18.2.2008 | 19:50
SPORTLOV OG AÐGERÐ
Jæja, þá er sportlov hafið í skólunum hér - frí í heila viku hjá stelpunum mínum! Reyndar kemur yngsta skottið til með að fara á leikskólann, það er bara svo gaman og svo þarf mamma að læra.
Í fyrramálið er frumburðurinn hins vegar að fara í smáaðgerð. Það þarf að fjarlægja tönn sem ekki fór sína réttu leið og liggur þvert fyrir ofan 2 aðrar og stefnir rótum þeirra í hættu. Þetta verður svæfing, svona 45 mínútur og síðan verður hún að liggja inni til eftirlits í a.m.k. 2 tíma eftir að hún vaknar. Ekki eins og þegar ég fór í hnéaðgerðirnar í Reykjavík og var hent út hálfsofandi um leið og ég gat opnað annað augað til hálfs! Ég var svo rugluð að Begga systir varð að hjálpa mér að klæða mig og styðja mig út í bíl. En kannski menn geri ekki svona við börn og unglinga þarna heima, bara smábarnamömmur!
Þessi aðgerð hjá Rebekku kemur í stað margra ára og hundruða þúsunda króna í tannréttingar (sjá færslu mína ,,Hvenær eru tannréttingar nauðsynlegar?" http://heidah.blog.is/blog/heidah/entry/238364 ). Auðvitað er hún svolítið kvíðin. Þetta er reyndar ekki fyrsta svæfingin hennar því að hún fór í aðgerð út af klofnum gómi þegar hún var 7 mánaða og svo í óteljandi röraaðgerðir á aldrinum 2ja til 6 ára. Ég týndi tölunni eftir u.þ.b. 15 skipti. En auðvitað finnst manni svona alltaf vera mikið mál, þó að maður sé alveg að verða fimmtán, svo að þið megið alveg senda henni hlýja strauma (og taugatrekktri mömmunni líka!)
Að öðru leyti er ekkert markvert að frétta. Það styttist auðvitað í Íslandsferð hjá Óla sem fer með hljómsveitinni sinni Street Cowboys að spila á Norðurljósablús á Hornafirði um mánaðamótin. Það hefði verið gaman að geta skroppið með en... Svo fékk ég skemmtilegan tölvupóst í dag - það er verið að skipuleggja 20 ára útskriftarafmæli frá Menntaskólanum við Sund (það getur ekki verið, þessar tölur standast engan veginn ???). Það væri gaman að mæta þar líka, en...
Lífið er blús...
Athugasemdir
Bestu kveðjur til dóttur þinnar. Þetta er nú ekkert lítið sem hún er að fara að takast á við. Hún á alla mína samúð
Guðrún Arna Möller (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 01:47
Halló öllsömul þetta verður ekkert mál hjá Rebekku og ég lofa að senda henni svo heita og sterka strauma að hún verður sokkalaus í viku á eftir. Bestu kveðjur úr Stórborginni
Gudrun Helgadottir (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 18:28
Vonandi gekk allt vel hjá Rebekku. Ég þarf nú að fara að setja mig í stellingar og hringja í þig í góðu tómi. En mikið væri gaman ef þú gætir komið heim á reunionið. Spurning hvort bumbubúinn minn láti bíða eftir sér í a.m.k. 6 daga svo ég geti líka verið með.
Bestu kveðjur í bæinn, Unnur og félagar.
Unnur (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 23:08
Takk fyrir góðar kveðjur og strauma! Jú, jú þetta gekk allt vel. Stelpan er auðvitað stokkbólgin en ekki þjáð. Nú gefum við okkur bara þann tíma sem þarf til að láta þetta jafna sig en það er ekki mjög æskilegt að horfa á myndir með Jim Carrey alveg strax og þverflautan fær líka nokkurra daga frí.
Aðalheiður Haraldsdóttir, 20.2.2008 kl. 12:01
Gott að allt gekk vel
En haha ég var líka einusinni hálfblind, skjögrandi á planinu fyrir utan læknamiðstöðina í Glæsibæ að rembast við að hringja í einhvern til að láta sækja mig eftir aðgerð. Þeir eru með grimma útkastara á þessum stöðum
Hulda Dagmar Magnúsdóttir, 23.2.2008 kl. 13:12
Já, auðvitað - svo að það er þar sem útkastararnir vinna á daginn
Aðalheiður Haraldsdóttir, 24.2.2008 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.