BUSL OG BIÐRAÐIR

Nú er mín aldeilis hress og endurnærð - bæði á líkama og sál Smile  Það er annað mál hvernig ástandið verður á morgun því að það er útlit fyrir HARÐSPERRUR!! Undecided  Maria plataði mig nefnilega með sér í sundhöllina í kvöld í "Wet Vest" tíma.  (Og kann ég henni miklar þakkir fyrir).  Þetta var svona vatnaþolfimi.  Maður var í sérstökum flotvestum og svo var hlaupið og sparkað og teygt og togað við mikla stuðtónlist - eins og í þolfimitíma nema bara úti í djúpu lauginni.  Þetta kom mér virkilega skemmtilega á óvart (en þeir sem þekkja mig vita að mér finnst venjulega ekkert

11304849001130484870

skemmtilegt við þolfimi eða flesta aðra hreyfingu almennt, nema þá hreyfingu helst að fletta síðunum í góðri bók).  Þetta var bara virkilega skemmtilegt, eiginlega bara alveg rosalega gaman!  Það var dálítið erfitt stundum að halda jafnvægi en svo kom þetta smám saman.

Eftir tímann stakk Maria upp á því að við færum í heita pottinn.  Munið þið1130145370 þegar ég sagði að Svíar færu alltaf í biðröð?  ...Já, þá meinti ég ALLTAF!  Líka við heita pottinn (og N.B. það er bara EINN svona buslupottur í lauginni).  Þetta var alveg bráðsniðugt.  Það eru leiðbeiningar á skilti við pottinn:

 1.  Það mega ekki vera fleiri en 8 manns í pottinum í einu.

2.  Kveikt er á vatnsnuddinu í 10 mínútur í senn.

3.  Farið upp úr pottinum þegar slokknar á vatnsnuddinu.  Þá hreinsast potturinn í 3 mínútur og á meðan má enginn vera í pottinum.  Að hreinsun lokinni fer vatnsnuddið aftur af stað og þá má fara aftur ofan í.

Já, það er sitthvað sundmenning og sundmenning!

(Myndirnar eru af ævintýrasundlauginni í Växjö sem er fimmta flottasta innisundlaug í heimi skv. óopinberum lista - sjá www.simhallen.se/vaxjo )


JÓJÓ

Þriðjudagar eru JÓJÓ-dagar!  (Hljómar eins og einhver skyndibita-auglýsing).  Skutla Sesselju í ballett - fara beint að sækja Rebekku í skólann og keyra henni á sundæfingu - tekur því ekki að fara heim áður en þarf að sækja Sesselju í ballettinn svo að ég sæki Óla í vinnuna í staðinn - sækja Sesselju í ballettinn - tekur því ekki að fara heim áður en þarf að sækja Rebekku í sundhöllina, förum og gefum Sesselju pulsu svo að hún mæti ekki svöng á skátafund - sækjum Rebekku í sundhöllina - keyrum Sesselju á skátafund - förum heim - þá er klukkutími þangað til þarf að sækja Sesselju af skátafundinum og þá er kominn háttatími hjá þeim yngstu á heimilinu!!  Svo verður þetta allt þyngra þegar kyngir niður snjó eins og í dag.  Hundslappadrífa var það, heillin!

Það var semsagt fyrsti ballettíminn hjá Sesselju í dag.  Hin rúmanska Daria kenndi þeim að segja halló, bless, takk og afsakið með líkamanum.  Sesselju fannst ægilega gaman og við foreldrarnir verðum eflaust sérfræðingar með tímanum.

Óli var í starfsmannaviðtali í dag.  Allt tekið á sálfræðinni - hvernig honum líki í vinnunni og við vinnufélagana.  Fékk að vita að öllum þætti hann rosalega pigg í vinnunni.  ...Hmm....þessu verð ég að bæta í misskilningsorðabókina - þetta er semsagt ekkert skylt enska orðinu pig eða svín, eins og það útleggst á íslensku.  Neibb - sá sem er pigg er alveg rosalega hressss!!!  Og það vitum við nú að Óli erWink


SÆNSKUKENNSLA

Mér datt í hug að gera hér svolitla orðabók með sænskum orðum sem gjarnan valda misskilningi hjá Íslendingum.  Svona til að hafa með í farteskinu þegar þið komið að heimsækja mig!

Fyrst ber að nefna jordgubbar sem er algjörlega samofið sænsku sumarþjóðarsálinni.  Það hefur ekkert með íslenskt subbugubb að gera heldur þvert á móti - þetta eru hin ljúffengu, sænsku jarðarber.

Ef þú heitir Kolbrún er eins gott að þú sért ekki með ofsóknaræði ef þú ferðast um í Svíþjóð.  Það er nefnilega ekkert ólíklegt að þér finnist allir vera að tala um þig.  Orðið kolla þýðir  nefnilega sjáðu!

Það sem í eyrum Íslendingsins hljómar sem kyssa hefur afar ólíka merkingu hér í Svíþjóð.  Sænska orðið kissa merkir að pissa! Gæti valdið afar SLÆMUM misskilningi Blush

Svo er það vandræðaorðið vandrarhem.  Ekki móðgast þó að ykkur sé boðin vistun á slíku heimili.  Þetta er nefnilega ekki vandræðaheimili heldur farfuglaheimili.  Þetta HEFUR virkilega valdið afar slæmum misskilningi.

Að lokum er það orðið STRAX!  Ekki búast við því að Svíar rjúki upp til handa og fóta þótt þið viljið fá eitthvað strax.  Það er hvorki af vanvirðingu né leti, hjá þeim þýðir þetta bara bráðum Wink


TILLITSSEMI

Svíar eru tillitssamt fólk og þeir GEFA SÉR TÍMA til að sýna það í verki.  Hér koma nokkur dæmi:

Þegar þeir eru búnir að standa í biðröðinni í RISAstórmarkaðnum í a.m.k. 15 mínútur og lengir eftir að komast heim sem fyrst, gefa þeir sér samt tíma til að raða vörunum þannig upp á bandið við kassann, að strikamerkið snúi að skannanum, í stað þess að sturta öllu í eina hrúgu eins og við Íslendingar erum gjarnir á að gera.  Þannig auðvelda þeir kassadömunni starfið og flýta auk þess fyrir sjálfum sér og öllum hinum í biðröðinni!

Í ösinni á neðanjarðarlestarstöðvunum í Stokkhólmi tók ég eftir því að þegar menn voru að ganga inn og út af stöðinni gættu þeir alltaf að því hvort einhver væri á eftir þeim og héldu þá hurðinni opinni.  Ég var búin að vera í Stokkhólmi í nokkra daga þegar ég fattaði þetta og gerði þá félagsvísindalega könnun á þessu.  Svíinn klikkaði aldrei!

Það hvarflar ekki að þeim að flauta á þig þó að þú sért ekki farinn af stað nokkrum sekúntum eftir að græna ljósið kviknaði.  Reyndar hvarflar varla að þeim að nota bílflautuna yfir höfuð!

Þeir fara alltaf í biðröð - líka í sjoppunni í bíó sem gerir bíóferðina óneitanlega afslappaðri!

Góðir Íslendingar - gefum okkur tíma til að vera tillitssöm!

 


ALLT UM ÓLA

2005-2006 016Hann Óli minn hefur eitthvað verið að kvarta við mig um að ég skrifi ekkert um hann á blogginu.  Sjálfur er hann ekki mikið fyrir skriftir, sem er synd því að eins og menn vita er hann húmoristi hinn mesti.

Nú - Óli unir glaður við sitt hjá sem múrari hjá Ottosson.  Eftir 6 mánaða reynslutíma fékk hann fastráðningu nú um áramótin sem er mjög mikilvægt hér í Svíþjóð.  Hann er ráðinn sem ,,betongarbetare" - sem sagt steypumaður, sá eini sinnar tegundar hjá fyrirtækinu sem gerir hann nánast ómissandi!  Það hafa ekki allir verið svo heppnir að fá fastráðningu eftir reynslutímann því að fyrirtækið gerir miklar kröfur til starfsmanna sinna.  Eins og við vitum er Óli hraustur maður og vílar ekkert fyrir sér.  Vinnufélagar hans eru alveg undrandi á því hvað hann er sterkur og kuldaþolinn, en hann fer helst ekki í utanyfirflíkur nema hitastigið nálgist alkul!

Óli var á sænskunámskeiði fyrir jól en ætlar að hvíla sig á því núna á vorönninni.  Honum fer hins vegar mikið fram, að sögn vinnufélaga hans sem hafa sett sér það markmið að útrýma orðunum ,,sko, já, ha" og ,,heyrðu" úr hans sænskuorðaforða.

Nú á líka að einbeita sér að tónlistinni.  Vinkona hennar Sesselju á pabba sem vinnur í Músikhúsinu hér í Växjö.  Þetta er nokkurs konar tónlistarfélagsheimili á vegum bæjarfélagsins.  Þar fer m.a. fram slagverkskennsla tónlistarskólanna, þar eru haldnir smærri tónleikar í hverri viku, þar eru tvö stúdíó (hljóðver) og þangað geta tónlistarmenn á öllum aldri komið til að æfa sig að spila.  Það eru fleiri, fleiri herbergi, innréttuð með hljóðfærum, og þar er hægt að leigja sér æfingatíma.  Auk þess eru nokkur herbergi í kjallara hússins sem hljómsveitir hafa á leigu og eru þá með sínar eigin græjur þar.  Þetta er semsagt mjög lifandi hús og þangað hefur Óli farið a.m.k. einu sinni í viku upp á síðkastið og er búinn að koma sér í kynni við aðra hljóðfæraleikara sem geta hugsanlega hjálpað honum að komast í einhverja danshljómsveit.

Annað er nú ekkert sérstakt að frétta af honum.  Honum, og okkur öllum, finnst auðvitað rosalega mikill munur að hann skuli vera kominn heim upp úr klukkan fjögur alla daga og geti verið með okkur allar helgar!!  Hann er miklu afslappaðri en áður og sýnir sínar rómantísku hliðar - farinn að kveikja á kertum eins og Stebbi Hilmars!  (Já, já Óli minn - þú vildir að ég skrifaði um þig svo að þú verður að þola skjallið!).  Það eru þó ennþá fastir liðir eins og venjulega að Óli sofni í sófanum yfir sjónvarpinu en hann er nú líka byrjaður að vinna klukkan 7 á morgnana.  Sem minn betri og ómissandi helmingur gætir hann þess síðan vandlega, eins og venjulega, að sveimhuginn ég sé með fæturna á jörðinni og er það oft ærið viðfangsefni. 

Við njótum okkar öll miklu betur nú og þó að það sé auðvitað fáránlegt að við skyldum þurfa að flytja úr landi til þess, er engin eftirsjá yfir því í okkar hugum.

Óli segir: ZZZZZzzzz


VETUR Í BÆ OG HRUKKUKREM

Jæja, veturinn kom hér í Svíþjóð, seint og um síðir með öllu því sem honum fylgir.  Sesselja, Diljá og ég fengum okkar skammt af kvefi og hálsbólgu og nú er ég að narta í afganginn af tælenska matnum sem við keyptum okkur á menningarnótt, en var alltof sterkur fyrir mig að innbyrða þá.  Hann kemur sér hins vegar vel núna til að rífa úr mér kvefið!

Það byrjaði að snjóa fyrir rúmlega viku síðan og síðan er búið að vera hér svona ,,jólakortaveður".  Hvítt yfir öllu og svolítið frost en heiðskírt og bjart.  Svona eins og veturnir eru í endurminningunni frá því að maður var krakki í Austurbænum og seinna í Breiðholtinu.  Þá gat maður farið út á snjóþotu og skauta dag eftir dag og þegar maður kom inn beið manns heitt kakó og smurt brauð hjá mömmu.

Hugsið ykkur hvað veðráttan hefur breyst ógnvænlega mikið á stuttum tíma.  Við verðum í alvörunni að fara að hugsa meira um þetta.  Ég er nú ekki SVO gömul!!  Og þó...  Ég áttaði mig allt í einu á því um daginn þar sem ég stóð og dáðist að sjálfri mér í speglinum (eins og þið vitið að ég geri gjarnan) að ég verð FERTUG á næsta ári.  Úff...  Og það rifjaðist upp fyrir mér að það er ótrúlega stutt síðan kona í fjölskyldunni varð fertug og fékk þessa fínu gjafakörfu í afmælisgjöf, fulla af HRUKKUKREMUM, eða eins og konan í snyrtivörubúðinni sagði - ,,krem fyrir húð á þessum aldri".  Mér fannst þetta fyndið orðalag þá en skil þetta miklu betur í dag!  Hvort ég þarf að fara að nota hrukkukrem á næsta ári veit ég ekki, en ef svo er þá er alveg víst að húðin á mér verður orðin mun eldri en mitt eigið sjálf sem er ekki deginum eldra en þrjátíu og tveggja!

Ég las það einhvers staðar um daginn að það væri miklu erfiðara fyrir konur að verða þrítugar en fertugar því að þegar þær fylltu þriðja tuginn væru þær enn að skapa sér framtíð og ekki orðnar eins fastar í sessi og öruggar með sig og um fertugt.  Ég held að það sé mikið til í þessu þvi að ég man hvað mér leið hrikalega illa þegar ég varð þrítug.  Ég gat ekki sagt aldur minn upphátt í heila viku á eftir - í alvöru!  Fannst einhvern veginn að ég ætti að vera búin að afreka miku meira en ég var búin að gera þá.  En svo lagaðist þetta.  Ég kvíði ekkert fyrir fertugsafmælinu.  Ég veit að það skellur á fyrr en varir!  Vona bara að sem flestir vinir og ættingjar skrifi ,,sumarfrí í Smálöndunum 2008" inn í dagbókina sína og við höldum heljarinnar veislu í blíðunni hér!

 


,,ÞVÍ AÐ TENNURNAR HVERFA EIN OG EIN..."

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1249700

Ég var að lesa þessa frétt á www.mbl.is um að Siv Friðleifsdóttir vilji koma á ókeypis tannlæknaþjónustu fyrir ákveðna árganga barna, þar sem tannheilsa 12 ára barna á Íslandi sé mun verri en barna á hinum Norðurlöndunum.  Og það er nú ekkert skrítið því að á hinum Norðurlöndunum er tannlæknaþjónusta barna ókeypis, hér í Svíþjóð er hún ókeypis til 18 ára aldurs!  Og skattgreiðendur eru ekkert að kvarta yfir því, enda eiga þeir flestir börn!

Þá rísa hér upp ungir, barnlausir menn sem sumir hverjir vilja innleiða hið rómaða bandaríska heilbrigðiskerfi, þar sem aðeins þeir sem hafa efni á heilsugæslu geta nýtt sér hana, hinir megi bara deyja drottni sínum.  Þeir eiga kannski eftir að skipta um skoðun þegar þeir eignast sjálfir börn.  Þessir ungu háskólamenntuðu menn á framabraut ættu líka að hafa það hugfast hverjir það voru sem greiddu fyrir menntun þeirra.  Þeir vilja kannski líka taka upp skólagjöld í öllum skólum á framhalds- og háskólastigi?  Eins og stéttskiptingin á Íslandi sé ekki orðin nógu mikil nú þegar.

Ég varð bara reið þegar ég las þessi bjánalegu rök gegn ókeypis tannlæknaþjónustu fyrir börn.  Við megum ekki alltaf líta á skattana sem óvin okkar.  Þetta er sameiginlegur sjóður sem á að nota til að jafna kjör landsmanna t.d. varðandi heilsugæslu og menntun.  Vandinn er að honum er ekki nógu skynsamlega varið af þeim sem með valdið fara.

Og gleymum ekki börnunum í þessu samhengi.  Eiga ekki öll börn að eiga rétt á viðunandi heilsugæslu óháð fjárhagslegri afkomu foreldranna?  Spáum aðeins í það!


mbl.is Vill að tilteknir árgangar barna fái ókeyps tanneftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÆVINTÝRALESTIN - VINNA Í HÖFN!

Þá er það opinbert...ÉG ER KOMIN MEÐ VINNU!!! Grin W00t Cool

Reyndar er aðeins um hlutastarf að ræða en vinna er það samt!!  Ég var boðuð í annað viðtal í gær, alla leið til Jönköping, og þar fékk ég allar upplýsingar um fyrirtækið og vörurnar sem á að selja.  Kynningin tók 4 tíma og eftir það var spurningin bara hvort ég væri til í þetta - og djobbið var mitt!!

Um er að ræða sölustarf, bæði heimakynningar hjá einstaklingum en ekki síður sölu til fyrirtækja og stofnana, á umhverfisvænum hreingerningavörum, míkrófíber klútum og fleiru. Fyrirtækið heitir TSG biomiljö - www.tsgbiomiljo.se - kíkið endilega á síðuna.  Ég veit að margir heima kannast við míkrófíber tuskurnar en þessar eiga auðvitað að vera bestar - og með þeim er hægt að þrífa nánast allt með því að nota bara kalt vatn!  Engin sápuefni og þar með menga menn ekki náttúruna.

Það sem er hins vegar nýjung hjá þeim, eru hreingerningarefnin - því að sums staðar verður jú að nota einhverjar sápur, t.d. í matvælaiðnaði, á sjúkrahúsum o.þ.h.  Einhver spurði sig þeirrar spurningar hverníg náttúran færi að því að halda sér hreinni og hvort ekki væri hægt að læra eitthvað af henni.  Jú, það eru örverur sem halda náttúrunni hreinni og breyta lífrænum úrgangi í jarðveg, eins og við vitum.  Nú hefur dönskum vísindamönnum tekist að tappa þessum örverum á flöskur og búa til heimsins besta og skaðlausasta hreingerningarefni.  Örverurnar ráðast einfaldlega á skítinn og éta hann og þegar öll óhreinindi eru horfin, deyja þær.  Engin skaðleg efni fara út í náttúruna og allt er skínandi hreint!  Ég á örugglega eftir að segja ykkur meira af þessu.

En ferðin til Jönköping var nú heilt ævintýri út af fyrir sig!  Þetta eru nú ekki nema um 100 km en ég ákvað að taka lest því að mér fannst ekkert spennandi að keyra þetta ein þar sem það er nú loksins kominn vetur hér.  Ég keypti mér lestarmiða og þurfti að skipta tvisvar um lest á leiðinni og átti ferðin að taka tæpa 2 tíma.

Fyrsti hluti leiðarinnar var nú bara 10 mínútna ferð til næsta bæjar, Alvesta, og gekk samkvæmt áætlun.  Þegar þangað kom fékk ég hins vegar að vita að lestin sem ég átti að skipta yfir í þar, væri a.m.k. hálftíma á eftir áætlun og þegar upp var staðið var biðin 1 klukkutími!  Á næsta áfangastað, Nässjö, voru engar lestir þar sem lestarsporið þaðan var rafmagnslaust.  Þar biðu hins vegar rútur til að flytja farþega til næstu lestarstöðvar og þar átti ég að ná lest til Jönköping.  Í sömu andrá og rútan renndi upp að pínulítill lestarstöð í bæ sem ég man ekki hvað heitir, sáum við á eftir lestinni þar sem hún rann út af lestarstöðinni.  Þar með var 45 mínútna bið eftir næstu lest.  Ég kom semsagt til Jönköping næstum tveimur tímum á eftir áætlun, en þar sem ég hafði verið tímanlega í upphafi var ég bara rúmum hálftíma of sein á fundinn.

Heimleiðin var lítið skárri.  Það var reyndar komið rafmagn á sporið til Nässjö svo að ég losnaði við rútuferð, en vegna snjós á lestarsporinu þurfti að skipta um spor - fara áfram, bakka svo inn á nýtt spor, svo aftur áfram - og tók svona skipting næstum því hálftíma.  Á lestarstöðinni þurfti líka að hlaupa á milli brautarpalla á síðustu mínútu þar sem lestin hafði þurft að skipta um spor - upp rúllustiga - yfir brú - niður rúllustiga - og svo aftur til baka!  Þegar ljóst var að ég þyrfti að bíða í 45 mínútur í Alvesta til að komast síðustu 10 mínútur leiðarinnar, hringdi ég í Óla og hann sótti mig til Alvesta.

Ég hafði gaman af því að fylgjast með samferðafólki mínu í þessum "hremmingum".  Flestir voru rólegir og yfirvegaðir en það er alltaf þessi eini sem lætur eins og himinn og jörð séu að farast því að hann sé mikilvægasta persóna í heimi!  Heimtar að fá að fara fram fyrir aðra í röðinni í miðasölunni og vill að járnbrautarfélagið borgi leigubíl fyrir hann.  Honum tókst ekki að slá afgreiðslumanninn, sem greinilega var gamall í hettunni, út af laginu og þurfti, takk fyrir, að bíða eins og aðrir.  Eyddi öllum tímanum í gemsanum og býsnaðist yfir öllu saman.

Í lestinni heim milli Jönköping og Nässjö leið mér svolítið eins og í Agöthu Christie sögu.  Sat í pínulitlum klefa ásamt sex öðrum ferðalöngum sem allir voru eins og klipptir út úr svona sögu þar sem ókunnar manneskjur lenda saman í óvæntum aðstæðum.  Steríótýpur - reyndar komnar nokkrar nýjar síðan í sögum Agöthu.

Á móti mér sat þögla týpan, unglingsstúlkan sem starði tómum augum fram undan stórri húfu allan tímann og forðaðist að horfa á hina í vagninum.  Ekkert nema skinn og bein, sjálfstraustið minna en ekkert - örugglega með anorexíu!

Við hliðina á mér var algjör andstæða hennar, önnur unglingsstúlka, með göt og lokka hér og þar í andlitinu, tuggði tyggjó og spurði stöðugra spurninga: - ,,Af hverju erum við að bakka núna?  Hvað er klukkan?  Af hverju förum við ekki af stað?  Hvenær eigum við að vera komin?  Hvað er klukkan?  Hvað erum við orðin mörgum mínútum of sein?  Hvað sagði lestarstjórinn núna?  Ha, er næsta lest sem ég þarf að taka líka of sein?  Hvað er klukkan?"  - Hefði klefinn verið stærri hefði hún ætt fram og aftur og reykt sígarettuna sína, sem hún fitlaði stöðugt við.  Örugglega ofvirk!

Við hlið þeirrar þöglu sat þessi klassíski, feitlagni og glaðlyndi náungi sem spjallar við alla!  Hann var nú bara á leiðinni heim til Nässjö og þurfti ekki að hafa áhyggjur af að ná annarri lest en svaraði öllum spurningum þeirrar ofvirku með bros á vör, eins og til að róa hana.  Vissi sko allt um lestirnar!  Dálítið smámæltur.

Við hlið hans var svo bissness maðurinn.  Þreyttur eftir langt ferðalag sem var hvergi nærri á enda.  Svo þreyttur að hann hallaðist annað slagið fram á skjalatöskuna sína og hraut.  Ég hélt að hann myndi missa blómvöndinn sem hann ætlaði sjálfsagt að færa konunni (eða viðhaldinu) eftir langa fjarveru, en það gerðist ekki.  Þegar hann rumskaði lofaði sá feitlagni að vekja hann þegar við kæmum til Nässjö svo að hann næði næstu lest.

Ungi strákurinn reyndi að láta sem hann tæki ekki eftir því að hrjótandi bissnessmaðurinn hallaðist óþægilega mikið í átt til hans.  Hann horfði út um gluggann með iPod spilarann í eyrunum og sendi annað slagið SMS skilaboð út í fjarskann.  Helst hefði hann þó vilja senda skilaboð til huggulegu ljóskunnar sem sat á móti honum og lét eins og þessi heimur kæmi henni ekki við.

Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst hefði lestarferðin staðið lengur?  Hvaða óvænta atvik hefði átt sér stað?  Hvaða leyndardómar hefðu komið upp á yfirborðið?  Áður óþekkt tengsl milli persónanna?  Og hver hefði leyst gátuna?  Kannski útlenska kennslukonan, þessi rólega og yfirvegaða sem lét ekkert setja sig úr jafnvægi?

Njah!


DILJÁ Í NÝSKÖPUN

Það er mikið að gerast hjá Diljá þessa dagana.  Hún er að taka mikið þroskastökk, spjallar um daginn og veginn og veltir mörgu fyrir sér.  Henni finnst alltaf jafngott og gaman að borða og við matarborðið í gærkvöldi fann hún upp á stórkostlegri nýjung fyrir svona matargöt.  Við vorum að borða sænskar kjötbollur, kartöflur, tómata og gúrkur og hún var með fullkomna nýtingu á gafflinum - með kjötbollu á öðrum enda hans og gúrkusneið á hinum!  Svo sneri hún honum bara sitt á hvað og beit í til skiptis!  Diljá Fun!


VINNAN GÖFGAR MANNINN / SÆNSKA LEIKSKÓLAKERFIÐ ER BARA SNILLD!

Jæja, þá fer nú kannski að rofa til í atvinnumálum hjá mér - LOKSINS!!  Annars hef ég eiginlega verið í nánast fullu starfi við að vera atvinnulaus - fara inn á netið á hverjum degi, leita að störfum á hinum og þessum síðum, skrá mig inn á vinnumiðlanir á netinu og sækja um hin ýmsu störf - allt frá ræstingum upp í launafulltrúa.  Og allt tekur þetta nú aðeins lengri tíma en annars þegar maður er að bögglast við þetta á sænsku, einkum og sér í lagi að skrifa atvinnuumsóknir og starfsferilskrár!

Það að þurfa að gera allt á tungumáli sem maður hefur ekki fullkomið vald á, hefur kannski læknað mig pínulítið af fullkomnunaráráttunni...pínulítið...í bili a.m.k. þangað til ég verð búin að ná fullkomnu valdi á sænskunni - sem ég ætla mér að sjálfsögðu að gera!

Ég sá plakat niðri í bæ um daginn þar sem var yfirlit yfir hversu mikil þörf væri fyrir fólk í hin ýmsu störf hér í léninu (sýslunni).  Þá sá ég að það er einmitt offramboð á fólki í þau störf sem ég hef verið að sækja um, en skortur t.d. á múrurum, röntgentæknum og flugfreyjum.  Hm, ég verð að fara að endurmennta migUndecided

Á fimmtudaginn var loksins hringt í mig og ég boðuð í ATVINNUVIÐTAL W00t  Ég hafði sótt um sölustarf hjá fyrirtæki sem selur míkrófíber hreingernigarklúta o.fl.  Svona voða umhverfisvænar vörur.  Þó að ég hafi ekki verið sérlega spennt fyrir svona sölumennsku sá ég nokkra kosti í þessu starfi, m.a. föst tímalaun auk prósentum af sölu, svo ég sló til.  Konan sem hringdi í mig var ekki viss um að ég gæti sinnt þessu starfi vegna skorts á tungumálakunnáttu en sagði mér samt að koma.

Í gær ók ég síðan 55 km leið í nærliggjandi bæ og hitti þar eiganda fyrirtækisins, hinn danska Søren Sørensen, vingjarnlegan eldri mann.  Ég veit ekki hvort það var af því að ég er Íslendingur eða bara svona heillandi og sannfærandi, en hann sagði að ég skyldi búast við því að verða boðuð í annað viðtal á föstudaginn.  Það verða semsagt 2-4 af 50 sem sóttu um sem fá vinnu hjá þeim!  Svo nú bíð ég bara eftir símhringingu!

Það eru líka mjög góðar líkur á að ég geti fengið vinnu sem afleysingakennari i ensku og þýsku í gaggó!  Hér er mikið af fólki sem starfar við afleysingar hjá bæjarfélaginu, í skólum og leikskólum, bæði við kennslu, daggæslu, í eldhúsi og ræstingum.  Ég var aldrei búin að sækja um þetta vegna þess að mér fannst ómögulegt að fara að borga fyrir heilsdagsgæslu fyrir Diljá á leikskólanum ef ég væri svo bara að vinna nokkra daga í mánuði.  Svo var mér nú bent á að spyrjast fyrir á leikskólanum, því að hér væri svo mikill sveigjanleiki.  Og komst að því að SÆNSKA LEIKSKÓLAKERFIÐ ER BARA SNILLD!!

Þó að Diljá sé núna á leikskólanum 3 tíma á dag fyrir hádegi, þá á hún fullt pláss!  Það er ekkert hálft pláss til hér og enginn annar sem fyllir í hennar myndarlega skarð eftir hádegið.  Þannig að ef hringt er í mig að morgni og ég beðin um að leysa af í kennslu frá 9-16, þá er Diljá bara á leikskólanum þann daginn frá 9-16!  Ekkert mál - ekkert vesen og ekkert verið að trufla starfsemina á leikskólanum, eins og maður gæti búist við að yrði sagt heima á Íslandi.  Hér er allt miðað við þarfir barnsins og foreldra þess.  Og svo borgar maður bara fyrir þann tíma sem maður nýtir á leikskólanum.

Nú þarf ég bara að ganga frá umsókn um afleysingakennslu, fá sakavottorð o.þ.h. og svo er bara að setja í gang.  Bæjarfélagið hér hefur t.d. ENGAN afleysingakennara í þýsku, en hér byrja krakkarnir að læra þýsku í 7. eða 8. bekk, þannig að ég ætti að geta fengið eitthvað að gera.

Annars eru allir hressir, hér er smá snjór og frost núna og stelpunum leiðist það nú ekki!  Þær eru komnar á fullt í sína rútínu og njóta lífsins.  Óli er orðinn fastráðinn hjá Ottosson Bygg og líkar alltaf betur og betur - er líka orðinn ansi sleipur í sænskunni svo að þetta fer bara batnandi dag frá degi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband