ÁSTARÞAKKIR FYRIR GLAÐNINGINN!

Elsku Dóra, Ragga, Birna, Búddi, Jónína og Inda - makar og börn - ÁSTARÞAKKIR fyrir þessa veglegu afmælisgjöf! InLoveInLoveInLove

Nú á ég eftir að fara í bæinn og láta ýmsa drauma rætast!

Kortið frá henni Birnu er auðvitað algjört listaverk, eins og allt sem hún gerir.  Ég ætla sko að ramma það inn og hengja upp á vegg hjá mynd af ykkur systkinum mínum! Þið eruð best!

Og mikið sé ég hana Röggu systur í anda að skemmta sér við að pakka harðfiski, Royal búðingi og nammi inn í ótal marga pakka.  Diljá var voða dugleg að hjálpa mömmu sinni að opna þá alla!

Ástar- og saknaðarkveðjur til ykkar allra!  Vonandi komið þið ÖLL í heimsókn næsta sumar!


MÚTTAN OG UNGLINGURINN MÆTTAR Á SVÆÐIÐ!

Mútta er mætt á svæðið í allri sinni dýrð!InLoveGrin  Við erum búin að hlakka mikið til að fá hana í heimsókn enda skemmtilegri manneskja vandfundin!  Og svo endurheimtum við unglinginn um leið sem lóðsaði ömmu sína yfir hafið.  Hún er alsæl eftir vistina á Íslandi í sumar, fannst gaman í vinnunni og auðvitað frábært að hitta alla vinina aftur!  En mikið fannst okkur gott að fá hana aftur heim!InLove  Elsku Ragna, Heiðar, Anna, Elín og Nói - við þökkum kærlega fyrir vistina!  Það er nú ekki hægt að eiga betri fósturfjölskyldu!

Múttan og unglingurinn komu með íslenskt nammi, harðfisk og Royal-búðing, svo að fátt eitt sé nefnt svo að það var mikil veisla.

Annars er ég bara búin að vera að vinna út í eitt, var að vinna í dag (laugardag) og fæ þá 4 tíma frí í staðinn næsta föstudag.  Þá verða Bragi, Valdís og börn mætt á svæðið svo að það verður gott að geta nýtt sér fríið með þeim.  Stelpurnar eru alveg að fara á límingunum af tilhlökkun og ég veit að það verða miklir fagnaðarfundir.  Það spáir steikjandi hita og sól dagana sem þau verða hér og ég vona að það gangi eftir.

Hér er bæjarhátíð Växjöbúa í fullum gangi.  Búið að vera tívolí í bænum alla helgina, tónleikar með sænskum stórstjörnum og alls kyns uppákomur. Sesselja og Diljá voru að syngja í SingStar í bænum í morgun og stóðu sig mjög vel.  Þær misstu reyndar af SingStar keppninni sem var í gær en miðað við úrslitin hefði Sesselja rúllað þeirri keppni upp.  Sesselja er með vinkonu sinni í bænum einmitt núna að hlusta á barnastjörnuna Amy Diamond og Óli og félagar í Streetcowboys eru að fara að spila á kaffihúsi í kvöld.

Svo nú er bara að njóta þess að hafa ættingjana í heimsókn!


ÍSLAND ER EKKI LAND SEM MAÐUR HEIMSÆKIR AFTUR!

Þetta voru lokaorð greinar sem ég las í sænsku ferðariti sem dreift er á allar ferðaskrifstofur í Svíþjóð!  Höfundur greinarinnar ferðaðist um Ísland í 12 daga og var mjög ánægður með ferðina.  Ótrúlega fagurt og síbreytilegt landslag, jöklaferð, hestaferð og gönguferðir, næturlífið í Reykjavík og veitingastaðir á heimsklassa.  Alveg frábært!  En verðið, maður minn!  Verðið er ástæða þess að maður kemur ekki aftur þegar maður telur sig hafa séð allt það markverðasta, segir höfundurinn.

Ísland

Það var önnur grein um Ísland í sama riti þar sem einnig fjallað var á jákvæðan hátt um allt nema verðlagið.  Og maður er að hitta Svía sem hafa farið til Íslands og smám saman fer maður að skilja hvernig þeir upplifa landið okkar sem okkur finnst svo frábært.  "Best í heimi" - og allt það.

Það langar nefnilega alla sem maður hittir hér að fara til Íslands en hafa heyrt að það sé svo rosalega dýrt.  Sumir láta sig þó hafa það og koma til baka heillaðir af náttúrunni, í sjokki yfir verðlaginu (og segja auðvitað öllum frá) og í þriðja lagi þá er ekkert við að vera!  Kona sem ég þekki sem fór á ráðstefnu á Egilsstöðum í október fyrir fáeinum árum síðan var ekki ánægð.  Fólkið var indælt en það var nákvæmlega ENGIN afþreying í boði! Það var nístandi kuldi úti og hífandi rok og ekkert hægt að gera nema hanga á hótelinu. 

 Íslenskt lambakjöt - best í heimiSvo kom maturinn.  Íslensk lambakjöt - best í heimi!  ,,En ég borða ekki lambakjöt", sagði hún ,,get ég ekki fengið eitthvað annað í staðinn?"  ,,Nei, nei þetta er besta lambakjöt í heimi!" var auðvitað svarið.  Þessi kona fór ekki ánægð heim - hún starfar í ferðabransanum og hún mælir ekki með ferðum til Íslands að fyrra bragði.

 

 

portaventura2_240x340

 

Í fyrrasumar sat ég og borðaði pizzu á Hótel Höfn.  Þar voru hótelgestir, amerísk hjón á ferð um Ísland með tvo krakka á aldrinum 11-14 ára og ég hugsaði með mér:  ,,Aumingja krakkarnir, mikið hlýtur þeim að leiðast."  Hvaða afþreying er í boði fyrir fjölskyldur á ferð um landið?  Jú, að fara í sund, á hestbak kannski, ........... Fyrirgefið, en mér dettur bara ekkert annað í hug.  Það er ekki nóg að horfa bara endalaust á fjöllin og jöklana og segja ,,váááááá" þegar maður er 13 ára.  Hvað viljið ÞIÐ gera þegar þið farið í frí - ég tala nú ekki um með börnin?  Það verður að vera einhver afþreying í boði.  Eitthvað sem setur ólíkum tungumálum engar skorður.  Hvað dettur ykkur í hug?  Hvað með Latabæjarskemmti- og heilsugarð?  Ég meina Svíar eiga Astrid Lindgren skemmtigarð og Finnar Múmínálfaskemmtigarð.  Það vita allir hér hvað Lazytown er en hins vegar veit enginn að Spartacus og félagar koma frá Íslandi.

Ég veit að ferðamannastraumurinn til Íslands eykst ár frá ári.  En hversu stórt hlutfall af þeim sem koma eru að koma í annað eða þriðja sinn?  Ef við ætlum að auka enn meira tekjur af ferðamannaiðnaði verðum við þá ekki að fara að horfa á okkur sjálf með gagnrýnum augum í staðinn fyrir að  segjast bara alltaf vera best og fallegust, benda á Gullfoss og Geysi og halda að það dugi!

71028-largeÉg horfði á ævintýramyndina Stardust fyrir nokkrum vikum síðan.  Frábær ævintýramynd sem skartar ekki minni stjörnum en Robert de Niro og Michelle Pfeiffer.  Allt í einu blasti við kunnuglegt íslenskt landslag á skjánum - það fór ekkert á milli mála.  Að lokinni myndinni horfði ég á viðtal við leikstjórann sem lýsti fjálglega aðdáun sinni á Íslandi.  Hann sagðist helst hafa viljað taka alla myndina á Íslandi, landslagið væri svo stórkostlegt og birtan ólýsanleg.  En það gekk ekki vegna þess að það var mikið notað af hestum í myndinni.  Litlu fallegu hestarnir okkar pössuðu ekki í hlutverkið og það mátti ekki flytja inn hesta til að nota í myndinni svo að það gekk ekki að taka myndina á Íslandinu góða.

Hvernig væri nú að gleyma því að byggja olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og byggja bara eitt stykki kvikmyndaver í staðinn til afnota fyrir Hollywood liðið?  Það eru hvort eð er allir á Íslandi á einkaþotum og þyrlum í dag svo að við sæjum engan mun á flugumferðinni.  Byggja svo lúxushótel fyrir liðið og höfn fyrir snekkjurnar, hugsið ykkur bara öll störfin sem sköpuðust við það!  Mennta fólk í almannatengslum og smjaðri til að þjóna stjörnunum og í tengslum við þetta væri svo hægt að byggja skemmtigarð, þið vitið svona eins og í Hollywood.  Erum við ekki alltaf að bera okkur saman við Ameríku hvort eð er?  Ég meina - það er margt vitlausara!

 


AÐ GLEÐJA AÐRA

Það er alltaf gott að gleðja aðra.  Séffinn minn hlær stundum að mér þessa dagana.  Sænskuskilningur minn er nefnilega ekki alltaf fullkominn og stundum kemur upp skemmtilegur misskilningur.

Eins og í gær þegar Peter frá Skáni hringdi.  Skánska er alveg hræðileg mállýska og óskiljanleg fyrir þá sem ekki þekkja til.  Það er meira að segja til skánsk-sænsk orðabók.  Mér tekst nú alveg bærilega að skilja skánskuna í dag - svona oftast.

Hann Peter bað mig nefnilega fyrir skilaboð til yfirmannsins.  "Segðu honum að bóka fyrir mig miðann til &%$#&%$#.  "Förlåt??", sagði ég.  "Miðann til &%$#&%$#", endurtók hann.  "Aha", sagði ég og þóttist alveg skilja.  Hafði heyrt nafnið áður og var alveg viss um að það væri einhvers staðar í Afríku.  Svo ég skrifaði skilaboð til yfirmannsins.  "Peter biður þig um að bóka fyrir sig miðann til Kinshasa."

Stuttu seinna kom séffinn hann Christer skellihlæjandi til mín.  "Talaði Pétur mikla skánsku?", spurði hann.  "Vantaði kannski mikið af r-um?"  "Ha?", sagði ég og skildi ekkert um hvað maðurinn var að tala.  "Nei, hann ætlaði nefnilega að fá flugmiða til KRISTIANSTAD í Svíþjóð!"LoLLoLLoLLoL

Hugsið ykkur bara hvað það var gott að það var ekki ég sem bókaði miðann!Crying

Hér getið þið heyrt sýnishorn af skánsku:  http://swedia.ling.gu.se/Gotaland/Skane/Ossjo/om.html


SKÓGARFERÐ

Við ákváðum í morgun að fara út í skóg og tína bláber.  Stelpurnar eru búnar að fara með leikskólanum og skólagæslunni svo að þær vissu hvert ætti að fara.  Og það þurfti ekki að leita langt yfir skammt!  Bara svona 100 metra frá blokkinni okkar, í skóginum hérna á bak við, fundum við fullt af bláberjum.  Og nú erum við að fara að gæða okkur á gómsætum bláberjamuffins og kannski maður búi svo bara til bláberjapæ úr restinni!

BLÁBERJAMUFFINS:

Bræðið 50 g af smjörlíki og látið kólna.  Þeytið saman 1,5 dl sykur og 2 egg.  Bætið 2,5 dl hveiti og 2 tsk lyftidufti varlega saman við.  Hrærið síðan bráðnu smjörlíkinu saman við ásamt 0,5 dl af mjólk.  Setjið í muffinsform (15-20 stk) og síðan er 1 dl af bláberjum settur ofan á.  Bakið við 225°C í 10 mínútur.

BLÁBERJAPÆ:

Smyrjið eldfast form.  Dreifið fyllingunni yfir botninn og stráið sykri yfir. 

Fylling: 2-3 epli í þunnum sneiðum EÐA 150-200 g rabarbari í litlum bitum EÐA 150-200 g ber (bláber, jarðarber, hindber).

Deig: Setjið 1 1/4 dl hveiti, 2 tsk sykur og 50 g smjörlíki í skál og blandið því létt saman með fingrunum.  Stráið deiginu yfir fyllinguna og bakið í miðjum ofni við 225°C þar til fyllingin er mjúk og deigið ljósbrúnt.

Berið fram með ís, rjóma eða vanillusósu.

Bon appetit!!


ABBA-SAFNIÐ

abba-the-museum

Bara láta ykkur vita hvað stendur til.  ÉG ætla sko að vera í Stokkhólmi þessa helgi, það er alveg á hreinu, og vil bara fá að vita hverjir ætla að koma með mér Wizard.  Ég er nú þegar búin að segja henni Berthu að hún megi alls ekki gifta sig þessa helgi og Jónína, þú mætir alveg pottþétt, er það ekki?  Ég tek sko ekki annað í mál.  Og við sýnum dansinn sem við sömdum þarna um árið - var það ekki "Dancing Queen"?  Þetta verður nefnilega gagnvirkt safn á 6500 fermetrum og fjórum hæðum.  Þarna getum við m.a. séð búningana þeirra, fengið að syngja inn ABBA-lög í stúdíói, gera ABBA-myndbönd (við Jónína systir í gamla fílingnum- ekki spurning LoL), hlusta á lifandi tónlist og hitta fólkið sem starfaði með ABBA.  Kíkið á www.abbamuseum.com

Sjáumst 4. júní 2009! WinkWinkWinkWink


FERTUG OG FÆR!

Jæja, ég lifði það af að verða fertug og verð að segja að mér hefur sjaldan eða aldrei liðið betur. Grin Eitthvað annað en fyrir 10 árum síðan þegar ég gat ekki sagt aldur minn upphátt í heila viku á eftir!  Neibb - það er bara flott að vera fertug og ég vil taka það fram að bloggleysi mitt upp á síðkastið hefur ekkert að gera með hækkandi aldur minn, heldur heilsuleysi tölvunnar minnar.Frown

Afmælisdagurinn leið með ró og spekt.  Hér var vöfflukaffi fyrir fjölskylduna og afmæliskaka í boði ICA (hið sænska "Hagkaup" sendi mér semsagt gjafakort upp á rjómatertu í tilefni dagsins - ekki slæmt!)

Ég vil þakka öllum þeim sem hringdu og glöddu mig á þessum merkisdegi Smile (voða formleg sko - orðin fertug!)

Annars er það helst að frétta að snillingurinn minn, frumburðurinn sem um þessar mundir vinnur á kassa í Nettó á Hornafirði, tók þátt í ljóðasamkeppni á netinu og komst í úrslit!  Stelpan lét foreldra sína auðvitað ekkert vita frekar en fyrri daginn og hefðum við sjálfsagt ekkert frétt af þessu nema af því að það barst bréf um þetta eftir að hún var komin til Íslands.  Ljóðið hennar er á ensku, alveg rosalega flott, og verður gefið út í ljóðabók í henni stóru Ameríku!  Ekki amalegt af 15 ára stelpu frá Hornafirði! Grin

Hinar stelpurnar mínar bíða eftir að komast í sumarfrí með pabba sínum eftir 9 daga!  Sjálf verð ég að vinna í allt sumar við það að hjálpa öðrum að komast í frí til útlanda.  Mér líkar rosalega vel í vinnunni en það er ótrúlega margt að læra.  Og svo reynir maður auðvitað að láta kúnnana ekki fatta hvað maður veit lítið.  Því að fólk ætlast virkilega til þess að maður viti allt um allt!  Eins og t.d. í gær þegar unga parið spurði mig hvernig veðrið væri í Oman um þessar mundir.  "Oman -OMAN!!  Hvar í fj.... er eiginlega Oman?? FootinMouth", hugsaði ég.  Og svo bættu þau við:  "Hvort er það í Asíu eða Afríku?" á meðan ég var enn að reyna að gúggla Oman svo lítið bæri á með bros á vör.

Jæja, elskurnar mínar.  Ég vona að þið eigið gott og blítt sumar!

Læt fylgja hér með kort af Oman sem Nota bene er í Mið-Austurlöndum!

oman


HÆ, HÓ, JIBBÍJEI...!!!

alfheidur-akranesi-fani-einn-480Gleðilega hátíð kæru landar!  Vonandi hefur dagurinn verið bjartur og fagur.  Ég held að 17. júní rigningin hafi lent hér hjá okkur og var hún kærkomin eftir mikla þurrka og skógarelda.  Annars var bara venjulegur þriðjudagur hér nema hvað við höfðum aðeins hátíðlegri mat en venjulega, með brúnuðum og alles.  Vantaði bara malt og appelsín til að fullkomna stemninguna.

Nú er komið að því að senda frumburðinn í sumarfrí til Íslands um næstu helgi og þá erum við að spá í að taka 2 daga í Köben og kíkja á 17. júní hátíðarhöldin þar á laugardeginum.  Kannski maður fái eina SS með öllu og íslenskt nammi! Kissing

Túrílú!


SÆNSKT SUMAR!

Þetta syngja allir um gjörvalla Svíþjóð á sumrin, jafnt börn, fullorðnir og gamalmenni, það er sungið á torgum, í kirkjum, á leikskólum og við skólaslit sem og í garðinum heima.  Það er ekkert sumarlegra hér en söngurinn hennar Ídu og sænsk jarðarber!  Textinn er svo hér fyrir neðan svo að þið getið líka sungið með Smile

Idas sommarvisa

Text: Astrid Lindgren

Musik: Georg Riedel

1.

Du ska inte tro det blir sommar

ifall inte nå´n sätter fart

på sommarn och gör lite somrigt,

då kommer blommorna snart.

Jag gör så att blommorna blommar,

jag gör hela kohagen grön,

och nu så har sommaren kommit

för jag har just tagit bort snön.

2.

Jag gör mycket vatten i bäcken

så där så det hoppar och far.

Jag gör fullt med svalor som flyger

och myggor som svalorna tar.

Jag gör löven nya på träden

och små fågelbon här och där.

Jag gör himlen vacker om kvällen

för jag gör den alldeles skär.

3.

Och smultron det gör jag åt barna

för det tycker jag dom ska få

och andra små roliga saker

som passar när barna är små.

Och jag gör så roliga ställen

där barna kan springa omkring,

då blir barna fulla med sommar

och bena blir fulla med spring.


ÉG ER KOMIN MEÐ VINNU!!!!!

Sem ég stóð fyrir utan ferðaskrifstofuna Resia strax eftir lokun á fimmtudaginn og var að fara að leggja af stað heim, hringdi Christer á ferðaskrifstofunni Big Travel í gemsann minn.  Ég hafði verið í starfsviðtali hjá honum viku áður og hann vildi bara láta mig vita að ég hefði verið valin í djobbið og byrja að vinna í næstu viku! GrinGrinGrin

Ykkur finnst þetta kannski ekki vera stórtíðindi en nú skal ég útskýra málið fyrir ykkur:  Þann 21. júní n.k. eru liðin nákvæmlega 2 ár síðan ég flutti til Svíþjóðar og varð atvinnulaus.  Ég hafði ekki hugmynd um að það væri jafn erfitt að fá vinnu hér eins og raun ber vitni.  Ég hef ekki lengur tölu á því hversu mörg störf ég hef sótt um:  afgreiðslustörf af ýmsum toga, lagerstörf, ræstingastörf, bókhaldsstörf, bankastörf, skrifstofustörf, útkeyrslustörf, ég hef sótt um við að lesa af rafmagnsmælum og nú síðast sem stöðumælavörður en ekkert gerðist og það að vera íslenskufræðingur hjálpaði ekkert upp á.  Næst á dagskrá var að sækja um sem jarðarberjasölukona!

Í október sl. fann ég fyrir algjöra tilviljun á netinu upplýsingar um fjarnám í ferðaskrifstofufræðum, ca. 6 mánaða alþjóðlegt nám sem gerð er krafa um á öllum ferðaskrifstofum í dag en fæstir hafa.  Það stóð líka að 70% þeirra sem lykju námi væru komnir með starf áður en þeir lykju sinni 10 vikna starfsþjálfun.  Ég sló til og með stuðningi og dugnaði Óla míns og stelpnanna minna kláraði ég dæmið og nú, þegar vika er eftir af starfsþjálfuninni, er ég komin með vinnu!

Ég hef aldrei verið glaðari yfir því að fá vinnu því að nú hef ég reynt á eigin skinni að það er ekki sjálfsagður hlutur!  Ég ætla ekki að fara út í það hvaða áhrif langtímaatvinnuleysi hefur á mann en biðja ykkur að muna að vera þakklát fyrir að hafa vinnu að fara til! Grin

Nýja vinnan mín er í miðbænum, beint á móti stórtorginu, rétt hjá þar sem ég var í starfsþjálfun svo að ég held bara áfram að hjóla!

Weekendresor & Weekendpaket Europa


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband