ÞAÐ ER LEIKUR AÐ LÆRA...

Jæja, nú fer þessu loksins að ljúka!  Nú er ég komin til Stokkhólms og dvel hér á 5 stjörnu ,,mömmu-hóteli" (hjá Beggu systur sko!).  Bara með einkaskrifstofu þar sem ég er búin að dreifa úr öllum mínum bókum, möppum og svo auðvitað heimskortinu ómissandi.  Ég kom með flugi í gærkvöldi og farangurinn samanstóð af stórri tösku með 15 kg af bókum og svo lítilli handtösku með fötum og tannburstaLoL.  Nú sit ég bara og les og pára Í ALGJÖRUM FRIÐI OG RÓ (var eiginlega búin að gleyma að þetta væri til) þar til kallað er ,,matur" eða ,,kaffi" eða ,,labbitúr"!  Já, maður verður líka að passa að sjá heilanum fyrir súrefni í öllum þessu ósköpum.

Lokaprófið er síðan á þriðjudaginn í tvennu lagi, frá 9-12 og 13:30-16:30.  Púff!  Vona bara að allt gangi vel - þetta er jú rosalega mikið efni og mér finnst ég eiga SVOOOOO mikið eftir.  En þetta er allt að koma.

Svo þarf ég að bíða í 8 vikur eftir niðurstöðum!  Þarf að standast 70% en ég hef nú ekki farið undir 84 prósent í verkefnum.  Svo að ef allt gengur að óskum verð ég bráðum orðin Travel Agent (flott - ekki satt).
Þið megið alveg senda mér hlýja straumaWink  Hafið það gott, elskurnar!

AFMÆLI, NORÐURLJÓSABLÚS OG ÓFÆRÐ

Hún á afmæli í dag - hún á afmæli í dag - hún er 15 ára hún Rebekka GrinWizardW00t

Já, það eru hvorki meira né minna en 15 ár síðan frumburðurinn læddist í heiminn.  Átakalaust eins og allt í kringum hana alla tíð.  Ég sagði systur minni sem líka var að fara að eignast sitt fyrsta barn að þetta væri sko ekkert mál.  Ég væri alveg til í að endurtaka þetta næsta dag.  13 dögum síðar var hún sko alls ekki sammála mér!  ,,Þetta var víst vont", sagði hún við mig í ásökunartón.  En ég var í sæluvímu yfir stelpunni minni og tók það ekkert nærri mér.

Já, hún er alltaf jafn róleg, hefur hvorki dottið af henni né dropið í 15 ár.  Rosalega klár stelpa sem kemur okkur stöðugt á óvart, hæfileikarík, dugleg og ljúf og góð.  Til hamingju með daginn, elskan mín. Heart

Hún bauð vinkonum sínum í pizzupartí og bíó hér heima á föstudeginum.  Þar sem pabbi hennar er á leiðinni frá Íslandi í þessum skrifuðu orðum, verður fjölskyldukaffið tekið seinna.

Mig dreymdi í morgun að Óli og hljómsveitin hans sem var að spila á Norðurljósablús á Höfn, kæmu rennandi á rútunni í Vík í Mýrdal og strákarnir voru svo hrifnir af landi og þjóð að þeir ákváðu að taka einn aukadag í Reykjavík.  Í því vaknaði ég við símann.  Það var Óli.  Þeir voru fastir í snjóskafli í Vík!  Það þurfti að ryðja veginn fyrir þá sérstaklega svo að þeir kæmust leiðar sinnar, en það hafðist og þeir náðu sem betur fer flugvélinni.

Þeir spiluðu á Hótel Höfn í gærkvöldi og tókst vel til að sögn fróðra manna.  Þeir spila reyndar ekki blús heldur rokkabillý og söngvarinn og gítarleikarinn John semur flest lög og texta sjálfur.  Lifir og hrærist í rokkabillýstílnum.  Sjálfir voru þeir mjög ánægðir með hvernig til tókst og ekki síður viðbrögð leikinna og lærðra!  Þið getið lesið allt um Norðurljósablúsinn hér.

Nú bíðum við bara eftir að Óli skili sér í hús með páskaegg og fleira íslenskt góðgæti.Wizard


SPORTLOV OG AÐGERÐ

Jæja, þá er sportlov hafið í skólunum hér - frí í heila viku hjá stelpunum mínum!  Reyndar kemur yngsta skottið til með að fara á leikskólann, það er bara svo gaman og svo þarf mamma að læra.

Í fyrramálið er frumburðurinn hins vegar að fara í smáaðgerð.  Það þarf að fjarlægja tönn sem ekki fór sína réttu leið og liggur þvert fyrir ofan 2 aðrar og stefnir rótum þeirra í hættu.  Þetta verður svæfing, svona 45 mínútur og síðan verður hún að liggja inni til eftirlits í a.m.k. 2 tíma eftir að hún vaknar.  Ekki eins og þegar ég fór í hnéaðgerðirnar í Reykjavík og var hent út hálfsofandi um leið og ég gat opnað annað augað til hálfs!  Ég var svo rugluð að Begga systir varð að hjálpa mér að klæða mig og styðja mig út í bíl.  En kannski menn geri ekki svona við börn og unglinga þarna heima, bara smábarnamömmur!

Þessi aðgerð hjá Rebekku kemur í stað margra ára og hundruða þúsunda króna í tannréttingar (sjá færslu mína  ,,Hvenær eru tannréttingar nauðsynlegar?" http://heidah.blog.is/blog/heidah/entry/238364 ).  Auðvitað er hún svolítið kvíðin.  Þetta er reyndar ekki fyrsta svæfingin hennar því að hún fór í aðgerð út af klofnum gómi þegar hún var 7 mánaða og svo í óteljandi röraaðgerðir á aldrinum 2ja til 6 ára.  Ég týndi tölunni eftir u.þ.b. 15 skipti.  En auðvitað finnst manni svona alltaf vera mikið mál, þó að maður sé alveg að verða fimmtán,  svo að þið megið alveg senda henni hlýja strauma (og taugatrekktri mömmunni líka!)

Street Cowboys slutgiltligAð öðru leyti er ekkert markvert að frétta.  Það styttist auðvitað í Íslandsferð hjá Óla sem fer með hljómsveitinni sinni Street Cowboys að spila á Norðurljósablús á Hornafirði um mánaðamótin.  Það hefði verið gaman að geta skroppið með en...  Svo fékk ég skemmtilegan tölvupóst í dag - það er verið að skipuleggja 20 ára útskriftarafmæli frá Menntaskólanum við Sund (það getur ekki verið, þessar tölur standast engan veginn FootinMouth???).  Það væri gaman að mæta þar líka, en...

Lífið er blús...

 

 

 


Í skólanum, í skólanum...

Jæja, ég var svona nokkurn veginn að detta inn úr dyrunum eftir að hafa verið í skólanum uppi í Eskilstuna í tvo daga núna.  Mikið var gott að koma heim!  Óli búinn að kveikja á fullt af kertum eins og hann gerir alltaf þegar ég er búin að vera í burtuInLove.  Þetta var í síðasta skipti fyrir prófið sem hópurinn hittist og ekki laust við að það væri smá skjálfti í sumumPouty  Námsefnið eftir jól hefur ekki verið neitt léttmeti en nú er þetta allt að smella saman í kollinum á mér.  Lokaspretturinn eftir - rifja upp námsefnið frá því fyrir jól, klára að læra 200 skammstafanir fyrir flugvelli um allan heim og allar skipanirnar í Amadeus forritinu - já og svo allt hitt líka!  Prófið verður í Stokkhólmi 11. mars og ég er ákveðin í að rúlla því upp!

Það er alltaf gaman að koma í skólann og hitta hópinn.  Konurnar tvær sem eru með mér í vinnuhóp eru greindar og skemmtilegar konur, önnur frá Tyrklandi og hin frá Filippseyjum.  Við gistum alltaf á sama gistiheimili ásamt tveimur öðrum stelpum af námskeiðinu, sænskum strák og miðaldra Indverja, Mohinder, sem er dálítið sérstakur kall.  Hann notar hvert tækifæri til að segja samnemendum frá afrekum sínum:  hann er stjörnuspekingur - les í lófa, gerir stjörnukort og les út úr nöfnum, leikari - hefur leikið í fjöldamörgum indverskum leikritum og kvikmyndum og tveimur sænskum líka.  Önnur þeirra verður frumsýnd núna eftir nokkra daga og þar er hann m.a.s. með nokkrar línur!  Og það er varla til sú íþrótt sem hann hefur ekki spilað en mestum árangri hefur hann samt náð í krikket.  Varð Svíþjóðarmeistari með sínu liði en gekk ekki sem best á Evrópumótinu.  Hann er búinn að vinna við tölvuforritun í 25 ár með rosalega góð laun en er orðinn leiður á því og ætlar að stofna ferðaskrifstofu eftir námið.  Annars er gaman að spjalla við hann þegar hann er búinn að koma þessum upplýsingum öllum frá sér og indæliskall, ég hef forvitnast aðeins um indverska heimspeki, hindúisma og sanskrít, en hann er fróður um tungumál sem eru eitt af mínum aðaláhugamálum.

Ef ég ákvæði að skipta um trú myndi ég annað hvort gerast búddisti eða hindúi.  Af hverju?  Hafið þið einhvern tímann heyrt um ofsatrúarhópa út frá þessum trúarbrögðum eða stríð og glæpi sem þau hafa réttlætt?  Spáið aðeins í þetta.Halo

Svo var þarna ung kona, Joanna, sem ég hef ekki hitt áður þar sem hún hefur verið í öðrum hóp en er að fara að taka prófið samtímis mér.  Hún leitaði mig eiginlega uppi því að hún vinnur nefnilega á ferðaskrifstofunni hér í Växjö sem ég er að fara í starfsþjálfun hjá.  Við vorum samferða heim í lestinni, ásamt nokkrum fleirum, og hún gat frætt okkur heilmikið um það hvernig það síðan er að vinna við þetta.  Og hún hafði bara gott eitt um það að segja, segir að þetta sé rosalega gaman!  Mér heyrist á henni að launin séu bara nokkuð góð og síðan er bónuskerfi líka, ódýrar ferðir (stundum ókeypis) og síðast en ekki síst - góður vinnumórall á staðnumWink

Reyndar býr hún drjúgan spöl héðan og tekur lest á milli á hverjum degi.  Hún skilur tæplega 4 ára son sinn eftir á leikskólanum kl. 6:00 (!!!) og er síðan 1,5 tíma í lestinni.  Vinnur frá 9-18 og er komin heim hálftíu á kvöldin og þá er litli strákurinn hennar auðvitað sofnaður!  Maðurinn hennar er kokkur en vinnur við að smíða kafbáta Cool fyrir Kínverja og fleiri og sækir strákinn þeirra kl. 16.

Það eru margir hér sem leggja svona mikið á sig til að fá vinnu, fólk ferðast allt upp í tvo tíma á milli hvora leið bara ef það fær vinnu við sitt hæfi.  Maður einnar konu sem ég þekki og er þýskukennari á menntaskólastigi, fékk enga vinnu hér í bænum og fór að heiman á mánudagsmorgnum og kom heim á fimmtudagskvöldum sl. 2 vetur.  Nú í haust fékk hann svo loksins vinnu hér og varð mikil hamingja hjá fjölskyldunni.

Við megum aldrei gleyma að þakka fyrir það sem við höfum.  Að hafa fasta vinnu sem við getum mætt í á hverjum degi án þess að þurfa að vera fjarri heimilinu og fjölskyldunni er ómetanlegt.  En við verðum líka að reyna að gæta þess að vinna til að lifa en lifa ekki til þess eins að vinna.  Ég vona bara svo heitt og innilega að ég fái vinnu hjá Resia eftir starfsþjálfunina!  Ég skal og ætla!!!  En þið megið samt alveg senda mér góða strauma - ég get alveg sagt ykkur að það virkarHeartHeartHeart


Á TÁNUM!

PICT5029Sesselja kom heldur en ekki glöð heim úr ballett í síðustu viku!  Með táskó!!  Tekur hún sig ekki vel út?  Grin  Alvöru ballerína!  Kennarinn hennar safnar saman notuðum skóm þar sem þeir eru mjög lítið notaðir hjá krökkum á þessum aldri og miklu ódýrarir en nýir.  Sesselja er búin að máta hverja skóna á fætur öðrum í vetur en ekkert hefur passað á hana svo að við vorum farin að spá alvarlega í að keyra til Gautaborgar eða Kaupmannahafnar til að kaupa á hana táskó, því að þeir fást ekki hér.  En loksins fundu skór sem pössuðu!  Og hún er búin að snúast eins og skopparakringla um alla íbúðina síðan.  Dugleg að æfa sig.

PICT5032

Litla systir er líka spennt yfir þessu öllu saman og þegarDansskórnir Sesselja fer í dansskóna, skellir hún sér jafnan í þetta forláta pils, sem vinkona hennar Rebekku gaf henni, og hún kallar ýmist rokkpils, diskópils eða ballettpils - eftir því sem við á.  Fer síðan í gömlu ballettskóna hennar Sesselju og tekur nokkra létta takta! 


ALIVE AND KICKING...

Það er alveg ótrúlegt hvað tíminn flýgur áfram!  Ég áttaði mig ekkert á því að ég væri ekki búin að blogga bráðum í heilan mánuð!

Annars er bara sama súpan í sömu skálinni hér.  Vinna, skóli, tómstundir og öllum líður vel.  Það eru 7 vikur þar til ég tek prófið í ferðaskrifstofufræðum í Stokkhólmi þannig að ég hef nóg að gera.  Óli og félagar í Higgins blues band æfa á fullu fyrir Norðurljósablús á Hornafirði og stelpurnar dansa, syngja og spila.  Rebekka er meira að segja bæði farin að dansa og syngja.  Hún æfir orðið ,,drill" fyrir lúðrasveitina, þið vitið, sveifla sprota og dansa!  Henni finnst það rosalega gaman en hún hefur ekki dansað síðan hún móðgaðist í dansskólanum 3 ára gömul við það að Fugladansinn var spilaður á vitlausum hraðaLoL  Svo er hún alltaf í tónlist í skólanum og þar er krökkunum skipt í litla hljómsveitarhópa, fyrir áramót var hún látin spila á gítar en nú er hún í hóp með þremur strákum og á að syngja, takk fyrir!  Og er bara ánægð með það!  Þeir sem þekkja Rebekku vita að þarna hefur orðið mikil breyting á dömunni!

Svo er búið að bjóða henni að taka samræmda prófið í stærðfræði nú í vor, ári á undan bekkjarfélögum sínum, enda er hún að verða búin með námsefni næsta árs í fræðunum.  Þetta er ekki algengt hér en kennararnir vilja ekki þurfa að halda aftur af henni og ætla síðan að útvega henni menntaskólanámsefni næsta vetur. Smile  Hún er líka búin að færast upp um sundhóp og æfir nú 8 klst. á viku og er oft að synda um og yfir 4 km á æfingu!  Svo að stelpan er alveg að brillera hér á öllum sviðum.

Jæja, best að fara að sökkva sér niður í námsbækurnar.  Hafið það sem allra best og reynið að fjúka ekki um koll þarna heima!


AFSLÖPPUN UM JÓLIN

Gleðileg jól, elskurnar!  Við erum búin að hafa það rólegt og reglulega notalegt nú um jólin.  Við héldum íslensk jól hér heima, hlustuðum á kirkjuklukkurnar hringja þau inn í gegnum tölvuna og hlýddum svo á útvarpsmessuna í Dómkirkjunni meðan við borðuðum hamborgarahrygginn og laufabrauðið og drukkum malt og appelsín með!  Það gerist nú ekki betra en það!Grin  Dagurinn hafði reyndar verið erfiður fyrir yngstu heimasætuna enda man maður hvað það var erfitt að bíða eftir að jólin kæmu þegar maður var bara fjögurra ára.  Síðustu tímana spurði hún stöðugt:  ,,Hvað er klukkan?"  ,,Hún er 11 mínútur yfir fimm", sagði ég.  ,,Já, en hvenær hringja klukkurnar?"  ,,Klukkan sjö", svaraði ég.  ,,Aha - en hvað er klukkan núna?"

Svo varð hún alveg róleg þegar við fórum að borða, þó að lystin væri minni en venjulega.  Eftir matinn settumst við svo inn í stofu, settum íslensk jólalög undir geislann, Nóa-konfekt í skál og opnuðum svo pakkana í rólegheitum.  Meira að segja Diljá var alveg þolinmóð í því.Halo

Ástarþakkir fyrir allar góðu gjafirnar sem þið senduð okkur! InLove Það voru allir mjög ánægðir með það sem þeir fengu!!

Á jóladag var áframhaldandi afslöppun og á annan í jólum fórum við í heimsókn til Målilla, snæddum sænska jólaskinku og annað góðgæti og slöppuðum af í sveitinni!

Á fimmtudeginum fengum við síðan góða gesti í heimsókn:  Gunnar, bróðir hans Óla, og Dúfa konan hans eyða jólum og áramótum hjá Ragnhildi dóttur sinni og fjölskyldu hennar í Kaupmannahöfn, og þau smelltu sér upp í járnbrautarlest sem fer frá Köben og beint hingað til okkar og gistu hjá okkur í eina nótt.  Ragnhildur kom líka með og litla sæta Anna Dúfa.  Stelpunum þótti nú ekki leiðinlegt að fá litlu krúsídúlluna í heimsókn og voru duglegar að leika við hana.  Það var virkilega gaman og notalegt að fá þau í heimsókn.

Nú er bara áframhaldandi afslöppun, það er engin vinna hjá Óla milli jóla og nýárs.  Á gamlárskvöld ætla pabbi, Irene og Maria að vera hjá okkur og á nýársdag ætlum við að hitta sænskt vinafólk.  Skólinn byrjar aftur hjá stelpunum þann 8. janúar svo að það er nóg eftir!

Hafið það áfram gott yfir jól og áramót!  Hér koma nokkrar myndir frá jólunum!

Fyrst þarf að setja saman jólatréð 

Fyrst þarf að setja saman jólatréð!

Jólatréð í stofu stendur

Jólatréð í stofu stendur...!

Sesselja og Diljá

Systurnar bíða spenntar eftir jólunum!

Sesselja og Diljá

Komnar í sparifötin og pakkarnir bíða!

Og þá er að opna pakkana

Sesselja las á pakkana!

Diljá í jólaskapi

Diljá og Rebekka greinilega glaðar með sitt!

Jólin 2007

Húsmóðirnin í afslöppun!

Gjöfin frá Boggu ömmu

Diljá komin í gjöfina frá Boggu ömmu...

Náttfötin frá Boggu ömmu

...og Sesselja líka.

Og þá var að púsla dótinu saman

Og þá var að púsla öllu dótinu saman!


JÓLIN ERU AÐ KOMA...

Við erum búin að fá alveg frábærar sendingar að heiman: SS-sinnep (ómissandi á hamborgarahrygginn og með skötunni), River-hrísgrjón (ómissandi í jólagrautinn), lakkrískurl (ómissandi í uppáhaldssmákökurnar), íslensk jólalög (alltaf ómissandi) og svo alveg heilan helling af íslensku nammi!!!!! (það er nú varla hægt að lifa án þess til lengdar) W00t  Svo er von á alvöru Cheerios og Cocoa Puffs frá Ameríku.  Og skatan bíður í frystinum og maltið er komið í hús.  Gæti bara ekki verið betra.  Takk, takk, takk elskurnar fyrir allar sendingarnar!

Nú eru stelpurnar auðvitað komnar í jólafrí fram til 8. janúar.  Hér eru margir búnir að skreyta jólatrén og þau standa ljósum prýdd í stofum landsmanna.  Við breytum ekkert út af okkar vana og skreytum bara á Þorláksmessu.  Hins vegar eru jólaskreytingarnar okkar aðeins farnar að smita út frá sér.  Í fyrrakvöld birtist allt í einu jólasería í gluggum í blokkinni á móti okkur.  Og það meira að segja lituð.  Og nágrannakona mín sem kom hingað sagði að hún og fleiri hefðu verið að velta því fyrir sér hvernig okkur tækist að hafa gluggaseríurnar svona beinar.  Sogskálarnar - þið vitið!  Henni fannst þetta algjör snilld!  Langar í svona líka!

Annars vildi ég láta ykkur vita að jólakortin berast ykkur sennilega ekki fyrr en milli jóla og nýárs.  Vonandi fyrirgefið þið það!  Svo heyrumst við vonandi um jólin!

(til minnis fyrir næstu jól:  láta kaupa sogskálar fyrir seríur og seríuperur fyrir okkur...)

 


VIRKILEGA...

...er uppáhaldsorð yngstu heimasætunnar um þessar mundir.  Hún er nú aldeilis vön því að skipa heimilisfólkinu fyrir hægri-vinstri en er að sama skapi ekki jafn ánægð með það að láta segja sér fyrir verkum.

Pabbi hennar var að svæfa hana í fyrrakvöld.  Hún var nú ekki alveg til í að fara að sofa svo pabbi hennar reyndi að beita gamalkunnu íslensku húsráði og sagði að hún yrði að vera sofnuð þegar Stekkjastaur kæmi, annars færi hann framhjá glugganum hennar og hún fengi ekkert í skóinn.  Þá svaraði Diljá:  ,,Sko, pabbi.  Jólasveinninn virkilega ræður ekki hér í Växjö.  Hann ræður ekki heldur á Íslandi.  Og hann ræður ekki í öðrum löndum heldur.  Hann ræður bara heima hjá sér!"

Og hana nú!


ÓTRÚLEG SAGA

Lesið hér um hremmingar íslenskrar konu sem brá sér í verslunarferð til USA!  http://erla1001.blog.is/blog/erla1001/entry/388660/#comment883175


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband