Færsluflokkur: Bloggar
16.10.2006 | 07:50
AF HVERJU?
Hún Diljá Fönn er á ,,Arastiginu" núna. Það er sama hvert umræðuefnið er, hennar innlegg í umræðuna er alltaf: ,,Af hverju?" og oftast er algjörlega ómögulegt að svara því.
Dæmi: Diljá: Hvað er Sesselja að gera? Ég: Horfa á barnatímann. Diljá: Af hverju horfa á barnatímann? Ég: Af því að hann er skemmtilegur. Diljá: Af hverju hann skemmtilegur? ...
Annað dæmi: Óli er að koma úr baði. Diljá: Af hverju ertu á brókinni? Óli: Af því að ég var í sturtu. Diljá: Af hverju varstu í sturtu? Óli: Af því að ég var svo skítugur. Diljá: Af hverju varstu skítugur? Óli: Af því að ég var í vinnunni. Diljá: Hvert ertu að fara? Óli: Ég er að fara að klæða mig OG EKKI SPYRJA AF HVERJU! Diljá: Af hverju ekki? Af hverju klæða þig? O.s.frv. ...
Þið skiljið.... Arastigið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2006 | 07:31
SVALI
Þegar við Diljá komum út í morgun til að fara á leikskólann var bara nokkuð svalt. Ekki laust við að haustið sé komið og rétt að fara að draga fram úlpur, vettlinga og húfur. Hér segja menn að haustið sé komið þegar hitinn fer undir 10°C í tíu daga og nú stendur mælirinn hjá mér í 8 gráðum sem er lægsta tala sem ég hef séð síðan við komum. En himinninn er heiður og sólin skín ákaft og svo bærist auðvitað ekki hár á höfði.
Ég hlakka bara til vetrarins. Vötnin frjósa og fótboltavöllum er breytt í skautasvell svo að þá kætast nú stelpurnar mínar. Aldrei að vita nema menn prófi að stíga á skíði. Hér þarf maður a.m.k. ekki að velkjast í vafa um það hvaða árstíð er hverju sinni!
Rebekka kemur með vinkonu sína heim úr skólanum í dag í fyrsta sinn og ég ætla að fara að baka skúffuköku handa liðinu!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2006 | 17:07
GAMLIR VINIR
Rosalega er gaman þegar gamlir vinir rekast inn á síðuna og senda okkur kveðjur! Ekki væri nú verra ef fólkið léti fylgja með netfang Ef einhverjir sem við þekkjum halda áfram að rekast hér inn þá er netfangið okkar hornsteinn@gmail.com
Hlökkum til að heyra frá öllum gömlum kunningjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2006 | 20:47
X-TREME ROOM MAKEOVER
Við komum Rebekku heldur betur á óvart þegar hún kom heim úr fermingarbúðunum. Á laugardeginum leigðum við nefnilega sendibíl og héldum til IKEA. Þar keyptum við bókahillur, rúmteppi, lampa, blóm o.fl. inn í herbergið hennar og vorum svo búin að gera ægilega fínt þegar hún kom heim og hengja upp myndir og nýjar gardínur. Við biðum spennt eftir viðbrögðunum þegar hún opnaði dyrnar - en þeir sem þekkja Rebekku vita að hún tekur hlutunum með MJÖG MIKILLI stóískri ró. Það var ekkert öskrað, æpt eða hoppað upp í loftið. Það kom hvorki hik né fát á hana, hún hélt bara áfram inn í herbergið, leit í kringum sig, sneri sér svo við eitt sólskinsbros og gekk aftur út úr herberginu og faðmaði okkur. Hún var mjög ánægð með þetta allt saman, sérstaklega það að eiga blóm, og vill engu breyta af því sem ég gerði. NB: Hún var búin að velja sér mublurnar úr IKEA listanum, þannig að hún fékk það sem hún vildi inn í herbergið sitt.
Nú hlakkar hún til að fara að bjóða vinkonum sínum heim. Hún er búin að eignast nýja vinkonu utan bekkjarins en þær eru saman í myndmenntavali. Hún ætlar að reyna að koma hingað heim með Rebekku eftir skóla á föstudaginn, en hún býr utan við bæinn og þarf fyrst að athuga hvernig strætóferðirnar eru.
Hún skemmti sér annars vel í fermingarbúðunum og les nú af kappi í Nýja testamentinu - tekur fermingarundirbúninginn með trompi eins og flest annað. Og nú segjum við bara amen eftir efninu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2006 | 10:31
PÓSTURINN
Það er svo margt smálegt í lífi okkar sem okkur finnst að geti bara verið gert á einn veg og maður verður alveg undrandi þegar maður sér að svo er ekki.
T.d. það hvernig pósturinn er borinn út. Bréfberarnir hér keyra um ýmist á einhvers konar litlum kerrum eða stærri bílum og við furðuðum okkur á því að stýrið í þeim er hægra megin, svona eins og í Bretlandi. Einn góðan veðurdag áttaði ég mig á því hvernig stendur á því. Hér í Svíþjóð er fólk nefnilega ekki með bréfalúgur á hurðunum hjá sér eins og algengast er heima. Nei, flestir eru með póstkassa sem er staðsettur út við götuna. Svo keyrir pósturinn bara eftir gangstéttinni, teygir höndina út um gluggann og stingur póstinum í póstkassann. Sniðugt í Svíþjóð!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2006 | 10:22
REBEKKA Á FERÐ OG FLUGI
Eldsnemma í morgun, eða rétt fyrir kl. 7, lagði Rebekka af stað með lest til Gautaborgar. Allt gekk vel og nú er hún, ásamt 12 öðrum íslenskum krökkum, á leiðinni til Åh (framb. Ooh) sem er rétt fyrir utan Gautaborg. Þar verða þau við fermingarfræðslu og margs konar skemmtun um helgina.
Diljá er enn í aðlögun á leikskólanum og gengur bara vel. Ég er búin að skreppa frá henni 3svar sinnum og það var ekkert mál þannig að ég reikna með að aðlöguninni ljúki í næstu viku.
Hér er milt haustveður, léttur úði en hlýtt úti. Komið helgarfrí og skemmtileg helgi framundan. Segi meira frá því síðar!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 16:25
KIRKJUFERÐ
Jæja, þá er maður búinn að fara í messu í sænsku kirkjunni. Kórinn sem Sesselja er í sá um sönginn við messu í morgun sem var tileinkuð englum. Ég var alveg hissa hvað hún kunni eftir bara 4 kóræfingar. Þetta var ekki svo frábrugðið hefðbundinni íslenskri fjölskyldumessu. Það var líka skírð lítil stúlka, Nora litla. Guðmóðir hennar hélt á henni og presturinn spurði foreldrana um nafn stúlkunnar. Síðan hjálpuðu tvær litlar frænkur prestinum að hella vígðu vatni í skírnarfontinn og presturinn spurði foreldrana hvort það væri vilji þeirra að skíra barnið inn í kristið samfélag. Játtu þau því og þá tók presturinn Noru í fangið og jós hana vatni. Að því loknu lyfti hann henni hátt upp svo að allir sæju og kynnti Noru fyrir kirkjugestum. Síðan gekk hann með hana fram í kirkjuna og leyfði börnunum í kórnum að skoða hana.
Eftir messuna var ,,englakaffi" í safnaðarheimilinu. Ægilega fínar marenstertur, dúkuð borð og fínerí og þéttskipaður salurinn. Presturinn settist hjá okkur Sesselju og sagði mér að það væri alltaf kirkjukaffi á eftir messu á hverjum sunnudegi. Í lok messunnar var einnig beðið um fjárframlög til að styrkja eitthvert gott málefni og stóð kona með söfnunarbauk þegar fólk gekk út úr kirkjunni. Þetta hef ég ekki séð nema einu sinni áður og það var í kaþólsku kirkjunni heima á Íslandi.
Eftir hádegið fór ég með Sesselju í dansskólann og Óli fór með Rebekku og Diljá á listasafnið þar sem Rebekka átti að gera smá verkefni fyrir skólann. Við hittumst síðan í miðbænum og röltum um og fórum í Linnépark, sem er grasagarður Växjöbúa, áður en við komum heim og héldum áfram að slappa af - nema Rebekka, sem er að baka smákökur!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2006 | 06:51
BLIXTAR OCH DUNDER - MAGISKA UNDER
Rétt eftir að við höfðum rennt Royal-búðingnum og þeytta rjómanum niður í gær skall á með þrumum og eldingum og ausandi rigningu. Stelpunum stóð hreint ekki á sama og ætluðu allar að sofa í stofunni hjá mér en við Óli fórum út á svalir til að horfa á sjónarspilið. Veðrið fór hér yfir og liðu þá ekki nema 2-3 sekúntur á milli blossanna. Og hávaðinn var eins og á gamlárskvöldi. En óveðrið leið fljótt hjá og stelpurnar skriðu aftur upp í bólin sín. Við höfðum að sjálfsögðu tekið sjónvörp, tölvu og síma úr sambandi og þetta varð til þess að við Óli fórum að sofa kl. 22:00 - nokkuð sem gerist ekki oft.
Nú er að létta til, sólin byrjuð að skína og útlit fyrir hlýjan og góðan dag!
(Fyrir þá sem ekki kveikja á perunni er fyrirsögnin tekin úr sigurlagi Svía úr Eurovision - ,,Diggi-Loo, Diggi-Ley")
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.9.2006 | 18:10
ÉG VIL GETA VAXIÐ EINS OG TRÉ...
Jæja, gott fólk. Það hefur verið nóg að gera. Það er svo mikið að gera hjá stelpunum og svo námskeiðin hjá okkur Óla þannig að það er heilmikið púsluspil að láta þetta allt saman ganga upp - en það tekst.
Pabbi, Irene og Maria komu í dag og buðu okkur upp á innflutningskaffi. Það klikkar aldrei heimabaksturinn hjá henni Irene!
Sesselja fer í annan tímann í jassdansinum á morgun - það er alveg rosalega gaman í því hjá henni. Í fyrramálið á síðan kórinn hennar að syngja við messu í kirkjunni hér og hún er búin að vera dugleg að æfa sig heima til að læra textana. Hún er orðin mjög dugleg í sænskunni og á margar vinkonur í bekknum sínum.
Rebekka er komin í tónlistarskólann og lúðrasveit sem hún segir að sé ,,ógeðslega flott". Hún deilir nú flaututíma með annarri stelpu og þannig fá þær helmingi lengri tíma. Um næstu helgi fer hún í fermingarfræðslu. Tekur lest á föstudagsmorguninn, alein, til Gautaborgar þar sem presturinn tekur á móti henni. Síðan eyðir hún helginni í fræðslu og skemmtun rétt utan við Gautaborg, ásamt 13 öðrum krökkum sem búa hér í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Helgina eftir ætla síðan stelpurnar í bekknum hennar að hafa stelpukvöld heima hjá einni þeirra, svona til að kynnast betur, og Rebekka hlakkar til þess. Ég fór á kennarafund í skólanum hennar í vikunni og umsjónarkennarinn hennar segir bara að hún sé ótrúleg! Mjög dugleg og komin langlengst í stærðfræði. Hún þarf að fá námsefni næsta bekkjar fyrir ofan í stærðfræði og miklu erfiðara efni í ensku. Hún á ekki í nokkrum vandræðum með þetta þó að tungumálið sé annað!
Diljá fékk einhverja pest í sig seinnipartinn á þriðjudeginum en var búin að hrista hana af sér á fimmtudeginum. Þann dag fórum við hins vegar með Sesselju í eftirlit á spítalann hér í Växjö útaf vaxtarhormóninu. Það gengur mjög vel, stelpan hefur stækkað um rúma 6 sm síðustu 6 mánuði og kúrfan hennar, sem áður fór sífellt lækkandi, tekur nú nánast lóðrétta stefnu upp á við.
Diljá er alltaf spræk og ef hún verður ekki kokkur. matreiðslubókahöfundur eða eitthvað annað sem tengist mat - þá verð ég illa svikin. Henni finnst alltaf jafn gott að borða og henni þykir ekkert skemmtilegra en að þykjast elda mat. Á leikskólanum er til eldavél með vaski og öllum græjum og hún getur ekki farið heim af leikskólanum fyrr en hún er búin að vaska upp!! Hún er líka mjög spennt fyrir öllu í eldhúsinu og tekur virkan þátt í að taka úr uppþvottavélinni og leggja á borð. Hún þarf líka alltaf að fá að kíkja í pottana og segir þá: ,,Mmmm, þetta lyktar vel, mamma!" Rétt í þessu var hún að hjálpa mér að gera Royal-búðing sem við tókum með frá Íslandi. Stelpurnar elska hann en birgðirnar eru nú rétt að klárast. Svo er eitt enn - þegar Diljá teiknar - þá teiknar hún mat! Einkum og sér í lagi hamborgara og McDonalds. Nú er hún að væla í mér að fá að borða og verð ég víst að fara að gera eitthvað í því.
Ég er búin að kenna á íslenskunámskeiði 1 tíma og það var bara gaman. Óli er síðan byrjaður á sænskunámskeiði þar sem hann var bestur í bekknum. Þetta er ótrúlega fljótt að koma.
Okkur finnst ekkert haust komið ennþá. Í dag var 21 stiga hiti en skýjað. Við Diljá fórum út á róluvöllinn seinnipartinn í gær í steikjandi sól, bara á stuttermabolunum. Þetta er ótrúlega ljúft líf. Nú er bara spurningin: Hver ætlar að verða fyrstur til að heimsækja okkur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2006 | 19:29
FAME! (Remember my name)
Það er nóg að gera þessa dagana. Diljá er byrjuð í aðlögun á leikskólanum og það lofar allt góðu. Rebekka er á sundæfingum 3 daga í viku, alls 5 klst. og syndir fleiri kílómetra í hvert skipti, þannig að hún verður komin í gott form á landsmótinu á Hornafirði næsta sumar. Hún var líka að fá inni í tónlistarskólanum hér eða ,,Kulturskolan" eins og hann heitir. Þar er kennd tónlist, leiklist, dans, og myndlist - svona ,,Fame"-fílingur.
Kulturskolan og fleiri skólar hér bjóða einmitt upp á "Fame"-námskeið fyrir börn og unglinga þar sem þau læra dans, söng og sviðsframkomu og setja síðan upp atriði úr söngleikjum. Afar spennandi.
Sesselja er í kór og byrjar í dansskóla á sunnudaginn. Hún fer í jassdans og hlakkar mikið til. Ég fór með henni á skátafund í gær. Krakkahópurinn labbaði sér inn í skóg með lukt, fann þar skógarrjóður og þar fóru þau í leiki, lærðu að hnýta skátahnút og setja upp vindskýli. Þeir sem ekki nenntu að fylgjast með tíndu bláber og títuber og æfðu skylmingar með trjágreinum.
Það var dálítið sérstök tilfinning að standa þarna inni í skóginum og sjá ekkert nema himinhá tré hvert sem litið var. Þetta var svosem í alfaraleið, annað slagið birtust skokkarar og maður heyrði allan tímann í bílaumferðinni, en ég þyrfti endilega að komast einhverja helgina út að sjó og geta horft aðeins í kringum mig. Séð lengra en að næsta tré. Það tekur smátíma fyrir Íslendinginn að venjast því.
Næsta þriðjudag byrja ég á sænskunámskeiði, á miðvikudaginn byrja ég að kenna á íslenskunámskeiði og á fimmtudaginn byrjar Óli síðan á sænskunámskeiði þannig að fjölskyldan hefur svo sannarlega nóg að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)