11.5.2007 | 06:49
HORFT Á ÚR FJARSKA
Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi söngvakeppninnar og fylgst grannt með. Í ár upplifði ég keppnina í fyrsta sinn í útlöndum. Er nú búsett í Svíþjóð og þar sem tölvan mín er óttalegur garmur gat ég ekki fylgst með íslensku lögunum og því er álit mitt á framlagi Íslands í ár ekki litað af síbylju og þjóðarrembingi. Ég hafði aðeins einu sinni heyrt framlag Íslands fyrir keppnina og verð að segja að það sat ekki í mér. Auðvitað vildi ég að Ísland kæmist áfram og var dugleg að kjósa Eika og hans menn en eftir að hafa heyrt öll lögin í gærkvöldi, komu úrslitin mér ekki á óvart. Jú, flutningurinn var mjög góður en lagið stóð bara ekki upp úr að mínu mati. Mér fannst óvenju mörg góð og ,,stór" lög í keppninni í ár, mjög fjölbreytt og var sátt við flest lögin sem komust áfram. Serbía, Makedónía og Ungverjaland fannst mér t.d. öll með frábær lög og mér fannst líka gaman að sjá ,,óperulögin" komast áfram. Fannst þau BARA flott!
Hvort um samsæri er að ræða veit ég ekki. Er það ekki bara svo að skyldar þjóðir hafa líkan smekk? Ég meina - hefur okkur ekki alltaf þótt danska lagið miklu betra en það tyrkneska? Og ef um samsæri er að ræða, eigum við þá að leggjast svo lágt að taka þátt í því? Og hvar er ólympíuandinn? Ísland gerði sitt besta og Eiríkur má vera stoltur! Íslendingar eru allir stoltir af honum. Tökum úrslitunum með bros á vör og kærum okkur kollótt um hvað öðrum þjóðum finnst. Í alvöru. Lífið heldur áfram!
Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.