13.11.2007 | 10:34
HLAUPABÓLA
Þegar við vöknuðum í morgun lá nýfallin fönn yfir öllu. Ég veit svei mér ekki hvað er fallegast, smálenski skógurinn í sumar-, haust- eða vetrarbúningi. Diljá var fljót að vakna þegar ég sagði henni að það væri kominn snjór og Fönnin mín hlakkaði sko til að fara út að leika með krökkunum á leikskólanum en af því varð nú ekki. Þegar ég ætlaði að fara að klæða hana kom nefnilega í ljós að hún er komin með hlaupabólu!
Svo nú erum við hér heima mæðgurnar og horfum á snjóinn út um gluggann. Diljá Fönn er svo sem hress, dundar sér með dótið sitt og syngur ,,eitís"-smellinn The Final Countdown (uppáhaldslagið úr Singstar) meðan hlaupabólurnar spretta fram, ein af annarri. Svo það er ekkert annað að gera en að bíða meðan þetta gengur yfir.
Annars vorum við í foreldraviðtali í skólanum hennar Sesselju í gær og henni gengur bara þrælvel, stelpunni, hvort sem er í sænsku, stærðfræði eða skrift. Nú í haust byrjuðu Svíar að kenna aftur gömlu skrifstafina í staðinn fyrir tengiskriftina, sem mér hefur nú alltaf þótt frekar litlaus. Svo að ég þarf að bæta þar inn fyrir hana íslensku skrifstöfunum, sem ég man sem betur fer ennþá hvernig eru skrifaðir.
Morgundagurinn er tileinkaður Astrid Lindgren og eiga allir krakkarnir að mæta klædd sem einhver af sögupersónum hennar. (Diljá missir af því á leikskólanum). Sesselja á að syngja dúett með Ellen, bekkjarsystur sinni. Ellen á að leika Maddit og Sesselja á að leika litlu systur hennar. Já, það er stundum gott að vera lítill. Á fimmtudaginn er hún síðan að fara að syngja á tónleikum með Fame-hópnum og ég vona að við Óli komumst bæði þangað til að horfa á hana.
Rebekku gengur líka vel eins og hennar er von og vísa. Hún valdi sér þýsku sem þriðja erlenda mál í haust (eða C språk eins og það er kallað hér) þar sem enska telst hennar fyrsta erlenda mál og sænska annað. Hún hefur þó aldrei fengið neina kennslu í sænsku sem erlendu tungumáli heldur verið í tímum sem heita SVEN, þar sem fram fer stuðningskennsla í ensku og sænsku. Krakkinn hefur auðvitað aldrei þurft stuðning í nokkrum sköpuðum hlut, og síst af öllu ensku! Og þegar maður er farinn að semja heilu ljóðabálkana á sænsku, finnst manni stuðningskennsla þar óþörf líka. Sem betur fer áttaði enskukennarinn hennar sig á þessu, tók hana úr SVEN og lagði til að hún færi í staðinn í þýsku sem annað erlenda tungumál (eða B språk). Þegar hún næði krökkunum í þeim hópi, gæti hún síðan hætt í þýsku C. Nú var hún í prófi í þýsku B um daginn, með krökkum sem búin að læra þýsku einu eða tveimur árum lengur en hún, og hún varð hæst á prófinu! Þetta er sko stelpan mín!
Nú er búið að opna jólamarkaðinn á aðalssetrinu Huseby sem við fórum á í fyrra. Vonandi verður Diljá búin að jafna sig um helgina því að þangað er alveg ómissandi að fara fyrir jólin. Kemur manni í sannkallað jólaskap! Þau koma víst áður en maður veit af, blessuð jólin!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.