7.6.2007 | 06:53
ÞJÓÐHÁTÍÐ - HORNFIRÐINGAR Í KÖBEN - LANDSLEIKUR
Í gær var þjóðhátíðardagur Svía og héldu Svíar nú upp á hann í þriðja eða fjórða skipti. Þeir hafa auðvitað aldrei verið undir stjórn annarra ríkja eins og við Íslendingar vorum, þó að vissulega hafi þeir oft þurft að verja land sitt og ákveðin landsvæði með kjafti og klóm. En þjóðhátíðardagur skipar ekki sama sess hjá þeim og okkur Íslendingum. Rebekka var að spila með lúðrasveitinni bæði hér í Växjö og nágrannabænum Rottne og það var mjög skemmtilegt hjá þeim. Þau voru búin að æfa að marsera með ,,drillurum" - þið vitið, svona stelpum sem snúa sprotum - voða flott, en erfitt! Óli var með stelpurnar í bænum að horfa á Rebekku og forða þeim frá að vaða í gosbrunnum o.þ.h. stuð.
Ég hins vegar skellti mér í lestarferð til kóngsins Köben og tók Maríu systur með. Úr því að það var frídagur í Svíþjóð en ekki í Danmörku var þetta tilvalið tækifæri til að skreppa og endurnýja vegabréfið mitt. Svo var ég búin að frétta að hornfirskir kennarar ættu einmitt leið um Kaupmannahöfn þennan dag og ætlaði að hitta hana Gullu vinkonu mína, kíkja í kaffihús, rölta Strikið og eiga notalegan dag.
Lestarferðin tók tæpa 3 tíma og síðan tókum við strætó í íslenska sendiráðið. Erindi mitt þar tók ekki nema 10 mínútur og þá var klukkan orðin rúmlega 12. Við Maria settumst inn á fyrsta matsölustaðinn sem við sáum, því að við vorum glorhungraðar. Það hafði ekki verið neinn veitingavagn í lestinni, eins og venjulega er, af því að það var helgidagur. Síðan tókum við strætó niður á Ráðhústorg til að, að því að ég hélt, hitta Gullu og fara með henni á röltið. En við hittum ekki bara Gullu, heldur stóran hóp kennara og skólastarfsfólks úr öllum grunnskólunum og tónlistarskólanum á Hornafirði , ásamt nokkrum mökum, og reiknast mér svo til að hvorki meira né minna en 1,5% Hornfirðinga hafi þarna verið saman komin. Það var auðvitað rosalega gaman að hitta allt þetta fólk að heiman og allt í einu leið manni eins og maður hefði aldrei farið. Og það fyndna var að þótt ég hefði ekki farið frá Íslandi, hefði ég samt verið stödd þarna ásamt þessum hópi í gær! Kallið þetta örlög ef þið viljið.
Hópurinn var búinn að bóka skoðunarferð um Íslendingaslóðir ásamt hinum bráðskemmtilega Þorvaldi Fleming Jensen, fréttaritara Bylgjunnar. Ég hækkaði sko alltaf í útvarpinu þegar þau í morgunútvarpi Bylgjunnar hringdu í hann. Mig hefur alltaf langað í svona skoðunarferð svo að við Maria skelltum okkur með.
Og Fleming brást ekki frekar en fyrri daginn. Þetta var bráðskemmtilegt og fróðlegt. Við skoðuðum m.a. hinar örlagaríku tröppur sem Jónas Hallgrímsson datt í og fótbrotnaði, Hafnarháskóla, Vorrar frúar kirkju og stúdentagarðana (og pöbbana) sem þjóðskáldin okkar og baráttumenn fyrir sjálfstæði Íslendinga dvöldu á. Ég, Maria og Gulla stungum þó af þegar haldið var niður í Nýhöfn og kíktum í ,,Nonnabúð" eins og Fleming kallaði Magasin du Nord, vöruhús þeirra Bónussfeðga. Settumst síðan út við kaffihús á Strikinu og nærðum okkur aðeins áður en við Maria röltum aftur upp á Hovedbanegården til að taka lestina heim.
Þegar við komum á lestarstöðina í Växjö, rétt fyrir kl. 22, voru allir strætóar hættir að ganga upp í Högstorp (hverfið mitt). Óli gat ekki sótt okkur því að það hafði sprungið á bílnum í Rottne, í annað sinn á örfáum dögum og ekkert varadekk því til. Hann varð að fá far fyrir sig og stelpurnar til Växjö með öðrum úr lúðrasveitinni og við Maria þurftum að bíða í tæpan klukkuktíma eftir leigubíl. Loksins kom ungur strákur og við stukkum inn í bílinn, Maria frammí og ég afturí. Þau spjölluðu og hlógu mikið en ég heyrði ekkert af því sem þeim fór á milli því að hann var með útvarpið í botni: ,,...kisses for me, save all your kisses for me...", og svo þurfti ég að hafa mig alla við að halda mér í í beygjunum. Ég heyrði hann þó segja að Svíar hefðu unnið landsleikinn í fótbolta 5-0. Mér var nú auðvitað SLÉTT SAMA um það! Svo sagðist hann líka hafa smakkað harðfisk um daginn hjá íslenskri vinkonu sinni, og fannst hann svo skelfilega vondur að hann var lengi að ná óbragðinu úr munninum
Við komumst því heim um síðir eftir rosalega skemmtilegan dag enda fátt skemmtilegra til en Hornfirðingar í Köben! Bestu kveðjur til ykkar og vonandi eigið þið skemmtilega daga eftir í dönskum skólum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2007 | 20:36
ÞAÐ JAFNAST EKKERT Á VIÐ JAZZ...
Hafið þið tekið eftir því að fyrir hvert einasta smáatvik í lífinu má finna viðeigandi dægurlagatitil?
Það var jasshátíð hér í Växjö um helgina. Reyndar sem hluti af menningarhátíð. Við vorum nú ekkert að eltast við þetta en ákváðum að kíkja í miðbæinn á laugardeginum. Þar er gamalt bíó, Palladium, og þar frítt inn á alla viðburðina. Við ætluðum upphaflega að kíkja á bigband sem átti að spila þar en lentum í vitlausan sal þar sem var barnadagskrá. Og hún líka svona stórskemmtileg. Ungir og stórgóðir tónlistarmenn, svona á menntaskólaaldri og rúmlega það, léku, spiluðu og sungu fyrir börnin, sem sátu á sessum á gólfinu - voða kósý! Þetta voru greinilega barnavísur sem allir kunnu, í jassútsetningum auðvitað. Til dæmis var strengjasveit, fjórar fiðlur og selló, sem lék syrpu af lögum úr þáttum og myndum Astridar Lindgren - Lína, Emil, Ronja og allir hinir, alveg ólýsanlega flott. Í lokin var síðan leikið aðalstefið úr barnatímanum - svona eins og Stundin okkar heima - og síðan stef úr þekktustu barnaþáttunum, eins og t.d. Franklín og lagið úr Múmínálfunum. Vakti mikla lukku. Sesselja tók virkan þátt í þessu öllu saman, dansaði og sprellaði og Diljá var alveg hugfangin. Vildi samt ekki dansa við Kalla á þakinu.
Mér finnst þetta alveg dæmigert hér, þegar eitthvað svona er skipulagt þá gleyma menn aldrei að gera eitthvað skemmtilegt fyrir börnin. Og það er ekkert hálfkák á hlutunum. Það var greinilega búið að leggja mikla vinnu í þessa dagskrá og hún sniðin algjörlega að börnunum. Bigbandið gleymdist alveg - jú, Óli kíkti aðeins í restina en - þetta var bara svo gaman!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.5.2007 | 16:51
YFIR HÖFUÐ......STÓR!!
Jæja - þar kom að því. Það hlaut að gerast. Búið að stefna í þetta lengi svosem. Var bara tímaspursmál. Já, já - bara spurning um hvenær en ekki hvort.
Þegar Rebekka kom fram í morgun var eitthvað öðruvísi en venjulega. Það var eitthvað sem truflaði mig. Eitthvað var breytt. Allt í einu áttaði ég mig, tók í hendina á henni og dró hana að speglinum í forstofunni. Og - jú, jú. Það var ekki um að villast. LITLA STELPAN MÍN ER ORÐIN STÆRRI EN ÉG!! Ja, hérna hér. Svona hálfum sentimetra. Ótrúlegt. Hvað tíminn flýgur. Nú getur hún sagt ,,mamma litla" við mig. Ó, hvað ég vona að hún noti þetta ekki gegn mér þegar kemur að því að hormónaflæðið ræni hana viti og rænu og orsaki hjá henni stundarbrjálæði, eins og stundum gerist hjá fólki á þessum aldri. ,,Mamma litla." Nú er ég bara stærri en hún á annan veginn - ekki hinn. Nú er bara að sjá hvar þetta endar allt saman. Nei, nei - ég er ekkert með móral yfir þessu. Finnst þetta bara sætt. Stóra stelpan mín. Öll að verða fullorðin!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2007 | 07:35
ÞAÐ ER KOMIÐ SUMAR...
Eða það finnst okkur að minnsta kosti, þótt Svíarnir setji í herðarnar ef andar á þá og þeim finnist svalandi andvarinn vera kuldi! Ég væri alveg til í að hafa þetta bara svona, vona að það verði ekki alveg eins heitt og síðasta sumar - það var aðeins ,,too much" á köflum.
Rebekka er komin heim frá Finnlandi og það var BARA gaman hjá henni. Ég hef sjaldan séð hana svona ánægða og spennta. Krakkarnir í lúðrasveitinni náðu mjög vel saman í ferðinni og hún eignaðist fullt af nýjum vinum. Þau fóru til Helsinki og skoðuðu kalknámu í Lojo en rákust hvorki á Lordi né múmínálfana. Þau spiluðu á nokkrum tónleikum og stelpan mín spilaði meira að segja sóló á einum þeirra! Og fannst það ekkert mál! Hingað til hefur hún sett upp þvílíkan skelfingarsvip þegar stjórnandinn hefur minnst á það við hana að hann hefur hrökklast öfugur í burtu - svo að hún kom mér verulega á óvart
Það er mikið um að vera í maí. Það var grilldagur á leikskólanum hjá Diljá á þriðjudaginn, svona eins og heima nema ekki rok og rigning. Í næstu viku fara bæði Diljá og Sesselja í stuttar ferðir í nágrenninu og síðan fer ég með leikskólanum í sveitaferð! Í næstu viku er líka skátavígsla í kirkjunni hér. Ég fékk smáfróðleik um skátastarfið hér um daginn. Hér eru 5 mismunandi skátafélög, rekin af mismunandi samtökum eða félagasamtökum og Sesselja er í KFUM/KFUK skátunum. Á hverju vori er síðan ,,skátavígsla" - ekki svona eins og við þekkjum að heiman, meira verið að veita merki og viðurkenningar fyrir veturinn.
Í gær var ég síðan í kórpartýi heima hjá Ulrich, kórstjóranum. Það var svokallað ,,knyt-kalas" þar sem nokkrir útvaldir komu með mat í partýið. Það var nú dálítið öðruvísi en við eigum að venjast. Þegar ég kom að hlaðborðinu leitaði ég að aðalréttinum, en fann hann ekki. Það voru 3 mismunandi tegundir af salati, síðan var gratín með brauði, osti og kornflexi, brauð, ostur og melónur! Allt rosalega gott, en heima hefði þetta allt kallast meðlæti svo að þetta var dálítið skrítið. Síðan var að sjálfsögðu terta á eftir. Hér eru næstum því allar rjómatertur skreyttar með jarðarberjum - það bara tilheyrir - enda eru jarðarber alltaf góð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2007 | 19:09
SLÁ Í GEGN...
Ég nefndi það um daginn að Svíar skíra gjarnan götur og hringtorg eftir frægu fólki. Hornfirska hljómsveitin KUSK gerði garðinn frægan á tveimur þorrablótum í Stokkhólmi, að sjálfsögðu með hann Óla minn í bakvarðasveitinni. Ég get ekki betur séð en piltarnir hafi slegið rækilega í gegn...
Til hamingju strákar. Við erum búin að láta taka frá hús í götunni fyrir ykkur...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2007 | 21:55
SKEMMTILEGUR DAGUR!
Við heyrðum í Rebekku í gærkvöldi. Rosalega gaman í Finnlandi. Hún og Jessica (sem er með henni í lúðrasveitinni og sundinu) gista saman hjá fjölskyldu í Lojo, en sonurinn á heimilinu er í lúðrasveit vinaskólans þar og síðan er dóttirin á heimilinu á aldur við þær. Semsagt - allt gott að frétta úr landi Múmínálfanna!
Í dag var síðan komið að danssýningunum hjá Sesselju. Ég mætti með hana kl. 9:30 í Konserthuset og þar var hún meira og minna fram á kvöld. Við horfðum á frumsýninguna ásamt pabba, Irene og Mariu, og hún tókst alveg frábærlega. Reyndar var ég baksviðs þegar Sesselja dansaði því að hún var í tveimur atriðum í röð og ég þurfti að hjálpa henni að skipta um búninga og koma henni á réttan stað. En hún stóð sig rosalega vel - var flott bæði í jassdansinum og ballettinum.
Þetta var stór sýning. Um 300 nemendur sem dönsuðu og margir oftar en einu sinni. Ein mamman var bara í búningaskiptum því að dóttir hennar þurfti að skipta 7 sinnum um búning! En þetta var bara gaman og allt gekk smurt fyrir sig. Eftir fyrri sýninguna hjá Sesselju fórum við Óli og Diljá heim því að við vorum að fara á matarboð hjá Caroline og Pierre, foreldrum Aneu sem er bekkjarsystir Sesselju. Ég stoppaði þar aðeins áður en ég fór að sækja Sesselju, sem var búin á seinni sýningunni kl. 19:30. Þar áttum við síðan æðislega kvöldstund, borðuðum góðan mat, hlustuðum á blús og spjölluðum, Diljá hjálpaði Caroline í eldhúsinu (nema hvað) og síðan sendu þau okkur heim með ilmandi blóm og kryddjurtir úr garðinum hjá sér. Garðurinn þeirra er algjört æði, þar er m.a. lítil tjörn og síðustu tvö sumur hefur lítill froskur búið þar. Þau voru einmitt að velta því fyrir sér hvort hann myndi koma aftur til þeirra í ár.
Á morgun er síðan seinni sýningardagurinn hjá Sesselju. Hún þarf að mæta kl. 9:30 á æfingu og síðan eru sýningar kl. 15 og 18. Á sýningunni er reynt að gefa mynd af vinsælustu dönsum 20. aldarinnar og þar má sjá Can-Can, ballett, stepp, diskódans, suður-ameríska dansa, hipp-hopp, Charlestone og jassdans. Rosalega gaman. Rosalega flott. Og mín stelpa auðvitað flottust!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2007 | 19:11
Í RÍKI LORDIS
Þegar þetta er ritað er táningurinn á heimilinu um borð í næturferju á leið til Finnlands. Lúðrasveit Kulturskolans lagði af stað með rútu kl. hálfeitt til Stokkhólms og síðan tekur við næstum 12 tíma ferjusigling. Það var gaman að því að þegar við skutluðum henni í rútuna komu 3 stelpur hlaupandi til hennar til að láta hana sitja hjá sér. Feimna barnið mitt sem alltaf hefur verið svo inní sig og útaf fyrir sig er að blómstra hérna í Svíþjóð, hefur þroskast alveg ótrúlega mikið síðan við fluttum hingað. Hún fíflaðist meira að segja við stjórnandann - ég get svo svarið það! Þau þrættu um það hvort væri flottara - íslenska vegabréfið eða það sænska.
Lúðrasveitin heldur ferna tónleika í Lojo í Finnlandi sem er vinabær Växjö, en það er Skagaströnd reyndar líka! Ég get líka upplýst ykkur um það að það eru 2112 km héðan til Skagastrandar
Sesselja gistir hjá Rebecku vinkonu sinni í nótt svo að við erum bara ein heima með örverpið. Þau feðginin eru að dansa við bestu lög Mannakorns, nokkuð sem hljómar oft hérna heima og færir mann óneitanlega nær Íslandi! Diljá spilar undir á badmingtonspaða og er alveg með taktana á hreinu!
Já, og svo er Óli kominn í blúsband! Hitti í dag gítarleikara/söngvara og tók með sér bassaleikara sem hann hafði frétt af. Þeir smullu allir svona feiknavel saman enda allir þaulvanir tónlistarmenn og stefna að því að spila fyrir einhvern aur svona annað slagið! Svo var Óli að sjá það að Emil & the Estatics, snillingarnir sem heimsóttu Hornafjörð á blúshátíðinni í fyrra, eru að spila á Öland í ágúst. Það er ekki svo langt fyrir okkur að fara þangað - ætlum endilega að reyna að komast!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 16:44
LITLI KOKKURINN
Ég bara VERÐ að segja frá henni yngstu dóttur minni. Eins og mönnum er kunnugt og margoft hefur komið fram er hún matargat hið mesta og elskar allt sem snýr að matseld. Hefur hún t.d. lýst yfir ást sinni á kokkabók Helgu Sigurðar og veit ekkert skemmtilegra en að stússast með mér í eldhúsinu. Uppáhaldsbókin hennar er Tumi bakar og þannig mætti lengi telja.
Nýjasta uppátækið hjá henni er að ná sér í ókeypis uppskriftabækling í hvert sinn sem við förum út í búð og þegar heim er komið situr hún og ,,les" upphátt úr myndskreyttum bæklingnum, um sítrónur og tómata og rjóma og brauð, af mikilli innlifun! Þau verða góð saman í sumar, hún og Brynjar frændi hennar sem er á sama aldri, en uppáhaldssjónvarpsefnið hjá honum mun víst vera sjónvarpskokkurinn Nigella!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.5.2007 | 07:16
HVER VEGUR AÐ HEIMAN ER VEGURINN HEIM
Jæja, þá er búið að panta farið heim! Verðum heima í 3 vikur sem við skiptum nokkuð jafnt á milli Hornafjarðar og Reykjavíkur - um 10 dagar á hvorum stað. Rebekka er búin að fá vinnu í bæjarvinnunni á Höfn og fer heim á undan okkur, á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Sjáumst í sumar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.5.2007 | 20:39
THANK YOU FOR THE MUSIC...
Jæja, þá er enn ein helgin að renna sitt skeið og búið að vera mikið um að vera.
Óli tók laugardaginn snemma, hjólaði niður á lestarstöð upp úr klukkan 6 þaðan sem hann lagði upp í veiðferð til Danmerkur með Ottosson Bygg AB. Farið var með rútu til Helsingborgar, þaðan siglt til Helsingør í Danmörku og kíkt í bæinn. Svo var haldið á bátnum út á sundið bláa og nokkrir þorskar hífðir á dekk. Reyndar sagði Óli að þetta hefðu verið þvílíkir tittir að menn gætu varla kallað þetta þorsk.
Sesselja var líka árrisul, fór í kórferðalag suður í sænska skerjagarðinn og var í 8 tíma ferðalagi - rosalega skemmtilegt. Hún fór fyrst til Karlskrona og þaðan var haldið á bát út í eyju, skoðaður gamall kastali og fleira. Það fór fullt af foreldrum með í ferðina og ég hefði gjarnan viljað fara með en ég vildi ekki fara með Diljá í svona langt rútu- og bátaferðalag. Við vorum bara tvær heima allan daginn, ósköp var það skrítið, restin af fjölskyldunni bara dreifð um viða veröld. Við fórum á leikvöllinn með Silönu, vinkonu hennar, og tókum daginn rólega í blíðaskaparveðri.
Um kvöldið kom Maria til okkar í annan í Eurovision með loforð í farteskinu um að sofna ekki aftur!! Loforð sem henni tókst næstum því að standa við! Bertha var líka með í beinni frá USA og við skemmtum okkur konunglega. (Óli svaf eftir veiðitúrinn). Bertha hélt með Serbíu, mér fannst Ungverjaland og Serbía best og er mjög sátt við sigurlagið. Hins vegar er þessi keppni að snúast upp í eitthvað fríkshow, finnst mér. Ég man þegar ég uppgötvaði Eurovision á unga aldri á Baronstígnum. Mér fannst alveg stórkostlegt að fólk úr öllum heiminum (að mér fannst þá) skyldi koma saman og flytja tónlist í sátt og samlyndi. Ég var eitthvað svo hrærð yfir þessu og var sannfærð um að tónlist væri stórkostlegasta afl í heimi fyrir utan Guð, hafin yfir allt ósætti, fordóma, trúarbrögð og stríð. Og ég held að ég hafi trúað þessu alveg þangað til núna. Ef söngvakeppnin á að fara að snúast upp í einvherjar deilur milli austurs og vesturs þá er nú orðið tímabært að leggja niður þessa lýðræðislegu kosningu. Sem er auðvitað skelfileg tilhugsun - að lýðræðið sé að ganga af söngvakeppninni dauðri! Erum við mennirnir svo óþroskaðir að við getum ekki bara haft ánægju af tónlistinni og látið úrslitin liggja milli hluta?? Átt svo bara okkar uppáhaldslög í friði og sungið þau í sturtunni?
Jæja, nóg um það. Í dag endurheimtum við svo frumburðinn eftir viku útilegu í Þýskalandi. Þar ferðaðist hún víða og skemmti sér alveg rosalega vel!!! Fór m.a. í skemmtigarð og dýragarð´svo eitthvað sé nefnt. Hún fór líka á bryggjuhátíð í Kiel þar sem m.a. lögregla, slökkvilið, ýmis hjálparsamtök og fleiri kynntu starfsemi sína. Í bási Rauða krossins var hægt að fá að mála myndir, sem síðan verða seldar til að afla fjár fyrir samtökin. Rebekka tók sig til og málaði þessa flottu mynd af friðarmerkinu og hver veit nema listaverkið hennar eigi innan skamms eftir að hanga uppi á vegg á einhverju þýsku heimili?
Núna seinnipartinn skellti ég mér í Konserthuset, sem er þjóðleikhús okkar Växjöbúa. Þar var uppskeruhátíð Kulturskolans, sem er listaskólinn sem Rebekka er í og lúðrasveitin hennar var að spila. Mig langaði til að sjá sýninguna þó að Rebekka hefði ekki getað verið með. Þetta var alveg rosalega gaman. Þarna var fléttað saman tónlist (lúðrasveit, kammersveit, rokk, klassík, jass), dansi, einsöng, kórsöng, leiklist, ljóðlist og myndlist í eina heildstæða sýningu. Þemað var Carl von Linné, stolt Växjöbúa, maðurinn sem fann upp flokkunarkerfi plantna og á 300 ára afmæli í ár. Hann mætti í eigin persónu ásamt nokkrum skátum sem hann kenndi að skoða og meta undur náttúrunnar. Dansandi og syngjandi blóm, býflugur (ekki eldri en 4 ára), fiðrildi og fleiri verur stigu á svið og stoltar mömmur tárfelldu á meðan rígmontnir pabba földu sig bak við upptökuvélarnar. Í einu atriðinu gengu 35 fiðluleikarar í gegnum salinn, í öðru drundi í alls kyns trommum úr öllum hornum þessa 700 manna salar og í lokin stóð allur hópurinn á sviðinu og söng af hjartans lyst. Aaah, og maður fór svo glaður í hjartanu heim á eftir - trúin á tónlist án landamæra endurvakin.
Það er stutt vika framundan. Á fimmtudaginn heldur Rebekka svo til Finnlands með lúðrasveitinni í 5 daga ferðalag. Og laugardag og sunnudag dansar Sesselja bæði jassdans og ballett í þessu sama konserthúsi, þegar dansskólinn hennar (sem líka er með námskeið í tónlist, leiklist og söngleikjum) heldur sýningu af sama toga. Ég er sko strax farin að hlakka til!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)