THANK YOU FOR THE MUSIC...

Jæja, þá er enn ein helgin að renna sitt skeið og búið að vera mikið um að vera.

Óli tók laugardaginn snemma, hjólaði niður á lestarstöð upp úr klukkan 6 þaðan sem hann lagði upp í veiðferð til Danmerkur með Ottosson Bygg AB.  Farið var með rútu til Helsingborgar, þaðan siglt til Helsingør í Danmörku og kíkt í bæinn.  Svo var haldið á bátnum út á sundið bláa og nokkrir þorskar hífðir á dekk.  Reyndar sagði Óli að þetta hefðu verið þvílíkir tittir að menn gætu varla kallað þetta þorsk.

Sesselja var líka árrisul, fór í kórferðalag suður í sænska skerjagarðinn og var í 8 tíma ferðalagi - rosalega skemmtilegt.  Hún fór fyrst til Karlskrona og þaðan var haldið á bát út í eyju, skoðaður gamall kastali og fleira.  Það fór fullt af foreldrum með í ferðina og ég hefði gjarnan viljað fara með en ég vildi ekki fara með Diljá í svona langt rútu- og bátaferðalag.  Við vorum bara tvær heima allan daginn, ósköp var það skrítið, restin af fjölskyldunni bara dreifð um viða veröld.  Við fórum á leikvöllinn með Silönu, vinkonu hennar, og tókum daginn rólega í blíðaskaparveðri.

Um kvöldið kom Maria til okkar í annan í Eurovision með loforð í farteskinu um að sofna ekki aftur!!  Loforð sem henni tókst næstum því að standa við!  Bertha var líka með í beinni frá USA og við skemmtum okkur konunglega.  (Óli svaf eftir veiðitúrinn).  Bertha hélt með Serbíu, mér fannst Ungverjaland og Serbía best og er mjög sátt við sigurlagið.  Hins vegar er þessi keppni að snúast upp í eitthvað fríkshow, finnst mér.  Ég man þegar ég uppgötvaði Eurovision á unga aldri á Baronstígnum.  Mér fannst alveg stórkostlegt að fólk úr öllum heiminum (að mér fannst þá) skyldi koma saman og flytja tónlist í sátt og samlyndi.  Ég var eitthvað svo hrærð yfir þessu og var sannfærð um að tónlist væri stórkostlegasta afl í heimi fyrir utan Guð, hafin yfir allt ósætti, fordóma, trúarbrögð og stríð.  Og ég held að ég hafi trúað þessu alveg þangað til núna.  Ef söngvakeppnin á að fara að snúast upp í einvherjar deilur milli austurs og vesturs þá er nú orðið tímabært að leggja niður þessa lýðræðislegu kosningu.  Sem er auðvitað skelfileg tilhugsun - að lýðræðið sé að ganga af söngvakeppninni dauðri!  Erum við mennirnir svo óþroskaðir að við getum ekki bara haft ánægju af tónlistinni og látið úrslitin liggja milli hluta??  Átt svo bara okkar uppáhaldslög í friði og sungið þau í sturtunni?

Jæja, nóg um það.  Í dag endurheimtum við svo frumburðinn eftir viku útilegu í Þýskalandi.  Þar ferðaðist hún víða og skemmti sér alveg rosalega vel!!!  Fór m.a. í skemmtigarð og dýragarð´svo eitthvað sé nefnt.  Hún fór líka á bryggjuhátíð í Kiel þar sem m.a. lögregla, slökkvilið,  ýmis hjálparsamtök og fleiri kynntu starfsemi sína.  Í bási Rauða krossins var hægt að fá að mála myndir, sem síðan verða seldar til að afla fjár fyrir samtökin.  Rebekka tók sig til og málaði þessa flottu mynd af friðarmerkinu og hver veit nema listaverkið hennar eigi innan skamms eftir að hanga uppi á vegg á einhverju þýsku heimili?

Núna seinnipartinn skellti ég mér í Konserthuset, sem er þjóðleikhús okkar Växjöbúa.  Þar var uppskeruhátíð Kulturskolans, sem er listaskólinn sem Rebekka er í og lúðrasveitin hennar var að spila. Mig langaði til að sjá sýninguna þó að Rebekka hefði ekki getað verið með.  Þetta var alveg rosalega gaman.  Þarna var fléttað saman tónlist (lúðrasveit, kammersveit, rokk, klassík, jass), dansi, einsöng, kórsöng, leiklist, ljóðlist og myndlist í eina heildstæða sýningu.  Þemað var Carl von Linné, stolt Växjöbúa, maðurinn sem fann upp flokkunarkerfi plantna og á 300 ára afmæli í ár.  Hann mætti í eigin persónu ásamt nokkrum skátum sem hann kenndi að skoða og meta undur náttúrunnar.  Dansandi og syngjandi blóm, býflugur (ekki eldri en 4 ára), fiðrildi og fleiri verur stigu á svið og stoltar mömmur tárfelldu á meðan rígmontnir pabba földu sig bak við upptökuvélarnar.  Í einu atriðinu gengu 35 fiðluleikarar í gegnum salinn, í öðru drundi í alls kyns trommum úr öllum hornum þessa 700 manna salar og í lokin stóð allur hópurinn á sviðinu og söng af hjartans lyst.  Aaah, og maður fór svo glaður í hjartanu heim á eftir - trúin á tónlist án landamæra endurvakin.

Það er stutt vika framundan.  Á fimmtudaginn heldur Rebekka svo til Finnlands með lúðrasveitinni í 5 daga ferðalag.  Og laugardag og sunnudag dansar Sesselja bæði jassdans og ballett í þessu sama konserthúsi, þegar dansskólinn hennar (sem líka er með námskeið í tónlist, leiklist og söngleikjum) heldur sýningu af sama toga.  Ég er sko strax farin að hlakka til! Grin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bertha Sigmundsdóttir

Elsku besta Heiða mín. Mikið var ég nú ánægð að sjá að Serbía vann, hörkulag, og flottur flutningur, ég sit enn hér með gæsahúð eftir flutninginn, geðveikt lag. Takk aftur fyrir samverurnar og fyrirgefðu að ég þurfti að þjóta út í klippingu...tékkaðu samt á nýjum myndum hjá mér, þar er ég komin með klippingu og litun...sjáumst bráðum, eftir nokkra mánuði

Bertha Sigmundsdóttir, 14.5.2007 kl. 01:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband