfir að fá ekki að fara með og stóð á orgunum með tilheyrandi krókódílatárum.  Þá sagði ég bara:  ,,Tvöhundruð..."  Það skipti engum togum - gráturinn þagnaði samstundis og... "tvöhundruð og einn, tvöhundruð og tveir...." Grin  Sama kvöld þegar Diljá var sofnuð heyrðum við Óli hana tala up úr svefni, og hvað haldið þið að hún hafi sagt?  Jú, einmitt...  ,,tvöhundruð..." LoL LoL LoL

Já, svona er nú okkar líf þessa dagana.  Við bíðum bara eftir vorinu sem er óvenju seint á ferðinni í ár.  Hlökkum svo til páskanna, eigum orðið íslenskan fisk, flatbrauð, hangiálegg og lifrarpylsu í frystinum og meira að segja páskalambið!!  Páskaeggin frá Íslandi komin í hús ásamt fleira góðgæti sem Óli tók með sér þegar hann skrapp heim um daginn.  Hann hafði auðvitað ekki tíma til að hitta alla, stoppaði nánast ekkert í Reykjavík, enda tilgangur ferðarinnar aðallega að hitta foreldra sína fyrir austan!  Þið fyrirgefið honum það vonandi, þið sem hann náði ekki að hitta!

Jæja, það er best að fara að koma sér í háttinn, það er morgunfundur í vinnunni í fyrramálið svo ég þarf að vekja liðið snemma.

Kossar og knús í allar áttir!!


FRAMLAG SVÍA TIL EUROVISION Í ÁR:

Keppnin var ótrúlega jöfn og spennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu stigunum.  12 dómnefndir gáfu stig frá einu og upp í tólf, rétt eins og í Eurovision og af þeim 11 lögum sem kepptu held ég að 9 þeirra hafi fengið 12 stig, sem sagt afar jöfn keppni. Síðan bættist símakosningin við sem hafði jafnt vægi á  við dómnefndirnar, lagið sem fékk fæst stig fékk þá 12 og það sem fékk flest stig fékk 144.  Og þá færðist nú fjör í leikinn og skiptust lögin á að vera í efsta sætinu.  Þegar einungis átti eftir að deila út síðustu stigunum var Carolina av Ugglas á toppnum en tvö önnur lög áttu möguleika á sigrinum.

Og það var óperusöngkonan Malena Ernman sem skaut öllu poppglamrinu og Idol-stjörnunum ref fyrir rass og sigraði keppnina.  Sjálfsagt varð enginn eins undrandi yfir því og hún sjálf.

Hér má sjá sigurlagið!  Til hamingju Hulda, þá veit ég hvaða lag þú kýst í Eurovision í ár Wink


SNÄLLA, SNÄLLA, SNÄLLA...

Sem gæti útlagst:  Elsku besti, gerðu það.

Á laugardaginn kjósa Svíar framlag sitt til Eurovision í ár og hefur verið mikið húllumhæ síðustu 4 laugardaga í undankeppnum.  Eins og venjulega er þetta mest allt sálarlaust iðnaðarpopp, en tvö lög skera sig úr.  Tregafulli blúsinn Snälla, snälla, snälla  með Carolina av Ugglas, sem hún syngur algjörlega beint frá hjartanu.  Þetta er mitt uppáhaldslag í keppninni!

 

Hér er hitt lagið sem sker sig úr, reyndar má kannski flokka þetta undir iðnaðarpopp en mezzosópransöngkonan Malena Ernman ljær því sérstakan blæ.   Bara nokkuð "kúl"  Og raddsvið þessarar miðaldra óperusöngkonu er alveg með ólíkindum - bíðið bara eftir lokatóninum!

Ef ég þekki Svíana rétt verður það hins vegar eitthvað í þessum dúr sem sigrar keppnina, Idolstjarna, gull og glamor!


SCHOOL OF ROCK!

schoolofrock-logo

Þessa vikuna hefur verið vetrarfrí í skólunum hér.  En það er ekki þar með sagt að Rebekka og Sesselja hafi bara hangið heima í leti - nei, þær skráðu sig í Rokkskóla!

Það var boðið upp á námskeið fyrir krakka á aldrinum 10-15 ára þar sem þau fengu að spila í hljómsveit.  Það voru bæði stráka- og stelpuhópar og var æft af kappi í Musikhuset frá 9-15, mánudag til fimmtudag.  Krakkarnir fengu að velja hvort þau vildu spila á gítar, bassa, trommur eða hljómborð, nú eða syngja, og stofnaðar voru hvorki meira né minna en 8 hljómsveitir, þar af 3 stelpuhljómsveitir.  Hver hljómsveit hafði síðan sinn eigin leiðbeinanda allan tímann.

Rebekka og Sesselja völdu báðar að spila á trommur - já, þær eru svo sannarlega dætur hans föður síns!  Þeim fannst þetta báðum alveg rosalega gaman.   Á miðvikudeginum var svo myndataka, menn voru sminkaðir og klæddu sig í rokkgallann og henni Sesselju fannst það sko ekki leiðinlegt!  Við eigum svo eftir að fá að sjá afrakstur myndatökunnar en það verða gerð bæði plaköt, nælur og myndir (sem hægt verður að árita - hehe).

Í gær var svo komið að því að uppskera árangur erfiðisins en þá voru haldnir rokktónleikar í Musikhuset þar sem allar hljómsveitirnar stigu á stokk, með hljóðmann og ljós, alveg eins og alvöru rokkstjörnur.  Og þetta var alveg frábært!

 Hljómsveitin hennar Sesselju, The MINS, lék lagið Complicated með Avril Lavigne.  Hér er upprunalega útgáfan http://www.youtube.com/watch?v=NGXYAJoDWCk, en myndbandið sem ég tók af Sesselju mistókst og við erum að reyna að fá myndband hjá öðrum foreldrum sem við setjum þá inn.  Hjómsveitina skipuðu 2 gítarleikarar, bassaleikari og svo Sesselja, allar á aldrinum 10-12 ára.  Það var rétt svo að sæist í rokkhattinn hennar Sesselju upp fyrir trommusettið og þarna sat hún - litla stelpan mín - og ekki aðeins spilaði hún á trommur í laginu heldur söng hún það líka og fipaðist hvergi, hvorki í trommuleik, taktfestu, söng, texta eða tónum!  Hún var alveg ótrúleg!! W00t  Og hélt fullum dampi allan tímann.  Í síðasta viðlaginu stökk hún síðan fram á sviðið, söng og klappaði og fékk allan salinn til að klappa með - og í lokin henti hún hattinum sínum út í sal!!!  Við Óli vitum að hún er hæfileikarík en við verðum samt sem áður gáttuð í hvert skipti sem við sjáum hana á sviði, hún kemur okkur endalaust á óvart.

 Hljómsveitin hennar Rebekku hét FOE og var líka skipuð 4 stelpum á aldrinum 13-15 ára.  Rebekka minnti ekki lítið á pabba sinn þar sem hún sat bak við trommusettið og leyfði rauða makkanum að flæða frjálsum að rokkara sið.  Það var öfundast við hana yfir því að hún væri með Robert Plant hár Cool.  Ég vissi að þær ættu að spila Highway to hell,sem er þetta þungarokkslag: http://www.youtube.com/results?search_type=&search_query=highway+to+hell&aq=f   Ég var ekki alveg búin að sjá hljóðu og hæglátu stelpuna mína fyrir mér í því hlutverki.  En hún var ekki síður frábær, spilaði af miklum krafti og fipaðist hvergi, taktföst eins og pabbi sinn og stóð sig bara alveg frábærlega og reyndar allar stelpurnar, gáfu strákunum sko ekkert eftir!!!

Síðan gerðu þær stöllur í FOE sér lítið fyrir og skiptu um hljóðfæri í næsta lagi, Rebekka greip rafmagnsgítarinn, gítarleikarinn tók bassann og bassaleikarinn settist við trommusettið.  Og þannig léku þær annað lag og Rebekka stóð sig ekki síður vel á gítarinn, enda alltaf að æfa sig á hann heima.  Við eigum eftir að setja inn myndband af þessu síðar (ef unglingurinn leyfir).

Nú vilja þær systur auðvitað halda áfram að spila í hljómsveit og Filippa sem sá um hópinn hennar Sesselju, er tilbúin að halda áfram með Sesslju hóp í 1 klukkutíma á viku, gegn greiðslu auðvitað.  Henni fannst Sesselja alveg ótrúleg og sagði að hún ætti eftir að verða stórstjarna einhvern daginn.

Ég sagði við Rebekku að hún ætti bara að gera eins og pabbi sinn þegar hann hefur vantað hljómsveit að spila í - hann stofnar þær bara!  Svo hann ætlar að hjálpa henni að auglýsa eftir fleiri hljómsveitarmeðlimum.  Hvort hún ætlar að spila á trommur eða gítar á síðan eftir að koma í ljós en hún vill helst spila á sem flest hljóðfæri.

Eftir tónleikana héldum við upp á frumraun rokkstelpnanna okkar með því að bjóa þeim út að borða.  Þær áttu það svo sannarlega skilið og það voru þreyttar og hamingjusamar stelpur sem duttu út af þegar heim var komið.  Ætli þetta sé ekki bara byrjunin.....


SESSELJA "ON STAGE"

Hér kemur myndbandið af Sesselju þar sem hún syngur sólóatriðið sitt á sýningu söngleikjahópsins um síðustu helgi.  Myndgæðin eru nú ekkert frábær en þið fáið a.m.k. smáhugmynd um það sem hún er að fást við í frístundum sínum. Smile


HÉR ERU ALLIR SPRÆKIR!

Ég varð bara að henda inn nokkrum línum til að láta vita að hér er allt í besta standi, allir hressir og sprækir, bara mikið að gera hjá öllum og lítill tími hjá húsfreyjunni til að stunda bloggskriftir.

Við Óli erum bara að vinna og á þessum tímum er maður virkilega þakklátur fyrir að hafa vinnu.  Ég er orðin fastráðin núna, sem er mjög mikils virði hér í Svíþjóð, og líkar vel í vinnunni.

Óli er að stefna á að skreppa heim og austur á Höfn aðeins í næsta mánuði en það er ekkert orðið ákveðið hvenær. 

Rebekka er byrjuð í sinfóníuhljómsveit tónlistarskólans og finnst það æðislegt!  Hún er auðvitað líka í lúðrasveitinni og lifir og hrærist í tónlist.  Rúllar svo upp öllu í skólanum þess á milli.  Hún kom heim á þriðjudaginn og læddi út úr sér:  ,,Ég var í samræmdu prófi í dag".  Já, já - hér er ekkert stress í kringum nationella proven eins og þau heita hér.  Prófað er í sænsku, ensku og stærðfræði og tekin nokkur lítil próf á tímabilinu febrúar - maí.

Sesselja er auðvitað alltaf kát og hress.  Hún var að syngja sóló og dansa í sýningu um helgina og stóð sig rosalega vel.  Hún er á söngleikjanámskeiði og sýningin núna var með atriðum úr þekktum söngleikjum.  Hún söng lagið One úr A Chorus Line og lék líka Dóróteu í Galdrakarlinum frá Oz, auk þess sem hún var með í atriðum úr Oliver Twist og Mamma Mia.  Það var dálítið skrítið að sjá litlu stelpuna sína standa þarna alveg pollrólega á sviðinu og syngja, skella sér síðan í dans með félögum sínum og ljúka svo atriðinu með því að syngja lagið aftur.  Ég get vonandi sett inn smá videó af þessu fljótlega.

Diljá er líka í dansskóla og er farin að hlakka verulega mikið til að byrja í skóla í haust.  Já - það er komið að því.  Þó að hún sé bara nýorðin fimm er hún alveg að fara að missa tönn og er að æfa sig að lesa Gagn og gaman - og gengur bara vel!  Það er leikur að læra og hún elskar það!

Hér er smávetur núna, búinn að vera aðeins snjór og dálítið kalt.  Ég vona að vorið komi á sama tíma og í fyrra - í lok febrúar - en grunar samt að mér verði ekki að ósk minni.

Óli er að spila í Músikhúsinu í kvöld með nýjustu hljómsveitinni sinni og Rebekka fór að horfa á.  En nú þarf ég að fara að koma skvísunum mínum í háttinn - ég vona að þið hafið það öll gott þarna heima og bið ykkur um að örvænta ekki þó að það sé svolítið lengra á milli bloggskrifa hjá mér núna.


GLEÐILEG JÓL!!!

Gleðileg jól, kæru ættingjar og vinir nær og fjær!!

Vonandi hafa allir átt ánægjuleg jól í gær.  Við þökkum kærlega fyrir allar þær góðu gjafir, góðgæti, myndir og kveðjur sem þið hafið sent okkur InLove.  Maður hugsar óneitanlega meira heim um jólin en á öðrum árstímum og það er notalegt að vita að þið hugsið til okkar líka.

Það var aðeins hafður annar háttur á gjöfum til Íslands í ár.  Vegna þess hve dýrt er að senda pakka heim, sendum við fólki ýmist pening eða höfðum gjafabýtti - þ.e. við keyptum gjafirnar hér handa okkar stelpum frá vinum þeirra og fólk keypti gjafir heima handa sínum börnum frá okkar.  Við reiknuðum það út að í fyrra hefðum við getað tekið peninginn sem fór í póstburðargjöld og keypt flug fyrir einn fram og til baka til Íslands.  Við höfðum einfaldlega ekki pening til að gera þetta í ár - spáðum reyndar í að ég flygi heim með pakkana en það verður bara gert seinna.  Annars finnst mér rosalega gaman að velja jólagjafir handa öðrum og var alin upp við að það er sælla að gefa en þiggja.

Þetta eru fyrstu jólin mín síðan Rebekka fæddist sem ég er ekki í námi eða við kennslu (að ógleymdu atvinnuleysinu) og þar af leiðandi ekki í jólafríi með stelpunum.  Það er svolítið skrítið og gerði það líka að verkum að minni tími gafst til baksturs og dútls þegar maður var að koma heim kl. hálfsjö á kvöldin.  En það var allt í lagi, jólin komu samt til okkar og við höfum haft þann háttinn á hér heima, þar sem það er bara klukkutíma munur á tímanum hér og heima, að við höfum okkar jól á íslenskum tíma, hlustum á þegar jólin eru hringd inn á netinu og hlýðum á jólamessuna meðan við borðum hamborgarahrygginn og laufabrauðið sem við rennum auðvitað niður með malti og appelsíni.  Það er ósköp notalegt!

Það var auðvitað dálítið erfitt fyrir Diljá að bíða eftir jólunum og pökkunum en við höfum lengi haft þann sið að borða möndlugraut í hádeginu á aðfangadag og möndlugjöfin er þá yfirleitt spil, teiknimynd eða eitthvað annað sem öll fjölskyldan hefur gaman af.  Það féll jólasnjór á meðan við borðuðum grautinn í  ár og það var ABBA Singstar sem stytti stelpunum stundirnar.  Diljá var samt orðin ansi óþolinmóð um kvöldið og við drifum okkur í að ganga frá og settumst síðan inn í stofu þar sem biðu skálar af íslensku konfekti og MacIntosh og opnuðum góðar gjafir.  Sesselja er vön að úthluta þeim en Diljá aðstoðaði hana dyggilega í ár, hún er farin að þekkja nánast alla stafina og kann að skrifa og lesa nöfn allra í fjölskyldunni.  Það var mikið um "Vááááá" og "æðislegt" og "takk!!!"  Allir fengu það sem þá langaði mest í - semsagt, allir glaðir!

Sesselja fékk m.a. gítarbók með 100 léttum lögum, allt frá Línu Langsokk upp í Bítlana, og er dugleg að æfa sig.  Hún vakti mikla lukku í afmælinu hennar Diljár um síðustu helgi.  Hún tók óbeðin að sér að vera veislustjóri yfir 9 fimm ára börnum, stjórnaði ásadansi, pakkaopnun og afmælissöng af mikilli röggsemi og í lok afmælisins dró hún fram fjólubláa glimmergítarinn sinn og spilaði og söng lagið "Halleluja" (sem flest börn þekkja úr Shrek).  Ég get svarið það að hakan á krökkunum seig langt niður á maga og augun urðu eins og undirskálar.  Síðan spilaði Sesselja Línu Langsokk og lagið hennar Ídu og þá sungu allir afmælisgestirnir með!  Það var alveg frábært að fylgjast með þessum upprennandi trúbador!

Í dag höfum við legið í leti, nartað í hamborgarahrygg, horft á teiknimynd, borðað smákökur, sungið Singstar og dormað aðeins.  Ég heyri hlátrasköllin í Rebekku úr herberginu þar sem hún liggur og er að horfa á Næturvaktina.  Sesselja er að æfa sig á gítarinn og Diljá er að hjálpa pabba sínum í eldhúsinu.  Á morgun koma pabbi, Irene og Maria og borða hjá okkur.  Óli er í frí fram yfir þrettándann en ég verð að vinna á laugardag og mánudag.  Á sunudaginn verður haldið íslenskt jólaball í Lammhult, sem er smábær og Íslendinganýlenda um 40 km héðan.  Síðan er stefnan tekin á Stokkhólm yfir áramótin.  Þar verðum við í góðu yfirlæti hjá Beggu og Steinari, Gunnsteinn er auðvitað kominn heim frá Ameríku og Bogga, Héðinn og Hulda frá Íslandi.  Það er orðið allt of langt síðan við komum til Stokkhólms og hlökkum mikið til.

Jæja, kæru ættingjar og vinir.  Við sendum ykkur okkar bestu kveðjur og vonum að við sjáum ykkur sem fyrst.  Kossar og knús í allar áttir!!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband