KOMIN Í SKÓLA

Jæja, kæru vinir og vandamenn - þá er mín byrjuð í skóla.  Ég rakst á auglýsingu á netinu fyrir algjöra tilviljun, um ferðaskrifstofunám í fjarnámi hér í Svíþjóð, sótti um, fékk inngöngu og nú er bara gaman hjá mér.  (Eins og þið vitið hefur mér aldrei þótt leiðinlegt í skóla - ja, nema íþróttatímumCool).  Ég var í skólanum uppi í Eskilstuna í byrjun vikunnar í tvo daga og hitti hina 38 sem verða með mér í þessu námi.  Þetta var fólk af öllum stærðum og gerðum, frá öllum hlutum Svíþjóðar og 11 mismunandi þjóðlöndum.  Það náðist góður andi í hópnum og var virkilega gaman.  Ég er síðan í vinnuhóp með tveimur konum sem búa í nágrenni við mig - önnur er frá Filippseyjum og hin frá Tyrklandi - mjög alþjóðlegt allt saman.

Þetta verður 4 mánaða nám og ég á síðan eftir að fara tvisvar í viðbót í svona tveggja daga ,,hitting" í Eskilstuna, í desember og febrúar.  Síðan verður tekið lokapróf í Stokkhólmi aðra vikuna í mars.  Það er 6 klukkustunda próf sem er tekið á sama tíma um allan heim (þ.e. í sömu vikunni).  Að því loknu, í byrjun apríl, fer ég í 4 daga æfingabúðir í bókunarforritinu Amadesu í Eskilstuna og að því loknu þarf ég að vera búin að redda mér 10 vikna starfsþjálfun á ferðaskrifstofu eða flugvelli.

Kostirnir við þetta nám (fyrir utan það að geta lært heiman að frá sér) eru auðvitað þeir hvað það er stutt, eftir 6-8 mánuði er maður kominn með skírteini upp á háskólagráðu í vasann.  Það er mikil eftirspurn eftir fólki með þessa menntun þar sem enginn fær starf á ferðaskrifstofum hér í dag nema hafa þetta nám.  70% af þeim sem útskrifuðust á vorönn á þessu ári voru komnir með vinnu áður en þeir luku starfsþjálfuninni.  Og í þriðja lagi er þetta alþjóðlega viðurkennt, þetta nám er samræmt um allan heim þannig að ef/þegar ég flyt aftur heim á klakann get ég nýtt mér þetta þar.

Svo er náttúrulega bara svo mikið ,,kikk" í því að vera farinn að fást við eitthvað sem er krefjandi og skemmtilegt!!


VITNAÐ Í LÚÐVÍK BERGSVEINSSON

Í framhaldi af síðustu færslu minni bendi ég hér með á pistil sem Lúðvík Bergsveinsson skrifaði á bloggsíðu sinni skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar.  Nú er Lúðvík kominn í stjórn og kannski rétt að krefja hann svara um það hvað hann ætli að gera í málinu!

http://www.bergmal.is/?p=101&id=8144


HVERSU LENGI ÆTLA ÍSLENDINGAR AÐ LÁTA OKRA Á SÉR?

Þetta er auðvitað langt frá því að vera í lagi og hreinlega til háborinnar skammar.  Getið þið ímyndað ykkur hversu mikið blóð, sviti og tár, áhyggjur og vanlíðan liggja að baki hjá þessum fjölskyldum áður en til svona aðgerðar kemur?  Það hlýtur auðvitað að vera eitthvað mikið að í kerfinu þegar um svona háa tíðni nauðungaruppboða er að ræða.  Það þarf ekkert að segja mér það að allur þessi fjöldi fólks sé svona svakalega kærulaus í fjámálum.

Fyrir u.þ.b. þremur árum settist ég niður og gerði útreikninga á mínum lánum og brá mér heldur betur í brún.  Ég komst að því að á 5 árum var ég búin að borga 4 milljónir af 11 milljónum en þrátt fyrir það skuldaði ég ennþá 12 milljónir!  Þetta fannst mér auðvitað ekki ásættanlegt, búin að kasta 4 milljónum út um gluggann og ég ákvað að taka ekki þátt í þessari glæpastarfsemi íslenskra banka lengur, seldi allt mitt hafurtask, pakkaði niður og flutti af landi brott!

Vitið þið að það er ekki hægt að fá óverðtryggð lán á Íslandi til lengri tíma en 5 ára?

Vitið þið að vextirnir sem þið borgið af lánunum ykkar eru líka verðtryggðir en ekki bara höfuðstóllinn?  Skoðið bara greiðsluseðilinn ykkar, þá sjáið þið þetta með eigin augum.

Vitið þið að höfuðstóll húsnæðisláns til 40 ára byrjar ekki að lækka fyrr en eftir 22 ár!!  Sé lánið til 25 ára byrjar höfuðstóllinn að lækka eftir 12 ár!

Við skulum ekki einu sinni fara út í lántökukostnaðinn.  Það er bara engan veginn hægt að réttlæta hann.

Hér eru lán ekki verðtryggð heldur er reiknað með verðbólgunni í vöxtunum.  Þegar þú tekur lán hér veistu því nákvæmlega hversu mikið þú kemur til með að borga á mánuði, og sú tala stendur!  Hvernig eiga íslenskir lántakendur að geta gert greiðsluáætlanir þegar lánin þeirra hækka í hverjum mánuði?

Sjálf er ég ekki með húsnæðislán hér í Svíþjóð heldur leigi ég 5 herbergja íbúð á 75.000 íslenskar á mánuði og þykir það mjög dýr leiga.  Innifalið í leigunni er hiti, vatn, kapalkerfi, ísskápur, frystiskápur, uppþvottavél, þvottavél og þurrkari.  Semsagt allt nema rafmagn.

Gerum að gamni smá samanburð á lántökukostnaði á Íslandi og í Svíþjóð.  Segjum að ég taki skuldabréf að upphæð 1 milljón íslenskra króna sem ég ætla að greiða tilbaka á 10 árum.  Reiknum með sömu vaxtaprósentu 8,5%.  Í Svíþjóð er verðbólgan reiknuð inn í ársvextina en á Íslandi reiknast hún ofan á lánið, miðum við 3% verðbólgu.

Á Íslandi er lántökukostnaðurinn 37.800 sem er dreginn af því sem þú færð greitt, þannig að þú færð 962.200 kr.  Hluti lánökukostnaðar er hlutfall af lánsupphæðinni.  Í Svíþjóð er lántökukostnaðurinn 7.000 kr. óháð lánsupphæð og leggst hann við lánsupphæðina.  Þú færð milljónina því óskerta.

Mánaðarleg afborgun á Íslandi með vöxtum og verðbótum er 16.050 fyrsta mánuðinn en endar í 11.873 síðasta mánuðinn.  Miðað er við jafnar afborganir.  Í Svíþjóð er fyrsta afborgunin 15.210 krónur en  síðasta 8.390 kr.  Í Svíþjóð getur maður verið viss um að þessar áætlanir standist ólíkt því sem gerist á Íslandi.  Um leið og verðbólgan fer yfir þau viðmið sem reiknað er með hækka allar afborganir enn frekar.

Þegar þú ert búinn að borga íslenska lánið þitt upp, ertu búinn að greiða 1.711.195 krónur.  Lánið hefur semsagt kostað þig 748.995 með lántökukostnaði.  Í Svíþjóð greiðir þú til baka 1.416.030, lántökukostnaðurinn er því 423.030 eða rúmlega 43,5% lægri en á Íslandi.

Athugið líka að 8,5% ársvextir eru með því hæsta sem gerist í Svíþjóð en því lægsta á Íslandi.  Ef við miðum við 6% sem er algengt í Svíþjóð verður lántökukostnaðurinn í kringum 310.000.  Það er ekki óalgengt að skuldabréfavextir séu í kringum 13% á Íslandi, en þá borgar þú orðið 930.000 fyrir lánið og munurinn orðinn 67%.  (Allt þetta byggir á útreikningum á heimasíðum Landsbankans og Nordea Bank).

Við þetta bætist að 30% af öllum vöxtum sem menn greiða eru frádráttarbærir frá skatti í Svíþjóð, alveg sama hvort um er að ræða af húsnæðislánum, bílalánum, raðgreiðslum eða bara hverju sem er.  Þá summu fá menn síðan endurgreidda við skattauppgjör ár hvert.

Nú er ég enginn fræðingur á þessu sviði, eins og fyrr greinir, en tala út frá minni eigin reynslu.  Ég er viss um að margir geta tekið undir með mér um það að ef ekki væri fyrir verðtryggingu á lánum á Íslandi, væru menn miklu betur settir fjárhagslega.  Húsnæðiskaup eru stærsta fjárfestingin sem flestir einstaklingar gera og ef engar forsendur fólks halda þegar verðbólgan æðir upp úr öllu valdi, hvað á fólk þá að gera?

Hvernig stendur á því að Ísland er eina landið í heiminum (skv. því sem maður hefur oft heyrt í fjölmiðlum) sem er með verðtryggingu á lánum með þessum hætti?  Hvað gerir okkur svo sérstök að hægt sé að réttlæta að bankakerfið fari svona með okkur?  Hafið þið leitt hugann að öllum þeim sem eiga innistæður í bönkunum á verðtryggðum reikningum?  Hverjir haldið þið að það séu?  Það er ekki verkafólkið eða einstæðu foreldrarnir, öryrkjarnir eða þeir sem eiga langveik börn.  Haldið þið að þeir sem stjórna þessu öllu saman sjái sér ekki persónulegan hag í að viðhalda þessu kerfi og sé slétt sama um almenning?  Það held ég að minnsta kosti og það er kominn tími til að gera eitthvað í málunum!


mbl.is Heimili þriggja fjölskyldna á uppboð í hverri viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HÚN HEFUR STÆKKAÐ....!

Jæja, ég var með Sesselju í mælingu á sjúkrahúsinu í morgun og hún hefur aldeilis stækkað stelpan núna.  Eins og þið vitið stækkaði hún ekki nema um 1 millimetra á tímabilinu mars-maí og ég var alltaf viss um að lyfin hefðu skemmst.  Svo fékk hún nýjan skammt í maí og síðan þá hefur hún stækkað um hvorki meira né minna en 4,3 sentimetra!!  Orðin 127,4 sm.

Ég skoðaði kúrfuna hennar og fram til 4 ára aldurs fylgdi hún sinni kúrfu sem var einni línu fyrir neðan meðalkúrfuna.  Svo fór að hægja á vextinum og þegar hún byrjaði á vaxtarhormóninu fyrir rúmlega 1 1/2 ári síðan var hún komin næstum því tveimur línum niður fyrir kúrfuna sína.  Núna loksins er hún að nálgast sína kúrfu aftur svo að þetta lítur bara vel út.

Sesselja er líka byrjuð í tónlistarskólanum.  Það losnaði eitt pláss á franskt horn og nú hljómar semsagt þverflauta úr einu herbergi, franskt horn úr öðru og gítar þess á milli.  Svo æpir Diljá Fönn:  ,,Hvenær má ég fá að spila á eitthvað!"  Ég er að spá í að sækja um á fiðlu fyrir hana, það er Suzuki kennsla hér við tónakólann nefnilega.  Sjáið þið hana ekki fyrir ykkur??  Við sáum Sesselju nú alltaf fyrir okkur velja sér rokkaðra hljóðfæri en franskt horn en hún er svo himinlifandi með hornið sitt og æfir sig á hverjum degi.  Enn sem komið er.

Jæja, það er jójó-dagur hjá mér í dag:  sækja og skutla og sækja og skutla alveg fram á kvöld!


HVAÐ VARÐ UM EMIL Í KATTHOLTI ÞEGAR HANN VARÐ FULLORÐINN?

Í gærkvöldi fór ég á kynningarfund í nýja, fína skólanum hennar Sesselju.  Hér mætir a.m.k. annað foreldri ALLRA barnanna ALLTAF á svona fundi, nema þeir hafi mjög góða ástæðu til að koma ekki.  Að þessu sinni voru það foreldrar tveggja barna sem ekki komu.  12 mömmur voru mættar og 11 pabbar - jöfn kynjaskipting þar.  Skólaganga barnanna skiptir feður nefnilega jafnmiklu máli og mæður!

Á hverri önn úthluta kennarar embættinu ,,klassföräldrar" til foreldra 5 barna í senn.  Það er einfaldlega farið eftir stafrófsröð og á þessari önn er komið að okkur Óla.  Bekkjarforeldrar hjálpa til við kynningarfundina með því að mæta með kaffi og meðlæti og skipuleggja og sjá um viðburði eins og t.d. diskótek og því um líkt. Allir taka þátt og enginn skorast undan.  Þetta er jafnsjálfsagt og að bursta tennurnar eða drekka morgunkaffið.

Í haust byrjuðu krakkarnir í fyrsta sin í smíðum og handavinnu - eða textíl eins og það heitir víst á tískuíslensku í dag.  Sesselja er í smíði og þrátt fyrir að aðeins sé liðinn rúmur mánuður síðan skólinn byrjaði, er hún langt komin með þriðja smíðisgripinn sinn.  Við foreldrarnir vorum send niður í nýju, fínu smíðastofuna þar sem smíðakennarinn, Leif, átti að kynna fyrir okkur smíðakennsluna.

Þegar inn í smíðastofuna var komið voru allir látnir taka sér trjágrein og setjast síðan á litla kolla í hálfhring kringum kennarann, sem sat á trjábolsstubbi.  Hann úthlutaði síðan hnífum og sagði öllum að byrja að tálga!  Þarna sátum við svo og tálguðum okkur þennan líka fína snaga á meðan Leif fræddi okkur um undur og dásemdir þess að tálga og smíða.

Það var undarlega róandi og sefandi að sitja þarna með þessa litlu grein og tálga af henni börkinn.  Ég gat ekki annað en hugsað til Emils í Kattholti og allt í einu fannst mér ég skilja hann svo miklu betur.  Strákgreyið, búinn að gera eitthvað af sér alveg óvart, á flótta undan pabba sem er  alveg brjálaður.  Nær að komast inn í smíðakofann og læsa á eftir sér, litla hjartað hamast og svitinn sprettur út.  Svo sest hann niður með spýtukubb og byrjar að tálga og yfir hann færist ró og friður og allar áhyggjur hverfa. 

Leif sjálfur minnti líka á strákpjakkinn og ég hugsaði sem svo að nú væri ég komin í smíðatíma hjá sjálfum Emil í KattholtiLoL  Og allt í einu lá það í augum uppi að auðvitað hefði Emil orðið smíðakennari!!  Hvað annað?  Hver annar kynni tökin á fjörugum strákpjökkum?  Ég var líka alveg sammála Leif um að leyfa krökkunum heldur að tálga en fara í Play Station.  Svei mér þá ef ég skelli mér ekki bara út í skóginn hér á bakvið hús, nái mér í greinar og setjist svo á kvöldin út á svalir og tálgi snaga til að stinga í jólapakka handa ættingjum og vinum.  Made in Småland!


RIGNINGARDAGUR

Það var yndislegt veður í morgun og ég sagði Sesselju að taka bara regngallann og stígvélin með sér í skólann á morgun, til að hafa það þar til öryggis.  Hún var nefnilega svo klyfjuð af skólatösku og sunddóti að hún hefði hreinlega sligast.

Um hálfellefuleytið byrjað svo að rigna.  Fyrst var bara léttur úði en síðan skall á úrhellisrigning.  Eins og hellt væri úr fötu.  Alveg ausandi!!  Skömmu síðar hringdi Rebekka og bað mig að koma með þurr föt fyrir hana og Jenny.  Bekkurinn hafði nefnilega verið úti í líffræði og af því að Rebekka er nú einu sinni unglingur, vill hún aldrei taka með sér vatnshelda yfirhöfn í skólann og ég er hætt að skipta mér af því.

Svo að ég skutlaði fötum til Rebekku og fór síðan með regnfötin hennar Sesselju og stígvélin í skólann hennar í leiðinni.  Næst hringdi Óli.  Hann var auðvitað eins og hundur af sundi dreginn.  Ég fann til þurr vinnuföt á hann og skutlaði þeim til hans í vinnuna.  Verkstjórinn var þá líka búinn að redda honum regngalla.

Því næst sótti ég Diljá á leikskólann.  Hún var holdvot og yfir sig hamingjusöm úti að leika sér.  Það hafði komið svakaleg þruma skömmu áður og allir krakkarnir hlaupið í skjól undir þakskyggni.  Sem betur fer varð ekki meira úr þrumuveðrinu í þetta sinn.  Ég fór með Diljá inn, tók hana úr pollagallanum, hellti nokkrum desilítrum af vatni úr stígvélunum hennar og svo drifum við okkur hingað heim í þurr föt.

Nú ætla ég að fara að hita súkkulaði.  Það er það besta sem hægt er að fá á svona dögum!


ÓLYMPÍULEIKAR O.FL.

Í dag tók Sesselja þátt í Ólympíuleikunum í Växjö.  Þetta er árlegt frjálsíþróttamót fyrir krakka og unglinga og ekkert skilyrði að vera félagi í einhverju íþróttafélagi - allir mega taka þátt.  Sesselja mætti á svæðið og tók þátt í langstökki, 60 m hlaupi og 600 m hlaupi.  Hún stóð sig bara vel þó að hún kæmist ekki á verðlaunapall, enda var það ekki aðalatriðið.  Henni finnst þetta bara svo rosalega skemmtilegt.  Mest kom hún okkur á óvart í 600 m hlaupinu þar sem hún sló hvergi af.  Kraftmikil stelpa.

Rebekka var á sundæfingu í morgun.  Hún er orðin best í sínum hópi í flugsundi, nokkuð sem ég held að hún hafi ekki átt von á, hún var ekki svo spennt fyrir flugsundinu fyrst þegar hún lærði það.  Síðan fór hún í bæinn og hitti þar vini sína, þau Jenny og Gabriel.

Ég komst að því nú í vikunni að hætturnar leynast víða.  Ég var að fara á skrifstofuna í vinnunni hans Óla en á lóðinni þar er risastórt tré, eins og reyndar eru hér um allt.  Þar sem ég geng undir tréð dettur ekki eitthvað niður úr trénu rétt fyrir framan nefið á mér og annað lendir á lærinu á mér og ég get sagt ykkur að það var ekkert sérlega þægilegt.  Þegar betur var að gáð var hér um að ræða litla hnetu.  Já, ég gekk semsagt undir hnetutré og það rigndi nánast hnetunum niður úr því.  Maður er bara ekki vanur þessari nálægð við náttúruna!

Ekki frekar en kötturinn hennar systur minnar í úthverfi Stokkhólms sem varð dauðhræddur um daginn þegar hann var úti í garði - eins og kettir eru vanir að vera - þegar það kom allt í einu dádýr stökkvandi eftir götunni!

Sniðugt í Stokkhólmi!

p.s. Hvað verður nú um þá drykkjufélagana, Boga og Örvar??  Þetta er eins og að stía í sundur Gög og Gokke!

 


BLÁBER, LAUKUR OG SVEPPIR

Nei, þetta er ekki uppskrift (enda myndi þetta sjálfsagt ekki passa vel saman).

Um daginn fékk Rebekka heimavinnu í heimilisfræði.  Hún átti að æfa sig að skera lauk eftir kúnstarinnar reglum (svona eins og atvinnumatreiðslumenn gera).  Svo stóð hún í eldhúsinu með kennslubókina og sagði svo:  ,,Þetta er algjör snilld".  Nú kalla ég alltaf í hana þegar ég þarf að láta skera lauk!

Í dag fór Sesselja með bekknum sínum út í skóg að tína sveppi.  Hún átti að finna 5 mismunandi tegundir af sveppum og læra hverja má borða og hverja ekki.

Diljá fór líka út í skóg í dag með leikskólanum.  Þau fóru að tína bláber.  Síðan fóru þau með bláberin á leikskólann og bökuðu bláberjaköku sem allir fengu að smakka á.  Diljá bauð auðvitað fram aðstoð sína í eldhúsinu...

Annars er það helst í fréttum að Rebekka sér nú loksins út úr augum þar sem hún er búin að fá linsur.

Diljá sér ósýnilegar kanínur (mömmu og ungann hennar) og dröslar þeim með sér í bandi (líka ósýnilegu) um allar trissur.  Ég er róleg meðan þær eru ekki tveggja metra háar og heita Harvey.

Sesselja sér fram á að byrja að dansa á táskóm í ballettinum í vetur og talar varla um annað.

Og Óli sést ekki - a.m.k. ekki í kvöld - þar sem hann er í stúdíói með annarri hljómsveitinni sem hann er í, að taka upp frumsamið lag.  (Hann samdi það þó ekki).

Sjáumst!


HAUSTAR AÐ

Haustlitirnir eru nú farnir að blandast þeim græna hér í smálensku skógunum.  Fallegt.

Eldri stelpurnar eru komnar á fullt í sínu námi og tómstundum á ný.  Sú yngsta byrjuð á nýjum leikskóla og gengur vel.  Gaman!

Við kveikjum á kertum þegar fer að skyggja og svo slökum við skötuhjúin á saman þegar þær litlu eru sofnaðar.  Notalegt!

Mér sýnist fólk hafa miklu meiri áhuga á frásögnum fólks sem fjalla um erfiðleika og veikindi en vellíðan og hamingju.  Skrítið...

...en ég verð víst að sætta mig við áhugaleysi ykkar því að lífi okkar hér í Svíþjóð verður aðeins lýst með einu orði:  HAMINGJASmile

 

 


HÆTTULEG HANDKLÆÐI!

Nú hafa menn fundið skýringu á því hvers vegna eiturefnið nonylfenol, sem er bannað innan EU, finnst í skolpvatni hér í Svíþjóð.  Efnið getur m.a. valdið fósturskemmdum og ófrjósemi og vitað er að karlkyns fiskar hafa skipt um kyn af völdum efnisins.

Efnið kemur úr handklæðum sem eru framleidd í Asíu.  Við framleiðslu vefnaðarvara er efnið nonfenoletoxilat oft notað og við þvott berst það með skolvatni og brotnar þar niður í eiturefnið nonylfenol.  Það fylgir fréttinni að það sé semsagt ekkert hættulegt að þurrka sér með handklæðunum, en skaðsemin fyrir náttúruna er mikil og áætla menn að tugir tonna fari út í náttúruna á hverju ári, bara hér í Svíþjóð.  Það segir einnig að gera megi ráð fyrir því að efnið megi einnig finna í fatnaði.

En hvað getur maður þá gert?  Jú, kaupa handklæði með umhverfisstimpli!  Það er ekki nauðsynlegt að nota þetta efni, það eru víst til önnur skaðlaus eða a.m.k. hættuminni efni sem nota má í staðinn.

Sjá fréttina hér (á sænsku): http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=678&a=691222&rss=678

Síðan ég gerðist ,,umhverfisráðgjafi" eða miljökonsulent hjá TSG-biomiljö hef ég farið að hugsa meira um þessi mál.  Ég er semsagt að selja umhverfisvænar hreingerningavörur, míkrófíber klúta o.þ.h. sem eru ALGJÖRLEGA skaðlaus - ég lofa!Halo

Ég hef m.a. fengið að vita að Íslendingar sturta a.m.k. 5 flutningabílum af klósetthreinsilegi út í náttúruna okkar á hverju ári, og þar af brotna 15% þeirra ALDREI niður, heldur safnast upp í náttúrunni.Sick

Ég hef líka fengið að vita að það er mátulega mikið mark takandi á vörum sem merktar eru sem umhverfisvænar.  Fyrirtækin sem gefa út þessar merkingar gera ekki nógu miklar kröfur, skaðleg efni þurfa t.d. ekki að brotna 100% niður í náttúrunni til að geta fengið stimpilinn "umhverfisvæn".  85% dugar til.  Þar að auki - og haldið ykkur nú fast - fá fyrirtækin prósentur af vörunum sem þeir setja stimpla á!!Devil  Hverju á maður að treysta??

Mér var líka bent á að lesa aftan á uppþvottalög.  Já, ég veit að fæstir lesa smáa letrið aftan á uppþvottabrúsanum.  Þar stendur oftast að forðast skuli snertingu við viðkvæma húð eða bara húð yfir höfuð og þvo sér vel á eftir!!

Ég vil sjá meiri fræðslu um þessi mál, ekki bara heyra brot og glefsur héðan og þaðan.  Erum við ekki með umhverfisráðuneyti?  Hvernig væri að það gerði góða samantekt yfir það eitur sem við erum að handleika dags daglega án þess að gera okkur grein fyrir því, og benda á aðra hættuminni eða skaðlausa valkosti!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband