11.5.2007 | 10:16
IT TAKES TWO TO PARTY!!
Við Bertha vorum í rokna fílíng í júróvisjonpartýinu hjá mér í gær - á meðan aðrir gestir og heimilisfólk svaf á sitt græna. Sesselja náði reyndar að halda sér töluvert lengur vakandi en bæði pabbi hennar og Maria, sem voru þreytt eftir vinnudaginn. Bertha í Ameríku kom ekki inn fyrr en í seinni hluta fyrri hálfleiks - gekk eitthvað brösulega að hlaða niður forriti sem þurfti til að geta horft á keppnina í tölvunni - og missti því af framlagi Íslands. En við skemmtum okkur konunglega saman í gegnum msn-ið og ætlum sko að endurtaka leikinn á laugardaginn! Elsku Bertha partýljón - takk fyrir að redda kvöldinu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2007 | 06:49
HORFT Á ÚR FJARSKA
Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi söngvakeppninnar og fylgst grannt með. Í ár upplifði ég keppnina í fyrsta sinn í útlöndum. Er nú búsett í Svíþjóð og þar sem tölvan mín er óttalegur garmur gat ég ekki fylgst með íslensku lögunum og því er álit mitt á framlagi Íslands í ár ekki litað af síbylju og þjóðarrembingi. Ég hafði aðeins einu sinni heyrt framlag Íslands fyrir keppnina og verð að segja að það sat ekki í mér. Auðvitað vildi ég að Ísland kæmist áfram og var dugleg að kjósa Eika og hans menn en eftir að hafa heyrt öll lögin í gærkvöldi, komu úrslitin mér ekki á óvart. Jú, flutningurinn var mjög góður en lagið stóð bara ekki upp úr að mínu mati. Mér fannst óvenju mörg góð og ,,stór" lög í keppninni í ár, mjög fjölbreytt og var sátt við flest lögin sem komust áfram. Serbía, Makedónía og Ungverjaland fannst mér t.d. öll með frábær lög og mér fannst líka gaman að sjá ,,óperulögin" komast áfram. Fannst þau BARA flott!
Hvort um samsæri er að ræða veit ég ekki. Er það ekki bara svo að skyldar þjóðir hafa líkan smekk? Ég meina - hefur okkur ekki alltaf þótt danska lagið miklu betra en það tyrkneska? Og ef um samsæri er að ræða, eigum við þá að leggjast svo lágt að taka þátt í því? Og hvar er ólympíuandinn? Ísland gerði sitt besta og Eiríkur má vera stoltur! Íslendingar eru allir stoltir af honum. Tökum úrslitunum með bros á vör og kærum okkur kollótt um hvað öðrum þjóðum finnst. Í alvöru. Lífið heldur áfram!
Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2007 | 14:57
FJÖLÞJÓÐLEGT JÚRÓVISJONPARTÝ!
Jæja - þá er að setja sig í gírinn fyrir kvöldið. Búin að taka út kjúllann, eftir að kaupa snakk og fleiri óþarfa nauðsynjar og svo bý ég til góðu Nachos ídýfuna sem hún Ragna kenndi mér að gera. Mmmmm....
Það verður fjölþjóðlegt partý hér í kvöld - Maria systir kemur til okkar og síðan ætlar hún Bertha Jónína að koma til okkar líka. ??? ,,...hva, hva, hva, - hvu - hvernig????" - gætuð þið spurt. Hún er jú í Kaliforníu!! Svarið er einfalt - Live on Internet!! Þvílík snilld. Hún ætlar að horfa á keppnina á netinu, þá er klukkan 12 á hádegi hjá henni, svo kveikjum við bara á vefmyndavélunum og let the show begin!! Ég BARA elska þessa tækni.
Ég hef nú ekki heyrt alveg öll lögin í keppninni. Hef t.d. bara heyrt það íslenska einu sinni á netinu og þá á íslensku. Það vefst samt ekkert fyrir okkur hvaða lag við kjósum! Það verður spennandi að sjá hvort Eika tekst að hífa okkur upp í aðalkeppnina.
Sænska lagið finnst mér ekkert sérstakt, það voru mörg lög betri en það í undankeppninni hér. En þessir strákar eru vinsælir hér og hljómsveitin The Ark er meira að segja héðan frá Växjö. Söngvarinn er prestsonur frá Rottne sem er um 12 km héðan og gekk í tónlistarskólann hér. Í viðtali við hann í bæjarblaðinu eftir keppnina sló hann því fram í gríni að nú yrði að skíra götu eftir hljómsveitinni, eða a.m.k. eins og eitt hringtorg - en hér bera öll hringtorg nafn ( og þau eru sko ekki fá!). Svo var ég að sjá í bæjarblaðinu núna að ákveðið hefur verið að skíra hringtorgið við Rottne eftir hljómsveitinni!!
Svíar eignuðust núna líka sína útgáfu af ,,Alveg týpískt júróviskjonlag" - Það heitir Värsta schlagen (Versti smellurinn) og í textanum segir m.a.
Om man inte vill sabba
sina chanser att vinna
kan man sno nåt från ABBA
och se risken försvinna
sem gæti útlagst svo:
Ef þú ætlar að trónaefst á toppnum í lokin
lánar ABBA þér tóna
og þá er áhættan fokin
...það hefur svosem virkað fyrir þá áður. Hlustið á byrjunina á laugardaginn - ekki laust við smá Waterloo þar...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 11:34
JÁ, ÞAÐ ER BETRA AÐ VARA SIG Á NAMMINU!
Fengum glaðning frá Ameríku áðan. Vikuna, með viðtalinu við Berthu (hún gleymdi að árita blaðið fyrir okkur) og svo lét hún fljóta með Cheerios og Cocoa Puffs fyrir stelpurnar og þá allra stærstu poka af M&M´s sem ég hef séð, eitt og hálft kíló hvor - takk fyrir. Diljá fékk að gæða sér á Cocoa Puffsinu, en síðan verður þetta bara tekið fram um helgar. Alveg spari. Á meðan fór ég að koma namminu fyrir í nammiskápnum sem var orðinn alveg galtómur. Eiginlega er þetta nú bara ein hilla í pínulitlum eldhússkáp svo að nú er ,,nammiskápurinn" alveg troðfullur. En það verður nú bara þangað til Óli kemur heim úr vinnunni. Sá verður glaður En svo vildi nú ekki betur til en svo þegar ég var að stíga niður af stólnum, að ég rak mig allhressilega í brauðbrettið sem var aðeins útdregið. Það var sárt. Svo sárt að mig svimaði og varð flökurt og æjaði og óaði og hnipraði mig svo á gólfinu svo að það myndi ekki líða yfir mig. Diljá greyið kom strax hlaupandi með læknistöskuna sína og gaf mér þykjustuplástur, rétti mér ávaxtasafa að drekka, sem ég hafði haft á eldhúsborðinu og sagði svo ábúðarfull: ,,Þú verður að fara varlega." Ég dróst inn í sófa og lá þar í smástund á meðan ég var að jafna mig og Diljá stóð sig með afbrigðum vel í hjúkrunarhlutverkinu. Bauð mér meira að segja að fá Mjallhvítarplástur frá henni og það er rausnarlegt skal ég segja ykkur. Síðan færði hún mér Vikuna og í þessu ásigkomulagi las ég síðan viðtalið við hana Berthu, stórvinkonu mína með meiru, með tárin rétt handan við hornið (það var út af viðtalinu, ekki meiddinu). Við höfum trúað hvor annarri fyrir ýmsu og ég vildi óska þess að ég hefði vitað þetta á meðan á því stóð, en það þýðir ekki að tala um það núna. Vonandi verður þetta viðtal bara hvatning öðrum sem hugsanlega eru í svipuðum sporum og hún.
Jæja, ég sit hér semsagt á annarri rasskinninni, með marblett sem svipar til Grænlands að lögun á aftanverðu lærinu. Óli er alltaf að gera grín að mér fyrir hrakfarir mínar við heimilisstörfin. Ég meina - hver hefur ekki misst pott (tóman) ofan á tærnar á sér, rekið sig í skáphurðarnar eða brennt sig lítillega - ha? Að minnsta kosti vikulega?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.5.2007 | 21:26
REBEKKA BLOGGAR FRÁ ÞÝSKALANDI...
...á bloggsíðunni sinni http://www.blog.central.is/rebekka_d
Og á morgun er hún að fara hingað: www.hansapark.de Ekki svo slæmt, sýnist mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 19:31
Á FERÐ OG FLUGI
Jæja, við erum að pakka Rebekku upp eftir fermingarbarnamótið til þess eins að geta pakkað henni aftur niður fyrir Þýskalandsferðina sem hún leggur upp í í fyrramálið. Fermingarbarnamótið var svo skemmtilegt hjá henni að hún mátti varla vera að því að muna að hún ætti foreldra...sem vekur blendnar tilfinningar. Auðvitað er maður ánægður yfir að það skuli vera svona gaman hjá henni og einnig yfir auknu sjálfstæði og sjálfstrausti. Á hinn bóginn vill maður auðvitað finna að barnið sakni manns kannski smá og þurfi að heyra í mömmu og pabba...helst á hverjum degi. O, jæja - þetta var ekkert. Á morgun fer hún bara í annað land og verður bara í HEILA VIKU hjá einhverju fólki sem maður þekki ekki neitt. En hafið engar áhyggjur - það verður örugglega allt í lagi með...mig!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.5.2007 | 07:58
SITT AF HVORU TAGI...
Jæja, loksins koma nokkrar línur. Ég er búin að vera að drepast í vöðvabólgu svo að ég hef sparað mig í tölvunni - veit ekki hvað þetta er með mig eiginlega Annars er allt gott að frétta af okkur, lífið gengur sinn vanagang. Það hefur sem betur fer ekki verið sami hitinn - ég var farin að kvíða fyrir næstu mánuðum - en það er bara milt og gott og mátulega hlýtt veður.
Það er helst í fréttum að Rebekka er á förum - verður að heiman mestallan maímánuð! Eldsnemma í fyrramálið fer hún með lest til Gautaborgar í seinni fermingarbúðirnar. Þar hittir hún, eins og í haust, íslenska krakka sem búa hér í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Hún kemur svo heim seinnipartinn á sunnudaginn en fer aftur snemma á mánudagsmorguninn til Þýskalands, þar sem hún verður í viku hjá Marie, sem heimsótti okkur í mars. Krakkarnir fara með rútu og ferju og er það um 8-9 tíma ferðalag og heilmikil dagskrá skipulögð fyrir þau. Hún horfir semsagt á Eurovision í Þýskalandi Hún kemur síðan heim á sunnudagskvöldi þann 13. mars og verður þá heima í heila þrjá daga! Á uppstigningardag heldur hún síðan til Finnlands, í tónleikaferð með lúðrasveitinni. Þau fara með rútu til Stokkhólms og taka síðan næturferju þaðan yfir til Finnlands. Heilmikið ferðalag. Þau spila í bæ sem heitir Lojo á föstudagskvöldi og gista hjá fjölskyldum þar. Á laugardeginum eiga þau að spila úti við markaðstorgið í Lojo og á mánudeginum halda þau tvenna skólatónleika um morguninn og taka síðan næturferju til baka og koma heim á þriðjudegi.
Sesselja fer líka að heiman á uppstigningardag. Í tveggja nátta skátaútilegu - gistir í tjaldi úti í skógi þar sem á að veiða fisk, sigla á kanó og elda við varðeld svo að eitthvað sé nefnt. Mjög spennandi. Hún er líka að fara að dansa heilmikið um næstu helgi, þegar Rebekka verður í Þýskalandi. Það er sameiginleg ,,uppskeruhátíð" dansskólanna, tónlistarskólans og leiklistarskóla. Það verða 6 sýningar yfir helgina og Rebekka hefði átt að spila þar með lúðrasveitinni (á öllum 6 sýningunum) ef hún hefði ekki verið í Þýskalandi. Sesselja á að dansa í 5 skipti, tveimur ballettsýningum á laugardag og tveimur á sunnudag og síðan dansar jassballetthópurinn hennar á laugardeginum. Þá hefur hún bara 6 mínútur milli atriða til að skipta um búninga - sennilega verð ég baksviðs og hjálpa henni. Svo eru generalprufur á laugardags- og sunnudagsmorgninum. Þetta eru víst rosalega flottar sýningar, með búningum, förðun og ljósum - gert svolítið alvöru og rosalega gaman fyrir krakkana að taka þátt í þessu.
Diljá fer stöðugt fram í sænskunni, kemur fullt af nýjum orðum hjá henni á hverjum degi. Hún er búin að fá pláss á leikskólanum hér í hverfinu eftir sumarfrí. Hann er bara í 5 mínútna göngufæri héðan (Diljá er kannski 10 mínútur að labba samt) og þar eru 37 krakkar í hennar árgangi.
Óli er loksins búinn að finna stráka til að spila með. Hann er eiginlega kominn í tvær hljómsveitir. Annars vegar eru strákar á hans aldri sem eru að spila frumsamið efni og hann kom sem himnasending fyrir þá! Mér skilst að þeir spili alvöru rokk og grúvi flott! Hin hljómsveitin er svona árshátíðarhljómsveit, hann hefur reyndar aldrei hítt þá en var ráðinn í gegnum vinnufélaga sinn svo að það á allt eftir að skýrast nánar.
Já, það verður frekar tómlegt hjá okkur næstu vikurnar, börnin meira og minna að heiman, við ein í kotinu með örverpið - þetta verður skrítið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2007 | 20:32
ÞAÐ ER VOR Í LOFTI OG VINDUR HLÝR...
GETRAUN: Hvaða smellur frá níunda áratugnum hófst svo og hver söng?
Maður er að upplifa eitthvað alveg nýtt núna - vor í Svíþjóð - og það er alveg yndislegt. Skógurinn lifnar allur og klæðist í sinn græna skrúða. Reyndar má líka sjá hvítan og fagurgulan lit á blómstrandi trjám að ekki sé minnst á kirsuberjatrén sem skarta bleiku, eins og prinsessurnar mínar! Og undir öllu þessu undri hljómar svo margbreytilegur og fagur fuglasöngur. Sumir dagar eru eins og heitustu sumardagar heima á Íslandi, svo koma dagar með svona 8-12 stigum inn á milli. Ef þetta eru sænskir umhleypingar get ég alveg sætt mig við þá Heima á Íslandi var sumarið alltaf mín uppáhalds árstíð en hér - hér er það sko pottþétt vorið!! Ekki kalt og ekki of heitt. Það var ekki um annað að ræða í dag en að fara í bæinn og kaupa sumarföt á Sesselju og Diljá - já, nú leggjum við úlpum, húfum og vettlingum og við taka stuttbuxur, hlýrabolir og sandalar. Ég vildi bara óska þess að þið gætuð öll verið hér og notið þessa með okkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2007 | 13:41
18. APRÍL
Í dag eru víst 36 ár síðan Begga systir fermdist í Háteigskirkju. Ég var ekki orðin þriggja ára en man mjög vel eftir því. Ég man eftir því þegar ég var klædd í bláu sparifötin mín, ég man hvað ég var spennt yfir því að sjá Beggu systur og að hún vinkaði til mín þegar hún gekk inn kirkjugólfið - það fannst mér alveg æðislegt! Ég man líka hvað ég grenjaði þegar sálmarnir voru sungnir. Ég veit ekki af hverju, ég þoldi bara ekki sálmasöng og var sérstaklega viðkvæm fyrir því þegar mamma hóf upp raust sína. Pabbi varð að fara með mig fram í anddyri í kirkjunni meðan á ósköpunum stóð. Ég man líka eftir veislunni, fannst maturinn reyndar ekkert spes, og hópmyndatökunni á eftir þar sem öll stórfjölskyldan var samankomin.
11 árum síðar upp á dag fermdist ég síðan í sömu kirkju. Ég á semsagt 25 ára fermingarafmæli í dag. Minn fermingardagur var alveg indæll og ég hugsaði til þess að nú væri ég í sömu sporum og Begga hafði verið í 11 árum áður og Inda litla uppáhaldsfrænkan mín, tæplega þriggja ára, kannski jafnspennt og ég var þá. Ég grenjaði ekkert yfir sálmasöngnum í þetta sinn og allt fór vel fram. Sr. Valgeir Ástráðsson fermdi mig ásamt 34 öðrum krökkum svo að athöfnin tók sinn tíma. Síðan var matarveisla í sal Málarafélagsins þar sem allir nánustu ættingjar voru saman komnir.
Enn liðu 11 ár og 18. apríl rann upp á ný. Þann dag hélt Begga systir á frumburði mínum undir skírn heima hjá sér og sú hefð hélst síðan að hún og Steinar héldu skírnarveislur allra stelpnanna minna. Reyndar fylgdi þeirri hefð reyndar að í hvert sinn sem þau voru búin að halda skírnarveislu - fluttu þau...eitthvert langt í burtu! Og þar sem fleiri börn eru ekki á döfinni hjá mér er víst engin hætta á að þau færi sig úr stað.
Já, 18. apríl hefur verið góður dagur í mínu lífi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2007 | 21:30
FYRST OG SÍÐAST...
Já, ég viðurkenni það - ég hef verið löt við að blogga upp á síðkastið. Kannski er ég bara ennþá mett eftir páskaheimsókn Unnar og Óla frá Íslandi. Einhvern veginn hef ég svo haft nóg að gera við daglegt amstur eftir að páskafríinu lauk. Sl. fimmtudag var síðan hringt í mig og ég beðin um að kenna aftur þýsku á föstudeginum, sem ég og gerði. Það var fínt! Á laugardeginum fórum við svo til pabba og Irene í Målilla og hjálpuðum þeim að flytja heim fullt af eldivið sem þau höfðu keypt. Það var mjög gaman og minnti pínulítið á heyskapinn á Oddhól í þá gömlu góðu - að henda á kerru, keyra heim og henda af kerru - og veðrið maður...
Það var sumarblíða hér um helgina, yfir 20 stiga hiti og ekki ský á himni. Nú hefur aðeins kólnað aftur en maður er búinn að fá forsmekkinn af því sem koma skal. Það er stutt í stuttbuxurnar skal ég segja ykkur.
Ég festist yfir sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Við Óli horfðum á tíu-fréttir, svo sofnaði Óli en ég sat stjörf yfir norskum spjallþætti. Gestir þáttarins voru ekki af verra taginu: Al Gore, Gro Harlem Brundtland, Muhammad Yunus - sem fékk friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári - og Leonard Cohen ásamt bakraddasöngkonu sinni til margra ára, Anjani.
Það var vitaskuld rætt mikið um umhverfismál. Al Gore sagði að nú þýddi ekkert að ætla að lagfæra vandann eftir að skaðinn væri skeður, þá væri það einfaldlega orðið alltof seint. Hann og Yunus bentu á að Bangladesh, heimaland Yunus, væri það land sem verst yrði úti ef menn brygðust ekki við gróðurhúsaáhrifunum, vegna lágrar legu þess. Hækki yfirborð sjávar um 1 metra, munu tugir milljóna missa heimili sín. Nú þegar eru flóð þar orðin tíðari og stærri en áður. Spyrillinn spurði Yunus hvort honum liði aldrei eins og hann gengi inn á kaffihús þar sem Al Gore, Gro Harlem og hann sjálfur sætu og nytu veitinganna - og létu hann svo um að borga reikninginn! Því að þetta fátæka land, þar sem 70% íbúanna eru án rafmagns, er ekki skaðvaldurinn - heldur fyrst og fremst fórnarlamb.
Síðar blandaði Leonard Cohen sér í umræðuna. Hann dvaldi í munkaklaustri í 5 ár og sagði að það væri í mannlegu eðli að gera ekki umsvifamiklar breytingar fyrr en menn neyddust til þess. Sem sagt, eftir að skaðinn er skeður. Þannig að útlitið er ekki gott - eða hvað? Vakti mann til umhugsunar og ekki veitir af.
Ég vinn hjá fyrirtæki sem heitir TSG biomiljö og selur umhverfisvænar hreinlætisvörur. Með því að nota míkrófíber tuskur og moppur, ásamt hreingerningarefnum sem innihalda engin kemísk efni og eru fullkomlega skaðlaus fyrir bæði manneskjuna og umhverfið, getur hvert heimili minnkað losun kemískra efna út í náttúruna um allt að 90%. Það er ekki svo lítið. Á námskeiði hjá fyrirtækinu var sagt við okkur að ef við ætluðum að bíða eftir því að stjórnvöld gerðu eitthvað í málinu, yrðum við að bíða mjööög leeeengi. Ég held að það sé rétt. Eins og Cohen sagði þá bíðum við alltaf eftir einhverju valdboði sem segir okkur hvernig við eigum að hegða okkur. Vörpum ábyrgðinni yfir á aðra. Nú verður sérhver einstaklingur að axla ábyrgð og gera það sem í hans valdi stendur. Margt smátt gerir jú eitt stórt. Ég ætla a.m.k. að reyna að leggja mitt af mörkum.
Eftir þennan sláandi þátt tóku við tónleikar með Sting og bosnískum lútuspilara, Edin Karamazov, þar sem þeir fluttu tónlist eftir ,,fyrsta breska popparann", John Dowland, sem var vinsæll lagasmiður fyrir 400 árum síðan, á endurreisnartímanum. Ótrúleg tónlist, svo falleg og margslungin! Og magnaður flutningur! Svo sannarlega endurnærandi fyrir sálartetrið. Diskur sem ég verð að eignast - ,,Songs from the labyrinth".
Já, þegar ég hallaði mér á koddann í gærkvöldi hafði imbakassinn heldur betur gefið mér bæði andlega næringu og siðferðilegt umhugsunarefni. Eitthvað annað en þetta venjulega: CSI og Seinfeld. Hvaða nútíma poppara skyldu menn annars hlusta á eftir 400 ár? - þ.e. ef við verðum ekki búin að útrýma sjálfum okkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)