FYRSTI SNJÓRINN

Jæja, þá má kannski segja að það sé opinberlega kominn vetur hjá okkur.  Hingað til hefur ekki bólað á frosti (nema rétt yfir nóttina) og verið stillt, bjart og fallegt veður.  Í morgun þegar við vöknuðum var hvít föl yfir öllu, en jafnframt komin rigning og allt byrjað að bráðna aftur.  Nú er hitinn kominn upp í 6 stig og spurning hvort þetta verði svona hornfirskur vetur - snjór og rigning til skiptis.

Annars er það helst að frétta að Óli átti auðvitað afmæli sl. sunnudag.  Þá er hann búinn að ná mér eina ferðina enn.  Í tilefni afmælisins áttum við notalega stund á föstudagskvöldinu, fórum út að borða á æðislegu steikhúsi sem við erum búin að uppgötva hér í bænum - svona okkar Argentína!  Óli pantaði sér dýrustu nautasteikina sem kostaði hátt í 2.000 kr ísl. sem er aðeins minna en 12 tommu pizza á Dominos á Íslandi kostar Whistling  Já, já, mér er alveg sama þótt einhverjir móðgist við þennan samanburð.  Ég vil auðvitað bara að mamma, Ausa frænka, systkini mín, frænkur, frændur og vinir flytji hingað til okkar og beiti til þess ýmsum brögðum! Wink  Hvað um það - eftir hina ljúffengu steik brugðum við skötuhjúin okkur í bíó.  Það er nú ekki oft sem við förum í bíó á eitthvað annað en teiknimyndir eða Harry Potter svo að þetta var kærkomin tilbreyting.  Rebekka passaði systur sínar að sjálfsögðu, ekki amalegt að eiga orðið svona góða barnapíu.  Síðan höfðum við smá afmæliskaffi á sunnudeginum og pabbi, Irene og Maria komu til okkar.

Stelpurnar voru í fríi alla síðustu viku, haustfrí í skólanum, svo að við höfðum það bara kósý hérna heima.  Skruppum til Målilla í einn dag, alltaf notalegt að koma þangað.  Nú er hins vegar allt komið á fullt aftur.  Þessa vikuna er heilsuvika í skólanum hjá Sesselju og er m.a. boðið upp á morgunleikfimi, nudd og jóga.  Á morgun fer síðan allur skólinn á frjálsíþróttavöllinn og í skautahöllina og krakkarnir verða þar allan daginn!

Diljá er farin að bíða spennt eftir afmælinu sínu.  Veit að hún á afmæli þegar pabbi er búinn að eiga afmæli svo að hún telur nú dagana.  Hún veit líka að ef það þarf fleiri putta en hennar 10 til að telja þá er það rosalega mikið!  Hún er búin að stækka heilmikið síðan í sumar, er örugglega orðin 110 sm og heil 22 kg!

Svo er bara að bíða og sjá hvernig veturinn verður hér!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælið Óli Kalli okkar. Vonum að þið hafið það sem allra best héðan er allt gott að frétta og við sendum bestu kveðjur til ykkar hinumegin við hafið... Svava og Siggi

Svava og Siggi (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband