HEFURÐU SÉÐ PÚÐLUHUND HÚLA OG FÍL STANDA Á HAUS?

Það sáum við í kvöld! W00t  Það er nefnilega sirkus í bænum  Sirkusinn er sænskur (rekinn af Svíum og með höfuðstöðvar í Svíþjóð) en listamennirnir koma alls staðar að úr heiminum.  Þarna var m.a. pólskt púðluhundaatriði þar sem einn púðluhundurinn dansaði með húlahring - ég er ekki að grínast.  Hundarnir voru svona eins og Dalton bræður (í Lukku-Láka bókunum) - þ.e. mismunandi stórir.  Það voru ótrúleg loftfimleikaatriði með kínverskum listamönnum, frábærir trúðar frá Rússlandi, töframaður, hjólreiðaatriði, hestar, úlfaldar, fílar, söngatriði o.fl.

Sjáið heimasíðu sirkussins og myndir hér:  www.cirkusmaximum.se 

Þetta var sem sagt alvöru sirkus, rosalega flott 2ja tíma sýning og í hléinu gafst börnum kostur á að fara á bak á pónýhestum og úlföldum!  Diljá fór á pónýhest og var leidd af manni í gulli skreyttum sirkusbúning, eins og Sesselja þegar hún settist á bak úlfaldanum!  Þær voru leiddar tvo hringi í sirkushringnum og þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það var ekki mikil upplifun.

Komu heim þreyttar og sælar og rotuðust um leið og þær lögðust á koddann.  En nú eru sirkusdraumar teknir við af Idol-draumum hjá Sesselju...


AFMÆLISKVEÐJA

Í dag, 5. september, hefði hún mamma (amma) mín átt afmæli og orðið 89 ára gömul.  Hún lést úr krabbameini fyrir bráðum 11 árum síðan og þrátt fyrir að allir vissu að hverju stefndi fannst manni einhvern veginn að hún yrði alltaf til staðar.  Tilveran hefur svo sannarlega verið tómlegri án hennar því að hún var mjög stór persónuleiki og höfuð ættarinnar.

Þegar hún var 73 ára gömul sagði hún mér frá skrítnum draumi sem hana hafði dreymt.  Hún lá á spítala og allt í einu opnuðust dyrnar og talan 74 birtist og kom svífandi í átt að henni.  Svo vaknaði hún.  Hún var mjög berdreymin og fram að 74 ára afmælinu hennar var ég mjög óróleg út af þessum draumi þar sem hún hafði greinst með krabbamein nokkrum árum áður.  En 74 ára afmælið leið og það 75 ára og ég hætti að hugsa um þennan draum.  En eftir að hún dó og við fórum að telja saman afkomendur hennar, uppgötvuðum við að aðeins 2-3 dögum áður en hún dó hafði 74. afkomandi hennar fæðst.

Mamma sagði skemmtilega frá, oft sögur af viðburðaríkri ævi sinni sem hafði ekki alltaf verið auðveld.  Hún las mikið og las fyrir mig á nánast hverjum degi þar til ég var 9 ára.  Hún var líka vandlát á lesefnið.  Ég varð sjálf læs 6 ára en þá fór hún að lesa fyrir mig ,,bækur með engum myndum", og einna minnistæðust er Þúsund og ein nótt.  Ég man hvað ég var spennt yfir sögunum en mamma var kvöldsvæf og dottaði oft við lesturinn og þá hnippti ég í hana en gafst upp þegar hún var farin að hrjóta.

Hún var líka hnyttin í tilsvörum, talaði bókstaflega í málsháttum og orðtökum og ólíklegustu samlíkingum á hverjum einasta degi og suma frasa hef ég engan heyrt nota nema hana.  Þegar óvæntir gestir birtust sagði hún t.d. alltaf:  ,,Á dauða mínum átti ég nú von en ekki þessu!"  Þegar heilsan var léleg hafði hún á orði að hún væri nú bara eins og kararkerling og svo mætti lengi telja.  Hún gat alltaf slegið fram málsháttum við hvaða aðstæður sem var og ég lærði mikið af henni og sakna þess að heyra þetta ekki lengur. Við sem munum eftir þessu ættum eiginlega að safna þessu saman.

Hún hugsaði alltaf fyrst og fremst um aðra.  Á köldum vetrum biðu fötin mín hlý og notaleg eftir mér á ofninum á morgnana.  Þegar ég kom inn eftir að hafa leikið mér í snjónum, blaut í fætur með kaldar kinnar, beið mín heitt kakó og smurt brauð.  Þegar ég var lasin, dekstraði hún við mig á alla lund (svo að sumum þótti reyndar nóg um Wink.  Hún lagði sig alltaf alla fram og ég reyni að taka hana mér til fyrirmyndar.

Hún var ofurmamma óg súperhúsmóðir, tilfinningarík, söngelsk, afar trúuð og sannfærð um að Ísland væri besta land í heimi.  Ég man eftir laugardagsmorgnum, úr eldhúsinu bárust tónar - Hvítir mávar hljómuðu í óskalögum sjúklinga og mamma söng með.  Alltaf var útvarpið í gangi og þegar ég var lítil og sofnaði upp í hjá henni, var hún oft með kanann lágt stilltan og við sofnuðum út frá honum.  Tónlist vakti sterkar tilfinningar hjá henni og við munum mörg eftir hennar uppáhaldslögum sem enn þann dag í dag minna okkur á hana.  Hún elskaði bæði Björvin Halldórs og óperur og það var ljúfsár stund í jarðarförinni hennar þegar uppáhaldssöngkonan hennar, Diddú sjálf, söng eitt af hennar uppáhaldslögum.  Þá hugsaði ég með mér:  ,,Af hverju gerðum við þetta ekki fyrir hana meðan hún var ennþá hjá okkur?"

En reyndar var hún hjá okkur þá og er enn.  11 árum síðar er minningin um hana og nærvera hennar ennþá svo sterk að hlátur hennar hljómar í eyrum mér.  Enn þann dag í dag hugsum við:  ,,Hvað hefði mömmu nú fundist um þetta?  Nú hefði mamma sagt...  Þessu hefði mamma haft gaman af."  Hún er ennþá með okkur jafnt á gleðistundum sem og í erfiðleikum.  Á því hafa margir í fjölskyldunni fengið staðfestingu.  Svo margir eiga góðar minningar um hana sem þeir deila áfram til barna sinna og barnabarna.  Rétt eins og hún sagði okkur sögur af ömmu sinni.

Elsku mamma.  Takk fyrir allt sem þú gafst okkur og gerðir fyrir okkur.  Þú hefur áhrif á líf mitt enn þann dag í dag og verður alltaf í huga mér.

Ástarkveðja,

Heiða.

(Fyrir þá sem ekki vita, ól móðuramma mín upp frá fæðingu, en ég er svo heppin að eiga aðra mömmu sem er ekki síður yndisleg manneskja).


PÖDDULÍF!

1175032527_a_bugÓKEI!!

Ég viðurkenni að það er EITT pirrandi við að búa hér.  Það er hið afar fjölskrúðuga PÖDDULÍF!  Og ágúst virðist einmitt vera þeirra uppáhalds-mánuður!  Reyndar hefur verið mjög lítið af flugum og alls kyns kvikindum í sumar.  Geitungar hafa t.d. bara varla sést (7-9-13) eins og ég var nú orðin lagin við að taka þá á yppon með flugnaspaðanum í fyrrasumar - sýndi afar tilþrifamikla ,,Björn Borg" takta ef þeir dirfðust að láta sjá sig hér innandyra.  Mýflugunum er maður líka búinn að venjast sem og litlu köngulónum sem eru snöggar að spinna þræði sína um allt - úti sem inni.  Svo eru alls kyns pöddur sem skríða stundum um og maður kann engin heiti á, en maður kippir sér lítið upp við það - yfirleitt sæki ég bara ryksuguna og ...svússsj...vandamálið er úr sögunni.  Maurar hafa aldrei hrætt mig,  mér finnst þeir vera svo stórkostleg dýr og það er afar sjaldgæft að maður sjái þá innandyra.  Svo eru fleiri skordýr sem vekja bara hrifningu manns, t.d. maríubjöllurnar, þið vitið þessar rauðu með svörtu doppunum á bakinu.  Voða sætar.  Reyndar hef ég séð þær bæði gular og appelsínugular líka.  02Drekaflugur eru líka svakalega flottar og það er engu líkara en þyrla sé á ferðinni, slíkur er hávaðinn þegar þær fljúga hjá.  Þær hefur maður líka séð í öllum regnbogans litum.

Já, maður hefur sjóast aðeins í umgengni sinni við þessi litlu dýr en þó er það ennþá ein tegund af flugum sem ég þoli alls ekki.  HROSSAFLUGUR!!  Mér finnst þær bara eitthvað svo ógeðslegar þar sem þær hoppa upp og niður í loftinu og lappirnar á þeim vingsast til og frá.  Maður veit aldrei í hvaða átt þær ætla og þær eru eitthvað svo óútreikanlegar.  Svo eru hrossaflugurnar hér stærri en þær íslensku, sem bætir auðvitað ekki úr skák.

Í gærkvöldi var ég nýbyrjuð að lesa spennusögu eftir John Grisham og Óli rétt byrjaður að hrjóta við hliðina á mér þegar ein svona ofvaxin hrossafluga birtist allt í einu yfir náttlampanum mínum.  Ég stökk auðvitað framúr og kallaði í Óla að vakna og losa mig við óværuna.  Aumingja Óli vaknaði alveg ringlaður og náði ekki alveg áttum.  ,,Fylgstu með henni meðan ég sæki flugnaspaðann" sagði ég og hljóp fram.  En þegar ég kom tilbaka með flugnaspaðann var Óli búinn að týna flugunni.  ,,Ætli hún sé ekki bara dauð?", sagði hann.  Hann segir það nú alltafAngry  Ég hugsaði mig um nokkra stund og reyndi að vera skynsöm.  ,,Ég bý hérna.  Þessar flugur búa hér líka.  Þær eru algjörlega meinlausar.  Það gerist ekkert þó að ég leggist bara upp í rúmið mitt, slökkvi ljósið og fari að sofa.  Hmmm..."  Svo tók ég koddann minn, fór fram í stofu, breiddi ofan á mig teppi og fór að sofa.  Óli var hvort eð er sofnaður vært aftur...með flugnaspaðann við hlið sérWink


NEWTON

Þegar ég var að sækja Sesselju heim til Aneu vinkonu hennar um daginn bauð Caroline, mamma hennar, mér út í bakgarðinn hjá sér.  Garðurinn hennar er risastór og alveg æðislegur, með lítilli froskatjörn, hengirúmi milli tveggja trjáa og ýmsum listaverkum eftir hana sjálfa.  Þarna stóðum við og spjölluðum þegar ég heyrði allt í einu dynk við hliðina á mér.  Þegar ég leit á jörðina við hliðina á mér var hún þakin gulum eplum!  Mér leið bara eins og Newton - svei mér þá!  Caroline togaði þá í grein á trénu og valdi handa mér fallegt epli.  Mmmmm, þvílíkt sælgætiTounge  Síðan sýndi Caroline mér ferskjutréð sitt og gaf mér bláber.  Hún er líka með vínber, hindber og brómber í garðinum sínum auk alls kyns kryddjurta.

Í gær var Sesselja síðan að leika við Aneu og kom heim með fullan poka af nýtíndum perum sem hún hafði sjálf tínt!  Caroline og Pierre eru með þrjú perutré í garðinum sínum og þetta voru bara perur af einni grein!  Þette er eitt af því sem mér finnst svo æðislegt hér í Svíþjóð.

Nú dreymir mig ljúfa drauma um lítið hús, epla- og perutré, hindber og jarðarber......

Best að fara að finna uppskrift að perupæiTounge


FJÖRUGUR AFMÆLISDAGUR

Þá er hún Sesselja Mist LOOOOKSINS orðin 9 ára en þess hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu í.....ja, eiginlega í 364 dagaGrin  Hér var herleg afmælisveisla í gær - að íslenskum sið, það er að segja FULLT af kökum.  Hér er vaninn að hafa eina afmælisköku og síðan smákökur og bollur með svo að við sögðum fólki að koma svangt og borða mikið!  Og það tóku allir vel í það.  Pabbi, Irene og Maria komu auðvitað og síðan Frida og Susanne, mamma hennar, og Anea og Pierre, pabbi hennar.  Þær eru bekkjarsystur Sesselju sem hún leikur hvað mest við og við erum orðin vel kunnug foreldrum þeirra, indælisfólk allt saman.  Síðan komu Ina og Alma, tvær systur sem búa hér í næstu blokk og Pernilla, mamma þeirra, sem var stundum að vinna í afleysingum á gamla leikskólanum hennar Diljár.  Silana er 5 ára gömul vinkona hennar Sesselju sem býr líka í næstu blokk og hún kom líka með Sussie, mömmu sinni, sem ég spjalla oft við.  Markus og Rebecka eru jafngömul Sesselju en eru í hinum bekknum.  Markus býr hér í næstu blokk, ljúfur strákur en svolítið sérstakur og á ekki marga vini.  Sesselja fer hins vegar ekki í manngreinarálit og kemur fram við hann eins og hvern annan og þau leika sér mikið saman.  Rebecka og Sesselja kynntust hins vegar í kórnum og hafa leikið sér mikið saman.  Marie, mamma hennar Rebecku kom líka, hún er rosalega hress og skemmtileg kona og við hlógum mikið hér.

Krakkarnir átu auðvitað kökur og léku sér saman.  Það þurfti endilega að rigna í gær svo að þau gátu ekki verið úti að leika sér eins og venjulega.  Sesselja var búin að segja öllum að hún óskaði sér að fá eyrnalokka í afmælisgjöf, þar sem hún er búin að fá göt í eyrn, og hún fékk hvorki meira né minna en ferna eyrnalokka!  Hún fékk líka föndurdót, Bratz tölvuleik og geisladiska, geisladisk með Markoolio (sá allra vinsælasti hér núna) og DVD-myndina Liar Liar!  Svo keyptum við gamla hjólið hennar Aneu sem er orðið of lítið fyrir hana (bara ársgamalt hjól) og gáfum Sesselju en Anea gaf henni nýjan lás á það.

Fullorðna fólkið var mjög ánægt með veitingarnar, kökur og heita brauðrétti og við áttum mjög skemmtilega stund saman.  Okkur finnst auðvitað bæði skemmtilegt og nauðsynlegt að kynnast foreldrum barnanna sem okkar krakkar eru orðnir heimagangar hjá og öfugt og þau voru mjög ánægð yfir að vera boðin hingað líka, þó að flest þeirra hafi nú komið hingað áður.

Þegar allir gestirnir voru farnir settumst við síðan niður, öll fjölskyldan, með popp í skál og horfðum á hinn óborganlega Mr. Bean í sumarleyfi.  Svo sannarlega skemmtilegur endir á skemmtilegum afmælisdegi!!

Nú var ég að tína stelpurnar inn, þær eru búnar að vera úti að leika við Inu, Ölmu, Markus og Silönu allan seinnipartinn.  Ég er búin að þvo þeim um tærnar (hér hlaupa allir krakkarnir berfættir um að leika sér) og þær eru að svífa inn í draumalandið, dauðþreyttar eftir daginn.


LJÚFA LÍF...

Jæja, nú er lífið að komast í fastar skorður hér.  Veðrið hefur leikið við okkur síðan við komum aftur út og við erum búin að skreppa einu sinni á ströndina.  Sesselja er reyndar búin að fara oftar því að hún hefur fengið að fara með vinkonum sínum líka.  Hún er úti alla daga og liggur við að krakkarnir sláist um að leika við hana - ég veit ekki hvernig þetta endar.  Um daginn var hún úti að leika en síðan þurftum við að fara niður í bæ - og ég get svarið það - það var bara grátur og gnístran tanna hjá krökkunum í hverfinuCrying  Annars var mjög gaman í bænum um síðustu helgi á Karl Oscar dögunum.  Það var tívolí, af lifandi tónlist og útimarkaðir í miðbænum og mikil stemning.

Diljá byrjaði á nýja leikskólanum í morgun og leist bara vel á hann.  Það eru 32 börn á deildinni hennar sem er mjög stór, tekur alla neðri hæðina og skiptist í nokkur herbergi en það er gler á milli þeirra allra svo að það er auðvelt að fylgjast með hvað hinir krakkarnir eru að gera.  Hún verður ekki í vandræðum með að eignast vini þar!

Óli er byrjaður á hjómsveitaræfingum aftur og er að fara að spila þann 1. september með blúsbandinu.  Þ.e. ef eitthvað verður eftir af honum því að hann er svo sólbrenndur að hvaða karfi sem er væri stoltur af að kalla sig Óla Kalla í dag!!

Svo er undirbúningur fyrir afmæli í fullum gangi, verið að baka á fullu því að nú þekkir Sesselja orðið svo marga að það verður bara ,,Fákaleirustíll" á afmælinu hennar í ár.  Auk þess ætlar slatti af mömmum að koma líka, forvitnar að komast í svona íslenskt kaffiboð eða ,,fika" eins og það er kallað hér.  Síðan þegar skólinn er byrjaður ætlar hún að bjóða stelpunum í bekknum í afmæli, kannski í keiluhöllinni!

Heyriði, já!  Ég vil endilega vekja athygli á nýja bloggvininum mínum, dr. Ragnari, sem er með bloggið sitt fullt af sjúklega girnilegum uppskriftum.  Ég mæli reyndar með að menn breiði yfir lyklaborðið sitt áður en þeir hefja lesturinn á blogginu hans því að það er ekki annað hægt en slefa yfir því sem þar er fært í letur!

Jæja, kæru landsmenn, ættingjar og vinir!  Þið megið alveg vera pínulítið duglegri að kvitta fyrir innlitið.  Ég er farin að halda að það lesi mig ekki nokkur maður nema hún Bertha mín og svona tveir aðrir (snöft)!


VINDÖLD, VARGÖLD...

Ég er eiginlega hálf miður mín núna.  Á flakki mínu um sjónvarpsrásirnar rakst ég á þátt á Discovery um nýja tegund af rafdrifnum byssum.  Ég á bara ekki orð yfir þetta.  Þarna stærðu framleiðendur sig af skammbyssu sem er einstaklega létt og getur skotið 3 skotum á sekúntu.  Og hernaðardrápsvélum sem skjóta 16 þúsund skotum á sekúntu eða 1 milljón skota á mínútu, eða þá 250 þúsund handsprengjum á mínútu.  Það verður hægt að nota þessi vopn í herflugvélum og skipum og já, svo fást þau líka með skynjara.  Mannshöndin þarf hvergi að koma nærri, tólið skýtur bara niður allt sem hreyfist í kringum það.  Afar hentugt!

 

Ég hugsaði bara með mér hvað gerist þegar þessar byssur komast á göturnar í henni Ameríku, sem þær munu örugglega gera með tímanum.  Hvað gerist þegar Bandaríkjamenn sitja ekki lengur einir að þessum vopnum?  Hvað munu menn verða reiðubúnir að gera til að koma höndum yfir þessi vopn?  Þarna sat ég stjörf yfir þessum hörmunarhugsunum öllum saman þegar þulur þáttarins klykkti út með því að segja:  ,,Á vígvöllum framtíðarinnar...!!”  Hvað meina menn eiginlega???  Á meðan meirihluta mannkyns dreymir fagra drauma um frið á jörðu eru aðrir greinilega bara í því að skapa martraðir!!  ,,Á vígvöllum framtíðarinnar.”  Ég er kannski bara svona græn að skilja ekki svona hugsanahátt.

Eigið þið ljúfa drauma.

KARL OSCAR DAGARNIR

Nú um helgina er bæjarhátíð Växjöbúa, kennd við Karl Oscar.  Í kvöld voru tónleikar þar sem nokkrar helstu stjörnur Svía komu fram við mikinn fögnuð áhorfenda.  Svo er stærðarinnar Tívolí á svæðinu, eiginlega dreifist það um torgið og nærliggjandi götur, og svo eru götumarkaðir um allt.  Ég held hreinlega að allir bæjarbúar hafi verið þarna í kvöld - slíkur var fólksfjöldinn.  Mikið fjör og stemning.

Kíkið á vefmyndavélina við Stórtorgið og þá sjáið þið smá sýnishorn: http://webcam.griffel.se/


YNDISLEGUR FERMINGARDAGUR

Rebekka Dröfn fermdist í Seljakirkju þann 29. júlí.  Þetta var fullkominn dagur þrátt fyrir að sólin léti sig hverfa og hann skvetti nokkuð hressilega úr sér.  Sólin skein í hjörtum okkar allra fyrir það! Grin 

Athöfnin var yndisleg.  Ættingjar og vinir áttu með okkur ógleymanlega stund.  Elli, fyrrum samkennari minn í Heppuskóla og fyrsti dönskukennarinn hennar Rebekku en núverandi prestur, fermdi stúlkuna og fórst það afar vel úr hendi.  Hann er greinilega alveg kominn á rétta hillu í lífinu!  Ræða hans var falleg og sönn og orð hans hittu mig a.m.k. beint í hjartastað, það var eins og hann hefði lesið hugsanir mínar.  Þar sem Rebekka fermdist ein og hann þekkir hana svolítið, eins og hann sagði, gat hann beint orðum sínum persónulega til hennar, hennar sem er alveg einstök.  Og Elli er þeim hæfileika gæddur að ná vel til barna og unglinga og geta talað þeirra mál.  Það gerði hann líka þarna.  Ég veit að fæstir munu gleyma tilvitnun hans í Megas:  ,,Smælaðu framan í heiminn og þá smælar heimurinn framan í þig." GrinGrinGrin  Ekki verra veganesti út í lífið en hvað annað!

Það var líka gaman að því hvað Rebekka tók mikinn þátt í athöfninni, las ritningarlestur og aðstoðaði við altarisgönguna.  Hún stóð sig afar vel þrátt fyrir að vera auðvitað stressuð.  Henni fannst dálítið skrítið að allt þetta fólk skyldi leggja svona mikið á sig hennar vegna, hún er svo hógvær hún Rebekka mín.

Það var líka gaman að því að við gátum fengið að velja sálmana og tónlistina í kirkjunni.  Við höfum kynnst því hér í Svíþjóð að það er miklu léttara yfir messum hér og við vildum að þessi athöfn yrði falleg en líka skemmtileg.  Þess vegna völdum við lög sem eru einmitt falleg og skemmtileg.  Organistinn í Seljakirkju, tengdasonur Hornafjarðar (nánar tiltekið Akurnessfólksins) var til í að verða við öllum okkar óskum með bros á vör!  Við erum honum og söngvurunum úr kirkjukór Seljakirkju sérstaklega þakklát.  Við völdum m.a. fallegt gospellag sem heitir ,,Ég trúi á þig" sem var sérstaklega fallega sungið af einni stúlku í kórnum sem ég veit því miður ekki hvað heitir.  Við völdum líka íslenska útgáfu lagsins Amasing grace (Ég trúi á ljós), sem allir þekkja auðvitað.  Og athöfninni lauk með glaðlegum sálmi, Stjörnur og sól.

Sesselja Mist gaf systur sinni gjöf með því að syngja fyrir hana í kirkjunniGrin Hún söng Í bljúgri bæn og gerði það ofsalega vel.  Henni finnst mjög gaman að syngja og fannst ekkert mikið mál að standa upp í kirkjunni og syngja fyrir 50-60 manns þó að hún sé bara rétt að verða 9 ára.  Elli leyfði fólki að klappa í kirkjunni, enda átti hún skilið lófatak, búin að æfa sig síðan í febrúar.  En hún Diljá Fönn, litla skottið mitt, er ennþá voða svekkt fyfir því að hún skyldi ekki hafa fengið að syngja líka.  ,,Af hverju mátti ég ekki syngja eins og Sesselja?"  Svo að þið eigið örugglega eftir að fá að heyra í henni seinna.

Svo var komið að veislunni sem var haldin í safnaðarheimili kirkjunnar.  Hún hófst á því að frænkurnar Rebekka og Bríet spiluðu saman, Rebekka á þverflautuna sína og Bríet lék undir á píanó.  Þær voru búnar að vera að æfa sig í allt sumar og samspil þeirra var alveg frábært!  Síðan var framreidd humarsúpa með hornfirskum humri (nema hvað), grillað íslenskt lambalæri með fullt af meðlæti og síðan kaffi, kökur og konfekt á eftir.  Vona ég að allir hafi notið veitinganna sem systur mínar og ég sáum um að útbúa.  Það er jú fátt skemmtilegra en að borða góðan mat í góðum félagsskap ættingja og vina.

Ég er svo heppin að eiga margar systur sem finnst gaman að halda veislur.  Ragga ráðagóða systir mín lagði línurnar með mér og bar hitann og þungan af undirbúningnum, ákvað hver ætti að baka hvað, reddaði grillum o.fl.  Systur mínar Dóra, Birna og Jónína bökuðu æðislegar kökur til að hafa með kaffinu og Ella frænka - fyrirgefið Stórfrænka og listamanneskja - sá um kökuskreytingar.  Ella og Birna systir, sem líka er frábær listakona, voru síðan fengnar til að skreyta salinn.  Okkur Rebekku langaði að hafa hafið sem þema og Birna systir, sem er líka mikil áhugamanneskja um náttúruna og safnari mikill, kom með hálfa skagfirsku fjöruna með sér suður.  Rekavið sem hún hafði tínt og borað í göt fyrir sprittkerti og steina í öllum regnbogans litum.  Þetta og fleira var tínt til og þær Ella gerðu salinn síðan alveg ótrúlega flottan.

Systur mínar og Ella Stórfrænka sáu svo um allt í eldhúsinu á sjálfan fermingardaginn frá A til Ö og sáu til þess að við Óli gátum notið dagsins með stelpunum okkar og sinnt gestunum.  Fleiri lögðu okkur lið.  Börn systra minna hjálpuðu til í eldhúsinu og við grillið og að öðrum ólöstuðum vil ég sérstaklega minnast á Val, tengdason Dóru systur, sem stimplaði sig inn í fjölskylduna með bros á vör, ljúfri og fallegri framkomu og einstökum dugnaði og fagmennsku við framreiðslu í salnum!  Greinilega algjör perla eins og kærastan hans, hún Júlía.  Geiri, vinur okkar, hjálpaði okkur að útbúa myndasýningu af fermingarbarninu og lánaði okkur fartölvu sem við höfðum á borði í veislunni og þar rúlluðu myndir af Rebekku allan tímann.  Hann tók líka alla athöfnina upp á videó fyrir okkur, þannig að þeir sem ekki gátu verið með okkur þennan dag geta fengið að sjá athöfnina á DVD.  Heiðar, vinur okkar og fyrrum spilafélagi og nágranni, lék undir með Sesselju og aðstoðaði hana við söngatriðið sitt.  Bríet, bróðurdóttir Óla og stórvinkona Rebekku, var líka búin að æfa lengi með Rebekku þeirra tónlistaratriði.  Og ekki má svo gleyma Jóhanni Inga, fyrrverandi starfsmanni Óla, en hann var svo yndislegur að færa okkur vinnubílinn sinn að láni allan tímann sem við vorum í Reykjavík.

Elsku ættingjar og vinir.  Enn og aftur ástarþakkir fyrir alla aðstoðina og fyrir að hjálpa okkur að gera þennan dag ógleymanlegan.  Hún Rebekka mín er nú ekki vön að segja margt eða flíka tilfinningum sínum en ég get sagt ykkur að hún sveif um á hamingjuskýi!

Þegar þetta var nú allt afstaðið skellti fermingarbarnið sér síðan í keilu!  Jú, þetta var jú síðasti dagurinn sem hún hafði með vinkonum sínum á Íslandi og Bragi, Valdís og börnin þeirra fóru í keilu ásamt Óla, Rebekku og Sesselju og síðan vinkonunum Önnu Regínu og Guðlaugu.  Á meðan fórum við Diljá aftur í kennaraíbúðina og gerðum huggulegt þar, dúkuðum með dúkum úr veislunni, stilltum upp fermingarkertinu og fleira skrauti, kveiktum á kertum og settum konfekt í skál.  Diljá var auðvitað orðin dauðþreytt en hékk uppi og beið eftir Rebekku sem átti eftir að opna gjafirnar sínar.  Það gerði hún síðan þegar hún kom heim en Diljá gafst upp áður en því lauk og bað um að fá að fara inn í rúm að sofa.  Um miðnætti var búið að kíkja í alla pakkana og kortin og fékk Rebekka margar góðar gjafir og var yfir sig ánægð með allt sem hún fékk.  Hún hafði reyndar á orði að hún fengi bara samviskubit yfir þessu öllu og því hvað fólk gæfi henni mikinn pening.  Ég sagði henni að líta svo á að allt þetta fólk, sem þekkti hana og þætti vænt um hana, vildi gleðja hana og gefa henni start inn í framtíðina.  Og þannig verður það.  Hún ætlaði að kaupa sér myndavél en fékk hana síðan í fermingargjöf og ætlar að taka pening til að kaupa sér dálítið af fötum en síðan verður þetta lagt fyrir og ávaxtað til framtíðar.  Sumarlaununum sínum fær hún síðan að eyða í það sem hana langar í en Rebekka hefur alltaf farið vel með peninga.  Það sást strax hvert stefndi þegar ég var að versla inn fyrir jólin í gamla kaupfélaginu á Höfn, Rebekka hefur verið tæplega 5 ára og örvæntingarsvipurinn á andliti hennar jókst eftir því sem hækkaði í körfunni.  Loks hrópaði hún upp yfir sig þegar ég ætlaði að fara að setja ostaköku í troðfulla körfuna:  ,,Nei, nei, ekki meira.  Þetta kostar svo mikið!!"  Já, hún hefur aldrei verið kröfuhörð hún Rebekka.

Nú erum við komin aftur til Svíþjóðar, Óli byrjaður að vinna og við njótum síðustu daganna áður en skólarnir byrja aftur.  Svo erum við farin að spá í næstu veislu - tvöfalt fertugsafmæli okkar Óla á næsta ári.  Nú skella sér allir í sænsku Smálöndin næsta sumar!!  Hlökkum til að sjá ykkur aftur!


Ó BORG, MÍN BORG

Nú erum við búin að vera í Reykjavík síðan á sunnudagskvöld.  Veðrið hefur leikið við okkur í höfuðborginni og það er mjööööög langt síðan við höfum slappað svona vel og lengi af hér í Reykjavík.  Erum vanari því að hendast hingað í stressi og þeytast á milli Kringlunnar og Smáralindar.  Við brugðum okkur t.d. í gönguferð um miðbæinn og upp eftir Laugaveginum og þegar ég fór að hugsa málið uppgötvaði ég að þetta var í fyrsta sinn sem Diljá og Sesselja gengu eftir Laugaveginum!!  Þetta gengur náttúrulega ekki!

Diljá fór í sína fyrstu bíóferð að sjá Shrek 3 og það var auðvitað rosalega mikil upplifun fyrir hana.  Síðan er búið að fara í sund og gefa öndunum á Tjörninni brauð - það var líka mjög spennandi.  Diljá var svo óhrædd að hún rétti gæsunum bara brauðbitana og kippti sér ekki mikið upp við það þó það væri nartað aðeins í puttann á henni.  Henni fannst svo gaman að skoða fuglana að ég hélt hreinlega að hún ætlaði að hoppa út í Tjörnina til að sjá þá betur!

Svo er það auðvitað fermingarundirbúningurinn.  Ég er svo heppin að eiga FULLT af systrum sem gera þetta allt leikandi létt Grin  Við hlökkum mikið til sunnudagsins.  Rebekka tekur ferminguna alvarlega, eins og auðvitað á að gera.  Hún fermist ein þannig að við getum fengið að ráða ýmsu um athöfnina, t.d. tónlistarflutningnum, og hlökkum til fallegrar og skemmtilegrar athafnar.  Svo verður auðvitað frábært að hitta alla ættingjana og vinina á eftir og njóta góðs matar!

Ísland er farið að síast aðeins inn í mann aftur, umskiptin taka smátíma, það er alltaf gott að koma aftur heim!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband