Færsluflokkur: Bloggar

AÐ SIGRA HEIMINN

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil

með spekingslegum svip og taka í nefið.

 

(Og allt með glöðu geði

er gjarna sett að veði.)

Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,

því það er nefnilega vitlaust gefið. 

Ég las þetta ljóð fyrst þegar ég var í menntaskóla og fannst það voða sniðugt en velti dýpri merkingu þess svosem ekki mikið fyrir mér.  Í miðnætursturtu í gærkvöldi fékk ég svo allt í einu hugljómun um það hvílík snilld þetta er og mikill sannleikur!  (Ókey, nú hugsið þið sem svo - ,,Alltaf sami nördinn - meðan við hin syngjum hallærisleg og úrsér gengin eighties-lög í huganum í sturtunni, er Heiða að velta sér upp úr heimspekilegum atómljóðum!"  - Reyndar var ég bara að spekúlera í því hvaða efni ég gæti notað fyrir Svíana í íslenskukennslunni minni og þá kom þetta ljóð upp í hugann).  Jú, eru þeir ekki spekingslegir á svipinn, þeir sem völdin hafa, spila með líf annarra og þykjast menn að meiri að hafa sigrað heiminn.  Og það er svo sannarlega vitlaust gefið í þessum leik, því misskiptingin og óréttlætið er alls staðar, hvort sem litið er bara til litla landsins okkar eða heimsbyggðarinnar allrar.  Og þó að fólk leggi stundum allt að veði, uppsker það ekki alltaf eins og það sáir.  Þá er spurningin þessi:  Úr því að það er hvort sem er vitlaust gefið, er þá hægt að ,,sigra heiminn" án þess að hafa rangt við??

 


ER STJÁNI BILAÐUR??!

,,Er Stjáni bilaður?", spurði tæplega þriggja ára gömul dóttir mín í dag.  ,,Já", sagði ég ,,hann er bilaður" og átti þá við kamelljónið Kristján Hauksson sem söng sig inn í hjarta þeirrar stuttu í sýningunni ,,Rokk í 50 ár" sem Skemmtifélag Hornafjarðar setti upp.  Hún vildi fá að horfa á myndbandsspóluna með sýningunni en sannleikurinn er sá að hún horfði á hana upp til agna fyrir nokkrum mánuðum síðan.  Nú sjást ekkert nema truflanir þegar spólunni er stungið í tækið.  Diljá er nú samt ekki búin að gleyma henni og spyr annað slagið, bara svona út í bláinn:  ,,Er Stjáni bilaður?"


ÁRINU ELDRI

Hann átti afmæli í gær, hann átti afmæli í gær, hann átti afmæli hann Óliiiiiii - hann átti afmæli í gær.  Hann var að heiman á afmælisdaginn!

Við fórum til Målilla í gærmorgun og eyddum afmælisdeginum hans Óla þar.  Eftir herlega matarveislu hjá Irene og pabba var borin fram þessi líka heljarstóra rjómaterta ásamt góðum gjöfum.  Já, maður er nú aldrei svikinn af veitingunum á þeim bænum og eftir mikið át og góða afslöppun og gaman héldum við aftur heim á leið.  Óli fór með Sesselju og Rebekku í skautahöllina en við Diljá elduðum kakósúpu.  Diljá má ekki heyra glamra í potti eða pönnu - þá er hún komin fram í eldhús að hjálpa mér við eldamennskuna.  Í gær lá matreiðslubókin hennar Helgu Sigurðar opin á eldhúsborðinu og þegar Diljá sá hana klappaði hún henni allri og sagði með mikilli tilfinningu:  ,,Ég ELSKA þessa bók!!"  (Ég held stundum að hún sé með sjötta skilningarvitið því að hún hafði ekki hugmynd um að þetta væri matreiðslubók - og hún hefur aldrei sagt þetta um neina bók áður!).

Nú er haustfríinu að ljúka og skólinn byrjar aftur hjá stelpunum á morgun.  Við ætlum að njóta síðasta frídagsins og skreppa eitthvað hér í nágrenninu, kíkja kannski á einn kastala eða svo í fallega haustveðrinu.


VETRARTÍMI

Jæja, þá er vetrartíminn kominn - í dag breytum við öllum klukkum og græðum heilan klukkutíma.  Nú er semsagt bara 1 klst. munur á tímanum hér í Svíþjóð og á Íslandi.  Við klikkuðum reyndar aðeins á þessu og keyrðum Rebekku einni klukkustund of snemma á sundæfinguSkömmustulegurSkömmustulegurSkömmustulegur  ,,Já, já - alveg týpískt fyrir Heiðu" veit ég að sumir hugsa núna (ég veit sko alveg hverjir það eruUllandi) - en okkur hafði verið sagt að þetta gæti ekki farið framhjá okkur því að það væri stöðugt minnt á þetta í útvarpi og sjónvarpi.  (Og hver sagði það - ha?)  Jæja, eitthvað klikkaði og ekkert við því að gera.  Það er bót í máli að nú er haustfrí hjá stelpunum - enginn skóli í heila viku!!

Sesselja varð aldeilis glöð í morgun þegar hún leit út um gluggann og sá hvíta föl yfir öllu.  Nú er bara að sjá hvort hún staldrar eitthvað við.

Það er ekki alltaf auðvelt fyrir Óla greyið að vera eini karmaðurinn á heimilinu.  Yngsta dóttirin (og sú stjórnsamasta) var að skammast eitthvað í honum áðan og hann velti því fyrir sér hvort hann ætti ekki rétt á einum sálfræðitíma á viku frá ríkinu - bara fyrir það að búa með öllu þessu kvenfólki!!


HAUSTIÐ

Ég var bara að átta mig á því að HAUSTIÐ er raunveruleg ÁRSTÍÐ hér.  Hér hrynur laufið ekki af trjánum á einni helgi eins og oft heima.  Og það að trén byrja að fella lauf þýðir ekkert að veturinn sé bara rétt handan við hornið.

Nei, haustið er heil árstíð, alveg út af fyrir sig.  Það eru nokkrar vikur síðan trén byrjuðu að fella laufið og þau eru enn að.  Skógurinn skartar nú gulum, rauðum og brúnum litum í bland við þann græna.  Það er pínulítið svalt kvölds og morgna og rignir annað slagið, en annars hefur verið ósköp milt veður og í gær þegar ég var að fara að sækja Diljá á leikskólann, var umsjónarmaðurinn hér að slá grasið í kringum blokkirnar!

En nú er verið að spá stormi á morgun, fyrstu haustlægðinni, og veðurfræðingar segja fólki að undirbúa sig vel.  Ég verð að viðurkenna að ég er pínulítið forvitin að sjá hvernig veðrið verður.  En svei mér þá ef ég kann bara ekki alveg ágætlega við haustið hér!


JÁ OG SKAMMASTU ÞÍN SVO...

(Ég hef svo gaman af því að hafa fyrirsagnirnar úr einhverjum lögum af því að þá fá sumir þau á heilann og þá hef ég haft áhrif á líf þeirrar manneskju!)

Ég verð að setja hér inn eina litla sögu af Diljá.  Þetta gerðist fyrr í kvöld:

Sesselja fékk ný stígvél í dag.  Þegar kom að háttatíma og ég var að fara að sprauta Sesselju, hljóp Diljá hér um allt í nýju stígvélunum hennar systur sinnar og brókinni einni fata.  Þegar Sesselja gerði athugasemd um það við Diljá sagði sú stutta orðrétt:  ,,Farðu bara að sprauta þig og farðu svo að sofa!"

Já, það er spurning hver er húsbóndinn á heimilinu!


* * * TREVLIG HELG * * *

Hmmm....  Ég var búin að velta ýmsum fyrirsögnum fyrir mér, t.d. Brúnaðar kartöflur og blues!" eða ,,Pabbi, mamma, börn og bíll", nú eða þá ,,Lok, lok og læs og allt í stáli" eða jafnvel ,,Busl og blástur" en ekkert eitt af þessu náði yfir allt það skemmtilega sem helgin hafði upp á að bjóða þannig að til að einfalda þetta ákvað ég bara að skella titlinum ,,Trevlig helg" eða ,,Góð helgi" hér á síðuna.

1. KAFLI - PABBI, MAMMA, BÖRN OG BÍLL

Þannig var að við vorum búin að vera að skoða bíla á netinu og fundum einn alveg eins og þann sem við EIGUM á Íslandi (ef einhvern vantar frábæran fjölskyldu- og ferðabíl, endilega hafið samband), meira að segja sami græni liturinn.  En Diljá tók nú aldrei neitt annað í mál en að kaupa bláan bíl.  Um síðustu helgi fórum við síðan og prófuðum græna bílinn en þá var óvart annar blár bíll sem var bara miklu betri og við ákváðum að kaupa hann.  Skyldi Diljá vera forspá??

2. KAFLI - BRÚNAÐAR KARTÖFLUR OG BLUES

Síðan vorum við búin að bjóða pabba, Irene og Maríu í mat núna á laugardagskvöldinu, kjúklingur og brúnaðar kartöflur skyldu það vera en það er nokkuð sem Svíar þekkja ekki á sínum matborðum (sko, brúnuðu kartöflurnar).  María var semsagt að smakka slíkt gómsæti í fyrsta sinn og pabbi í fyrsta sinn í 30 ár.  En fyrst fórum við og sóttum sóttum bláa bílinn HlæjandiHlæjandiHlæjandiHlæjandiHlæjandi sem er Ford Windstar, 7 manna, ekkert ósvipaður þeim sem við áttum.  Begga hafði svo hringt um morguninn og spurt hvort þau Steinar mættu koma í kvöldmat.  Nú - ÞVÍ FLEIRI ÞVÍ BETRA - og nú var gott að geta KEYRT í stórmarkaðinn og kaupa meiri kjúkling og kartöflur!!

3. KAFLI - LOK LOK OG LÆS OG ALLT Í STÁLI!

Begga og Steinar komu sko ekki tómhent því að þau höfðu arfleitt okkur að heimsins besta kúrusófa (þessi blái sem var í Hafnarfirðinum!).  Þetta er risastór hornsófi og kemur í nokkrum pörtum en við erum svo heppin (þar sem við erum á 3. hæð) að búa í lyftuhúsi.  Það fór þó ekki betur en svo að í fyrstu lyftuferðinni, festist Óli með 2 hluta af sófanum á 2. hæð og komst hvorki upp né niður - hvað þá út!  Það var ekkert um annað að ræða fyrir hann en ýta á neyðarhnappinn og bíða eftir viðgerðarmanni.  Um tíma leit út fyrir að ekkert yrði af brúnuðu kartöflunum (það er sko Óli sem er meistarinn á heimilinu í því) en fyrir rest tókst að ná honum út úr lyftunni en síðan varð að bera sófann upp.  Og lyftan er ennþá biluð!

En við áttum frábæra kvöldstund með næstum því öllum sem við þekkjum hér í Svíþjóð!  Og kúrðum svo makindalega í sófanum um kvöldið.

4. KAFLI - BUSL OG BLÁSTUR

Í gær (sunnudagur) var síðan nóg að gera.  Ég er búin að fara á námskeið hjá sundfélaginu hennar Rebekku til að geta verið tímavörður, brautavörður o.þ.h. á sundmótum.  Ég þarf síðan að taka 6 klst. verklegt til að fá skírteini og í gær var einmitt sundmót hér og ég tók 3 klst. ,,praktik".  Það var mjög gaman en ansi stíft.  Þetta var stórt mót fyrir 12-16 ára krakka og tóku 17 félög úr öllum Smálöndunum þátt.  Þetta var a.m.k. jafnstórt mót og sundið á unglingalandsmótinu í Vík í fyrra!  Laugin hér er ein sú flottasta í Svíþjóð og öll aðstaða er frábær.  En það var 30 stiga hiti þarna inni allan tímann!

En meðan ég fylgdist með busluganginum í lauginni var Óli með Rebekku og stelpunum í menntaskóla úti í bæ á ársfundi sambands lúðrasveita hér í bæ.  Þar tróð Rebekka upp með lúðrasveitinni sinni og Óli sagði að þetta hefði verið alveg ótrúlega flott.  Þetta er alvöru lúðrasveit sem ,,grúvar" og stelpur sem snúa sprotum (það fannst Sesselju æðislegt) OG ALLT!!  Þau spiluðu m.a. New York - New York og lagið úr Rocky og gerðu það án þess að ein feilnóta heyrðist!  Rebekka er líka mjög stolt af þessari flottu lúðrasveit!

Jæja, eins og þið sjáið var þetta afar viðburðarík helgi og skemmtileg!  Í dag er lóðrétt rigning og ekkert rok, en frekar blautt.  Á morgun er útivistardagur í skólanum hjá Sesselju, þau verða úti allan daginn og taka með sér nesti.  Vonandi rignir ekki eins mikið þá en það er nú hlýtt ennþá, 13 stiga hiti á daginn.  Kaldasti dagurinn sem hefur komið síðan við komum var núna fyrir stuttu, þá var 7 stiga hiti.

Og Diljá er farin að syngja á sænskuHlæjandi


FERMING Í VÆNDUM

Jæja, það er búið að ákveða fermingardag fyrir frumburðinn.  Elsku bestu ættingjar og vinir, takið endilega frá sunnudaginn 29. júlí, það er jú helgin fyrir verslunarmannahelgi.  Fermingin verður í Seljakirkju í Reykjavík.  Þið fáið að sjálfsögðu allar nánari upplýsingar þegar nær dregur en ég vildi bara láta vita áður en fólk fer að planera einhverjar Spánarferðir og þvíumlíkt!

Síðan ætlum við að sjálfsögðu að vera á unglingalandsmóti á Hornafirði um verslunarmannahelgina!  Þá fáum við að sjá hvaða árangri allar sundæfingarnar hennar Rebekku hér í Svíþjóð skila!

Annars var ég á opnu húsi í skólanum hennar Rebekku í morgun.  Skoðaði skólann í krók og kring undir leiðsögn 9. bekkinga og síðan fengum við Diljá okkur að borða með Rebekku í matsalnum.  Meiningin var síðan að kíkja inn í kennslustund eftir matinn, en Diljá stóð og gargaði yfir því að fá ekki meira að borða (gat það nú verið!!) svo að ég fór bara heim til að hún truflaði ekki bekkinn í eðlisfræðitímanum.  (Hún borðaði svo 1 disk af súrmjólk og 2 af jógúrti þegar við komum heim).

Bestu kveðjur úr haustblíðunni!


REBEKKA BLOGGAR

Ég vildi bara benda ykkur á bloggið hennar Rebekku:  http://www.blog.central.is/rebekka_d  Þar getið þið séð allt um það hvað hún hefur fyrir stafni hér.  Setjið það endilega í ,,favorites" og skrifið í gestabókina hennar!

HELSINGBORG

Við skruppum til Helsingborg í gærdag.  Gunnar (bróðir hans Óla) og Dúfa konan hans voru í heimsókn hjá dóttur sinni og tengdasyni sem eru að stúdera í kóngsins Köben.  Þau skelltu sér öll yfir sundið með ferjunni og við áttum ægilega notalega stund saman.  Við lögðum undir okkur kaffihús en þegar það lokaði og við vorum vinsamlegast beðin um að fara príluðum við upp á gamalt virki og virtum Danmörku fyrir okkur.

Diljá kolféll fyrir Ragnhildi og Hirti, eins og Sesselja og Rebekka á undan henni, enda finnast ekki meiri barnagælur.  Hún vildi bara leiða Hjört og Gunnar frænda sinn, sem hún kallaði afa!

Það eru ekki nema 189 km frá okkur til Helsingborg og við ætlum svo sannarlega að skreppa í heimsókn yfir sundið þegar litli erfinginn þeirra skötuhjúa skýst í heiminn!

Gunnar, Dúfa, Ragnhildur og Hjörtur:  Takk fyrir frábæra samverustund!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband