Færsluflokkur: Bloggar
13.12.2006 | 15:14
JÓLASVEINNINN KEMUR...
Í dag er hinn eiginlegi Lúsíudagur og það var haldið upp á hann í skólunum hjá stelpunum með söng og Lúsíukaffi. Það eru elstu bekkirnir sem sjá um sönginn. Það var hins vegar Lúsíuhátíð hjá 2.bekk á mánudagskvöldið og eins og í kirkjunni sungu börnin söngva um Lúsíu og ljósið sem hún kemur með á þessum dimmasta tíma ársins. Þau kveiktu líka á öllum fjórum aðventukertunum og börnin sem sáu um það fóru með vísur um það - þar á meðal var Sesselja. Hún fór með vísu um þriðja kertið og las svo fallega að kennararnir hennar og nokkrar mömmur hreinlega táruðust! Í lok dagskrárinnar sungu börnin svo hið hefðbundna Lúsíulag en þá fór nú kliður um áhorfendahópinn því að þetta var eitthvað ekki eins og venjulega. Börnin komu nefnilega öllum á óvart með því að syngja eitt erindi á íslensku! Þetta var mjög skemmtilegt og hátíðlegt og alveg ótrúlegt að horfa á hana Sesselju syngja öll þessi sænsku jólalög (örugglega 12-15 lög) eins og innfæddur Svíi. Á eftir var síðan Lúsíukaffi og nemendur færðu kennurum sínum blóm og þökkuðu fyrir önnina.
Við urðum líka heldur betur hissa í gær! Sesselja og Diljá settu nefnilega skóna sína út í glugga, en voru samt ekkert vissar um að Stekkjastaur gæti komið alla þessa leið, garmurinn, en þegar þær vöknuðu um morguninn beið þeirra smájólaglaðningur!
Það er ákveðið að við munum verða í Målilla á aðfangadag og kynnast þar ekta sænskum jólum. Á jóladag ætlum við að borða hamborgarahrygginn okkar hér heima og síðan er áætlað að eyða áramótunum í stórborginni Stokkhólmi!
Maður verður nú ekkert var við mikið jólastress hér. Skreytingum er stillt mjög í hóf, bæði hjá einstaklingum og í verslunum og jólalögin eru rétt að byrja að heyrast í útvarpinu. Auðvitað er meira og öðruvísi úrval í verslunum en gengur, en það er ekki þessi ös, stress og læti eins og heima og auglýsingaflóðið ekkert meira en venjulega. Menn leggja ekki eins mikið upp úr umbúðunum hér, enda eiga jólin fyrst og fremst að vera í hjörtum okkar - ekki satt.
Ég vona, elsku ættingjar og vinir að þið tapið ykkur ekki í jólastressi! Slakið á og njótið þess að vera með fjölskyldu og vinum um jólin!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2006 | 01:17
LAUFABRAUÐ OG LÚSÍA - KOMNAR MYNDIR

http://jol.ismennt.is/lusia/lusialjod.htm
Á laugardeginum vöknuðum við svo eldsnemma því að það var jólasamvera hjá skátafélaginu hennar Sesselju og hún byrjaði kl. 8 um morguninn! Já, já, hér taka menn daginn snemma og eru ekkert að bylta sér í bólinu fram eftir öllu! Það var drukkið kaffi og djús, borðaðar kökur, sungið, hlustað á jólasögu og skátunum afhent merki, sem þarf síðan að sauma á skátaskyrtuna eftir kúnstarinnar reglum. Að lokum var síðan happdrætti sem var alveg ótrúlega spennandi! Allir krakkarnir við borðið okkar fengu vinning og sumir jafnvel tvo og þrjá. Sesselja fékk næstsíðasta vinninginn, perlur til að föndra úr.
Eftir hádegið komu pabbi, Irene og María svo og við skelltum okkur í að baka laufabrauð! Irene kenndi okkur kúnstina sem hún lærði á Vestfjörðum á sínum tíma. Við bökuðum og bökuðum, heilu staflana, og ég verð að segja að laufabrauðið hér í Växjö gefur "Kristjáni" ekkert eftir. Mikið hlakka ég til að borða það á jólunum!

http://www.jolahusid.com/isl/lusia.htm
Eftir messuna fór Óli heim með stelpurnar en ég fór með pabba, Irene og Maríu (sem voru auðvitað í messunni) á jólamarkað á herragarði hér rétt utan við bæinn. Herragarðurinn er í eigu greifa nokkurs og greifynju sem María hefur annan hestinn sinn hjá. Þarna var mikið af fallegu handverki og ýmislegt sem gott var að smakka, t.d. glögg, ostar, sultur, hunang, sinnep, pylsur o.fl. Það sem eftir lifði dags var svo bara slappað af, enda viðburðarík helgi að baki og ný vika framundan!
http://www.jolahusid.com/isl/lusia.htm
Bloggar | Breytt 12.12.2006 kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2006 | 13:34
BÚIN AÐ SETJA INN MYNDIR!!
Looooksins. Þetta er allt að koma hjá mér. Skoðið endilega myndirnar úr afmælinu hennar Diljár í gær. Ragna mín - nú er þér óhætt að kvitta!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.12.2006 | 12:57
AFMÆLI + TÓNLIST
Þá er hún Diljá Fönn orðin þriggja ára gömul. Þessa dags hefur lengi verið beðið með mikilli tilhlökkun. Um leið og hún vaknaði fékk hún að opna pakkana sem voru komnir frá Íslandi. Hún var himinlifandi með læknisdótið sem var meðal þess sem hún fékk frá Arneyju, Breka og Bríeti og tuskudýrin hennar voru voðalega veik framan af degi. Elín Ása og Anna Regína sendu henni æðislega flotta jólasveinaprjónahúfu sem hún hefur varla tekið ofan síðan. Það var sko ekki að ræða það að setja fínt í hárið í afmælisveislunni - bara hafa jólasveinaprjónahúfuna.
Klukkan 13:00 hófst síðan afmælisveislan. Afi hennar, Irene og María frænka komu og færðu henni þessa líka flottu eldavél og potta og pönnur. Það verður örugglega nóg að gera í jólabakstrinum hjá henni Diljá Fönn - eða ætti ég að segja Mjallhvíti. Við foreldrarnir og systur hennar gáfum henni nefnilega glæsilegan Mjallhvítarkjól og kórónu. Auk þess fékk hún stafaljósaseríu í herbergið sitt.
Hún ljómaði eins og sól í heiði þegar afmælissöngurinn var sungin og tók síðan vel til matar síns af afmæliskökunni. Þegar allir voru orðnir mettir var haldið niður í bæ þar sem Rebekka spilaði á flaututónleikum í tónlistarskólanum. Þeir sem spiluðu voru allt nemendur hjá Malin, sem er kennarinn hennar Rebekku, og voru þetta hennar bestu nemendur. Þetta voru alveg rosalega flottir tónleikar, virkilega flinkar stelpur sem spiluðu þarna. Það voru einleikarar, tríó og kvartettar og í lokin var leikið undir á hörpu. Ég tók smá videó á myndavélina mína sem ég ætla að prófa að setja hér inn en veit ekki hvort eða hvernig hljómgæðin munu skila sér.
Þegar heim kom var horft á sænska jóladagatalið. Við erum búin að komast að því að margir íslenskir sjónvarpsþættir heima eiga sér fyrirmynd hér. Síðan var komið að Júróvisjon! Það er söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva þar sem keppendur eru á aldrinum 8-16 ára og skilyrði fyrir þátttöku er að þau semji sjálf lög og texta.
15 lönd tóku þátt í keppninni sem er með hefðbundnu Eurovision-sniði og var haldin nú í fjórða sinn í Rúmeníu. Meðal kynna var sjálfur Drakúla greifi! Við héldum að sjálfsögðu með hinni sænsku Molly en flestir þátttakendurnir voru frá Austur-Evrópu. Þrátt fyrir að hin 15 ára gamla sænska stúlka bæri höfuð og herðar yfir aðra þátttakendur sönglega séð lenti hún í þriðja sæti. Slegin út af yngri og krúttlegri þátttakendum. 8 ára gamall strákur - grunsamlega líkur stráknum í Home Alone-myndinni - frá Hvíta Rússlandi varð í öðru sæti en það var Rússland sem bar sigur af hólmi. Rússar sendu 8 ára gamlar tvíburaeftirlíkingar af Shirley Temple sem sungu, dönsuðu og steppuðu í túlípanakjólum með Dixielandhatta. Flott atriði - en ekki séns að 8 ára gamlar stelpur hafi samið jassskotið lag! Hvað um það - við stelpurnar höfðum gaman af þessu.
Í dag er 1. sunnudagur í aðventu eins og menn vita og þá er mikið húllumhæ hér. Allir búðir opnar lengur en venjulega á sunnudögum og mikið húllumhæ. Við ætlum að skella upp jólaseríum og skreppa svo kannski aðeins í bæinn og fá jólafílinginn beint í æð. Annars fengum við send 100 íslensk jólalö - takk mamma!!! - sem hafa aldeilis komið okkur í jólastuð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.11.2006 | 17:16
BAKARAR OG BALLERÍNUR
Í gær var aldeilis viðburðaríkur sunnudagur. Við fórum og gerðum jólainnkaup, svona sitt lítið af hverju til að stinga í jólapakka til Íslands. Sesselja fór í jassdansinn og þegar við sóttum hana tók kennarinn hennar okkur á tal. Sagði stelpuna vera allt of hæfileikaríka til að njóta sín í tímunum hjá sér, hún gæti einfaldlega ekki sinnt henni nógu vel. Hún hafði sagt ballettkennaranum sínum, spænskri senjorítu, frá henni og sú vildi óð og uppvæg hitta stelpuna og sjá hvað hún gæti! Angelica, kennarinn hennar Sesselju, sagði að klassískur ballett myndi henta henni mjög vel og gefa henni góðan grunn fyrir hvaða tegund af dansi sem væri. Svo að nú er ég komin með símann hjá senjorítunni og við munum mæla okkur mót við hana nú í vikunni. Sesselja mun samt halda áfram í jassdansinum, bæði finnst henni það of skemmtilegt til að sleppa því og svo vill Angelica líka endilega hafa hana áfram og segir hana vera búna að eignast fullt af vinkonum þarna - NEMA HVAÐ!
Þegar heim kom skelltum við okkur svo í piparkökubakstur! Bökuðum nokkur hundruð piparkökur og íbúðin ilmar ennþá af piparkökulykt! Í dag dunduðu Diljá og Sesselja sér svo við að mála piparkökur. Þær sátu við í næstum því 2 tíma án þess að stoppa og Diljá ætlaði aldrei að vilja hætta.
Ég skrapp aðeins niður í bæ núna áðan þegar orðið var dimmt (sem gerist svona um fimmleytið) og sá bæinn í alveg nýju ljósi - nefnilega jólaljósi. Það var búið að setja upp skreytingar í göngugötunum svo að þetta var bara eiginlega alveg eins og Laugavegurinn - að slepptu stressinu! Nú bíðum við bara spennt eftir afmælinu hennar Diljár sem er inngangur að aðventunni...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2006 | 09:46
SITT LÍTIÐ AF HVERJU
Það er nú ekki hægt að segja að það sé kominn vetur hér, Svíarnir segja að það sé ekki kominn vetur fyrr en meðalhiti dagsins fer undir núllið 10 daga í röð. Það kom smákuldakast um daginn en síðustu 2-3 vikur hefur mælirinn verið í plús, allt upp í 12-15 gráður. Og verslanirnar auglýsa þessa dagana hreinlætisvörur fyrir HAUSThreingerninguna! Við höfum fylgst með veðrinu heima og það verður að segjast eins og er að við öfundum ykkur ekki. Einn nemenda minna á íslenskunámskeiðinu var á Íslandi í vikunni og fannst ægilega kalt og hvasst. Hún sagðist alveg skilja af hverju ég væri hér en ekki þar.
Maður fær oft dálítið skondin viðbrögð þegar maður segist vera frá Íslandi. Algengustu viðbrögðin eru: ,,TUNGUR KNÍVUR" - landsfræg setning hér úr myndinni Hrafninn flýgur sem allir Svíar virðast þekkja. Stundum virðist það líka vera það eina sem þær þekkja. Margir eru mjög spenntir fyrir tungumálinu - gamla víkingamálinu - og finnst það vera fallegasta mál í heimi, ,,svo mjúkt" - segja þeir og biðja mann að segja eitthvað á íslensku. Stundum sér maður harmonikku- eða fiðluleikara niðri í bæ að spila fyrir smápeninga. Mér datt í hug að stilla mér upp á götuhorni og tala íslensku fyrir fólk gegn greiðslu! Annars halda sumir Svíar að það sé nóg að setja -UR aftan við sænskuna og þá verði útkoman íslenska! Eins og fiskUR, hestUR, hundUR. Þetta finnst þeim voða fyndið.
Fyndnustu viðbrögð sem ég hef fengið voru þó þegar ég var að sækja Sesselju í skólann annan skóladaginn hennar í ágúst sl. Þar sem ég sat og beið eftir henni á bekk fyrir utan skólann hennar í sumarblíðunni, kom ein mamman, sem ég hafði að sjálfsögðu aldrei séð áður, askvaðandi til mín með eftirfarandi romsu: ,,Ert þú mamma hennar Sesselju frá Íslandi? Dóttir mín situr við hliðina á henni og hún vill endilega fá að leika við hana. Maðurinn minn hefur oft komið til Íslands og ég ELSKA BJÖRK!!" ,,Ja, hej", var það eina sem ég gat sagt meðan ég var að melta þetta. Ellen, dóttir hennar, og Sesselja eru afar góðar vinkonur og hafa m.a. gist hvor hjá annarri.
Það er margt spennandi framundan. Diljá telur auðvitað dagana fram að afmælinu sínu og veit að á eftir því koma svo jólin. Sesselja er að fara í skátaútilegu um helgina - það verður gist í skátakofa úti í skógi, grillaðir sykurpúðar við arininn og eldaður hádegismatur yfir opnum eldi úti í skógi. Svo er verið að æfa á fullu í skólanum hennar og kórnum fyrir Lúsíuhátíðina sem er 13. desember. Það er mikil hátíð hér og ég skal segja ykkur nánar frá henni þegar þar að kemur. Rebekka er að æfa jólalögin í lúðrasveitinni og á að spila dúett á smátónleikum á afmælisdaginn hennar Diljár, svona afmælistónleikar. Nú - og svo er maður auðvitað að byrja að huga að jólunum, það styttist víst í þau. Ótrúlegt að maður skuli vera búinn að vera hér í 5 mánuði! Ég held að tíminn hafi aldrei liðið svona fljótt áður.
Það er nú viðbúið að heimþráin segi til sín um jólaleytið en ég vona að við verðum ekki mjög illa haldin. Við höldum okkar hefðbundnu íslensku jól að sjálfsögðu, með öllu sem þeim tilheyrir, og svo erum við að hugsa um að vera hjá Beggu og Steinari um áramótin svo að það verður bara eins og í gamla daga!! Eða eins og segir í kvæðinu: Jólin, jólin - alls staðar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2006 | 15:50
V.I.P. (Very important person)
Í dag var komið að Sesselju að vera V.I.P. (á íslensku m.m.m. - mjög mikilvæg manneskja) í bekknum sínum þessa vikuna. Hún mátti koma með 1-3 hluti að heiman og segja frá þeim og hlutirnir eiga síðan að fá að vera í skólanum alla vikuna.
Hún ákvað að fara með:
1) Blokkflautuna sína sem hún lærði á í 2. bekk í Nesjaskóla og spilar stöðugt á.
2) Keramik sæhestinn sinn sem hún málaði í Keramik fyrir alla þegar hún var 5 eða 6 ára.
3) Jólasveinastyttuna af honum Stúfi, uppáhaldsjólasveininum sínum.
Það er skemmst frá því að segja að stelpan sló i gegn og var beðin um að taka lagið,
sem og hún gerði. Hún spilaði Góða mamma og bekkjarsystkin hennar áttu ekki orð yfir það hvað hún væri flink. Hún var meira að segja beðin um að spila tvö lög á morgun og þá ætlar hún með nótnabók með sér. Síðan sagði hún frá því að á Íslandi eru 13 jólasveinar sem gefa börnunum í skóinn fyrir jólin. Sænsku krökkunum þótti afar skrítið að setja skó út í glugga!
Við óskum Sesselju góðs gengis á tónleikunum á morgun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.11.2006 | 11:26
JÓLAMARKAÐUR
Í gær fórum við á stærsta jólamarkað á Norðurlöndum í Huseby, gömlum herragarði 20 km hér fyrir sunnan. 150 aðilar kynna vörur sínar sem yfir 30 þúsund gestir skoða. Þetta var ótrúlega flott og mikil jólastemning. Sýningarbásar voru settir upp bæði utandyra og einnig í gömlum útihúsum og verksmiðjum, m.a. gamalli myllu og sögunarverksmiðju, þar sem sýnd voru jólatré sem send voru inn í keppni um flottustu skreytinguna. Þar var skólinn hennar Rebekku í 2. sæti! Landareignin er stór og meðfram öllum stígum voru upplýst jólatré, kyndlar og kerti og flóðlýsing inn á milli trjánna - sem eru auðvitað alls staðar. Við fórum seinni partinn til að njóta stemningarinnar þegar dimmdi og þetta var svo sannarlega jólalegt!
Þarna var fólk að kynna margs konar matvörur og það var hægt að smakka síld og osta, marsipan, reyktan kjúkling og strút og auðvitað alls konar pylsur, meðal annars villisvínspylsur, elgspylsur og hjartarpylsur. Þið getið sko trúað því að hún Diljá var í essinu sínu í smakkdeildinni! Þarna er líka boðið upp á ekta sænskt jólahlaðborð í hesthúsinu, en við ætlum að eiga það inni þar til á næsta ári.
Við sáum líka hvernig polkagris er búinn til, en það er rauði og hvíti brjóstsykurinn með piparmyntubragðinu sem er upprunalega héðan úr Smálöndunum. Það var mjög gaman að fylgjast með því og ekki síður gaman að fylgjast með Diljá sem var alveg dáleidd yfir þessu, klessti nebbann upp að glerinu og mátti ekki missa af neinu.
Svo var þarna auðvitað heilmikið af handverki, kerti, trévörur, gler og keramik, vefnaður, skartgripir, jólakort, jólaskraut og síðast en ekki síst, íslenskar ullarvörur. Við hittum þarna íslenska konu sem er búin að búa í Svíþjóð í 32 ár og lifir af því að selja íslenskar prjónavörur. Hún bauð okkur að koma í kaffi ef við ættum leið hjá (sem er í leiðinni til Stokkhólms) og allan tímann sem við töluðum við hana gengu prjónarnir á fullu, gott ef hún prjónaði ekki hálfa húfu á meðan!
Ef einhver vill komast í jólastemningu ætti hann bara að heimsækja okkur í nóvember á næsta ári og koma með til Huseby!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2006 | 11:25
BARNAVAGNABÍÓ
Bíóið hér í Växjö hefur bryddað upp á þeirri nýjung að bjóða upp á mömmumorgna. Þá geta mæður í fæðingarorlofi komið í bíó kl. 10:00 að morgni með börnin með sér og séð vinsælustu myndirnar. Höfð er smáskíma í bíósalnum og hljóðstyrkurinn lægri en venjulega og börnin kúra ýmist í bílstólum eða mjúkum móðurfaðmi. Gert er hálftímahlé á sýningunni (venjulega er ekkert hlé í bíó hér í Svíþjóð) svo að mæðurnar geti sinnt börnunum. Boðið er upp á bleyjuskiptaaðstöðu og örbylgjuofn í öðrum bíósal, ásamt fjölbreyttu úrvali af barnamat, og í þriðja salnum geta mömmurnar síðan fengið sér kaffi og meðlæti. Mömmumorgnabíó kostar það sama og venjulegur bíómiði en bleyjur og veitingar fyrir mæður og börn eru innifaldar í miðaverðinu!
Nú nýlega var boðið upp á mömmumorgun í fimmta sinn í bíóinu og fara vinsældir þeirra ört vaxandi. Sýningar eru á þriggja vikna fresti og í fyrsta skiptið mættu 5 mæður en nú voru þær 60 talsins (ásamt nokkrum pöbbum) og íhuga forráðamenn kvikmyndahússins að fara að bjóða upp á myndir í fleiri sölum í einu. Mæðurnar eru himinlifandi yfir þessari tilbreytingu og bíóhúsin nýta annars steindauðan tíma.
Ekki svo galið!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.11.2006 | 12:07
KONUR ERU LÍKA MENN!
Ég held ég fari nú að endurskíra bloggsíðuna og kalla hana ,,Bloggsíðu Diljár" en það er bara svo margt skemmtilegt að gerast á þessum aldri sem gaman er að festa á blað.
Það nýjasta tengist salernisferðum. Sú stutta er orðin afar dugleg að fara sjálf á klósettið - stundum heimtar hún að mamma komi með en þess á milli tilkynnir hún að hún vilji ,,fá að vera í friði" og lokar á eftir sér. Ég rauk hins vegar upp til handa og fóta um daginn þegar hún kallaði í mig bak við luktar klósettdyrnar: ,,Má ég pissa eins og pabbi?!!" Já, hún er ekki alveg sátt við það þessa dagana að fá ekki að pissa standandi!
Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég fór í foreldraviðtal hjá Sesselju í síðustu viku. Það var ósköp notalegt. Við sátum inni í litlu, kósý herbergi þar sem voru tveir litlir sófar andspænis hvor öðrum og sófaborð á milli þeirra. Síðan var kveikt á lampa og kertum og allt fullt af blómum svo að þetta var ægilega notalegt. Það er skemmst frá því að segja að stelpan stendur sig mjög vel. Hún er búin að læra ótrúlega mikla sænsku á þessum stutta tíma og ég skildi meira að segja ekki allt sem hún sagði við kennarann, enda talar hún eins og innfæddur Svíi.
Á sunnudaginn fór ég síðan í messu hér í Dómkirkjunni með Rebekku. Það er auðvitað hluti af fermingarundirbúningnum að sækja messur en hún er alltaf á sundæfingum á sunnudagsmorgnum á hefðbundnum messutíma. Svo sá ég auglýsta síðdegismessu, tónlistarmessu Taizé og dreif Rebekku af stað. Ég velti því fyrir mér hver þessi Taizé væri og hvort þetta yrði kannski einvhers konar kammertónlist - en, nei - svo var nú ekki. Þegar við Rebekka komum inn í þessa stóru, glæsilegu dómkirkju tók ung kona með pönkaralega klippingu og í tjullpilsum (píanóleikarinn) á móti okkur, rétti okkur sálmabækur og sagði okkur að setjast á bak við altarið. Það var búið að skerma það af og þar sátu svona 40 manns á bekkjum og stólum. Svo kom eldri maður (sennilega meðhjálpari) og settist á gæruskinnsmottu á hækjur sér. Að lokum kom presturinn á sokkaleistunum og gerði slíkt hið sama. ,,Í hvað er ég nú komin með barnið?", hugsaði ég og velti því fyrir mér hvort þetta væri einhvers konar sértrúarsöfnuður! En presturinn útskýrði að þetta messuform, taizé (það er semsagt ekki tónskáld), væri þannig að venjulega sætu allir á gólfinu (við máttum ráða hvort við gerðum það) og það væri mikið sungið, sálmarnir væru einfaldir og byggðu á endurtekningu til að ná nokkurs konar hugleiðsluástandi. Svo byrjaði ballið! Fyrsti sálmurinn var afar fallegur, rólegur og róandi - eins og allir sálmarnir, og var hver þeirra endurtekinn a.m.k. fjórum sinnum. Síðan var þagnarstund, sem varði sjálfsagt um 5 mínútur, en að öðru leyti var þetta nokkuð hefðbundið, með prédikun og altarisgöngu. Í fyrsta sálminum áttaði ég mig á því að flestir þeirra sem þarna sátu voru í kórnum (jú, því þau kunnu alla sálmana og sungu í röddum). Annars var þetta afar ljúf stund og svo sannarlega róandi og endurnærandi fyrir sálina og Rebekku fannst þetta messuform voða notalegt. Eftir messuna spurði ég prestinn nánar út í þetta og hann sagði þetta vera upprunnið í frönsku klaustri og þangað kæmi ungt fólk í þúsundatali alls staðar að úr heiminum til að vera við svona messur. Já, maður er alltaf að læra eitthvað nýtt!
Annar er ég í fullu starfi þessa dagana við að leita mér að vinnu og vona að það fari að skila einhverjum árangri. Sendið mér nú góða strauma!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)