GLEÐILEGA PÁSKA!

 

 

 2015a

Gleðilega páska!

Kæru ættingjar og vinir.

Diljá og Sesselja vöknuðu um klukkan 8 í morgun og ræstu restina af fjölskyldunni svo að hægt væri að fara að leita að páskaeggjunum sem Unnur og Óli komu með frá Íslandi og við földum í gærkvöldi.  (Unglingurinn á heimilinu hefði nú alveg þegið að sofa lengur!)  Það var nú ekki svo lengi gert að finna öll fimm páskaeggin þó svo að yngri fjölskyldumeðlimum fyndist það taka óratíma!  Óli var sérstaklega naskur að finna sitt egg sem við höfðum falið á ,,þriðju hæð" íbúðarinnar, uppi á leikloftinu hjá Sesselju, inni í Baby Born fataskápnum.  Hann bara rann á lyktina!  Rebekka, aftur á móti, þáði hjálp frá Diljá við að finna sitt páskaegg sem var í dótakörfunni hennar Diljár.

Svo voru eggin opnuð og málshættirnir komu í ljós. Óli fékk:  Aumur er iðjulaus maður.  Alveg sérlega viðeigandi!  Minn var:  Sá einn veit sem reynir.  Rebekka fékk:  Margur á bágan dag en blítt kvöld.  Sesselju var:  Sér eignar smali fé þó engan eigi sauðinn. Og Diljár málsháttur hljóðaði svo:  Einhvern veginn slunginn sleppur.

Í dag ætlum við bara að njóta þess að slappa af, spila Matador og horfa saman á fjölskyldumynd.  Sjálfsagt verður farið með væntanlegt fermingarbarn í messu seinnipartinn og síðan borðum við hinn klassíska hamborgarahrygg í kvöld.

Ég held að páskarnir séu ekki svo ólíkir hér.  Oeasteregg_18_w800_1145086573kkur finnast Svíar skreyta mikið, m.a. með marglitum fjöðrum - mjög fallegt.  Páskaeggin þeirra eru svolítið öðruvísi en okkar, pappaegg í öllum stærðum og gerðum sem þeir fylla síðan af sælgæti.  Þeirra súkkulaðiegg eru örsmá og eru sett í stóra pappaeggið.

Vonandi eigið þið öll gleðilega páska!


KOSTA OG BODA

Við erum svo sannarlega búin að njóta þess að hafa Unni og Óla hjá okkur síðustu daga.  Fórum í skoðunarferð í bæinn og í gær fóru þau síðan í verslunarleiðangur.  Nú á eftir er ferðinni heitið í glerverksmiðjuna í Kosta, sem er um 45 km héðan.  Þar ætlum við að skoða hvernig glerið frá Kosta Boda er búið til, en þetta eru í rauninni tveir bæir - annar heitir Kosta og hinn Boda.

Á morgun ætlum við síðan að skoða hinn sögufræga kastala í Kalmar og taka með okkur nesti og snæða í hallargarðinum.  Vonum að veðrið á morgun verði eins fallegt og í dag...


BRANDARI

Þessi fylgdi með í launaumslaginu hans Óla í dag.

Ungur piltur kemur inn í apótekið og biður apótekarann um smokk.  Hann er frekar vandræðalegur og finnst að hann þurfi að gefa skýringu á innkaupunum.  ,,Kærastan mín bauð mér í kvöldmat og ég er viss um að ef allt gengur vel, munum við eyða nóttinni saman."  Áður en hann borgar ákveður hann að bæta einum smokki við og segir:  ,,Systir kærustunnar minnar daðrar stundum við mig.  Ég er viss um að hún er hrifin af mér svo að kannski hef ég heppnina með mér þar líka í kvöld."  Hann tekur upp veskið sitt og greiðir fyrir þrjá smokka um leið og hann útskýrir:  ,,Mamma kærustunnar minnar er ung og hugguleg.  Ég held að henni líki vel við mig og það er ekkert ólíklegt að ég eigi möguleika þar LÍKA."

Þegar allir sitja saman við kvöldverðarborðið um kvöldið er byrjað á því að fara með borðbæn.  Að henni lokinni taka allir upp hnífapörin sín nema ungi pilturinn sem heldur áfram að biðja.  Eftir drjúga stund ýtir kærastan við honum og segir:  ,,Ég vissi ekki að þú værir svona trúaður."  Þá svarar hann:  ,,Og ég vissi ekki að pabbi þinn væri apótekari...!!"


Í FRÉTTUM ER ÞETTA HELST...

Ég var að vinna í dag Smile  Það var hringt í mig seinnipartinn í gær og ég beðin um að taka að mér afleysingakennslu í þýsku í Kronobergskola.  Þetta er einkaskóli, í eigu rektorsins sjálfs, með 190 nemendur í 6. -9. bekk (sama og 7. -10. hér heima).  Ég sagði auðvitað ,,JÁ TAKK!" með það sama en var svolítið kvíðin yfir því hvernig mér gengi að kenna lengra komnum nemendum í þýsku.  Ég hef bara kennt byrjendum heima á Íslandi og það sem ég lærði á sínum tíma í MS er orðið ansi ryðgað.

En - skemmst er frá því að segja að þetta gekk allt mjög vel.  Hér velja krakkar sér annað erlent tungumál (þ.e. á eftir ensku) í 6. bekk og geta þá valið um þýsku, frönsku eða spænsku.  Ég kenndi í öllum bekkjum skólans og voru hóparnir frá 4 upp í 21 nemanda að stærð.  Þeim fannst auðvitað voða spennandi að ég kæmi frá Íslandi, spurðu um íslenska hestinn og hvernig í ósköpunum mér hefði dottið til hugar að flytja FRÁ Íslandi, þar væri svo miklu betra að búa en í Svíþjóð út af heita vatninu!  Nokkrir nemendur lærðu meira að segja ,,Ég heiti..." og ,,Bless"  Ég er mikið að spá í að skella mér í þýsku í háskólanum hér í haust - það kostar ekkert nema bækurnar svo það er um að gera að nota tækifærið meðan við erum hér.

Í gær fór ég á hádegistónleika í dómkirkjunni.  Rebekka var að spila með lúðrasveitinni og það var alveg magnaður hljómburðurinn í kirkjunni.  Þau spiluðu m.a. syrpu úr Evitu og kvikmyndatónlist.  Ég tók Diljá með mér og hún sat alveg dolfallin yfir þessu.  Á eftir var síðan hægt að fá sér súpu og smurt brauð í kirkjunni.  Það voru bara dúkuð nokkur borð aftan við kirkjubekkina, en kirkjan er jú nokkuð stór.

Nú er Sesselja að heiman.  Við skutluðum henni og bekkjarbræðrum hennar tveimur í skátakofa úti í sveit nú seinnipartinn þar sem þau verða fram á miðjan dag á morgun að æfa sig við hin ýmsu skátastörf.  Henni finnst rosalega gaman í skátunum og hlakkaði svo mikið til að hún var með fiðring í maganum í allan dag!

Nú fyrir stuttu fór Óli með hana á opið hús í Kulturskolan, sem er tónlistar-, myndlistar- og leiklistarskóli.  Hennar árgangi var boðið að koma og prófa ýmis hljóðfæri til að krakkarnir gætu ákveðið á hvaða hljóðfæri þeir vildu læra.  Hún prófaði gítar, hljómborð, fiðlu og trommur en þegar kom að horninu sagði hún strax:  ,,Ég vil læra á þetta!"  Hún náði strax tóni úr því og fannst það svo frábært.  Fram að þessu hafði hún ætlað að læra á fiðlu - (þegar hún var 5 ára dró pabbi hennar hana öskrandi og grenjandi út úr  hljóðfæraverslun í Reykjavík þvi að hann ,,vildi ekki kaupa litlu barnafiðluna handa henni!") - og síðan gítar þar sem hún ætlaði bæði að verða Idol-stjarna, syngja í Eurovision og vera eins og Hera.  Svo að þetta var eitthvað alveg nýtt.  Við sögðum henni að rokkarar spiluðu yfirleitt ekki á horn, en hún er alveg ákveðin og ekki ætla ég að fara að stjórna því á hvaða hljóðfæri börnin mín læra.

Á morgun og sunnudaginn er Rebekka síðan að keppa á sundmóti hér í bæ, sjálf þarf ég að vera á námskeiði í sölumennsku og á sunnudaginn fer Óli og sækir Unni og nafna sinn til Kaupmannahafnar.  Ég verð hér heima með stelpurnar þar sem Sesselja er að syngja í páskahelgileik í kirkjunni sem hún vill auðvitað alls ekki missa af.

Já - og þið sem þekkið hana Þórunni getið nú fylgst með henni blogga á ferðalagi sínu um heiminn - ég er búin að setja hana í bloggvini hjá mérWink


ÉG VIL GETA VAXIÐ EINS OG TRÉ...

...syngja perurnar í leikritinu Ávaxtakörfunni.  Sesselja mín vil nú bara geta vaxið eins og önnur börn en eins og þið flest vitið höfum við þurft að sprauta hana daglega með vaxtarhormóni í eitt ár.  Það hefur gengið mjög vel og fyrstu 9 mánuðina óx hún að meðaltali um 1 sm á mánuði.  Í fyrradag fór hún síðan í reglubundið eftirlit og í þetta sinn hittum við sérfræðing frá Lundi.  Árangur meðferðarinnar er ekki marktækur fyrr en eftir 1 ár þar sem öll börn sem byrja á vaxtarhormóninu vaxa mikið í byrjun en síðan finna þau yfirleitt sína kúrfu og fylgja henni.

Nú brá hins vegar svo við að Sesselja hefur nánast ekkert stækkað síðan í síðustu mælingu í janúar, eða aðeins um 0,1 sm.  Þetta kom öllum mjög á óvart og velta menn nú fyrir sér hverju þetta sæti.  Hvort síðasta mælinghafi verið ónákvæm, hvort eitthvað hafi komið fyrir lyfin og þau eyðilagst (þessi lyf eru mjög viðkvæm og hrikalega dýr!!) eða hvort hún sé einfaldlega hætt að svara meðferðinni, eins og stundum gerist.  Nú verður hún boðuð í blóðprufur og myndatöku og meðferðinni haldið áfram í 4 mánuði til að sjá hvort einhver breyting verði.

Áður en hún byrjaði  á sprautunum hægði sífellt meir á vextinum hjá henni og óljóst í hvað gæti stefnt.  Hún var rosalega glöð þegar hún fór að stækka en hún var þá búin að nota sömu fatastærð í 2 ár, sem er ekki vaninn þegar maður er 6-8 ára.  Síðustu mánuði hefur hún verið rosalega þreytt á sprautunum en bitið á jaxlinn og látið sig hafa það í þeirri trú að hún væri að stækka.  Nú verðum við bara að bíða og sjá hvað setur en hvernig sem fer getum við þó alltaf verið viss um að Sesselja sé og verði kná þótt hún sé smá!


HITT OG ÞETTA

Æ, það er búið að vera eitthvað svo mikið að gera síðan við komum heim frá London.  En þegar vinir mínir krefja mig um skrif, verð ég við óskum þeirra Wink

London er auðvitað æðisleg borg og ég mæli með því fyrir ALLA að heimsækja hana a.m.k. einu sinni á ævinni.  Ég hef einu sinni áður komið til London, það var í útskriftarferð í júní 1988 með mínum frábæru vinum Unni, Hönnu Dóru og Bjössa ásamt nokkrum fleirum góðum félögum.  Við vorum þar í 4 daga og þræddum listasöfn, leikhús og Oxford stræti, horfðum á lífvarðaskiptin við höllina og fórum í túristaferð með tveggja hæða strætó.  Þessi ferð hefur öll setið mér í fersku minni sl. 19 ár - alveg ógleymanleg (þar sem ég er nú búin að gleyma ansi miklu á þessum 19 árum)!

Óli hefur líka komið þangað einu sinni áður, í karateferð þegar hann var 16 ára.  Þeir strákarnir hlupu berfættir frá Höfn til Reykjavíkur og söfnuðu áheitum fyrir ferðinni.  Það fyrsta sem Sveinbjörn karateþjálfari gerði í London var að fara með hóp af testósteronhormónatrylltum unglingsstrákum í Soho-hverfið!  Spurning hvort svoleiðis nokkuð gæti ekki haft varanleg skaðleg áhrif á unga pilta, t.d. þannig að menn staðni árum saman í aldri?Whistling

Ég held að London hafi ekkert breyst.  Hún er lifandi, fræðandi, nærandi, hrífandi og spennandi!  Í þetta sinn nutum við þess að slappa af, sofa út, horfa ekki á klukkuna og borða góðan mat í góðra vina hópi.  Við fórum á afar vinalegan (svo að ekki sé meira sagt) indverskan veitingastað þar sem við stelpurnar vorum faðmaðar og kysstar í kveðjuskyni en hvers vegna framkvæmdastjórinn vildi ekki kyssa okkar fjallmyndarlegu herra er mér algerlega óskiljanlegtWoundering  Við fórum líka á kínverskan stað í Kínahverfinu en það er mjög sérstakur hluti af London.  Við horfðum á hátíðahöld vegna St. Patricks Day, kíktum í hljóðfæraverslanirnar við Denmark Street, röltum framhjá Downingstræti (Blair var ekki heima að sögn öryggislögreglunnar) og niður að Big Ben sem er svo sannarlega BIG!  Við sáum líka nýjasta djásn Lundúnarborgar - Augað eða ,,The Eye" - risastórt Parísarhjól, 135 metra hátt með útsýni í 40 km radíus.  Menn standa inni í stórum klefum sem hver tekur 25 mann og tekur ökuferðin hálftíma.  Við fórum ekki í það núna en erum ákveðin í að gera það næst þegar við komum til London.  Það var frekar kalt í London, komu m.a.s. haglél svo að ekkert varð úr fyrirhugaðri gönguferð okkar Óla um Hyde Park, sem var beint á móti hótelinu okkar.

Já, London er heillandi.  Allt í einu er maður orðinn ,,mam" og ,,sir" og það er svolítill ævintýrablær yfir þessu öllu.

Það var svolítið skrítið að koma heim til Svíþjóðar seint á þriðjudagskvöldinu.  Ég gleymdi alveg að tala sænsku til að byrja með á flugvellinum, talaði bara ensku áfram!  Svo fórum við á bensínstöð, tókum bensín og keyptum sænska pylsu og þá fór það að síast inn í mig að við værum komin heim.  Við komum ekki til Växjö fyrr en hálfþrjú um nóttina og vorum fljót að rotast.  Pabbi og Irene höfðu haft 100% stjórn á öllu í fjarveru okkar og við tók hið daglega amstur.

Á sunnudeginum kom Þórunn í heimsókn til okkar.  Hún er á leið af landi brott, ætlar til Ameríku og Hawaí, Íslands og sennilega Írlands.  Hún fór frá okkur í gær og nú erum við að undirbúa næstu heimsókn, en Unnur og Óli koma til okkar á Pálmasunnudag og verða fram á föstudaginn langa.  Ég hlakka rosalega mikið til og vona að vorveðrið verði jafngott og nú á meðan þau stoppa hjá okkur.  Það er reyndar kalt á nóttunni, kringum frostmark, svalt á morgnana en fer svo upp í 15 stig yfir daginn og í sólinni á svölunum hjá mér upp í 25 stig.  Vorblómin eru farin að stinga sér upp í görðum, Krókus heita þau víst, í öllum regnbogans litum, og lífga svo sannarlega upp á lífið og ekki síst sálartetrið.

Ég vona bara að fleiri eigi eftir að heimsækja okkur í sumar.  Við verðum auðvitað á Íslandi seinnipart júlí fram í ágústbyrjun en þið vitið að þið eruð alltaf velkomin til okkar!


LONDON

Jæja, við erum búin að vera í London síðan á laugardagsmorgninum og arka þar um allar trissur.  Gerðum okkur sérstaka ferð að Big Ben þar sem Rebekka hafði pantað ljósmynd af honum svo að við Óli stilltum okkur þar upp á alla kanta og tókum fullt af myndum!  Erum búin að vera i frábærri afslöppun með Braga, Valdísi, Heiðari og Rögnu og það var bara eins og við hefðum síðast hittst í gær!  Þið fáið alla ferðasöguna þegar við komum heim aftur, sem verður mjög seint á þriðjudagskvöldi.


VEIKUR SKIPTINEMI II

Marie er komin af spítalanum og til okkar aftur.  Það er ekki búið að finna hvað er að, það er a.m.k. ekki festing-bit eins og þeir héldu.  Hálft andlitið er enn lamað og verður nokkrar vikur að jafna sig en hún ber sig vel - ótrúlega dugleg.  Kennarinn hennar frá Þýskalandi var með henni í allan dag og svo skutla ég þeim tveimur aftur á spítalann í fyrramálið þar sem hún á að hitta læknana aftur.

En hún mætti beint af spítalanum í matarveisluna með öllum hinum krökkunum og fjölskyldunum svo að það var gaman fyrir hana.  Maria systir mætti líka og Katja, þýskur háskólanemi sem leigir hjá Maríu.  Það var því fjölþjóðleg stemning við borðið hjá okkur og stundum vissi maður ekkert hvaða mál maður átti að tala.  Nú er bara að reyna að finna tíma til að hugsa sér til hreyfings því að við Óli erum víst að fara til London á laugardagsmorguninn.


VEIKUR SKIPTINEMI:(

Ég geng hér um gólf og veit ekki hvað ég á af mér að gera - alveg dottin úr sambandi.  Aumingja Marie, þýski skiptineminn okkar lenti inn á spítalann hér.  Í morgun tók kennarinn hennar eftir því að hún leit eitthvað undarlega út - hægri helmingur andlitsins var lamaður.  Hún er búin að vera í rannsóknum, blóðprufum og var á leið í mergprufu þegar ég fékk fréttirnar frá skólanum.  Þeir halda að hún hafi fengið sýkingu í andlitstaugina eftir skordýr sem heitir festing á sænsku og getur borið með sér alvarlega taugasjúkdóma.  En það tekur tíma að koma fram svo að hún hefur verið bitin í Þýskalandi.

Ég er alveg í rusli og get ekki ímyndað mér hvernig foreldrum hennar líður heima í Þýskalandi.  Barnið á sjúkrahúsi í ókunnu landi, dauðskelkuð og þarf á fjölskyldu sinni að halda, talar ekki málið og bara pínulitla ensku.

Ég bíð bara frekari frétta, veit ekkert hvort hún verður á spítalanum í nótt, þótt ég geri frekar ráð fyrir því.  Vona að við fáum þá að heimsækja hana, greyið.  Okkur var sagt að halda okkar striki fyrir veisluna í kvöld svo að ég ætla núna að reyna að einbeita mér að því að gera lasagnað klárt.  Sendið Marie góða strauma fyrir okkur!


TUSKUBUSKA OG SKIPTINEMINN

Jæja, þá er maður kominn heim eftir vel heppnaða söluferð til Stokkhólms um helgina.  Ég fór með hele familien og við vorum auðvitað hjá Beggu og Steinari í góðu yfirlæti eins og venjulega.  Horfðum á Melodifestivalen á laugardagskvöldinu þar sem Svíar kusu sitt framlag til Eurovision.  Það var margt góðra flytjenda og laga, allt frá algjörlega óþekktum kennslukonum að koma fram opinberlega í fyrsta sinn upp í landsfræga rokkara, jafngamla rokkinu sjálfu, og inn á milli Idol-stjörnur eins og gengur og gerist.

Svíar völdu hljómsveit héðan frá Växjö sem heitir The Ark.  Segjast vera rokkband en mér þykja rokkarar með maskara og augnskugga aldrei mjög sannfærandi (nema þeir séu konur auðvitað).  Lagið venst ágætlega, en við skulum bara sjá hvað gerist í maí.  Við kjósum auðvitað Eika - sem er alvörurokkari!

Á sunnudeginum var svo ,,tuskupartí" hjá nokkrum hressum íslenskum konum í Stokkhólmi.   Þar var ég kynnt sem ,,tuskukonan" - titill sem ég veit ekki alveg hvort ég fíla.  Á sænsku kallast ég hins vegar ,,miljö konsultant" eða umhverfis ráðgjafi.  Miklu fínna!Joyful

Eftir vel heppnaða kynningu var svo haldið heim á leið og seinnipartinn á mánudeginum (í gær) tókum við síðan á móti Marie, þýska skiptinemanum okkar, á lestarstöðinni.  Hún verður hjá okkur í eina viku og síðan fer Rebekka heim til hennar í maí.  Þær eiga ýmislegt sameiginlegt, elska báðar tónlist, stærðfræði og að teikna, spila báðar á flautu og finnst gaman í keilu.  Svo sýnist mér hún vera svona róleg og hæg eins og Rebekka enda eru þær báðar í fiskamerkinu!  Svo að þetta gengur bara vel.  Tvíburabróðir hennar er síðan á hæðinni fyrir neðan okkur hjá skólabróður Rebekku og þau ætla öll að gera eitthvað saman meðan þau systkin dvelja hér.

Það eina sem er vandamálið er að stúlkan tilkynnti mér í gær að hún væri grænmetisæta, en það hafði ekki komið fram í pappírunum sem við fengum um hana.  Svo að nú er að bretta upp ermarnar og fara að töfra fram grænmetisrétti!  Auf wiedersehen!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband