15.1.2007 | 14:01
ÞAÐ ER ALLT Í HIMNALAGI...hjá okkur!
Ég hef verið afar ódugleg að blogga upp á síðkastið en varð að láta vita af okkur því eins og menn hafa séð í fréttum heima þá gekk mannskaðaveður yfir hér í Svíþjóð í gær. Þrír létust þegar þeir urðu undir fallandi trjám, þar á meðal 9 ára drengur. Það þykja ekki mikil tíðindi á Íslandi þó að vindur fari í 30-40 metra á sekúntu en þar eru aðstæður bara allt aðrar en hér. Hér stafar helsta hættan af fallandi trjám. Fyrir utan hættuna sem fólki getur stafað af þeim, slíta þau rafmagnslínur og teppa umferð bíla og járnbrautarlesta og það getur tekið nokkurn tíma að hreinsa þau í burtu svo að allt verði nú eðlilegt á ný.
Við urðum ekki fyrir neinum óþægindum af völdum veðursins og okkur fannst veðrið ekkert svo svakalegt. Margir eru rafmagnslausir, María systir er t.d. ekki að vinna í dag því að skólinn hennar er rafmagnslaus, og það hefur verið símasambandslaust hjá pabba.
Í gær, þegar Sesselja var að fara að sofa, leit hún út um herbergisgluggann sinn sem snýr út að smáskógi. Eftir endilöngum stígnum sem liggur að leikvellinum þar, lá nokkurra metra langt tré og annað hallaði grunsamlega mikið undir flatt. Þetta varð til þess að hún vildi ekki sofa inni hjá sér, þrátt fyrir að veðrið væri gengið yfir hjá okkur.
Hér lauk jólunum ekki fyrr en sl. laugardag, þ.e. 13. janúar. Sænsku jólin standa semsagt yfir í 20 daga svo að það var sannkallaður ,,jólabónus" fyrir okkur. Ég er enn í hálfgerðum jóladvala en ætla nú að fara að hrista hann af mér!
Hér má sjá myndir af afleiðingum veðursins í gær.
Tré féllu á bíla í Linköping (www.dn.se)
Þessi mynd er frá Stokkhólmi (www.dn.se)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2007 | 23:58
ÉG Á LITLA FRÆNKU...
Til hamingju, elsku systir, mágur og börn!! Og mamma - 7 börn, 23 barnabörn og 3 langömmubörn - og þú hefur aldrei litið betur út! Hvernig ferðu eiginlega að þessu??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2007 | 01:42
GLEÐILEGT ÁR!
GLEÐILEGT ÁR!!
(Flugeldasýning í Stokkhólmi)
Gleðilegt ár til allra ættingja og vina með þökkum fyrir öll gömlu árin. Síðasta ár var mjög viðburðaríkt hjá okkur, eins og þið vitið. Við söðluðum um og fluttum hingað til Svíþjóðar um mitt ár og erum búin að lifa hér eins og blóm í eggi.
Gamlárskvöldi eyddum við hér í Stokkhólmi hjá Beggu og Steinari, bara eins og í gamla daga. Við átum á okkur gat af kalkúnunum hennar Beggu, skutum upp flugeldum og horfðum á fjölskyldumynd í sjónvarpinu þegar við gátum ekki hreyft okkur lengur. Diljá var nú sofnuð löngu fyrir miðnætti og vaknaði ekkert við allar sprengingarnar og flugeldana sem lýstu upp næturhimininn. Það var ekkert minna hér af flugeldum en heima svo að við erum bara ánægð með gamlárskvöldið. Það var niðurtalning í sænska sjónvarpinu þar sem fjöldi fólks var samankominn á skemmtidagskrá á Skansinum. Svo heyrðum við ,,Nú árið er liðið" óma á sænsku í jassaðri stuðútgáfu! Klukkan eitt að sænskum tíma hlustuðum við síðan á þegar árið var hringt inn á Íslandi og óskuðum hvert öðru þá aftur gleðilegt nýárs. Hlustuðum á íslensku kóraútgáfuna af ,,Nú árið er liðið" og fórum síðan að sofa, södd og sæl.
Í dag ætlum við að kíkja á áramótaskaupið og annálana á netinu en fyrst ætla ég að fá mér ,,brunch" sem Begga er búin að töfra fram af sínum alkunna myndarskap!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2006 | 18:33
STOKKHÓLMUR
Jæja, þá erum við komin til Beggu og Steinars í Stokkhólmi. Lögðum af stað rétt fyrir kl. 10 í morgun og vorum 6 tíma á leiðinni. Við keyrðum í gegnum Jönköping, sem okkur sýnist vera afar fallegur bær (eða borg á íslenskan mælikvarða) og erum ákveðin í að skoða hann nánar. Hann stendur við vatnið Vättern, sem er annað stærsta vatnið í Svíþjóð, 1.911 ferkílómetrar sem er næstum því 23 sinnum stærra en Þingvallavatn. Þar rétt fyrir utan er síðan smábærinn Gränna þaðan sem hinn frægi polkagris er upprunninn. Fyrir þá sem það ekki vita er polkagrís hvíti og rauði brjóstsykurinn með piparmyntubragðinu. Við komum við í einni brjóstsykurgerðinni og keyptum nokkra polkagrísi en það var um 30 mismunandi gerðir að ræða svo að valið var erfitt! Nú - síðan við komum til Beggu og Steinars erum við búin að fá góðar gjafir og troða okkur út af alíslensku hangikjöti og öllu sem því tilheyrir! Ekki amalegt. Þrátt fyrir ofátið látum við þó ekki staðar numið því að Begga er, í þessum töluðu orðum, að töfra fram eplaböku - nokkuð sem ekki er hægt að neita sér um. Hér ætlum við síðan að eyða áramótunum og ég er viss um að það verður bara Vesturbrautarstemning eins og í gamla daga! |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.12.2006 | 19:38
AFVELTA
Jæja, við liggjum hér afvelta fyrir framan sjónvarpið, fjölskyldan - nema Diljá sem skrönglast og plampar hér um allt á háhæluðum Mjallhvítarskóm frá Ameríku! Komin í náttkjólinn frá Önnu Regínu og Elínu Ásu (ég varð að setja hann í snarheitum í þurrkarann því að hún var búin að rífa hann blautan af ofninum og klæða sig í!). Já, það er aldrei lognmolla á þessu heimili. Hamborgarahryggurinn, brúnuðu kartöflurnar, sósan og laufabrauðið - allt var þetta eins og best gerist, eiginlega of gott, og þess vegna er nú ástandið á liðinu eins og það er. Ég ætla að reyna að koma Diljá í háttinn á meðan restin af liðinu horfir á Back to the future. Já, það eru svo sannarlega jólin!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.12.2006 | 12:05
JÓLADAGUR
Við áttum alveg yndislegan aðfangadag! Upplifðum ekta sænsk jól sem byrjuðu með kökuhlaðborði á meðan horft var á Disney teiknimyndir í sjónvarpinu. Síðan var komið að jólamatnum sem Irene og María töfruðu fram af sinni alkunnu snilld. Jólahlaðborð, hlaðið kræsingum. Maður gat bara borðað lítið af öllu til að hafa pláss fyrir alla réttina en langaði samt í meira. Eftir matinn birtist síðan jólasveinninn og deildi út gjöfunum sem voru undir jólatrénu. Diljá stóð nú ekki alveg á sama í fyrstu en það lagaðist í sama hlutfalli og pökkunum hennar fjölgaði. Irene, hins vegar, var svo óheppin að vera frammi í geymslu að stússast eitthvað og missti alveg af jólasveininum!
Gjafirnar voru margar og góðar og stelpurnar fengu allar það sem þær óskuðu sér mest. Sesselja fékk m.a. Bratz-dúkkuna sem hana langaði í, Rebekka báðar Eragon bækurnar og Diljá Mjallhvíti og dvergana sjö og fullt af ,,mat" til að elda. Við Óli fórum ekki heldur tómhent heim, síður en svo.
Eftir að hafa tekið upp pakkana og gætt sér á ávöxtum var haldið heim á leið. Þar biðu fleiri pakkar undir trénu, við tókum bara nokkra með okkur til Målilla. Diljá hélt hins vegar ekki út, hún sofnaði á leiðinni heim og vildi ekkert vakna aftur svo að hún kláraði að opna sínar gjafir í morgun, úthvíld og spræk.
Það er yndislegt veður, sólin skín og fjölskyldan er að dunda sér. Sesselja er í nýja tölvuleiknum sínum og Bratz í herberginu sínu. Diljá er að leika sér með Mjallhvíti og dvergana og Barbíe dúkkuna frá ömmu og Óli og Rebekka eru að horfa á Superman.
Í kvöld ætlum við síðan að borða íslenska jólamatinn okkar, hamborgarahrygg og laufabrauð og drekka malt og appelsín með!
Við þökkum fyrir allar góðu gjafirnar og kortin og vonum að allir hafi átt jafn góð jól og við! (Skoðið fleiri myndir í myndaalbúminu!)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2006 | 16:26
JÓLAKVEÐJA
GLEÐILEG JÓL!
Kæru ættingjar og vinir, nær og fjær (flestir miklu fjær), til sjávar og sveita.
Megið þið öll eiga virkilega gleðileg jól og njóta farsældar og blessunar á nýju ári. Við þökkum samverustundirnar á árinu sem er að líða og hlökkum til að hitta ykkur heima á Íslandi næsta sumar.
Þið megið vita að við eigum eftir að hugsa mikið til ykkar um hátíðarnar, sérstaklega söknum við auðvitað vina, ættingja og nágranna (þá ekki síst barnanna) á Fákaleirunni sem síðast liðin ár hafa verið svo stór hluti af jólunum hjá okkur. (Við ætlum samt að reyna að spila Catan þó að það verði ekki alveg það sama). Það er þó ekki svo að skilja að við séum buguð af harmi okkur líður mjög vel og eigum eftir að eiga góð og notaleg jól og áramót hér í Svíþjóð. Við höfum jú okkar hamborgarahrygg, laufabrauð og smákökur, Malt og MacIntosh (takk mamma!) að ógleymdum íslensku jólalögunum sem koma okkur í sannkallað jólaskap og færa okkur aðeins nær Íslandi í huganum.
Okkur þætti sérstaklega vænt um að fá kveðjur í gestabókina frá ykkur nú um hátíðarnar og svo lofa eg ad vera dugleg ad setja inn myndir.
Með ástar- og saknaðar jólakveðjum:
Heiða, Óli, Rebekka Dröfn, Sesselja Mist og Diljá Fönn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2006 | 16:35
ÉG KEMST Í HÁTÍÐARSKAP...
Úti er reyndar hvorki snjór né krap, bara blíða! Það hefur aðeins verið næturfrost í vikunni svo að ég hef þurft að skafa af bílnum á morgnana en við María erum búnar að vera í jólaverslun í allan dag og út um allan bæ í frábæru veðri. Löbbuðum langar, langar leiðir - þetta var svipað og þegar maður labbaði Laugaveginn í gamla daga fyrir jólin, fyrir daga Kringlunnar.
Í gær voru jólaflaututónleikar hjá Rebekku í tónlistarskólanum, alltaf nóg að gera. Þá var líka mikil stemning niðri í bæ þar sem jólasveinalúðrasveit lék jólalögin af miklum krafti. Flott!
Nú eru stelpurnar síðan komnar í jólafrí!! Það var ekkert stress og engin próf í skólunum hér fyrir jólin heldur BARA gaman! Svona á þetta að vera! Diljá er líka komin í jólafrí og kom heim heldur en ekki montin með þetta líka fína jólakerti sem hún skreytti á leikskólanum í dag.
Húsbóndinn á heimilinu kemst síðan í frí á morgun og annað kvöld fara hann og vinnufélagarnir með lest í nærliggjandi bæ þar sem þeir ætla að hittast, borða saman og fara í keilu.
Ég....ætla bara að fara að jólast eitthvað...!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2006 | 23:21
SKATA
Hún var góð, skatan - sú besta sem ég hef fengið lengi. Við höfðum pínulitlar áhyggjur af því að það færi fyrir okkur eins og sænsku konunni sem bjó í leiguhúsnæði í Þýskalandi og eldaði sér súrsaða síld. Lyktin fór svo fyrir brjóstið á nágrönnunum að konugreyinu var sagt upp húsnæðinu! Ég var hér með alla glugga opna og svalahurðina líka, kveikti svo á ilmkertum um allt hús en samt fannst lyktin alla leið út að ruslageymslunni, sem er dágóðan spöl frá húsinu!
Í dag var danssýning hjá Sesselju í síðasta tímanum fyrir jól. Hún stóð sig auðvitað með prýði. Diljá kom með og horfði spennt á en hún var þó ennþá spenntari fyrir piparkökunum sem boðið var upp á eftir sýninguna. Á eftir fór Sesselja síðan í keilu með Aneu vinkonu sinni (sem hún gisti hjá sl. nótt) og pabba hennar. Þetta er orðið eins og heima - hún sést stundum ekki heilu og hálfu dagana. Anea og foreldrar hennar eiga þann allra stærsta hund sem ég hef séð, enda er hann víst af hæsta hundakyni heims (írskur úlfhundur) og hausinn á honum er næstum jafnhár Sesselju (sem er um 120 sm). Algjör ljúflingur samt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2006 | 22:36
JÓLIN KOMA - JÓLIN KOMA...
Já, maður er farinn að telja dagana til jóla. Síðasti skóladagur hjá stelpunum er á næsta fimmtudag en skólinn byrjar ekki aftur hjá þeim fyrr en 9. janúar - langt og gott jólafrí. Óli verður líka í fríi milli hátíðanna.
Í dag var jólaball í skólanum hjá Sesselju, dansað í kringum jólatréð og sungið. Síðan fór hún í afmæli hjá tveimur bekkjarsystrum sínum en það var haldið í keiluhöllinni þar sem allir spiluðu að sjálfsögðu keilu og fengu síðan hamborgara og ís á eftir. Rebekka spilaði á jólatónleikum lúðrasveitarinnar sem voru mjög flottir. Þeir voru haldnir í einum af menntaskólum bæjarins, en salurinn þar slagar hátt í stóra salinn í Háskólabíói!
Við ætlum að taka Þorláksmessu snemma í ár og borða skötu á morgun. Við buðum pabba, Irene og Maríu í mat en stelpurnar fá sjálfsagt bara pizzu. Það verður reyndar gaman að sjá hvort Diljá vilji bragða á skötunni. Annars er maður bara að dunda við að setja upp jólaskraut og dót hér og þar. Ég er að uppgötva það núna hvílík ósköp við eigum af jóladóti! Við stingum annars svolítið í stúf hér, þau einu í bænum með marglitar seríur úti í gluggum og á svölunum. Við keyrðum framhjá heimili ,,Ödda Tobba" þeirra Växjöbúa í kvöld, það er víst gamall Ameríkani sem skreytir þessi líka ósköp. Ég verð nú að viðurkenna, án þess að ég vilji móðga neinn, að Öddi hefur vinninginn, sérstaklega svona fagurfræðilega séð. Sá ameríski er þó svo séður að hann tekur á móti frjálsum framlögum í bauk utan við húsið, til að hafa upp í rafmagnsreikninginn!
Það stefnir allt í rauð jól hér (mér skilst þó að Svíar tali um græn jól), ég sem hlakkaði svo til að hafa alvöru jólasnjó á jólunum! Hann bíður bara betri tíma.
Ég var að finna vefmyndavél sem sýnir Stórtorgið sem er við enda aðalgöngugötunnar í miðbænum hérna í Växjö. Þar er jólatré bæjarins staðsett en annars er þarna bílastæði, nema á laugardögum - þá er markaður á torginu. Hægra megin sést síðan dómkirkjan. Kíkið endilega á slóðina http://webcam.griffel.se/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)