PÍTSA EÐA PIZZA...

Nei, þetta er ekki fyrirlestur um íslenskt mál þó að það standi mér nærri.  Mér finnast bara pizzurnar hérna í Svíþjóð svo fyndnar (hvernig í ósköpunum geta pizzur verið fyndnar?)  Maður hélt alltaf að pizzur væru bara pizzur.  Nánast staðlaðar eins og McDonalds og úr því að þær væru nú upprunnar á Ítalíu væru pizzurnar þar eins og pizzurnar hér og alls staðar annars staðar í heiminum.  En auðvitað er það ekki svo.  Hér eru pizzastaðir liggur við á öðru hverju götuhorni en ég hef ekki ennþá komið inn á pizzastað hér í Svíþjóð þar sem vinna Svíar (ja, nema Pizza Hut í Stokkhólmi).  Hér eru pizzubotnarnir þynnri en heima en annars eru sænsku pizzurnar almennt mjög góðar.  Áleggin eru hins vegar öðruvísi en við eigum að venjast.  Til dæmis er ekki hægt að fá pepperone-pizzu hérUndecided  Bara með einhvers konar spægipylsuSick  Og það sem kallast pfeferone (eða e-ð svoleiðis) hér og menn gætu tekið í misgripum fyrir SS-pepperone, er niðursoðinn, grænn piparávöxtur - rótsterkurW00t en góður!  Hann er t.d. alltaf settur á Kebab-pizzur, ásamt gjarnan lauk og kebabsósu eða bearnaisesósu, sem er algeng á pizzum hérShocking  Skrítnasta pizza sem ég hef fengið hér (ég lét Maríu systur um að panta og sagðist vera til í hvað sem er) var með:  skinku, svínalund, lauk, banönum, bearnaisesósu og salthnetumLoL  Hún var bara mjög góð og núna er uppáhaldspizzan mín með skinku eða kjúklingi, ananas, banönum og karrý eða bearnaisesósu!!  Já, alltaf lærir maður eitthvað nýtt.  Ég ætla hins vegar ekkert að vera að svekkja ykkur á því að tala um verðið eða nudda ykkur upp úr því að hér fái maður 4 pizzur fyrir minna verð en 2 heima.  Það væri bara kvikyndislegt af mérDevil 


VEÐURFRÆÐI?

Mikið rosalega er hollt að vera útlendingur!  Ég mæli með því fyrir alla að prófa það - og þá meina ég auðvitað ekki í þrjár vikur á Spáni.  Það víkkar sjóndeildarhringinn, styrkir fjölskylduböndin og eykur sjálfstæðið.  Maður finnur alveg nýjar víddir hjá sjálfum sér!

Í fyrstu er maður auðvitað oft að bera saman ,,gamla landið" og ,,nýja landið" og þá líður manni stundum eins og maður hafi skriðið úr eigin skinni.  Hér upplifir maður allt í einu smæð landsins síns á alla kanta.  ,,Ísland - best í heimi!" - gildir ekki hér og svei mér þá ef önnur lönd geta ekki verið að minnsta kosti jafngóð!  Hér býr líka gott fólk, hér er líka falleg náttúra - bara öðruvísi, hér er líka til fullt af góðum mat - bara öðruvísi og hér er líka auðugt menningarlíf - bara öðruvísi.

En hér er veðrið hins vegar miklu, miklu betra Cool - hvort sem er sumar, vetur, vor eða haust.  Því bara verður ekki neitað.  Og eftir rúmlega 8 mánaða búsetu hér í Svíaríki er ég komin á þá skoðun að veðurfar hafi miklu meiri áhrif á daglegt líf okkar en bara það hvort við klæðum okkur í stuttermabol eða heimskautagalla.  Ég held að veðrið hafi mikil áhrif á allt okkar atferli og jafnvel mataræði.  Sjáum nú til...

Er hugsanlegt að hraðinn, flýtirin og stressið í okkur Íslendingum sé tilkominn vegna þess að við erum svo vön því að vera alltaf að reyna að drífa okkur inn úr kuldanum og rokinu?  Vex ekki afslöppun fólks í réttu hlutfalli við hlýrra veðurfar?  Ég hef t.d. heyrt að í Ástralíu sé fólk svo afslappað að það mæti jafnvel með börnin í náttfötunum á leikskólann ef því sýnist svo!  Við löbbum jú óneitanlega hægar niður Laugaveginn í sól og sumaryl en norðangaddi og hífandi roki.

Og svo er það maturinn.  Sykur, sykur og aftur sykur!  Ég veit fyrir víst að bæði Svíum og Þjóðverjum þykir íslenskur matur alveg skelfilega sætur.  Ég var t.d. með Svía í mat um daginn og þorði ekki fyrir mitt litla líf að setja sykur í kartöflumúsina.  Það finnst þeim alveg hræðilegt.  Ég held að við sækjum meira í sykur því að það fer meiri orka í að halda á sér hita í okkar kalda landi.  Nammigrísamælirinn minn varð t.d. nánast óvirkur síðasta sumar.  Maður missir alla löngun í nammi í hitanum fyrir utan það auðvitað að maður stingur ekki súkkulaðistykki niður í handtöskuna sína nema einu sinni Whistling

Ætli þetta hafi eitthvað verið rannsakað?  Kannski það sé til einhver hliðargrein út frá veðurfræði sem fjallar um þetta - einhvers konar veðuratferlisfræði?


HÚN Á AFMÆLI Í DAG...!

Sem minnir mig á að ég er búin að vera mamma í 14 ár!  Ótrúlegt - ekki finnst mér að það sé svona langt síðan.

Þegar afmælisbarnið kom heim úr skólanum með Jenny, bestu vinkonu sinni, beið afmæliskaffi, skúffukaka og hvítlaukshorn (skyldubakstur mömmunnar á afmælisdögum frumburðarins síðustu árin!)  Vinkonur hennar Sesselju voru svo heppnar að vera líka í heimsókn og allt hvarf þetta fljótt og örugglega af diskunum.  Diljá lét heldur ekki sitt eftir liggja!

Nú, svo skelltu Rebekka og Jenny sér í keilu og keyptu sér svo pizzu á eftir.  Afmælispakkinn frá Fákaleirufjölskyldunum vakti MEIRIHÁTTAR mikla lukku!  Og ég efast ekki um að afmælisbarnið sé búið að stinga íslenska namminu á leynistaðinn sinn svo að sumir (nefni engin nöfn) laumist ekki í það!  Svo var mikið hlegið, spilað á gítar og sungið.  Svo mikið að stúlkurnar voru úrvinda á eftir og háttaðar um tíuleytið!  (Jenny gisti sko).  Þetta eru sko engir venjulegir unglingar!  Hins vegar var hinn unglingurinn á heimilinu (þessi 8 ára) frekar óhress með að þurfa að fara að sofa klukkan 21, var búin að dressa sig upp, punta og varalita og syngja og dansa mikið við Jesus Christ Superstar og vildi fara að horfa á mynd!  Já, þetta er yndislegt líf!

Takk fyrir allar kveðjurnar, hringingarnar og sendingarnar til afmælisbarnsins!


SPOR Í SNJÓNUM...

Diljá gerði stórkostlega uppgötvun í gær sem varð til þess að við ætluðum aldrei að komast heim til okkar frá því að sækja hana á leikskólann.  Þegar við komum út úr bílnum heima benti ég henni á hvað fótsporin eftir nýju kuldaskóna hennar væru flott í nýföllnum snjónum.  Þetta var nú eitthvað alveg nýtt og stórmerkilegt!!  Fyrst starði hún lengi á fótsporin sín.  Svo stappaði hún niður fætinum en var smástund að fatta að svo þyrfti hún að lyfta honum aftur til að geta séð fótsporið sitt.  Og leiðin heim frá bílastæðinu var löng.....  Hún gekk ýmist afturábak eða áfram, hún gekk í hringi og sveiga og skoðaði sporin sín gaumgæfilega.  Öll.

Ég elska svona augnablik!  Þegar barnið uppgötvar eitthvað nýtt og stórkostlegt í einföldustu hlutum í kringum sig.  Og svo flytja þessi augnablik mann líka aftur í tímann og maður er sjálfur orðinn barn sem nýtur fegurðarinnar sem felst í spori í snjónum...

Það fyndnasta er að ég var ekki búin að segja neinum á heimilinu frá þessari uppgötvun Diljár.  En seinnipartinn þegar ég var að fara að skutla Rebekku á sundæfingu og var sest inn í bíl, skildi ég ekkert í því hvað hún var að drolla fyrir utan bílinn.  Hvað haldiði??  Hún var að leika sér að því að búa til fótspor í snjónum!  Svo settist hún inn í bíl og fór að rifja upp hvað henni og vinkonum hennar hefði alltaf þótt það skemmtilegt!

Kannist þið ekki líka við þetta?

Nú er ég að undirbúa afmælið hennar Rebekku.  Jenný vinkona hennar kemur með henni heim úr skólanum á morgun og ætlar að gista.  Þær eru að spá í að fara í keilu og fá sér kannski pizzu.  Svo verður afmæliskaffi á laugardaginn.  Best að halda áfram að baka!  Og elskurnar, þið megið alveg skrifa ,,kvitt, kvitt" annað slagið - það yljar okkur svo um hjartaræturnar!


GAUTABORG MEÐ MEIRU

Dagurinn var heldur betur tekinn snemma í gær.  Ég ræsti stelpurnar um sexleytið og klukkan 7 var haldið af stað til Gautaborgar!  Maria systir var að fara í viðtal þar vegna sumarvinnu og pabbi og Irene fóru með.  Við komumst öll í 7 manna Fordinn okkar - afar hentugt!

Ferðin gekk vel, við stoppuðum aðeins í Borås þar sem allir helstu vörulistar Svíþjóðar hafa bækistöðvar sínar og verslanir.

Svo var komið að því að berja augum næststærstu borg Svíþjóðar í fyrsta skipti.  Það var búið að segja mér að það væri leiðinlegt að keyra í Gautaborg en - jedúdda minn - ef Kópavogur er ,,Krókavogur" þá er Gautaborg ,,Grautarborg" þegar kemur að gatnakerfinu.  Einn stór HRÆRIGRAUTUR!!  Við ætluðum aldrei að finna bílastæði og svo eru allar merkingar svo lélegar að ég keyrði í marga hringi og gerði örugglega allt nema keyra á móti einstefnu!  Nei, nei - en ég lenti inn á akrein sem var bara fyrir sporvagna og ætlaði aldrei að komast inn á BÍLAakreinina við hliðina á því að kanturinn var svo hár.  Svo loksins þegar við fundum EINA lausa stæðið í miðborg Gautaborgar, var aðkoman að því svo þröng fyrir stóra bílinn minn, að það tók mig langan tíma að komast inn í það - og þá var varla hægt að komast út úr bílnum.

Þegar út var komið mætti okkur nístandi íslenskur kuldi sem smaug í gegnum merg og bein.  Allt öðruvísi kuldi en bæði hér í Växjö og í Stokkhólmi.  Svo við flýttum okkur að komast eitthvert inn og eyddum tímanum í Gautaborg í verslunum og á innimarkaði sem heitir Saluhallen - 78905644_bfa1d12810_msaluhallen_from_th_1_galleryfullminnir óljóst á Kolaportið, en eingöngu matvæli, mjög sérstakur og sérstök stemning.  En ég sá þó miðbæinn og keyrði eftir aðalgötunni, auk þess sem við keyrðum fram hjá Ullevi leikvanginum - bæði þeim nýja, sem er mjög flottur, og þeim gamla sem er verið að rífa.

460_0___30_0_0_0_0_0_p2180007

En það er gaman að hafa aðeins séð eitthvað af Gautaborg - við eigum örugglega eftir að heimsækja hana oftar.

Annars var ég að koma af kóræfingu - ákvað að skella mér í kirkjukórinn hér í hverfinu.  Hann gerir reyndar miklu meira en að syngja í messu og æfir alls kyns lög.  Í kvöld æfðum við t.d. bæði Vivaldi og reggí!  Það var gott að komast út og hitta nýtt fólk og allir tóku mjög vel á móti mér.  Eftir æfinguna var fika, þ.e. það sem við köllum að fá okkur kaffi og með því og það var ósköp notalegt.  Í apríl á síðan að fara í dagsferð til Öland og svo er aldrei að vita nema ég geti platað allt liðið til Íslands einn góðan veðurdag...


SPORTLOV

Jæja, þá er öðru sinni komið að vikufríi í skólanum hjá stelpunum,höstlov var í október og þessa vikuna er sportlov.  Eins og nafnið gefur til kynna nota þá margir tækifærið og iðka ýmiss konar sprikl með fjölskyldunni.  Við ætlum nú að fara rólega í allt slíkt en hins vegar ætlum við að taka einn dag í vikunni í að fara til Gautaborgar og síðan ætlar Sesselja að eyða heilum degi í Harry Potter búðum, þar sem ýmislegt skemmtilegt tengt Harry Potter verður á dagskrá.

Um helgina fengum við góða gesti, sænsk hjón sem komu í mat til okkar, en dóttir þeirra er með Sesselju í bekk.  Við buðum þeim upp á íslenskan ýsurétt og í eftirrétt voru íslenskar vatnsdeigsbollur og rann þetta allt saman afar ljúflega niður.

Svo styttist í afmælið hennar Rebekku og 12. mars kemur síðan þýski skiptineminn til okkar og verður hjá okkur í viku.  Þær Rebekka skrifast á núna en síðan mun Rebekka dvelja hjá henni í Þýskalandi í eina viku í maíbyrjun.

Svo styttist bara í vorið - svei mér þá....


FASTIR LIÐIR

Klukkan 21:00 í fyrrakvöld að staðartíma var komið að hálfgerðri helgistund hjá mér - eða ég ætti kannski frekar að kalla það ,,quality time" með sjálfri mér... og vinkonum mínum... aðþrengdu eiginkonunum!  Mér tókst FULLKOMLEGA að útiloka umhverfið og áður en ég vissi af hafði ég sogast INN Í sjónvarpið (sjá Hellisbúinn) , eins og karlmaður að horfa á heimsmeistarakeppnina í fótbolta, og var undir eins stödd á Bláregnsslóð þar sem hver hörmungin rak aðra í lífi vinkvennanna.

desperatehousewives

Ég veit ekki hvort meiningin sé að allar konur eigi að geta samsamað sig  einhverri af aðalpersónunum.  Sjálfsagt bregður einhverjum hluta af Edie, Susan, Lynette, Bree eða Gaby fyrir í okkur öllum.  Þær eru jú ekki heldur ALVEG fullkomnar.  Kannski er það þess vegna sem menn, eða a.m.k. konur, límast svona við skjáinn.  (Þeir karlmenn sem horfa á þáttinn gera það eflaust af öðrum hvötum).  Því að þrátt fyrir fegurð, frama og auðævi þurfa þær að glíma við sömu hversdagslegu vandamálin og togstreiturnar og ég og þú - (bara í miklu stærri og dramatískari skömmtum Wink) - og eiga í mesta basli við að höndla hamingjuna.  Hún er nefnilega ekki fylgihlutur með silfurhnífapörum, sportbílum eða stöðuhækkunum (sem á íslensku útleggst:  fellihýsum, fjallajeppum eða fiskveiðikvótum).  Ég held að það veiti mér kannski einhvers konar andlega fullnægingu að horfa á þessa þætti og geta sagt við sjálfa mig:  ,,Þrátt fyrir að ég eigi hvorki fellihýsi né flatskjásjónvarp og það sé þar að auki gat á öðrum sokknum mínum, er ég samt miklu hamingjusamari en þær Grin.

Gleymum ekki hvar við geymum hamingjuna!


ÉG ELSKA YKKUR ÖLL!!!

valentine%20hearts
Y
Í dag er Valentínusardagur eða ,,Alla hjärtans dag" eins og hann heitir hér.
Y
Það er svolítið gert úr þessum degi hér, blóm og hjörtu út um allt.
Y
Diljá bjó til Valentínusarkort á leikskólanum, með hjarta-kartöflustimpli.
Y
Í skólanum hjá Sesselju er lögð áhersla á vináttu þessa vikuna og í dag lituðu krakkarnir ýmsar ,,vináttumyndir".
Y
Hjá Rebekku voru hengd hjörtu á alla skápana.  Á hjartanu hennar Rebekku stóð:  ,,Du är värdefull" eða þú er mikilvæg.
Y
Annars gerum við nú ekkert úr þessu hérna heima, höldum bara í okkar gömlu og góðu bónda- og konudaga (þ.e. ef Óli man eftir honum!)
Y
En í tilefni dagsins vildi ég samt senda okkar HJARTANS kveðjur til allra ættingja og vina, nær og fjær!
YY

YYY

Y

MIG DREYMDI DRAUM...

Sem er ekkert nýtt.  En þetta hafði mig aldrei dreymt áður.  Mig dreymdi að við Óli vorum að flytja inn í einbýlishús og vorum stödd í stórri L-laga stofu.  Mér fannst að flutningamenn hefðu komið með dótið okkar að okkur fjarstöddum og þessi stóra stofa var full af sófum og stólum.  Þarna var leðurhornsófi, leðursófasett, annað gamalt ljótt tausófasett, alls kyns stólar og eitthvað fleira og við vorum að færa þetta til og reyna að koma þessu snyrtilega fyrir.

Þegar ég vaknaði fletti ég strax upp í Stóru draumráðningarbókinni sem Begga, Ella & co. gáfu mér í þrítugsafmælisgjöf og ég hef alltaf við rúmið mitt.  Þar las ég að húsgögn væru fyrir fjárgróða.  Nú - mig hefur aldrei fyrr dreymt svona haug af húsgögnum og aldrei grætt mikinn pening þannig að það má alltaf vona.  Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég tek ekki mark á þessu í algjörri blindni.  Sumt af því sem stendur í bókinni stemmir fyrir mig en annað alls ekki.  Það versta sem ég veit t.d. er að dreyma mannaskít - sem á að vera fyrir peningum...þið vitið.  Í mínu tilfelli hefur það hins vegar þveröfuga merkingu - þýðir einfaldlega að ég er í djúpum skít!  Mannsnafnið Haukur þýðir hins vegar að mér áskotnast einhver aur og einstaka sinnum hefur olíufurstanum á Höfn brugðið fyrir í draumum hjá mér fyrir góðar útborganir eða annað óvænt.

Nú er bara að bíða og sjá hvað setur.  Kannski tengist þetta nýja starfinu mínu.  Fyrsta umhverfiskynningin fór fram hér heima hjá mér á sunnudaginn.  Það kom leiðbeinandi frá TSG og hélt kynninguna til að sýna mér hvernig þetta færi fram, en ég fékk sölulaunin.  Ég bauð hingað nokkrum íslenskum konum, hafði reyndar bara hitt eina þeirra áður, og það var mjög gaman!  Diljá fékk líka leikfélaga því að það kom tveggja og hálfs árs gamall gutti með.  Kynningin gekk vel og salan var mjög góð.  Nú þarf ég bara að redda 8 kynningum í viðbót á næstu 8 vikum og er að vinna í því.  Eftir 8 heimakynningar fæ ég síðan frekari þjálfun og má þá fara að selja til fyrirtækja.  Svo er ég þegar búin að fá eina pöntun frá Íslandi svo að ef einhverjir eru forvitnir um þetta kíkið þá á www.tsgbiomiljo.se.

Annars var helgin viðburðarík.  Við fórum til Målilla eftir vinnu hjá Óla á föstudeginum og gistum fram á laugardag.  Slöppuðum af fram eftir degi meðan stelpurnar léku sér í snjónum úti í garði.  Irene bar í okkur mat og drykk eins og henni einni er lagið, kalkún, dádýrshakk í pottrétti - rosalega gott - og semlur.  Semlur eru sænskar rjómabollur með möndlufyllingu - algjört sælgæti - sem borðaðar eru á þessum árstíma.  Áður en við fórum heim fór síðan öll fjölskyldan á skauta á bandy-vellinum í Målilla.  (Bandy er svipað og íshokkí).  Diljá fannst svellið ,,rosalega hált" og var ekkert alltof ánægð, en það kemur.  Ég hef ekki farið á skauta í meira en 15 ár, gat það aldrei út af hnjánum á mér, og var vægast sagt stirð.  Nú er bara að vera duglegur að æfa sig!

Á laugardagskvöldinu þegar við komum heim kom Maria í heimsókn og þýska stelpan sem leigir hjá henni.  Maður fer að vera alveg ruglaður í  því hvaða tungumál maður á eiginlega að tala!  Við spiluðum Catan og spjölluðum um heima og geima.

Sunnudagurinn var síðan undirlagður undir kynninguna.  Ég bakaði fyrri partinn og síðan kom Carina, leiðbeinandinn, klukkan 15.  Kynningin var klukkan 17 og konurnar voru að fara heim milli 20 og 21.  Síðan kenndi Carina mér að gera pantanir á netinu og fór með mér í gegnum ýmsa pappíra og fór ekki fyrr en undir miðnætti.  Þá var ég komin með hausverk eins og alltaf þegar ég þarf að einbeita mér mjög lengi að því að hlusta og skilja allt sem fram fer á sænsku.  Úthaldið eykst samt alltaf og í dag er yfirleitt engin áreynsla í því að hlusta á útvarp eða sjónvarp.  Sesselja fór líka á skíði í fyrsta sinn á sunnudaginn, með Aneu vinkonu sinni og síðan gaf Anea henni gömlu skíðin sín - ekki lítil hamingja þar!

Alla næstu viku er síðan frí í skólunum, svokallað sportlov.  Þá ætlum við m.a. að fara með Mariu, pabba og Irene til Gautaborgar í einn dag.  Meira af því siðar...


EILÍF ÁST

Í faðmlögum í 5000 ár á Ítalíu Finnst ykkur þetta ekki fallegt?  Á www.mbl.is í dag er sagt frá fornleifafundi á Ítalíu þar sem þetta par hefur hvílt í faðmlögum í 5.000 ár InLove  Sönn ást Heart út yfir gröf og dauða!  Svolítið í anda Bjarna og Jónasar hér endur fyrir löngu.

Hjartnæmt - ekki satt?  Það finnst mér.

Hins vegar fór frétt www.mbl.is af öðru ástfangnu pari um daginn nett í taugarnar á mér.  Fyrirsögnin var:  ,,HOLMES LÝSIR HAMINGJU SINNI MEÐ CRUISE" og í kjölfarið fylgir nánari útlistun: 

„Mér finnst ég mjög heppin. Ég á eiginmann og barn sem ég dái, ég á starfsferil sem ég elska. Þegar ég sest niður og horfi til baka, hugsa ég: Vá. Ég hef margt til að þakka fyrir. Með Tom líður mér eins og fegurstu konu heims og mér hefur liðið þannig frá þeim degi sem ég hitti hann. Ég elska að vera með honum. Ég elska að kalla hann eiginmann minn."

Ég samgleðst henni innilega en...  Hallóóó!!!  HVER ER FRÉTTIN???  Hún er enn ástfangin af manninum sínum eftir 2ja mánaða hjónaband.  Og...???  Ég get sagt alveg það sama um hann Óla minn eftir 18 ára samveru - kikna enn í hnjánum og allt!!  Ætti það ekki að þykja frétt í dag á tímum skyndilausna á öllum sviðum ástarlífsins:  Blind skyndistefnumót (helst af öllu sjónvarpað) hafa komið í stað langvarandi óvissu og kvíða og  hnúts í maganum, skyndibitar í stað rómantískra kvöldverða (má samt sleppa og hoppa beint yfir í næsta lið - sem er) skyndiXXX (ja, þau hafa nú sjálfsagt alltaf verið til, svona meðfram skírlífinu) stundum með aðstoð skyndipillu og svo - púff!!...  Skyndilega er skyndikynnunum lokið og kominn tími til að snúa sér að öðru(m).

Nei - ég kýs heldur hina tegundina - þessa sem endist út yfir gröf og dauða.  Svo þori ég að veðja að Kaninn verður ekki seinn á sér að taka þessa fallegu mynd og koma henni fyrir á öllum mögulegum og ómögulegum hlutum - fyrir komandi Valentínusardag!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband