ÆVINTÝRALESTIN - VINNA Í HÖFN!

Þá er það opinbert...ÉG ER KOMIN MEÐ VINNU!!! Grin W00t Cool

Reyndar er aðeins um hlutastarf að ræða en vinna er það samt!!  Ég var boðuð í annað viðtal í gær, alla leið til Jönköping, og þar fékk ég allar upplýsingar um fyrirtækið og vörurnar sem á að selja.  Kynningin tók 4 tíma og eftir það var spurningin bara hvort ég væri til í þetta - og djobbið var mitt!!

Um er að ræða sölustarf, bæði heimakynningar hjá einstaklingum en ekki síður sölu til fyrirtækja og stofnana, á umhverfisvænum hreingerningavörum, míkrófíber klútum og fleiru. Fyrirtækið heitir TSG biomiljö - www.tsgbiomiljo.se - kíkið endilega á síðuna.  Ég veit að margir heima kannast við míkrófíber tuskurnar en þessar eiga auðvitað að vera bestar - og með þeim er hægt að þrífa nánast allt með því að nota bara kalt vatn!  Engin sápuefni og þar með menga menn ekki náttúruna.

Það sem er hins vegar nýjung hjá þeim, eru hreingerningarefnin - því að sums staðar verður jú að nota einhverjar sápur, t.d. í matvælaiðnaði, á sjúkrahúsum o.þ.h.  Einhver spurði sig þeirrar spurningar hverníg náttúran færi að því að halda sér hreinni og hvort ekki væri hægt að læra eitthvað af henni.  Jú, það eru örverur sem halda náttúrunni hreinni og breyta lífrænum úrgangi í jarðveg, eins og við vitum.  Nú hefur dönskum vísindamönnum tekist að tappa þessum örverum á flöskur og búa til heimsins besta og skaðlausasta hreingerningarefni.  Örverurnar ráðast einfaldlega á skítinn og éta hann og þegar öll óhreinindi eru horfin, deyja þær.  Engin skaðleg efni fara út í náttúruna og allt er skínandi hreint!  Ég á örugglega eftir að segja ykkur meira af þessu.

En ferðin til Jönköping var nú heilt ævintýri út af fyrir sig!  Þetta eru nú ekki nema um 100 km en ég ákvað að taka lest því að mér fannst ekkert spennandi að keyra þetta ein þar sem það er nú loksins kominn vetur hér.  Ég keypti mér lestarmiða og þurfti að skipta tvisvar um lest á leiðinni og átti ferðin að taka tæpa 2 tíma.

Fyrsti hluti leiðarinnar var nú bara 10 mínútna ferð til næsta bæjar, Alvesta, og gekk samkvæmt áætlun.  Þegar þangað kom fékk ég hins vegar að vita að lestin sem ég átti að skipta yfir í þar, væri a.m.k. hálftíma á eftir áætlun og þegar upp var staðið var biðin 1 klukkutími!  Á næsta áfangastað, Nässjö, voru engar lestir þar sem lestarsporið þaðan var rafmagnslaust.  Þar biðu hins vegar rútur til að flytja farþega til næstu lestarstöðvar og þar átti ég að ná lest til Jönköping.  Í sömu andrá og rútan renndi upp að pínulítill lestarstöð í bæ sem ég man ekki hvað heitir, sáum við á eftir lestinni þar sem hún rann út af lestarstöðinni.  Þar með var 45 mínútna bið eftir næstu lest.  Ég kom semsagt til Jönköping næstum tveimur tímum á eftir áætlun, en þar sem ég hafði verið tímanlega í upphafi var ég bara rúmum hálftíma of sein á fundinn.

Heimleiðin var lítið skárri.  Það var reyndar komið rafmagn á sporið til Nässjö svo að ég losnaði við rútuferð, en vegna snjós á lestarsporinu þurfti að skipta um spor - fara áfram, bakka svo inn á nýtt spor, svo aftur áfram - og tók svona skipting næstum því hálftíma.  Á lestarstöðinni þurfti líka að hlaupa á milli brautarpalla á síðustu mínútu þar sem lestin hafði þurft að skipta um spor - upp rúllustiga - yfir brú - niður rúllustiga - og svo aftur til baka!  Þegar ljóst var að ég þyrfti að bíða í 45 mínútur í Alvesta til að komast síðustu 10 mínútur leiðarinnar, hringdi ég í Óla og hann sótti mig til Alvesta.

Ég hafði gaman af því að fylgjast með samferðafólki mínu í þessum "hremmingum".  Flestir voru rólegir og yfirvegaðir en það er alltaf þessi eini sem lætur eins og himinn og jörð séu að farast því að hann sé mikilvægasta persóna í heimi!  Heimtar að fá að fara fram fyrir aðra í röðinni í miðasölunni og vill að járnbrautarfélagið borgi leigubíl fyrir hann.  Honum tókst ekki að slá afgreiðslumanninn, sem greinilega var gamall í hettunni, út af laginu og þurfti, takk fyrir, að bíða eins og aðrir.  Eyddi öllum tímanum í gemsanum og býsnaðist yfir öllu saman.

Í lestinni heim milli Jönköping og Nässjö leið mér svolítið eins og í Agöthu Christie sögu.  Sat í pínulitlum klefa ásamt sex öðrum ferðalöngum sem allir voru eins og klipptir út úr svona sögu þar sem ókunnar manneskjur lenda saman í óvæntum aðstæðum.  Steríótýpur - reyndar komnar nokkrar nýjar síðan í sögum Agöthu.

Á móti mér sat þögla týpan, unglingsstúlkan sem starði tómum augum fram undan stórri húfu allan tímann og forðaðist að horfa á hina í vagninum.  Ekkert nema skinn og bein, sjálfstraustið minna en ekkert - örugglega með anorexíu!

Við hliðina á mér var algjör andstæða hennar, önnur unglingsstúlka, með göt og lokka hér og þar í andlitinu, tuggði tyggjó og spurði stöðugra spurninga: - ,,Af hverju erum við að bakka núna?  Hvað er klukkan?  Af hverju förum við ekki af stað?  Hvenær eigum við að vera komin?  Hvað er klukkan?  Hvað erum við orðin mörgum mínútum of sein?  Hvað sagði lestarstjórinn núna?  Ha, er næsta lest sem ég þarf að taka líka of sein?  Hvað er klukkan?"  - Hefði klefinn verið stærri hefði hún ætt fram og aftur og reykt sígarettuna sína, sem hún fitlaði stöðugt við.  Örugglega ofvirk!

Við hlið þeirrar þöglu sat þessi klassíski, feitlagni og glaðlyndi náungi sem spjallar við alla!  Hann var nú bara á leiðinni heim til Nässjö og þurfti ekki að hafa áhyggjur af að ná annarri lest en svaraði öllum spurningum þeirrar ofvirku með bros á vör, eins og til að róa hana.  Vissi sko allt um lestirnar!  Dálítið smámæltur.

Við hlið hans var svo bissness maðurinn.  Þreyttur eftir langt ferðalag sem var hvergi nærri á enda.  Svo þreyttur að hann hallaðist annað slagið fram á skjalatöskuna sína og hraut.  Ég hélt að hann myndi missa blómvöndinn sem hann ætlaði sjálfsagt að færa konunni (eða viðhaldinu) eftir langa fjarveru, en það gerðist ekki.  Þegar hann rumskaði lofaði sá feitlagni að vekja hann þegar við kæmum til Nässjö svo að hann næði næstu lest.

Ungi strákurinn reyndi að láta sem hann tæki ekki eftir því að hrjótandi bissnessmaðurinn hallaðist óþægilega mikið í átt til hans.  Hann horfði út um gluggann með iPod spilarann í eyrunum og sendi annað slagið SMS skilaboð út í fjarskann.  Helst hefði hann þó vilja senda skilaboð til huggulegu ljóskunnar sem sat á móti honum og lét eins og þessi heimur kæmi henni ekki við.

Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst hefði lestarferðin staðið lengur?  Hvaða óvænta atvik hefði átt sér stað?  Hvaða leyndardómar hefðu komið upp á yfirborðið?  Áður óþekkt tengsl milli persónanna?  Og hver hefði leyst gátuna?  Kannski útlenska kennslukonan, þessi rólega og yfirvegaða sem lét ekkert setja sig úr jafnvægi?

Njah!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Hjartanlega til hamingju með djobbið Þessi pistill um lestarferðina er æðislegur hjá þér, ég sé þetta sko alveg fyrir mér, ég er alveg viss um að þú hefðir verið sú sem leysti morðið. Ég var bara að spá í hver af þessu fólki yrði nú myrt, kannski business maðurinn sem hraut svo hátt að hann tryllti einhvern. Eða ljóskan sem var alltaf að blása kúlur með tyggjóinu og tryllti það einhvern. Eða anorexíu stelpan sem horfði ekki á neinn, auðvitað gæti það tryllt einhvern. Hvert sem fórnarlambið er, þá trúi ég því að þú myndir leysa ráðgátuna.

Til hamingju aftur með vinnuna, æðislegt að heyra þetta, og ég hlakka til að sjá fleiri ævintýrasögur hér hjá þér, þú ert æði pæði, ég sakna ykkar allra og get ekki beðið eftir að sjá ykkur í sumar......

Bertha

Bertha Sigmundsdóttir, 28.1.2007 kl. 06:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband