MÆTT Á SVÆÐIÐ!

Jæja, þá er maður lentur á skerinu góða. Lentum miðvikudaginn 11. júlí eftir hádegi og fórum beint austur til Hornafjarðar. Bertha Jónína tók á móti okkur og var með ýmsar kræsingar í farteskinu: snúða, kleinur, flatbrauð með hangikjöti, kókómjólk, Svala og allar sortir af íslensku nammi og snakki sem fást í Bónus!! Ferðin austur gekk vel og vorum við komin hingað um klukkan 1 eftir miðnætti. Nú erum við bara að njóta þess að hitta ættingja, vini, gamla vinnufélaga og alla hina sem maður rekst á á ferð um bæinn.

Sesselja fór strax í gærmorgun á leikjanámskeið Sindra þar sem hún hitti auðvitað gömlu skólafélagana. Hún kemur til með að vera með þeim á leikjanámskeiði meðan við verðum hér fyrir austan, fór í fjöruferð í gær og var að koma úr hestaferð. Rosalega gaman. Diljá finnst æðislegt að geta talað við alla og að krakkarnir skilji hana. Hún var úti að skottast í allan gærdag og naut þess í botn, þó að hún þyrfti að vera í síðbuxum og jakka. Rebekka er alltaf að vinna og nýtur þess líka að vera með vinum sínum þessa síðustu viku hennar hér á Hornafirði.

Óli vaknaði eldsnemma í morgun og fór á silungaveiðar með pabba sínum út í fjörð. Aldrei að vita nema hann færi mér fisk í soðið!

Mér finnst dálítið skrítið að vera komin hingað. Það kemur mér á óvart hvað mér finnst kalt - ekki hélt ég að ég myndi venjast sænsku veðráttunni svona fljótt. En mér finnst bara vera skítakuldi. Ég hitti fyrrverandi vinnufélaga í ,,kaupfélaginu" og hún sagði að þetta væri bara ímyndun í mér. Það væri sko ekkert kalt! Þó að hún sé greind kona og margfróð trúi ég henni samt ekki í þetta sinn.

Við erum búin að vera hjá Valdísi og Braga en í dag flytjum við í kennaraíbúð og verðum þar í eina viku. Þá getur fólk líka heimsótt okkur. Síðan troðum við okkur aftur inn hjá vinum eða ættingjum síðustu tvær næturnar áður en við förum suður þann 22. júlí. Þá höfum við viku í bænum til að klára fermingarundirbúninginn en Rebekka fermist í Seljakirkju sunnudaginn 29. júlí.

Við ætlum bara að njóta dvalarinnar hér í botn og reyna að hitta ALLA!! Vonandi tekst það og ef ekki, þá vona ég að enginn verði sár. Þá er bara að skella sér í Smálöndin í Svíþjóð næsta sumar - aldrei að vita nema það verði eitthvert húllumhæ og gaman þar sem við Óli verðum bæði fertug á næsta ári. Höldum kannski bara upp á áttræðisafmæli næsta sumar og þá eru auðvitað allir ættingjar og vinir meira en velkomnir.

Hlakka til að sjá ykkur öll!!


ÞAÐ ER ALLT Á FLOTI....

Hah!  Þar gabbaði ég ykkurGrin  Þið hélduð auðvitað að það væri allt á floti hjá MÉR eftir að hafa horft á fréttirnar.  Jú, vissulega hefur hann skvett hressilega úr sér en við höfum nú sem betur fer sloppið við flóð og vegskemmdir hér í Växjö og næsta nágrenni, en ástandið er slæmt sunnan við okkur.  Ég sá einmitt fyrirsögn í blaði áðan um fyrsta fórnarlambið.  Kona á leið heim úr veislu lenti með bílinn sinn á kaf á veginum og fannst látin 9 tímum síðar.  Afar sorglegt og manni finnst eiginlega ótrúlegt að svona geti gerst hérna.  Það á víst að rigna hér í Suður-Svíþjóð langt fram í næstu viku en norðan við okkur hefur bara verið blíðskaparveður.

Ég vona bara að mér takist að pakka sólinni í Stokkhólmi niður hjá mér þegar við komum í næstu viku og að skúraveðrið hér fyrir sunnan laumist ekki með.  Annars NENNI ÉG EKKI að pakka niður!  Það er bara eitthvað það leiðinlegasta sem ég geri.  Að pakka niður!!Crying  Veit ekki af hverju.  Örugglega eitthvað sálrænt af því að ég er svo heimakær.  Hreiðrið okkar hér er orðið svo notalegt og kósý að ég tími varla að yfirgefa það.

Hvað um það - ferðinni er heitið til Íslands og það verður auðvitað æðislegt að komast heim.  Fá sér snúð og kjöt í karrý og flatbrauð með hangikjöti og Rommý og Síríus súkkulaði og Sambó lakkrís og íslenskar kjötbollur og fiskibollur með lauk og soðin fisk og steiktan fisk og ofnbakaðan fisk og gratíneraðan fisk og soðin fisk aftur og svo....það ljúffengasta af öllu....íslenskan humarW00t  Vona að hann hafi ekki allur klárast á humarhátíðinni.

En best af öllu verður auðvitað að hitta ykkur öll!  Sjáumst hress og kát!!Wink


ÓB BENSÍN - VARÚÐ!

Ég botna bara ekkert í þessu!  Ein ágæt kona sem ég þekki lenti aldeilis í hremmingum við það eitt að kaupa bensín í sjálfsala og borga með debetkorti.  Þetta gerum við iðulega hér í Svíþjóð og er ekkert mál.  Það er sko aldrei tekin einn eyrir umfram það sem dælt er á bílinn.  Ég hvet þá sem kíkja hér inn til að lesa þessa færslu og hvetja aðra til að gera það sama.

http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/251317/#comments

Svo spyr ég bara:  Góðir Íslendingar!  Ætlið þið virkilega að láta koma svona fram við ykkur þegjandi og hljóðalaust?

Ég veit a.m.k. hvar ég mun EKKI kaupa bensín þegar ég kem til Íslands í næstu viku!


MIDSOMMAR

Svíar halda upp á miðsumarhátið nú um helgina en það er stærsta hátíðin hér fyrir utan jólin.  Föstudagurinn var almennur frídagur og þann dag borða menn síld með nýuppteknum kartöflum og síðan jarðarber eða jarðarberjatertu.  Við létum nú síldina eiga sig (nema Óli sem fékk síld í vinnunni á fimmtudeginum) en klikkuðum sko ekki á jarðarberjatertunniLoL

midsommarÞað rigndi töluvert hér í Växjö í gær og setti það svip sinn á hátíðahöldin - minnti bara á 17. júní heima!  Við skruppum aðeins með stelpurnar upp í Evedal (ströndina okkar) þar sem menn dönsuðu í kringum majstöng (blómastöng) og sungu - ekki á ósvipaðan hátt og við dönsum í kringum jólatréð.  Menn tóku meira að segja jólalögin og breyttu þeim í sumarlög - sungu ,,Göngum við í kringum miðsumarstöng" og fleira í þeim dúr.  Það var leikið undir á fiðlu og harmonikku og alls staðar voru litlar stelpur með blómakransa í hárinu og margar konur voru í þjóðbúningum.  Þó að miðsumarhátíðin hafi ekki sömu merkingu fyrir okkur og Svía, fannst okkur stemningin mjög hátíðleg og glaðleg.

 

Við tókum því svo bara rólega í dag, fórum með nestiskörfu í garðinn þarkrans sem stelpurnar gátu leikið sér í blíðunni.  Á morgun er meiningin að fara og tína jarðarber ef veðrið verður gott og kannski sitthvað fleira.

(Ath. myndirnar á síðunni eru teknar af netinu).


ÚTSKÝRUM HÆTTURNAR

Sumum finnst ég kannski oft með óþarfa áhyggjur en það er aldrei of varlega farið vil ég meina.  Foreldrar verða að vara börn sín við hættum í umhverfinu og útskýra þær fyrir þeim.  Við megum ekki vanmeta börnin okkar - ef við segjum við 8 ára gamalt barn:  ,,Þú mátt ekki leika þér þarna" án frekari útskýringa er hætt við að það fari inn um annað eyrað og jafnóðum út um hitt.  Mín reynsla er sú að ef við gefum okkur tíma til að setjast niður með barninu og ræða við það um það sem getur gerst og hugsanlega hefur gerst, þá sitji það frekar í barninu og það segi jafnvel öðrum börnum frá því.  En börn eru fljót að gleyma og við verðum að minna þau á - aftur og aftur og aftur - líka þegar þau eru í umsjón fullorðinna.


mbl.is Átta ára stúlka hætt komin á ylströndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VILTU GERA MÉR GREIÐA?? GREIÐA!

Ég auglýsi hér með eftir fermingargreiðslu!  Þ.e. hárgreiðslu.

O.K. ég veit það núna að sunnudagur í lok júlí er ekki heppilegasti dagurinn en því verður ekki breytt úr þessu.  Ég er búin að hringja í 4 eða 5 hárgreiðslustofur í Reykjavík en það vill enginn taka að sér að greiða stelpunni minni á fermingardaginn hennarFrown  Það er nú ekki eins og þetta séu einhver ósköp, hárið krullað frá náttúrunnar hendi og frekar stutt!  Hún er líka þannig gerð að hún vill hafa allt einfalt og látlaust.

Svo að ef einhver þarna úti þekkir flinka hárgreiðslukonu eða -mann sem vill taka þetta að sér (og kannski sjæna mömmuna smá í leiðinni), látið mig endilega vita.  Ég hef ekki efni á að hringja í allar hárgreiðslustofur í bænum héðan frá útlöndum.


17. JÚNÍ Í KÖBEN OG MARGT, MARGT FLEIRA

FÖSTUDAGUR 15. JÚNÍ - SKÓLASLIT OG ÓVÆNTUR PAKKI!

Það hefur verið í nógu að snúast hjá fjölskyldunni síðustu daga.  Föstudaginn 15. júní voru skólaslit hjá stelpunum.  Ég mætti á skólaslitin hjá Sesselju ásamt fjöldanum öllum af foreldrum nemenda í 6 ára bekk upp i 6. bekk.  Skólaslitin voru haldin úti við í yndislegu veðri, börnin sungu, sjötti bekkur fékk útskriftargjafir frá skólanum (það eru engar einkunnir gefnar) og skólastjórinn hélt stutta ræðu í þetta sinn (hún var víst mjöööög löööööng í fyrra) sem hljóðaði á þessa leið:  Strákur í 6 ára bekk kom til skólastjórans daginn fyrir skólaslitin og sagði:  ,,Hurru, rektor.  Er skólinn þá virkilega búinn núna?"  Skólastjórinn játti því.  Þá rétti piltur upp höndina og hrópaði:  ,,Yeah - Gimme five!!!"

Að því loknu héldu börnin hvert í sína skólastofu þar sem þau kvöddu kennarana.  Það var mjög hjartnæmt því að aðalkennarinn þeirra, Mia, verður ekki með þau næsta vetur og hún grét fögrum tárum yfir að vera að kveðja þau.  Sömuleiðis skólaliðinn Monica, hún veit ekki hvort hún verður með þau áfram næsta vetur og hún var nánast með ekka þegar ég fór og kvaddi hana.  Það er naumast að börnin okkar eiga stórt pláss í hjörtum þessara yndislegu kvenna.  Lisa og Pia verða hins vegar áfram með krökkunum næsta vetur og þar eru þau í góðum höndum.  Að lokum fórum við aftur út þar sem beið kaffi, djús og kanilbollur handa öllum og því næst héldum við heim í sumarfrí.

Það var svipað uppi á teningnum hjá Rebekku en þar mæta foreldrar ekki á skólaslit, ekki alveg eins hátíðlegt og heima á Hornafirði a.m.k.  Það var sungið og haldnar ræður og síðan kvöddu kennarar nemendurnar í stofum sínum og allir fengu ís!  Svo var bara komið að því fyrir Rebekku að pakka niður fyrir Íslandsferðina.

Um kvöldmatarleytið á föstudeginum sögðum við Sesselju að við þyrftum að fara út á flugvöll og sækja pakka frá Beggu frænku.  Það sem hún vissi ekki að pakkinn var Hulda Steinunn frænka hennar og stórvinkona!!  Það urðu aldeilis fagnaðarfundir, en Hulda ætlar að vera hjá okkur í einhverja daga.

LAUGARDAGUR 16. JÚNÍ - MÅLILLA OG MERKINGARLAUSA DANMÖRK

Við vöknuðum síðan öll snemma á laugardagsmorgni og fyrst lá leiðin til pabba og Irene í Målilla, ásamt Mariu systur.  Þangað er alltaf svo gott að koma og við vildum að Rebekka kveddi þau fyrir Íslandsferðina.  Að lokinni afslöppun og hádegisverði þar, skiluðum við Mariu aftur til Växjö og héldum síðan áleiðis til Danmerkur.  Tókum ferjuna frá Helsingborg til Helsingör í öskrandi rigningu, sem reyndar var kærkomin eftir margra vikna þurrka.  Sesselja og Hulda héldu reyndar að við værum að ljúga að þeim þegar við sögðumst ætla að taka bílinn og allt dótið með um borð í bátinn.  Þetta var heilmikil upplifun fyrir þær!   Þegar til Danmerkur kom reyndist ekki þrautalaust að finna íslenska gistiheimilið á Amager, þrátt fyrir útprentaða leiðarlýsingu.  Danir merkja bara ekki eins vel og Svíar!!  Að lokum stökk ég inn á hótel við Nýtorgið og viti menn, var þá ekki Íslendingur að vinna þar.  Með hans aðstoð og miklu betra korti komumst við loksins á áfangastað mátulega til að fara að hátta og svæfa liðið.

SUNNUDAGUR 17. JÚNÍ - ALLS STAÐAR ERU ÞESSIR ÍSLENDINGAR AÐ ÞVÆLAST!

Vöknuðum aftur snemma, úthvíld og hress og tókum saman föggur okkar.  Röltum svo í bakaríið á horninu, ekta danskt bakarí með vínarbrauðum og girnilegum brauðum og kökum, en hraðbankinn við bakaríið var tómur svo að við ákváðum að fara bara strax upp á flugvöll og fá okkur morgunmat þar.  Sem við og gerðum, tókum því bara rólega.  Mér fannst það nú svolítið skrítin tilfinning að vera að senda barnið mitt aleitt í flugvél til Íslands, þó að hún sé nú orðin ansi vanur heimshornaflakkari.  Sagði henni að hún yrði að senda mér SMS þegar hún væri búin að finna hliðið sitt og síðan þegar hún væri komin út í vél.  Í biðröðinni spurði ég Óla hvort hann gæti ekki fundið einhverja Íslendinga til að hengja hana við en hann sagðist ekki sjá neinn álitlegan.  Fór svo að horfa betur í kringum sig og sagði:  ,,Er þetta ekki Gulli rammi?"  (Eldhress náungi og heimsfrægur á Hornafirði, giftur frænku hans Óla).  ,,Nei, það getur ekki verið, þessi er með gítar á bakinu og Gulli kann örugglega ekki eitt einast gítargrip."  ,,Það væri nú eftir öllu", hugsaði ég með mér, ,,að við myndum rekast á Hornfirðinga hér."  Og viti menn!  Kemur Óli ekki auga á Fúsa og Nónu, bestu vinkonu Beggu systur.  Þau voru semsagt á heimleið ásamt Gulla, sem var reyndar með fiðlu en ekki gítar á bakinu (maðurinn kann sjálfsagt ekkert frekar á fiðlu en gítar Whistling)  Það skipti auðvitað engum togum að Rebekka var hnýtt aftan í þessa ágætu Hornfirðinga og allar áhyggjur mínar voru á bak og burt - HAKUNA MATATA!!  ,,Nei, nei, elskan mín, þú þarft ekkert að senda mér SMS fyrr en þú ert komin til Íslands! Kyss - kyss og knús - knús og góða ferð heim og ég á eftir að sakna þín"  Og síðan héldum við okkar leið niður í miðbæ Kaupmannahafnar þar sem við ætluðum að hitta Ragnhildi, bróðurdóttur hans Óla og hennar fjölskyldu.

Það er tvennt sem er hægt að finna þegar maður keyrir um í Köben, miðbærinn og flugvöllurinn, svona nokkurn veginn a.m.k.  Við lögðum við Ráðhúsið en það er voðalega mikið allt lokað á sunnudögum í júní í KöbenWoundering  Mæltum okkur mót við Ragnhildi & co. við innganginn í Tívolí en þar sem litla frænkan, sem við komum m.a. til að skoða, var að fá blundinn sinn og 2 tímar í að við ætluðum að hittast, ákváðum við að leyfa stelpunum að kíkja aðeins inn í Tívolí.  Það var nú einu sinni 17. júní og við búin að þvæla þeim í þessa ferð, þær yrðu nú að fá að gera eitthvað skemmtilegt.  Svo að þær fengu að keyra aðeins bíl, fara í kolkrabbann og svo fóru Óli og Diljá fóru í útsýnisferð með Parísarhjólinu meðan ég fór með Sesselju og Huldu Steinunni í rússíbanann (ekki þennan stóra sko!).  Þeim fannst það sko EKKI leiðinlegt og öskruðu hástöfum og af hjartans lyst þegar hann tók dýfur!  Þetta var rosalega mikil upplifun fyrir þær og bara skemmtilegur þjóðhátíðardagur hjá okkur!  Síðan komu Ragnhildur og Hjörtur með litlu Dúfuna sína sem er náttúrulega bara yndisleg og falleg!  Sesselja og Hulda voru ekki seinar á sér að taka að sér barnapíuhlutverkið og keyra hana um Tívolíið í barnavagninum.  Ragnhildur passaði einmitt Rebekku þegar hún var um 2ja ára gömul og ég í Háskólanum þannig að kannski þetta víxlist svona á milli kynslóða.

Nú, þá var komið að því að halda heim á leið.  Við villtumst að sjálfsögðu nokkrum sinnum, þrátt fyrir að vera nánast með stækkunargler á götukortinu og fylgja því eftir bestu getu.  Óli hafði á orði að þeir dönsku ættu að fara aðeins rólegar í Tuborginum þegar þeir væru að merkja göturnar.  Það er t.d. engin almennileg merking úr miðbænum í áttina að Helsingör!  Dálítil viðbrigði þar sem Svíar merkja allt við nánast hverja einustu beygju og á nokkurra metra fresti þar að auki!  Þetta hafðist þó allt að lokum og mikið var gott að koma heim í skipulagið í Svíþjóð!

Rebekka lenti svo á Íslandi um það bil sem við vorum að fara í ferjuna yfir sundið (eftir næstum því 3ja tíma töf hjá Iceland Express) og var afar hamingjusöm að hitta aftur hana Önnu Regínu vinkonu sína.  Hún fer svo heim til Hornafjarðar í dag og á eflaust eftir að vera vel fagnað þar.  Hér er hinsvegar voða tómlegt og skrítið án hennar.  En það er víst best að fara að venjast því.  Ætli hún komi ekki til með að eyða flestum sumrum á Íslandi hér eftir!  Stóra stelpan mín - öll að verða fullorðin!


HVENÆR ERU TANNRÉTTINGAR NAUÐSYNLEGAR?

cartoonFyrir u.þ.b. ári síðan átti dóttir mín að mæta í tannréttingar þar sem hún átti að fá spangir.  Áður var hún búin að vera með mismunandi gerðir af gómum til að víkka út góminn sinn vegna þrengsla - gott og vel með það!  Við afpöntuðum hins vegar tímann hennar af tveimur ástæðum:  1) Á þeim tímapunkti höfðum við ekki efni á að halda þessari tannréttingar- meðferð áfram.  2) Það var í burðarliðnum að flytja hingað til Svíþjóðar þar sem við vissum að tannréttingar væru ,,ókeypis" fyrir 18 ára og yngri (maður borgar semsagt fyrir þær með sköttunum sínum).

Nú er búið að taka mót og myndir af henni hjá tannréttingasérfræðingi hér og við vorum í viðtali í morgun til að fá niðurstöðurnar:  Hún þarf EKKI á tannréttingum að halda!  Ég varð auðvitað alveg undrandi.  Nei, nei, bitið er fínt og tennurnar jafnar og fínar.  Það er augntönn sem ekki er komin niður og ekki er pláss fyrir.  Það á bara að fjarlægja hana með smáskurðaðgerð eftir nokkra mánuði.  Málið dautt!

Heima var meiningin að búa til pláss fyrir þessa blessuðu tönn, víkka góminn meira og draga hana niður auk þess sem bitið væri skakkt.  Guð má vita hvað þetta hefði tekið langan tíma, að ekki sé minnst á kostnaðinn!

2Ég hef nú nokkrum sinnum gengið um ganga gagnfræðaskóla hér og veitt því eftirtekt hvað það eru miklu færri krakkar hér með spangir en heima.  Tannlæknirinn hér sagði mér að hér þyrftu ekki allir að vera með amerískt Hollywood-bros.  Smáfrávik og skekkjur væru í lagi svo framarlega sem ekki væri hætta á skemmdum og menn gætu tuggið eðlilega.  Hér væri áherslan á að halda sínu persónulega útliti.  Ég hafði líka oft spáð í það heima að það væru nú bara allir unglingar orðið með eins tennur.

Sjálf var ég í tannréttingum í rúm tvö ár, frá 14-16 ára aldurs.  Vildi alls ekki brosa á fermingarmyndunum.  Við bjuggum á Höfn og á 5 vikna fresti keyrði pabbi mig suður - lögðum af stað kl. 5 að morgni, áttum tíma eftir hádegi og síðan var brunað aftur austur.  Já, það var mikið á sig lagt.  Ég var ekkert sátt við að þurfa tannréttingar, vildi bara fá að vera ég sjálf, en tannlæknirinn sagði að það væri alveg nauðsynlegt til að koma í veg fyrir tannskemmdir í framtíðinni.  Aumingja pabbi og mamma höfðu heldur ekkert allt of vel efni á þessu, en gerðu það sem var ,,nauðsynlegt?" fyrir barnið.

Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við áttum bókaða tvo tíma sama daginn.  Ég mætti fyrst eldsnemma á mánudagsmorgni, þá var búið að taka mót og myndir o.þ.h.  Þetta var algjör færibandavinna.  Ég lá á bekknum og svo kom tannsi, kíkti á mig og sagði já og humm og jamm og jæja.  Svo átti ég bara að koma aftur eftir hádegi án nánari útskýringa. Þegar við pabbi gamli mætum svo aftur og hann ætlar að fara að fá sér sæti í biðstofunni, er honum sagt að hann skuli ekkert vera að biða eftir mér.  Það eigi að fara að setja á mig spangir og það taki svona 2 tíma.  hann varð eitt spurningamerki og spurði hvað það myndi þá kosta.  Talan sem nefnd var nálgaðist mánaðarlaunin hans - ég man að ég var alveg miður mín.  Svo að á meðan ég var í stólnum, fór hann í bankann til að redda peningamálunum!  Hann var auðvitað öskureiður yfir því að hafa ekki verið upplýstur um þetta fyrirfram en menn ypptu bara öxlum á tannlæknastofunni.  Það var kannski svipað þegar Rebekka átti að mæta, okkur var gefinn tími en ekkert sagt hvað ætti að gera né hvað það myndi kosta.  Það var ekki fyrr en ég hringdi suður til að breyta tímanum sem það var gert og ég þurfti meira að segja að kreista áætlaða upphæð út úr áfgreiðsludömunni.  Þá ákváðum við að hætta bara við.

Hér er allt öðruvísi staðið að málum.  Í fyrsta lagi er allan tímann lögð mikil áhersla á að ákvörðunin sé barnsins sjálfs fyrst og fremst og síðan foreldranna.  Og hér er þetta ekki spurning um peninga því maður borgar jú ekkert.  Þegar Rebekka mætti í mynda- og mótatöku fengum við með okkur heim lista með algengum spurningum og svörum til að lesa yfir.  Síðan fengum við líka eyðublað í tvíriti sem bæði barnið og forráðamaður áttu að skrifa undir eftir að hafa lesið það.  cat2Þar er gerð grein fyrir því sem felst í tannréttingameðferð, ábyrgð barnsins varðandi tannhirðu og að fara eftir fyrirmælum tannlæknisins til að ná sem bestum árangri, jafnframt því sem barninu er gerð grein fyrir því að þetta geti stundum verið óþægilegt og sársaukafullt og hvernig best sé að bregðast við því.  Það á semsagt ekkert að koma á óvart.  Þetta mættu íslenskir tannlæknar svo sannarlega taka sér til fyrirmyndar.  Reyndar fengum við oftast góðar upplýsingar hjá hennar tannlækni á Íslandi en þó var sumt sem hefði mátt bæta eins og ég hef nefnt.

 

baksSpurningin sem eftir stendur er hvort allar þessar tannréttingar séu alltaf nauðsynlegar.  Þeir sem sjá um tannréttingar hér í Svíþjóð vinna hjá hinu opinbera og eru því ekki að maka krókinn persónulega eins og heima á Íslandi.  Gæti það haft einhver áhrif?

 


NOKKRIR PUNKTAR...

  • Vorum að fara á ströndina um daginn þegar kona kom hlaupandi með nánast nýja skauta!  Sagði óðamála að systir hennar væri að flytja og hreinsa út úr kompunni og vildi alls ekki henda þessu.  Hvort við ættum þessi börn og vildum eiga þá!  Jú takk.  ALMENNILEGT!
  • Hélt ég væri orðin vitlaus um miðjan dag á sunnudaginn þegar mér fannst ég heyra lúðrablástur.  Leit út um eldhússgluggann og þá var stúdentaveisla í næsta garði.  Ég naut þess að hlusta á gömul popp- og rokklög ásamt sænskum ættjarðar- og stúdentalögum á meðan ég eldaði matinn!  SKEMMTILEGT!
  • Rakst á stúdenta í bænum í dag.  Fóru öll í gönguferð saman eftir útskrift í kirkjunni, stelpurnar ALLAR í hvítum kjólum og strákarnir ALLIR í svörtum jakkafötum.  Bindin í öllum regnbogans litum þó.  Gengu um miðbæinn og sungu og blésu í flautur.  ÖÐRUVÍSI.
  • Sum fyrirtæki hér bera skondin nöfn.  Hér er líkamsræktarstöð sem heitir Friskis och svettis!  Húðflúrstofa sem heitir House of pain!  Og bílasala sem heitir Stela bil!  FYNDIÐ!

BLÓMALAND

Ég held að Svíar tali jafnmikið um blóm, plöntur og skóga eins og við Íslendingar um veður! Cool  Ég held svei mér þá að þar sem tveir Svíar koma saman, þá berist talið á einhverjum tímapunkti að gróðrinum í kringum þá.  Og önnur hver manneskja sýsli við einhverja garðrækt heima hjá sér.  Það hefur a.m.k. verið mín upplifun þar sem ég hef hitt foreldra bekkjarfélaga dætra minna, gengið fram hjá grönnum á spjalli þegar ég labba heim úr búðinni og í kórpartýinu sem ég sagði frá hér á síðunni, lokaðist heilinn á mér algjörlega eftir 15 mínútna umræður um hvar og hvernig væri nú best að rækta aspas.  Ekki það að mér finnist þetta leiðinlegt, alls ekki, þetta er bara svolítið nýtt fyrir manni.  En auðvitað er þetta eðlilegt í landi sem er jafn mikið ,,blómaland" og Svíþjóð er.

Vorum að koma af ströndinni.  Vatnið er nú kannski ekki orðið alveg nógu heitt fyrir fullorðna fólkið en krakkarnir undu sér vel.  Og að busla í vatninu á ströndinni er ÞAÐ EINA sem Diljá tekur framyfir það að borða Grin

Verið nú dugleg að kvitta í gestabók eða athugasemdir - það er svo gaman að sjá hverjir kíkja við hjá okkur.  Ég vildi bara óska að þið væru hér í blíðunni hjá okkur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband