NÓG AÐ GERA...

Jæja, kæru ættingjar og vinir.  Tíminn líður svo hratt alltaf í desember að ma-ma-ma maður bara áttar sig ekki á þessu!

Diljá varð 4 ára (loksins!!) þann 2. desember en við héldum upp á afmælið þann fyrsta af því að ég var að fara í skólann á afmælisdeginum hennar.  Fjölskyldan mætti auðvitað og svo ein íslensk stelpa sem er í íslenskutímum hjá mér og svo ein sænsk vinkona þeirra Diljár og Sesselju.  Hér er fyrsta helgin í aðventu mikil hátíð með jólaglögg, piparkökum og kirkjusókn svo að það gátu ekki allri komið sem við buðum í afmælið, en veislan var fín og Diljá var hæstánægð.  Við gáfum henni geislaspilara með tveimur míkrafónum svo að nú þarf hún ekki að fá lánað tækið hennar Sesselju og getur auk þess sungið með af hjartans lyst.  Hún er stundum í Singstar og þar er uppáhaldslagið hennar ,,The final countdown" með tilheyrandi höfuðhnykkjum!  Þannig að nú getur hún notið sín í botn.

Hún fékk litabók, liti, leirdót, spil, föt og bæði ryksugu og hrærivél, en heimilisstörf eru hennar líf og yndi!  Hún var semsagt hæstánægð með daginn og sofnaði með bros á vör!  Svo var nú ekki verra að pabbi hennar skyldi fara með þær systur í bíó á sjálfum afmælisdeginum!

3.-4. desember var ég síðan í skólanum í Eskilstuna og tók lestina þangað á sunnudeginum.  Það voru tveir stífir dagar og gott að komast heim aftur.  Nú er ég að æfa mig í bókunarkerfinu Amadeus (sem flestallar ferðaskrifstofur og flugfélög nota).  Sit við tölvuna daglega og pikka inn ímyndaða farþega og áfangastaði - bara gaman!  Ég er einmitt að fara að taka stöðupróf núna þegar ég er búin að skrifa þetta blogg.

Það er líka nóg að gera hjá eldri stelpunum.  Sesselja var að syngja í barnakórnum í kirkjunni á sunnudaginn í Lúsíumessu.  Við erum auðvitað búin að koma okkur upp Lúsíukyrtli, rauðum borða og ljósakórónu fyrir hana.  Á sjálfan Lúsíudaginn þann 13. desember á hún síðan að mæta í kirkjuna fyrir klukkan 7 um morguninn en þá er Lúsíuhátíð skólans.  14 desember á hún svo að spila á franska hornið sitt á nemendatónleikum.

Teleborg kastaliSesselja tók líka þátt í skemmtilegri sýningu um daginn.  Danskennarinn hennar er í listahópi sem fremur ýmsa gjörninga með eldi og hún bað nokkra krakka um að taka þátt í sýningu við Teleborg kastalann hér.  Þetta var eiginlega smá leiksýning tengd sögu kastalans og voru krakkarnir kyndilberar í upphafi sýningarinnar sem fór fram framan við kastalann, auðvitað í niðamyrkri.  Síðan var dansað við undileik miðaldatónlistar og léku dansararnir ýmsar kúnstir með kyndla og eldkúlur.  Mjög flott sýning, ekki síst í þessu ævintýralega umhverfi.

 

Rebekka er að spila 13 sinnum fram að jólum með lúðrasveitinni!  Þau voru ráðin til að spila fyrir utan stórmarkað í bænum.  Hún er líka búin að taka þátt í ,,Luciatåg" - eins og það er kallað.  Krakkar eru gjarnan fengin til að fara með Lúsíuskrúðgöngu um vinnustaði og elliheimili t.d. og fá í staðinn aur í ferðasjóð bekkjarins.  Rebekka fór ásamt nokkrum bekkjarfélögum sínum á elliheimili og sá um undirleik ásamt bekkjarbróður sínum - hún á flautu og hann á píanó.  Svo fer  hún orðið reglulega á unglingamessur á föstudagskvöldum þar sem er talað mál sem unglingarnir skilja og leikin skemmtileg tónlist.  Þessar messur taka yfirleitt um 3 klukkutíma og það koma 80-100 unglingar.  Hún er líka í kristilegum hóp í skólanum.  Þau hittast einu sinni í viku og ræða allt milli himins og jarðar.  Á morgun eru þau að fara að pakka inn biblíum sem þau dreifa til allra 7. bekkinga.  Það er ekki hefðbundin biblía heldur er hún líka á máli sem krakkarnir skilja, boðskapurinn er auðvitað hinn sami.  Svo að það má segja að hún hafi tekið fermingarheitið sitt í sumar hátíðlega - enda á það líka að vera þannig.

Nú, svo bíðum við bara eftir jólunum.  Búin að fá bæði malt og kæsta skötu í hús og erum að fara að baka laufabrauð í Målilla um næstu helgi.  Rebekka er búin að baka spesíur og ég er að fara að hella mér í smákökubakstur í vikunni.  Set bara íslensku jólaplöturnar undir geislann enda ekki mikið spilað af jólalögum í útvarpinu hér.

Það sem ég sakna helst, eins og í fyrra, eru skreytingarnar.  Það er jú fallega skreytt í miðbænum og jólatré út um allt enda hæg heimatökin.  En fólk skreytir eiginlega ekkert utanhúss heima hjá sér eins og á Íslandi.  Stöku runni er jú með hvítri seríu og örfáar svalir.  Annars ekkert.  Ég er alvarlega að spá í að spyrja hann Ödda Tobba á Jólabrautinni á Hornafirði hvort hann geti ekki komið hingað og haldið námskeið í utanhússjólaskreytingum - það er of dimmt hérna fyrir minn smekk!  En við bætum okkur það bara upp með því að skella seríum í alla glugga hjá okkur og höfum það notalegt.

Jæja, elskurnar.  Hafið það notalegt á aðventunni og ekki tapa ykkur í stressi!


EINU SKREFI NÆR.....DRAUMADJOBBINU!

Jæja, allt er þetta nú að koma!Grin

Á þriðjudaginn fór ég í viðtal hjá ferðaskrifstofunni Big Travel hér í bæ til að sækja um starfsþjálfun.  Þar var tekið vel á móti mér og yfirmaðurinn þar á bæ virtist jákvæður.  Hann þurfti hins vegar að ráðgast við yfirboðara sína í Malmö og ætlaði að gefa mér svar eftir 1-2 vikur.  Gott og vel.

Í morgun fór ég síðan í viðtal hjá Resia, sem er önnur af tveimur stærstu ferðaskrifstofukeðjunum hér í Svíþjóð.  Og ég fékk bara loforð um 10 vikna starfsþjálfun á staðnum!!! GrinGrinGrin  Með góðum möguleikum á starfi hjá þeim í framhaldinu!!!!! GrinGrinGrinGrinGrinGrinGrin

Ég er alveg í skýjunum!  Einu skrefi nær draumastarfinu!  Yfirmaðurinn þarna, Áróra, var alveg yndisleg og sagðist bara endilega vilja fá mig, lét mig meira að segja fá heimavinnuGrin - ég fór frá henni klyfjuð tveimur plastpokum, fullum af ferðabæklingum og fleiri upplýsingum sem ég þarf að kynna mér áður en ég mæti til leiks.

Starfsþjálfunin byrjar að bóklega náminu loknu um miðjan mars og stendur fram í júní.  Ég get nú bara varla beðið eftir því - væri alveg til í að hoppa yfir jólin og allt og fara bara beint inn í mars á næsta ári....eða næstum því.  Fái ég vinnu þarna (sem ég ætla mér að gera) er bara allt frábært við það.  Resia er í miðbænum, stutt að fara og ég eeeelska miðbæinn!  Síðan eru bæði föst laun og sölubónus og þar að auki er farið í tvær námsferðir á ári!  Það er auðvitað nauðsynlegt að kynnast af eigin raun þeim áfangastöðum sem verið er að selja - en ekki hvað!

Ég er eiginlega í hálfgerðu spennufalli núna - ég átti bara ekki von á að þetta myndi ganga svona vel!  Nú er bara að fara að sökkva sér niður í bæklinga um skemmtiferðaskip, sólarlandaferðir, Kína, Tæland, Ísland....


HVAÐ ER AÐ GERAST?

Frá því að hörmungarnar dundu yfir í finnska skólanum í síðustu viku, hefur fleiri skólum í Skandinavíu verið hótað.  Í gær barst Arabyskolan hér í bæ hótun um skotárás.  Rebekka frétti þetta þegar hún hitti krakka úr þessum skóla á lúðrasveitaræfingu í gærkvöldi.  Vopnaðir lögreglumenn vöktuðu skólann í allan gærdag og enginn fékk að fara út úr skólanum fyrr en að skóladeginum loknum en krökkunum var sagt að þetta væri lögregluæfing.  Foreldrar voru ekki látnir vita og hefur það sætt gagnrýni.  Sjálfsagt hafa menn viljað koma í veg fyrir að ofsahræðsla gripi um sig.  Dagurinn gekk sem betur fer átakalaust fyrir sig en menn taka enga áhættu og í dag vakta öryggisverðir skólann.  Sjá http://www.smp.se/nyheter/vaxjo/manga-rykten-bland-eleverna-pa-arabyskolan(314811).gm

Auðvitað finnst manni þetta óþægilegt.  Þetta er ekki stór bær og þessi skóli er ekki svo langt frá okkur.  Vonandi á lögreglan eftir að handsama þá sem stóðu fyrir þessari hótun og þó að það sé auðvitað ótrúlegt að mönnum skuli detta svona lagað í hug, vonar maður auðvitað líka að aldrei hafi legið nein alvara að baki.

Að finnski árásarmaðurinn hafi verið í tölvusamskiptum við bandarískan nema sem hafði skipulagt samskonar ódæði vekur auðvitað upp spurninguna um það hvort einstaklingar sem dæmdir hafa verið fyrir svona glæpi eigi að hafa ótakmarkaðan aðgang að umheiminum í gegnum Internetið?  Hvort sem er  til upplýsingaöflunar eða samskipta við hvern sem er?  Eiga þeir að hafa möguleika á að koma hugmyndum sínum óhindrað á framfæri við hvern sem er?  Mér er spurn.


mbl.is Auvinen átti samskipti við fangelsaðan bandarískan táning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HLAUPABÓLA

Þegar við vöknuðum í morgun lá nýfallin fönn yfir öllu.  Ég veit svei mér ekki hvað er fallegast, smálenski skógurinn í sumar-, haust- eða vetrarbúningi.  Diljá var fljót að vakna þegar ég sagði henni að það væri kominn snjór og Fönnin mín hlakkaði sko til að fara út að leika með krökkunum á leikskólanum en af því varð nú ekki.  Þegar ég ætlaði að fara að klæða hana kom nefnilega í ljós að hún er komin með hlaupabólu!

Svo nú erum við hér heima mæðgurnar og horfum á snjóinn út um gluggann.  Diljá Fönn er svo sem hress, dundar sér með dótið sitt og syngur ,,eitís"-smellinn The Final Countdown (uppáhaldslagið úr Singstar) meðan hlaupabólurnar spretta fram, ein af annarri.  Svo það er ekkert annað að gera en að bíða meðan þetta gengur yfir.

Annars vorum við í foreldraviðtali í skólanum hennar Sesselju í gær og henni gengur bara þrælvel, stelpunni, hvort sem er í sænsku, stærðfræði eða skrift.  Nú í haust byrjuðu Svíar að kenna aftur gömlu skrifstafina í staðinn fyrir tengiskriftina, sem mér hefur nú alltaf þótt frekar litlaus.  Svo að ég þarf að bæta þar inn fyrir hana íslensku skrifstöfunum, sem ég man sem betur fer ennþá hvernig eru skrifaðir.

Morgundagurinn er tileinkaður Astrid Lindgren og eiga allir krakkarnir að mæta klædd sem einhver af sögupersónum hennar.  (Diljá missir af því á leikskólanum).  Sesselja á að syngja dúett með Ellen, bekkjarsystur sinni.  Ellen á að leika Maddit og Sesselja á að leika litlu systur hennar.  Já, það er stundum gott að vera lítill.  Á fimmtudaginn er hún síðan að fara að syngja á tónleikum með Fame-hópnum og ég vona að við Óli komumst bæði þangað til að horfa á hana.

Rebekku gengur líka vel eins og hennar er von og vísa.  Hún valdi sér þýsku sem þriðja erlenda mál í haust (eða C språk eins og það er kallað hér) þar sem enska telst hennar fyrsta erlenda mál og sænska annað.  Hún hefur þó aldrei fengið neina kennslu í sænsku sem erlendu tungumáli heldur verið í tímum sem heita SVEN, þar sem fram fer stuðningskennsla í ensku og sænsku.  Krakkinn hefur auðvitað aldrei þurft stuðning í nokkrum sköpuðum hlut, og síst af öllu ensku!  Og þegar maður er farinn að semja heilu ljóðabálkana á sænsku, finnst manni stuðningskennsla þar óþörf líka.  Sem betur fer áttaði enskukennarinn hennar sig á þessu, tók hana úr SVEN og lagði til að hún færi í staðinn í þýsku sem annað erlenda tungumál (eða B språk).  Þegar hún næði krökkunum í þeim hópi, gæti hún síðan hætt í þýsku C.  Nú var hún í prófi í þýsku B um daginn, með krökkum sem búin að læra þýsku einu eða tveimur árum lengur en hún, og hún varð hæst á prófinu!  Þetta er sko stelpan mín!Grin

Nú er búið að opna jólamarkaðinn á aðalssetrinu Huseby sem við fórum á í fyrra.  Vonandi verður Diljá búin að jafna sig um helgina því að þangað er alveg ómissandi að fara fyrir jólin.  Kemur manni í sannkallað jólaskap!  Þau koma víst áður en maður veit af, blessuð jólin!


LÉT VITA AF FYRIRÆTLUNUM SÍNUM

Þessi atburður er auðvitað hræðilegri en nokkur orð fá lýst.  Að 18 ára gamall unglingur skuli ganga berserksgang með skotvopn í skólanum sínum, myrða 8 manns og síðan taka sitt eigið líf.  Allt var þetta fyrirfram ákveðið hjá drengnum.  Á heimsíðu sinni lýsti hann ástæðum gerða sinna og réttlætti fyrirætlanir sínar.  Hann hyllti Hitler, Stalín og nemendurna tvo sem skutu 32 til bana í Virginia Tech skólanum í Bandaríkjunum.  Það virðist sem atvikið í Bandaríkjunum hafi e.t.v. verið hans fyrirmynd.  Sorglegt.  Afar, afar sorglegt.

Blöðin hér hafa sagt að heimasíða hans hafði verið skoðuð 200 þúsund sinnum áður en henni var lokað í gær.  Sú spurning sem hefur vaknað hjá mér er því þessi:  Hversu margir lásu þetta ÁÐUR en verknaðurinn var framinn?  Mér finnst skelfilegt að hugsa til þess að e.t.v. hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta ef einhver sem hugsanlega las skrif hans hefði tekið þau alvarlega og gert viðvart.

Ég er með unglingsstúlku á heimilinu og ætla að setjast niður og ræða þessi mál við hana.  Sjái maður svona hluti á netinu ætti maður ekki að taka þeim sem einhverju gríni.  Maður veit aldrei hvenær alvara liggur að baki.

Mér hefur líka verið hugsað til foreldra og fjölskyldu piltsins.  Þau þurfa ekki aðeins að fást við missinn, heldur líka tilhugsunina um þann hræðilega verkað sem hann framdi, og kannski reiði og fordæmingu annarra.  Það getur örugglega enginn gert sér í hugarlund hvernig þeim líður.

 


mbl.is Finnland: Morðinginn skildi eftir sjálfsvígsbréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FYRSTI SNJÓRINN

Jæja, þá má kannski segja að það sé opinberlega kominn vetur hjá okkur.  Hingað til hefur ekki bólað á frosti (nema rétt yfir nóttina) og verið stillt, bjart og fallegt veður.  Í morgun þegar við vöknuðum var hvít föl yfir öllu, en jafnframt komin rigning og allt byrjað að bráðna aftur.  Nú er hitinn kominn upp í 6 stig og spurning hvort þetta verði svona hornfirskur vetur - snjór og rigning til skiptis.

Annars er það helst að frétta að Óli átti auðvitað afmæli sl. sunnudag.  Þá er hann búinn að ná mér eina ferðina enn.  Í tilefni afmælisins áttum við notalega stund á föstudagskvöldinu, fórum út að borða á æðislegu steikhúsi sem við erum búin að uppgötva hér í bænum - svona okkar Argentína!  Óli pantaði sér dýrustu nautasteikina sem kostaði hátt í 2.000 kr ísl. sem er aðeins minna en 12 tommu pizza á Dominos á Íslandi kostar Whistling  Já, já, mér er alveg sama þótt einhverjir móðgist við þennan samanburð.  Ég vil auðvitað bara að mamma, Ausa frænka, systkini mín, frænkur, frændur og vinir flytji hingað til okkar og beiti til þess ýmsum brögðum! Wink  Hvað um það - eftir hina ljúffengu steik brugðum við skötuhjúin okkur í bíó.  Það er nú ekki oft sem við förum í bíó á eitthvað annað en teiknimyndir eða Harry Potter svo að þetta var kærkomin tilbreyting.  Rebekka passaði systur sínar að sjálfsögðu, ekki amalegt að eiga orðið svona góða barnapíu.  Síðan höfðum við smá afmæliskaffi á sunnudeginum og pabbi, Irene og Maria komu til okkar.

Stelpurnar voru í fríi alla síðustu viku, haustfrí í skólanum, svo að við höfðum það bara kósý hérna heima.  Skruppum til Målilla í einn dag, alltaf notalegt að koma þangað.  Nú er hins vegar allt komið á fullt aftur.  Þessa vikuna er heilsuvika í skólanum hjá Sesselju og er m.a. boðið upp á morgunleikfimi, nudd og jóga.  Á morgun fer síðan allur skólinn á frjálsíþróttavöllinn og í skautahöllina og krakkarnir verða þar allan daginn!

Diljá er farin að bíða spennt eftir afmælinu sínu.  Veit að hún á afmæli þegar pabbi er búinn að eiga afmæli svo að hún telur nú dagana.  Hún veit líka að ef það þarf fleiri putta en hennar 10 til að telja þá er það rosalega mikið!  Hún er búin að stækka heilmikið síðan í sumar, er örugglega orðin 110 sm og heil 22 kg!

Svo er bara að bíða og sjá hvernig veturinn verður hér!


GLÆSILEGT!

Ég og dætur mínar erum miklir aðdáendur Latabæjar og urðum voða glaðar þegar við sáum þættina á TV4 hér í Svíþjóð.  Þeir eru hins vegar bara sýndir kl. 8 á sunnudagsmorgnum og þá er ekki svona aaalveg öruggt að menn séu alltaf vaknaðir!  Ég hef hins vegar spáð aðeins í það hvernig þetta sé með markaðssetninguna.  Ég veit að þetta er mjög stórt í Bandaríkjunum og Sollu stirðu og Íþróttaálfs-búningar t.d. afar vinsælir fyrir hrekkjavökuna.  Þetta er greinilega mjög stórt í Bretlandi líka en hér í Svíþjóð eru ekki margir sem þekkja þetta.  Ég hef séð geisladiska með þáttunum í verslunum og harðspjaldabækur í bókaverslunum, en minnihluti krakka sem ég hef spurt þekkir til Latabæjar og alls ekki konurnar á leikskólunum hjá dóttur minni!  Sem mér finnst auðvitað voða mikil synd.  Því að þá get ég auðvitað ekkert montað mig af því að vera frá sama landi og Íþróttaálfurinn stórkostlegi og Solla...FootinMouth


mbl.is Latibær tilnefndur til BAFTA verðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MÚSÍKALSKUR PÁFAGAUKUR

Kíkið á þennan frábæra páfagauk sem er algjörlega sjálfmenntaður dansariCool  http://birdloversonly.blogspot.com/2007/10/snowball-dancing-cockatoo.html


ÞAÐ ER LEIKUR AÐ LÆRA!

Héðan úr Svíaríki er allt gott að frétta.  Nú er annarri vikunni minni í fjarnáminu að ljúka og gengur bara vel.  Ég ætla að taka smátíma í dag til að klára verkefni vikunnar sem ég á að skila á morgun.

Óli er að vinna, aldregi þessu vant á laugardegi!  Húsin sem þeir hjá Ottosson Bygg hafa verið að byggja í vetur eiga að skilast 1. nóvember svo að það er verið að leggja lokahönd á verkið.  Svo er hann nú kominn í þriðju hljómsveitina þannig að það er engin hætta á að honum leiðist!

Allt gengur vel hjá stelpunum.  Diljá er hæstánægð á leikskólanum og fékk meira að segja að fara heim með vinkonu sinni, sem heitir Kajsa, um daginn.  Það var mikið fjör! 

Sesselja er auðvitað alltaf á fullu með krakkaskarann á eftir sér og gengur vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.  Blæs í horn, dansar og syngur.

Og Rebekka bara blómstrar!  Nú um daginn fluttu hún og vinkonur hennar ljóð, sem Rebekka hafði samið um alla krakkana í bekknum sínum.  Á sænsku!!!  Það vakti mikla lukku á bekkjarkvöldinu.  Sjá:  http://www.blog.central.is/rebekka_d/index.php

Og kennararnir eru nú loksins búnir að átta sig á að Rebekka á ekkert erindi lengur í SVEN sem eru aukatímar fyrir þá sem gengur illa í sænsku og ensku.  Þess í stað kom enskukennarinn hennar með þá tillögu að hún færi hraðar yfir í þýskunni.  Hún byrjaði í þýsku í haust en þeir sem völdu sér þýsku sem annað erlenda tungumálið eru nú á þriðja árinu.  Nú situr hún tíma með þeim líka og þegar hún verður búin að ná þeim fær hún að hoppa yfir í 3. árs þýskuna.

Haustið er komið í allri sinni dýrð.  Skógurinn skartar nú haustlitunum, alls konar gulum, bleikum, rauðum og brúnum litum - ótrúlega fallegt.  Veðrið er oftast stillt og milt og það er aðeins farið að vera næturfrost.  Annars eru almennt ekki mikil átök í veðrinu hér.

Maður er svona farinn að leiða hugann aðeins að jólunum.  Við erum strax farin að hlakka til að fara á jólamarkaðinn í Huseby, sem við fórum á í fyrra.  Það verður örugglega ómissandi framvegis fyrir jólastemninguna.  Maður fer kannski að huga að jólabakstri bráðum, þá er svona eitt og annað sem vantar að heiman sem ekki fæst hér, t.d. bökunardropar og lakkrískurl.  Svo þarf að verða sér úti um hangikjköt og tilheyrandi!

Jæja, nú öskrar Diljá á mig úr baðinu!  Best að klára að baða kroppinn og fara svo í nammileiðangur.

Hafið það öll sem allra best!


BLESSUÐ BÖRNIN!

Ég sit hér við tölvuna og er að prenta út verkefni í stríðum straumum.  Diljá kúrir uppi í sófa hjá pabba sínum og við erum svo á leiðinni að fara að kaupa kuldagalla handa henni.  Eitthvað var hún orðin óþolinmóð og spurði:  ,,Hvenær förum við að kaupa kuldagalla handa mér?  Ertu bara að prenta út peninga?"  Grin

Jah, ef það væri bara svona auðvelt!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband