SITT AF HVORU TAGI...

Mér datt si svona í hug að henda inn smáfréttum af fjölskyldunni.  Ég sit hér ALEIN á föstudagskvöldi.  Óli sofnaður með Diljá - bæði alveg búin eftir vikuna.  Sesselja fór í partý og síðan á diskótek og Rebekka í messu.

Nei, nei - ég er ekkert að rugla - 10 ára skvísan úti að djamma og unglingurinn í kirkju!  Það er diskótek í skólanum hjá Sesselju og einn skólabróðir hennar bauð heim í upphitunarpartý - pizzur og allt.  Síðan á að sækja barnið upp í skóla klukkan 22:30 en ég býst við að messan hjá unglingnum klárist um svipað leyti.

ubk_sommar3Ég hef sagt frá því áður að Rebekka fer stundum í messu á föstudagskvöldum.  Það eru svona unglingasamkomur, rosalega flott tónlist og ýmislegt skemmtilegt í gangi.  Ég skutlaði henni og Jenný en þegar við komum að kirkjunni voru nánast öll ljós slökkt og ekkert lífsmark að sjá fyrir utan bílana og reiðhjólin sem stóðu fyrir utan.  Ég spurði hvort það væri ekki örugglega messa í kvöld?  ,,Júúúú, mammah - auðvitað!", svaraði pirraður unglingurinn.  ,,Það er bara svona þemakvöld"  Og hvert er þemað?  - Lost.  - LOST!!!  Á líka þessum síðustu og verstu.  Vona bara að unglingurinn verði found og skili sér aftur!

image1

Af Diljá er það helst að frétta að hún fór á sinn fyrsta íshokkýleik um daginn!  Jebb - og hélt það út!  Henni var boðið með vinkonu sinni af leikskólanum og pabba hennar.  Mamman var ekki heima en pabbinn gat nú ekki farið að missa af íshokkýleiknum fyrir það!  Svo að Tea fékk að bjóða Diljá með sér.  Fyrst var farið út að borða á McDonalds og svo var haldið í skautahöllina.  Þetta var á föstudagskvöldi og það var dálítið skrýtið að vera heima og bíða eftir að 4 ára barnið kæmi heim!  Klukkan hálftíu um kvöldið kom hún svo heim - alsæl!  Það var sko rosalega gaman.  Þeir voru á skautum sko, og við sögðum ,,Heja, Lakers" og þeir unnu og hinir töpuðu!  Og svo fengum við líka nammi!  Það er alveg öruggt að þessi upplifun líður henni seint úr minni.

Óli er að safna kröftum fyrir spilamennsku annað kvöld og nótt.  Strætiskúrekarnir verða að spila dálítinn spöl í burtu svo að hann kemur seint heim.  Mín bíður hins vegar hin klassíska helgartiltekt - alltaf jafn skemmtileg.  Á sunnudaginn ætlum við að skreppa til Målilla.  Það er orðið allt of langt síðan við fórum síðast svo það verður gott að kíkja þangað.

Hafið það sem allra best, elskurnar mínar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband