VETUR Í BÆ OG HRUKKUKREM

Jæja, veturinn kom hér í Svíþjóð, seint og um síðir með öllu því sem honum fylgir.  Sesselja, Diljá og ég fengum okkar skammt af kvefi og hálsbólgu og nú er ég að narta í afganginn af tælenska matnum sem við keyptum okkur á menningarnótt, en var alltof sterkur fyrir mig að innbyrða þá.  Hann kemur sér hins vegar vel núna til að rífa úr mér kvefið!

Það byrjaði að snjóa fyrir rúmlega viku síðan og síðan er búið að vera hér svona ,,jólakortaveður".  Hvítt yfir öllu og svolítið frost en heiðskírt og bjart.  Svona eins og veturnir eru í endurminningunni frá því að maður var krakki í Austurbænum og seinna í Breiðholtinu.  Þá gat maður farið út á snjóþotu og skauta dag eftir dag og þegar maður kom inn beið manns heitt kakó og smurt brauð hjá mömmu.

Hugsið ykkur hvað veðráttan hefur breyst ógnvænlega mikið á stuttum tíma.  Við verðum í alvörunni að fara að hugsa meira um þetta.  Ég er nú ekki SVO gömul!!  Og þó...  Ég áttaði mig allt í einu á því um daginn þar sem ég stóð og dáðist að sjálfri mér í speglinum (eins og þið vitið að ég geri gjarnan) að ég verð FERTUG á næsta ári.  Úff...  Og það rifjaðist upp fyrir mér að það er ótrúlega stutt síðan kona í fjölskyldunni varð fertug og fékk þessa fínu gjafakörfu í afmælisgjöf, fulla af HRUKKUKREMUM, eða eins og konan í snyrtivörubúðinni sagði - ,,krem fyrir húð á þessum aldri".  Mér fannst þetta fyndið orðalag þá en skil þetta miklu betur í dag!  Hvort ég þarf að fara að nota hrukkukrem á næsta ári veit ég ekki, en ef svo er þá er alveg víst að húðin á mér verður orðin mun eldri en mitt eigið sjálf sem er ekki deginum eldra en þrjátíu og tveggja!

Ég las það einhvers staðar um daginn að það væri miklu erfiðara fyrir konur að verða þrítugar en fertugar því að þegar þær fylltu þriðja tuginn væru þær enn að skapa sér framtíð og ekki orðnar eins fastar í sessi og öruggar með sig og um fertugt.  Ég held að það sé mikið til í þessu þvi að ég man hvað mér leið hrikalega illa þegar ég varð þrítug.  Ég gat ekki sagt aldur minn upphátt í heila viku á eftir - í alvöru!  Fannst einhvern veginn að ég ætti að vera búin að afreka miku meira en ég var búin að gera þá.  En svo lagaðist þetta.  Ég kvíði ekkert fyrir fertugsafmælinu.  Ég veit að það skellur á fyrr en varir!  Vona bara að sem flestir vinir og ættingjar skrifi ,,sumarfrí í Smálöndunum 2008" inn í dagbókina sína og við höldum heljarinnar veislu í blíðunni hér!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðlaug Úlfarsdóttir

Ég kannast við þetta fannst sko ekkert mál að verða fertug, reyndar ekki þrítug heldur.  Erfiðasti afmælisdagurinn minn af einhverjum ástæðum var 27.  Hversvegna hef ég ekki hugmynd um.

Bestu kveðjur úr þýðunni og rigningunni.

Guðlaug Úlfarsdóttir, 30.1.2007 kl. 15:46

2 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Þú hefur bara verið svona bráðþroska, Gulla mín!  Tekið þrjátíu ára+ þroskann út milli 27. og 28. afmælisdagsins!  Þetta er alveg augljóst.

Aðalheiður Haraldsdóttir, 30.1.2007 kl. 15:54

3 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Já elsku Heiða mín, ég veit hvaða kona þetta var sem fékk þetta dásamlega hrukkukrem í afmælisgjöf, ég verð að muna að spyrja hana hvort það hafi virkað... Annars veit ég ekki ennþá hvernig mér mun líða yfir því að verða fertug, er enn að reyna að venjast því að ég er þrjátíu og eitthvað. Það tók mig næstum því ár að geta sagt upphátt að ég væri þrítug, þannig að ég veit alveg hvað þú átt við. Annars finnst mér erfitt að trúa því að þú sért eitthvað að nálgast fertugsafmælið, þú verður alltaf uppáhaldsfrænkan mín, og í mínum huga verðurðu aldrei eldri en 25. Ég er sko alveg til í að skreppa til þín næsta sumar, sérstaklega ef ég veit að þú ert að halda hana...Sjáumst samt í sumar fyrst og þá verðurðu bara 39, don´t worry, be happy

Bertha Sigmundsdóttir, 30.1.2007 kl. 17:16

4 Smámynd: Svava Bjarnadóttir

Heiða mín það er miklu betra að verða 40 ára en 30 ára Bestu kveðjur frá DK 

Svava Bjarnadóttir , 30.1.2007 kl. 21:24

5 Smámynd: Aðalheiður Haraldsdóttir

Vá - rosalega er ég farin að hlakka mikið til!!

Aðalheiður Haraldsdóttir, 30.1.2007 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband