ALLT UM ÓLA

2005-2006 016Hann Óli minn hefur eitthvað verið að kvarta við mig um að ég skrifi ekkert um hann á blogginu.  Sjálfur er hann ekki mikið fyrir skriftir, sem er synd því að eins og menn vita er hann húmoristi hinn mesti.

Nú - Óli unir glaður við sitt hjá sem múrari hjá Ottosson.  Eftir 6 mánaða reynslutíma fékk hann fastráðningu nú um áramótin sem er mjög mikilvægt hér í Svíþjóð.  Hann er ráðinn sem ,,betongarbetare" - sem sagt steypumaður, sá eini sinnar tegundar hjá fyrirtækinu sem gerir hann nánast ómissandi!  Það hafa ekki allir verið svo heppnir að fá fastráðningu eftir reynslutímann því að fyrirtækið gerir miklar kröfur til starfsmanna sinna.  Eins og við vitum er Óli hraustur maður og vílar ekkert fyrir sér.  Vinnufélagar hans eru alveg undrandi á því hvað hann er sterkur og kuldaþolinn, en hann fer helst ekki í utanyfirflíkur nema hitastigið nálgist alkul!

Óli var á sænskunámskeiði fyrir jól en ætlar að hvíla sig á því núna á vorönninni.  Honum fer hins vegar mikið fram, að sögn vinnufélaga hans sem hafa sett sér það markmið að útrýma orðunum ,,sko, já, ha" og ,,heyrðu" úr hans sænskuorðaforða.

Nú á líka að einbeita sér að tónlistinni.  Vinkona hennar Sesselju á pabba sem vinnur í Músikhúsinu hér í Växjö.  Þetta er nokkurs konar tónlistarfélagsheimili á vegum bæjarfélagsins.  Þar fer m.a. fram slagverkskennsla tónlistarskólanna, þar eru haldnir smærri tónleikar í hverri viku, þar eru tvö stúdíó (hljóðver) og þangað geta tónlistarmenn á öllum aldri komið til að æfa sig að spila.  Það eru fleiri, fleiri herbergi, innréttuð með hljóðfærum, og þar er hægt að leigja sér æfingatíma.  Auk þess eru nokkur herbergi í kjallara hússins sem hljómsveitir hafa á leigu og eru þá með sínar eigin græjur þar.  Þetta er semsagt mjög lifandi hús og þangað hefur Óli farið a.m.k. einu sinni í viku upp á síðkastið og er búinn að koma sér í kynni við aðra hljóðfæraleikara sem geta hugsanlega hjálpað honum að komast í einhverja danshljómsveit.

Annað er nú ekkert sérstakt að frétta af honum.  Honum, og okkur öllum, finnst auðvitað rosalega mikill munur að hann skuli vera kominn heim upp úr klukkan fjögur alla daga og geti verið með okkur allar helgar!!  Hann er miklu afslappaðri en áður og sýnir sínar rómantísku hliðar - farinn að kveikja á kertum eins og Stebbi Hilmars!  (Já, já Óli minn - þú vildir að ég skrifaði um þig svo að þú verður að þola skjallið!).  Það eru þó ennþá fastir liðir eins og venjulega að Óli sofni í sófanum yfir sjónvarpinu en hann er nú líka byrjaður að vinna klukkan 7 á morgnana.  Sem minn betri og ómissandi helmingur gætir hann þess síðan vandlega, eins og venjulega, að sveimhuginn ég sé með fæturna á jörðinni og er það oft ærið viðfangsefni. 

Við njótum okkar öll miklu betur nú og þó að það sé auðvitað fáránlegt að við skyldum þurfa að flytja úr landi til þess, er engin eftirsjá yfir því í okkar hugum.

Óli segir: ZZZZZzzzz


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Já hann Óli minn er æði pæði, ég veit það manna best. Hann var svo góður við mig þegar ég eyddi sumrunum á Höfn. Á hverjum föstudegi þegar hann fékk útborgað hjá fiskvinnslunni, þá kom hann heim í hádeginu og hjólaði með mig útí sjoppu þar sem hann keypti fyrir mig súkkulaði sjeik og M&M´s. Þetta var uppáhaldið hjá mér og auðvitað líka þegar hann fór með mig á rúntinn með Geira í fararbroddi. Þetta eru mínar yngstu minningar af honum, en ég man nú líka eftir því þegar við vorum niðri í Haga og hann var að æfa karate á mér, og kastaði mér oft yfir öxl eins og ég væri einhver vondur kall í Bruce Lee mynd. Svo æfði ég líka með honum fyrir karate hlaupið frá Höfn til Reykjavíkur til styrktar karate félaginu. Þá hljóp hann berfættur ásamt öðrum og ég var sko úti að labba með honum á hörðu steinunum áður en hlaupið fræga gerðist. Það vill svo vera að enn þann dag í dag get ég labbað á steinum án þess að finna voða mikið fyrir því, allt Óla Kalla að þakka. Mikið er ég nú samt ánægð að fá að lesa smá pistil um hann Óla minn, það er gott að sjá að rómantíska hliðin á honum fær að skína í Svíþjóð og enn ánægjulegra að sjá hann slaka aðeins á og ekki bara vera að vinna alltaf. Þetta er gott mál að þið eruð happy í Sverige og ég segi bara njótið þess.... Ykkar litla frænka í Kaliforníu

Bertha Sigmundsdóttir, 30.1.2007 kl. 22:31

2 Smámynd: Guðlaug Úlfarsdóttir

Æ, hvað það er gott að þið njótið þess vel að vera í Svíþjóð og hafið náð að kúpla ykkur frá öllu stressinu.  En það er eins og þú sagðir óttalega fáránlegt að þurfa að flytja úr landi til þess.

Bestu kveðjur til Óla frá okkur hérna

Guðlaug Úlfarsdóttir, 31.1.2007 kl. 15:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband